Kjósum til stjórnlagaþings!

Stjórnlagaþing verður haldið snemma á næsta ári. Það kemur saman í kjölfar skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis (Páls-nefndarinnar) og skýrslu þingmannanefndar (Atla-nefndarinnar) og umfangsmikilla tillagna hennar um umbætur í stjórnkerfinu. Að auki verður búið að halda þjóðfund til undirbúnings þinginu. Stjórnlagaþingið mun því reka smiðshöggið á þetta umbóta- og uppgjörsferli með því að gera tillögur um endurbætur á sjálfri stjórnarskránni. Stjórnlagaþingið verður að vísu aðeins ráðgefandi, Alþingi mun hafa lokaorðið. En stjórnlagaþingið getur samt ráðið úrslitum ef þar verður vel unnið og breið samstaða næst. Kosning til þessa þings er því mikilvægur áfangi á lýðræðisferli okkar.

Kosning til stjórnlagaþingsins, sem fer fram 27. nóvember nk., verður með allt öðrum hætti en tíðkast hefur í almennum kosningum hér á landi. Kosnir verða 25 þingfulltrúar en til að jafna kynjahlutföll kann að verða bætt við allt að 6 fulltrúum. Einstaklingar sem bjóða sig fram raðast ekki á neina lista og eru engum skuldbundnir nema eigin samvisku. Landið verður eitt kjördæmi. Vægi atkvæða verður því óháð búsetu eins og við forsetakosningar. Talningin fer fram miðlægt á vegum landskjörstjórnar og úrslit verða birt fyrir landið í heild, ekki eftir kjördæmum. Stjórnlagaþingið verður samkoma allrar þjóðarinnar, ekki landshluta eða hagsmunahópa.

Kjósendur fá mikið vald með atkvæði sínu. Þeir merkja ekki aðeins við einn frambjóðanda með krossi eins og vaninn hefur verið hérlendis heldur velja þeir eins marga frambjóðendur og hugur þeirra býður (þó ekki fleiri en 25). Ekki nóg með það heldur skulu kjósendur raða þeim sem þeir vilja að sitji þingið í forgangsröð. Kjósandinn velur fyrst þann frambjóðanda sem hann leggur mest kapp á að nái kjöri, en að honum frágengnum þann frambjóðanda sem hann vill að þá taki við keflinu og nýti atkvæði sitt o.s.frv.

Með því fyrirkomulagi sem felst í raðvali kjósenda og talningaraðferðinni sem því fylgir er til hins ítrasta leitast við að lesa í vilja kjósenda þannig að atkvæði sem flestra hafi áhrif. Ef kosið yrði með þeim hætti að merkja með krossi við einn frambjóðanda er viðbúið að miklum meirihluta atkvæða yrði kastað á glæ. Annars vegar getur það gerst með því að kjósandi krossi við einhvern sem er fjarri því að ná kjöri. Hins vegar kann þessi eftirlætisframbjóðandi kjósandans að vera vinsæll og fá fjölda atkvæða umfram það sem þarf til að ná kjöri. Í báðum tilvikum kann kjósandinn að iðrast þess að hafa ekki varið atkvæði sínu frekar á frambjóðanda sem var á mörkum þess að ná kjöri. Það sem verra er er að kjósendur kynnu að hugsa á þennan veg í kjörklefanum. Frambjóðandi, sem flestir væru sammála um að ætti erindi á þingið, fengi þá e.t.v. fá atkvæði af því að of margir hugsi sem svo að ekki sé þörf á því að eyða atkvæðinu á hann. Aðferðin sem beitt verður við stjórnlagaþingskosninguna sér við þessu tvennu.

Kjósendur þurfa ekki að velja nema einn frambjóðanda en hvetja verður alla til að raða sem flestum í forgangsröð og nýta þannig atkvæði sitt til fulls. Þá kunna menn að spyrja hvort ekki sé verið að þynna atkvæðið út. En svo er ekki því að uppgjörsaðferðin við talninguna tekur á þessu. Það rýrir aldrei stuðning kjósandans við þá sem á undan eru komnir í forgangsröð hans að bæta fleirum við. Það skaðar t.d. ekki stuðning við þann sem valinn hefur verið sem 1. val ef bætt er við öðrum að 2. vali. Þetta er mikilvægur eiginleiki aðferðarinnar, e.t.v. sá mikilvægasti.

Stjórnlagaþingið getur orðið vendipunktur í sögu þjóðarinnar. Kjósendum fá mikið vald í til að velja sér verðuga fulltrúa á þingið. Þeir eru hvattir til að nýta það vald.

Þorkell Helgason býður sig fram til stjórnlagaþings

Fréttatilkynning send á fjölmiðla 13. október s.l.

„Stjórnarskrá sé vörn gegn græðgi og afglöpum“

Þorkell Helgason stærðfræðingur hefur ákveðið að gefa kost á sér við kosningu til stjórnlagaþings 27. nóvember en hlutverk þingsins er að gera tillögu um nýja stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland. Þorkell hefur starfað sem háskólakennari og við opinbera stjórnsýslu. Hann hefur mikla þekkingu og reynslu af þeim málaflokkum sem koma við sögu við endurgerð stjórnarskrárinnar. Má einkum benda á sérþekkingu hans í kosningafræðum en í þeim efnum er hann helsti sérfræðingur landsins. Nú er einmitt kallað á nýjar leiðir þar sem kjósendur fái meira að segja um val á fulltrúum sínum og þjóðin verði í auknum mæli spurð álits í þjóðaratkvæðagreiðslum. Þekking Þorkels er því mikilvæg í starfi stjórnlagaþingsins. Menntun Þorkels er honum gott veganesti til að móta skýra og rökfasta stjórnarskrá á mannamáli.

Þorkell lýsir framboði sínu á eftirfarandi hátt:

Lykilatriði varðandi stjórnarskrána:

  • » Stjórnarskrá sé  þjóðinni vörn gegn græðgi sérhagsmunaseggja og afglöpum í stjórnarháttum.
  • » Stjórnarskráin tryggi lýðræði, mannréttindi, jafnrétti og virðingu fyrir fólki, allir fái meira að vita, segja og ráða.
  • » Stjórnarskráin þarf að taka mið af smæð þjóðarinnar. Í þeim efnum verðum við að sníða okkur stakk eftir vexti.
  • » Skerpa verður skiptingu valdaþáttanna, Alþingis, ríkisstjórnar og dómstóla sem jafnframt þurfa að hafa eftirlit hver með öðrum.
  • » Til álita kemur að Alþingi stýri framkvæmdarvaldinu og ráði ríkisstjórn á faglegum forsendum.
  • » Hæstiréttur úrskurði um stjórnarskrárgildi laga, verði ígildi stjórnlagadómstóls.
  • » Stjórnarskráin verður að vera vönduð, skiljanleg og rökföst.
  • » Verklag mitt:
  • » Ég hef mótaðar skoðanir um stjórnarskrána en hlusta og tek rökum.
  • » Samfélagssátt fæst aðeins með samræðu á stjórnlagaþingi og samráði við þjóðina.
  • » Ég hef almannaheill að leiðarljósi.
  • » Ég þigg engin fjárframlög til framboðs míns og dreg ekki taum sérhagsmuna.

Menntun og störf

Þorkell nam stærðfræði í Háskólunum í Göttingen, München og við MIT í Bandaríkjunum. Þaðan lauk hann doktorsprófi 1971. Árin 1971-91 starfaði Þorkell við Háskóla Íslands, síðast sem prófessor í reiknifræði. Hann var aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra 1991-1993, ráðuneytisstjóri í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytum 1993-96 og orkumálastjóri 1996-2007. Þá var hann stjórnarformaður Sinfóníuhljómsveitar Íslands um átta ára skeið. Þorkell hefur verið ráðgjafi opinberra aðila meðal annars í skattamálum, fiskveiðistjórnun og kosningamálum.