by Þorkell Helgason | maí 12, 2016 | Á eigin vefsíðu
[Eftirfarandi grein birtist í Fréttablaðinu 12. maí 2016 svo og á visir.is undir heitinu „Bessastaðir og Mansion House“; sjá http://www.visir.is/bessastadir-og-mansion-house/article/2016160519728. Hér er hún birt lítillega breytt, einkum í ljósi þess að mér var bent á að borgarstjórinn umræddi byggi ekki í Mansion House! ]
Hvað er sameiginlegt með þessu tvennu? Það eitt að kosið er almennum kosningum til ábúðar á Bessastöðum og til forsætis Lundúnaborgar. En það er þó gjörólíkt hvernig menn komast til valda á þessum tveimur stöðum. Framundan er að velja næsta bónda á Bessastöðum. Það verður gert með svokallaðri meirihlutakosningu. Sá vinnur sem flest fær atkvæðin, óháð því hvort hann nær meirihluta atkvæða eða ekki. Nú kunna allmargir að takast á um forsetaembættið. Þá er undir hælinn lagt hver stuðningurinn verður við vinningshafann. Borgarstjórinn í London er á hinn bóginn kjörinn á þann hátt að meiri líkur eru á því en minni að hann njóti stuðnings meirihlutans. Lítum nánar á kosninguna sem fram fór í London 5. maí sl.
Kjósandi í London merkir við þann frambjóðanda sem hann helstan kýs, allt eins og hér. En að auki býðst honum að merkja við annan til vara. Uppgjörið fer þannig fram að fyrst eru talin saman atkvæði í aðalvali kjósenda. Nái þá einhver meirihlutafylgi er hann rétt kjörinn borgarstjóri. Ef ekki er einblínt á þá tvo sem fengu flest atkvæði að aðalvali. Atkvæði anarra frambjóðenda eru færð til annars þessara efstu frambjóðenda í samræmi við varaval hvers þessara kjósanda. Að því loknu er sá valinn sem hefur flest atkvæði, sín upphaflegu að viðbættum þeim færðu. Hvernig voru úrslitin fengin í London?
Tólf buðu sig fram í borgarstjóraembættið. Þeir sem flest atkvæði hlutu í aðalvali kjósenda voru frambjóðendur Verkamannaflokksins annars vegar og Íhaldsmanna hins vegar, þeir Sadiq Khan og Zac Goldsmith. Fylgi þeirra tveggja kemur fram í tveimur fyrstu talnadálkunum í meðfylgjandi töflu.
Af töflunni sést að enginn frambjóðandi hlaut hreinan meirihluta atkvæða í aðalvali kjósenda. Ef þetta væru forsetakosningar á Íslandi væri hér með amen eftir efninu og Khan kjörinn út á 44% fylgi. Atkvæði þeirra tæplega 21% kjósenda, sem völdu einhvern hinna tíu – en þeir eru spyrtir saman í töflunni – myndu detta niður dauð og ómerk. Þau réðu engu um það hvort Khan eða Goldsmith yrði að lokum valinn. Þó er ljóst að þau ættu að geta ráðið úrslitum.
Í London er því ekki látið staðar numið heldur rýnt í varaval kjósenda þeirra frambjóðenda sem reka lestina og atkvæðin færð til í samræmi við vilja kjósenda. Lokaniðurstaðan er sýnd í fjórða talnadálki töflunnar.
Atkvæði og tilfærslur |
Atkvæði í aðalvali |
Hlutföll af gildum atkvæðum
|
Færð atkvæði |
Atkvæði að loknum tilfærslum |
Hlutföll af gildum atkvæðum |
Sadiq Khan |
1.148.716
|
44,2% |
161.427 |
1.310.143 |
50,4%
|
Zac Goldsmith |
909.755
|
35,0% |
84.859 |
994.614 |
38,3%
|
Hinir tíu frambjóðendurnir |
538.490
|
20,7%
|
|
|
|
Ófæranleg atkvæði |
|
|
|
292.204 |
11,3%
|
Gild atkvæði alls |
2.596.961
|
100,0% |
246.286 |
2.596.961 |
100,0%
|
Að loknum tilfærslum atkvæða í varavali sést að Khan nær hreinum meirihluta gildra atkvæða, þótt naumur sé eða 50,4%. Úr lokadálki töflunnar má lesa að einungis 11,3% kjósenda hafa engin áhrif á það hvor þeirra efstu náði kjöri. Án varavalsins væru þessir áhrifalausu nær helmingi fleiri eða 20,7%. Ástæður þess, að tiltölulega mörg atkvæði – eða 246.286 – fara forgörðum þrátt fyrir varavalið, eru einkum tvær. Annars vegar sú að kjósendur hirtu ekki um að velja varamann en hins vegar vegna þess að tiltölulega margir völdu sama frambjóðanda sem aðal- og varamann og gerðu þar með varaval sitt marklaust. Hjá þessu síðarnefnda hefði mátt komast með betri útfærslu kjörseðilsins en það er önnur saga.
Aðferðafræðin í þessum bresku borgarstjórakosningum er vel þekkt. Svipuð aðferð hefur verið notuð í nær heila öld á Írlandi, m.a. við forsetakjör, og hún var notuð í kosningunum til Stjórnlagaþingsins sáluga 2010 og henni mun verða beitt við kjör á formanni Samfylkingarinnar nú á næstunni. Kosningin á borgarstjóranum í London og kosningin til Stjórnlagaþingsins eiga fleira sameiginlegt, m.a. að í báðum var talið rafrænt. En munurinn er sá að Hæstiréttur leyfði sér að úrskurða íslensku kosninguna ólöglega.
Stjórnlagaráð lagði til margvíslegar umbætur á fyrirkomulagi forsetakosninga, svo sem um fjölgun meðmælenda svo og að kjósendur gætu forgangsraðað frambjóðendum svipað og í þessari bresku kosningu. En allt hefur þetta dagað uppi. Því sitjum við líka uppi með það að forseti lýðveldisins getur veitt „…undanþágur frá lögum samkvæmt reglum, sem farið hefur verið eftir hingað til“; eins og segir í hinum gildandi grundvallarlögum okkar, bráðabirgðastjórnarskránni frá 1944.
Er ekki tími til kominn að fólk kynni sér stjórnarskrármálið?
by Þorkell Helgason | apr 6, 2016 | Á eigin vefsíðu
[Pitill þessi birtist í Fréttablaðinu 6. apríl 2016]
Greinarhöfundur fjallaði hér í Fréttablaðinu 2. apríl sl. um innihaldið í frumvarpsdrögum stjórnarskrárnefndar sem kynnt hafa verið. (Því miður hefur uppsetningin brenglast lítillega í blaðinu en rétt upp setta má finna greinina á vefsíðunni visir.is;http://www.visir.is/hvad-sagdi-stjornlagarad-um-tillogur-stjornarskrarnefndar-/article/2016160409845.)
Nú verður haldið áfram og hugað að framvindu málsins.
Staðan nú
Nú, nær fimm árum eftir að stjórnlagaráð lagði fram heildardrög að nýrri stjórnarskrá, búum við enn við þá gömlu, óbreytta. Við, sem viljum nýja stjórnarskrá byggða á þeim grundvelli sem stjórnlagaráð lagði, verðum að spyrja okkur hvort við teljum tillögur stjórnarskrárnefndar spor í rétta átt, áfangasigur, sem beri að fagna, eða leiðarenda málsins og um leið blindgötu. Hvort tillögurnar séu viðunandi áfangi fer að talsverðu leyti eftir því hvernig nefndin tekur á þeim ábendingum um lagfæringar sem hún hefur fengið.
Verði niðurstaðan sú að endanlegar tillögur nefndarinnar séu kráka í hendi ber þá ekki að fagna því og þiggja? Hinar krákurnar tvær í skógi ættu að geta náðst síðar. Ef ekki, er þá ekki þessi eina í hendi skárri en engin? Látum svörin bíða þess sem fram vindur.
Hvað svo?
En jafnvel þótt stjórnarskrárnefndin nýja skili af sér viðunandi tillögum, er kálið ekki sopið þó að í ausuna sé komið. Við tekur umfjöllun á Alþingi og atkvæðagreiðsla þar. Frumvörp stjórnarskrárnefndar verða að fá stuðning 2/3 hluta greiddra atkvæði á þinginu, atkvæði 42 þingmanna, ef hinir 21 eru allir á móti. Það eitt kallar á stuðning minnst þriggja þingflokka. Þingmenn kunna að vera andvígir umræddum stjórnarskrárbreytingum, bæði þeir sem vilja sem minnstu breyta svo og hinir sem telja of skammt gengið. Að málinu yrði því sótt úr tveimur áttum.
Hljóti frumvörpin, eitt, tvö eða öll þrjú, tilskilin stuðning á þingi fer málið í þjóðaratkvæðagreiðslu, en þar eru líka settar skorður. Ekki nægir að meiri hluti þeirra, sem þátt taka, ákveði endanlega um afdrif breytingarfrumvarpanna heldur verða 40% kjósenda á kjörskrá að styðja hvert frumvarpanna til að það teljist samþykkt. Þetta er strangt skilyrði. Jafnvel þótt kosningaþátttaka yrði þokkaleg, segjum 60%, þurfa 2/3 þeirra sem þátt taka að vera fylgjandi breytingunni. Rúmur þriðjungur nær á hinn bóginn að fella málið. Eins og á þingi kynnu þá andstæðingar að sameinast gegn breytingunum.
Til þess að slíkar stjórnarskrárbreytingar nái fram að ganga, þarf því að virkja stóran hluta kjósenda til þátttöku og megnið af þeim verður að sannfærast um ágæti frumvarpanna.
Hvenær?
Af þessu sést að brýnt er að undirbúa hugsanlega þjóðaratkvæðagreiðslu vel, hafa góða kynningu – með og móti – og síðast en ekki síst að velja réttan tíma. Að mínu mati væri, úr því sem komið er, æskilegast að hafa atkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar samhliða næstu þingkosningum. Samkvæmt ákvæðum stjórnarskrár og kosningalaga verða þingkosningar að fara fram í síðasta lagi 29. apríl 2017. Bráðabirgðaákvæðið um verklagið við stjórnarskrárbreytingu, sem til stendur að nýta, fellur úr gildi degi síðar, eða 30. apríl 2017. Þannig væri enn borð fyrir báru.
Nú kann að vera sagt að óheppilegt sé að tengja saman þjóðaratkvæðagreiðslu og þingkosningar. Forseti lýðveldisins hefur tekið svo stórt upp í sig að segja það „jafnvel andlýðræðislegt í eðli sínu“ að þjóðaratkvæðagreiðsla blandaðist komandi forsetakosningum. Ekki verður tekið undir þá skoðun auk þess sem hér er ólíku saman að jafna. Það er einmitt tilvalið að spyrða saman þingkosningar og stjórnarskrármál. Stjórnarskráin mun þá verða einna efst á baugi í aðdraganda þingkosninganna. Þjóðinni gefst þannig tækifæri til að hafa samræmi í gerðum sínum, að taka afstöðu til stjórnarskrárbreytinga og kjósa jafnframt þá á þing sem vilja fylgja eftir frekari stjórnarskrárbreytingum – jafnvel á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs. Hinir sem vilja sem fæstu breyta kjósa þá kyrrstöðuflokka.
Þessi þráður verður ekki spunninn lengra að sinni. Nú er þess að bíða að stjórnarskrárnefnd skili af sér – og þá vonandi bættum tillögum.
Þorkell Helgason, áhugamaður um bætta stjórnarskrá og sat í stjórnlagaráði
by Þorkell Helgason | apr 3, 2016 | Á eigin vefsíðu
[Pistill þessi birtist í Fréttablaðinu, 2. apríl 2016. Uppsetningin er þar lítilega brengluð, en hér rétt.]
Stjórnarskrárnefnd sú er skipuð var 2013 hefur lagt fram drög að frumvörpum um breytingar á þremur meginþáttum núgildandi stjórnarskrár; nánar tiltekið um þjóðaratkvæðagreiðslur, umhverfisvernd og náttúruauðlindir.
Stjórnlagaráð sem starfaði sumarið 2011 fjallaði um öll þessi atriði og tók á þeim í frumvarpsdrögum sínum. Ítarlegan samanburð á tillögum nefndarinnar og ráðsins er að finna á vefsíðunni https://thorkellhelgason.is/?p=2395. Um margt gengur stjórnarskrárnefnd skemur en stjórnlagaráð.
Nefndin og ráðið
Undirritaður hnýtur einkum um eftirfarandi atriði þar sem stjórnlagaráð og stjórnarskrárnefnd greinir á:
- Stjórnlagaráð lagði til að 10% kosningabærra manna gæti kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu til að hnekkja nýsamþykktum lögum frá Alþingi. Í tillögum stjórnarkrárnefndar er þetta hlutfall hækkað í 15%.
- Stjórnlagaráð gekk út frá því að meirihluti þeirra sem taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni ráði örlögum laganna, staðfestingu þeirra eða höfnun. Stjórnarskrárnefnd gerir þeim sem vilja hafna lögunum erfiðara fyrir. Auk þess að skipa hreinan meirihluta verði þeir að samsvara a.m.k. fjórðungi kosningabærra manna.
- Stjórnarskrárnefndin leggur til þetta um greiðslu fyrir nýtingu á auðlindum í þjóðareigu, svo sem fyrir aflaheimildir: „Að jafnaði skal taka eðlilegt gjald fyrir heimildir til nýtingar auðlinda sem eru í eigu íslenska ríkisins eða þjóðareign.“ Stjórnlagaráð vildi kveða skýrt að orði og tala um „fullt gjald“ í þessu sambandi.
Stjórnarskrárnefnd hefur fengið dágóðan fjölda athugasemda, m.a. frá undirrituðum (sjá https://thorkellhelgason.is/?p=2417) og eru þar nokkrar ábendingar um breytingar sem kynnu að brúa bilið milli tillagna stjórnarskrárnefndar og stjórnlagaráðs. Minnt skal á að í þjóðaratkvæðagreiðslunni í október 2012 voru 2/3 þeirra kjósenda, sem afstöðu tóku, því hlynntir að tillögur stjórnlagaráðs yrðu lagðar til grundvallar að nýrri stjórnarskrá.
Afnotagjöld að jafnaði
Hér verður staldrað við síðasta punktinn hér að framan; þann sem snýr að gjaldtöku fyrir auðlindaafnot.
Í 72. gr. gildandi stjórnarskrár er kveðið á um friðhelgi eignarréttarins. Þar segir: „Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.“ Stjórnlagaráð hélt þessu ákvæði um eignarréttinn óbreyttu en taldi jafnframt að sama grundvallaratriði ætti að gilda um þjóðareignir. Því er freistandi að samræma í hina áttina og færa orðalag stjórnarskrárnefndar um eignarrétt þjóðarinnar yfir á hinn almenna eignarrétt. Þá yrði þetta sagt um eignarnámsbætur: „Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi að jafnaði eðlilegt verð fyrir.“ Varla þætti þetta góð latína. Er hún eitthvað betri þegar hún er látin taka til þjóðareigna?
Heildarendurskoðunar er þörf
Í núgildandi stjórnarskrá vantar ekki aðeins öll þau þrjú atriði, sem stjórnarskrárnefnd tekur nú til umfjöllunar, heldur og margt annað. Auk þess eru í stjórnarskránni andlýðræðisleg ákvæði eins og ójafnt vægi atkvæða. Og ekki má gleyma því að gildandi ákvæði um kjör forseta Íslands er með öllu ótækt. Viðbúið er að næsti forseti verði kjörinn með atkvæðum lítils hluta kjósenda. Kveða verður á um fyrirkomulag sem tryggir að forsetinn njóti stuðnings meirihluta kjósenda. Á því tókum við í stjórnlagaráði, en það sem annað hefur dagað uppi.
Bútasaumur á plagginu frá 1944, sem er grundvallað á konungsgjöf frá næst síðustu öld dugar því skammt. Núgildandi stjórnarskrá er full af hortittum og innra ósamræmi og gæti orðið enn grautarlegri með nýjum pjötlum hér og þar. Allir sæmilega læsir menn verða að geta lesið og skilið grundvallarlög hvers ríkis. Þar á ekki að þurfa langar útskýringar meintra sérfræðinga. Í slíku skjali má ekki standa staðhæfingin „Forseti lýðveldisins gerir samninga við önnur ríki.“ Allir vita að þetta er ekki svo, enda er forsetanum ætlað að skilja ákvæðið – eins og svo margt annað – í samhengi við annað ákvæði þar sem segir: „Forsetinn lætur ráðherra framkvæma vald sitt“, sem er í senn torskilin og vond íslenska. Eða þá að forsetinn hefur heimild til að veita „[…] annaðhvort sjálfur eða með því að fela það öðrum stjórnvöldum, undanþágur frá lögum samkvæmt reglum, sem farið hefur verið eftir hingað til.“ Vonandi tekur enginn forsetaframbjóðandi mark á þessari forneskju.
Um allt þetta – og margt fleira – fjallaði stjórnlagaráð og gerði tillögur til bóta.
Rætt verður áfram um stjórnarskrármálið í næstu grein undir heitinu: Er ein kráka í hendi betri en tvær í skógi?
Þorkell Helgason, áhugamaður um bætta stjórnarskrá og sat í stjórnlagaráði
by Þorkell Helgason | mar 24, 2016 | Á eigin vefsíðu
Sem allungur reiður maður skrifaði ég grein í Morgunblaðið 4. nóvember 1987 um kvótamálið, sem á því miður enn við.
Fyrirsögnin segir allt um það „Opinber kvótasala tryggir hagkvæma og sanngjarna stjórn fiskveiða“

by Þorkell Helgason | mar 24, 2016 | Á eigin vefsíðu
[Birtist í Fréttablaðinu, 23. mars 2016 á bls. 19. Einnig á vefsíðunni http://www.visir.is/forsetakosningarnar-mega-ekki-verda-markleysa/article/2016160329696 ásamt viðbót sem athugasemd.]
Forsetakosningar verða haldnar í lok júní. Þegar hefur á annan tug karla og kvenna tilkynnt um framboð og fleiri liggja undir feldi. Einhverjir kunna að heltast úr lestinni en engu að síður gætu kjósendur þurft að velja á milli 10 til 20 frambjóðenda. Hætt er við því að margir fórni höndum og láti hjá líða að kjósa. Enn verra er að forseti kynni að verða valinn með litlum stuðningi kjósenda, e.t.v. um 15% þeirra sem þátt taka í kosningunni, og enn lægra hlutfalli kosningabærra manna.
Ákvæði stjórnarskrárinnar mæla fyrir um að „[s]á, sem flest fær atkvæði […] er rétt kjörinn forseti.“ Lögin, sem útfæra þetta nánar, veita kjósendum það verkfæri eitt að merkja með einum krossi. Þessi aðferð kallast meirihlutakosning – sem getur reynst hreinasta öfugmæli. Margoft hefur verið bent á nauðsyn þess að breyta ákvæðunum og taka upp aðferð sem geri það líklegt að kjörinn forseti njóti stuðnings meirihluta kjósenda. Greinarhöfundur hefur skrifað um þetta blaðagreinar og sent stjórnarskrárnefnd þeirri sem skipuð var 2005 ítarlegt erindi þar um. Og vitaskuld tók stjórnlagaráðið, sem starfaði sumarið 2011, á málinu – en ekkert hefur gerst.
Hvað er til ráða?
Stjórnarskránni verður vart breytt fyrir kosningarnar. En spyrja má hvort stjórnarskrárákvæðið sé svo þröngt að ekki megi kanna hug kjósenda nánar en með einum krossi? Að vísu kemur fram í umfjöllun um málið á Alþingi 1944 að einföld meirihlutakosning hafi þá verið höfð í huga enda sé það gert í trausti þess, eins og segir í nefndaráliti, að „þjóðinni takist að fylkja sér þannig um forsetaefni að atkvæði dreifist eigi úr hófi fram.“ Jafnframt skiptir máli að þeir 1.500 meðmælendur, sem krafist er í stjórnarskránni frá 1944, voru þá ríflega þrefalt hærra hlutfall kjósenda en nú. Það verður því að nýta svigrúm stjórnarskrárinnar til að koma í veg fyrir að forsetakosningarnar verði markleysa. Enn er tóm til að breyta kosningalögum í því skyni. Benda má á betri aðferðir sem ættu að rúmast innan ákvæða stjórnarskrárinnar:
- Nefna má svokallaða samþykktarkosningu þar sem kjósandi fær að krossa við alla þá sem hann treystir til að gegna embættinu. Allt eins og í einfaldri meirihlutakosningu nær sá kjöri „sem flest fær atkvæði“ svo að vitnað sé í stjórnarskrárákvæðið. Rannsóknir benda til þess að í samþykktarkosningu veljist sá frambjóðandi sem einna mest eining ríkir um.
- Enn betri er aðferð aðal- og varavals. Kjósandinn merkir við þann frambjóðanda sem hann helstan kýs, og við annan til vara. Fyrst eru talin saman atkvæði að aðalvali kjósenda. Nái þá einhver meirihlutafylgi er hann rétt kjörinn forseti Íslands. Ef ekki, kemur sá frambjóðandi sem fær fæst aðalatkvæði ekki lengur til greina. Atkvæði hans færast til hinna frambjóðendanna í samræmi við varaval hvers kjósanda og þá sem aðalvalsatkvæði. Þetta er svo endurtekið þar til fundinn er sá eini sem nær meirihluta þeirra atkvæða sem enn eru gild. Hann hefur þannig hlotið „flest atkvæði“. Lesa má um aðferðina og langa reynslu af henni á Írlandi á vefsíðunni thorkellhelgason.is/?p=.
Vitaskuld þarf að gaumgæfa hvort að ofangreindar aðferðir séu í samræmi við stjórnarskrá. Hæstiréttur úrskurðar um lögmæti forsetakjörs og ætti því að bera skylda til upplýsa Alþingi um stjórnarskrárlögmæti ráðgerðra lagaákvæða í þessu efni. Fyrir slíku er fordæmi. (Stjórnlagaráð tók á vanda af þessu tagi með því að leggja til skipan Lögréttu.)
Þyki lagabreyting ófær ættu lýðræðisunnendur að taka sig saman um að efna til vandaðrar skoðanakönnunar á hug kjósenda til frambjóðenda. Best færi á því að kjósendur yrðu spurðir bæði um aðal- og varaósk þeirra. Niðurstaðan gæti orðið leiðbeinandi, bæði frambjóðendum, sem kynnu að draga sig í hlé, en líka kjósendum sem sæju hvaða frambjóðendur kæmu helst til greina. En þetta er þrautaleið. Æskilegast væri að sjálft fyrirkomulag kosninganna væri slíkt að atkvæði kjósenda dagi ekki uppi.
Þorkell Helgason, áhugamaður um bætta stjórnarskrá og sat í stjórnlagaráði
Umsögn á vefsíðu Vísis: http://www.visir.is/forsetakosningarnar-mega-ekki-verda-markleysa/article/2016160329696
Við þessa grein mína verður að bæta því að stjórnvöld hafa formlega birt auglýsingu um forsetakosningarnar. Því er það siðferðilega og ef til vill lagalega erfiðara að breyta einhverju í fyrirkomulagi kosninganna. Þetta er eitt af því sem þyrfti að gaumgæfa sé vilji til að breyta lögum eins og sem reifað í grein minni.