Forsetakosningarnar mega ekki verða markleysa

[Birtist í Fréttablaðinu, 23. mars 2016 á bls. 19. Einnig á vefsíðunni http://www.visir.is/forsetakosningarnar-mega-ekki-verda-markleysa/article/2016160329696 ásamt viðbót sem athugasemd.]

Forsetakosningar verða haldnar í lok júní. Þegar hefur á annan tug karla og kvenna tilkynnt um framboð og fleiri liggja undir feldi. Einhverjir kunna að heltast úr lestinni en engu að síður gætu kjósendur þurft að velja á milli 10 til 20 frambjóðenda. Hætt er við því að margir fórni höndum og láti hjá líða að kjósa. Enn verra er að forseti kynni að verða valinn með litlum stuðningi kjósenda, e.t.v. um 15% þeirra sem þátt taka í kosningunni, og enn lægra hlutfalli kosningabærra manna.

Ákvæði stjórnarskrárinnar mæla fyrir um að „[s]á, sem flest fær atkvæði […] er rétt kjörinn forseti.“ Lögin, sem útfæra þetta nánar, veita kjósendum það verkfæri eitt að merkja með einum krossi. Þessi aðferð kallast meirihlutakosning – sem getur reynst hreinasta öfugmæli. Margoft hefur verið bent á nauðsyn þess að breyta ákvæðunum og taka upp aðferð sem geri það líklegt að kjörinn forseti njóti stuðnings meirihluta kjósenda. Greinarhöfundur hefur skrifað um þetta blaðagreinar og sent stjórnarskrárnefnd þeirri sem skipuð var 2005 ítarlegt erindi þar um. Og vitaskuld tók stjórnlagaráðið, sem starfaði sumarið 2011, á málinu – en ekkert hefur gerst.

Hvað er til ráða?

Stjórnarskránni verður vart breytt fyrir kosningarnar. En spyrja má hvort stjórnarskrárákvæðið sé svo þröngt að ekki megi kanna hug kjósenda nánar en með einum krossi? Að vísu kemur fram í umfjöllun um málið á Alþingi 1944 að einföld meirihlutakosning hafi þá verið höfð í huga enda sé það gert í trausti þess, eins og segir í nefndaráliti, að „þjóðinni takist að fylkja sér þannig um forsetaefni að atkvæði dreifist eigi úr hófi fram.“ Jafnframt skiptir máli að þeir 1.500 meðmælendur, sem krafist er í stjórnarskránni frá  1944, voru þá ríflega þrefalt hærra hlutfall kjósenda en nú. Það verður því að nýta svigrúm stjórnarskrárinnar til að koma í veg fyrir að forsetakosningarnar verði markleysa. Enn er tóm til að breyta kosningalögum í því skyni. Benda má á betri aðferðir sem ættu að rúmast innan ákvæða stjórnarskrárinnar:

  • Nefna má svokallaða samþykktarkosningu þar sem kjósandi fær að krossa við alla þá sem hann treystir til að gegna embættinu. Allt eins og í einfaldri meirihlutakosningu nær sá kjöri „sem flest fær atkvæði“ svo að vitnað sé í stjórnarskrárákvæðið. Rannsóknir benda til þess að í samþykktarkosningu veljist sá frambjóðandi sem einna mest eining ríkir um.
  • Enn betri er aðferð aðal- og varavals. Kjósandinn merkir við þann frambjóðanda sem hann helstan kýs, og við annan til vara. Fyrst eru talin saman atkvæði að aðalvali kjósenda. Nái þá einhver meirihlutafylgi er hann rétt kjörinn forseti Íslands. Ef ekki, kemur sá frambjóðandi sem fær fæst aðalatkvæði ekki lengur til greina. Atkvæði hans færast til hinna frambjóðendanna í samræmi við varaval hvers kjósanda og þá sem aðalvalsatkvæði. Þetta er svo endurtekið þar til fundinn er sá eini sem nær meirihluta þeirra atkvæða sem enn eru gild. Hann hefur þannig hlotið „flest atkvæði“. Lesa má um aðferðina og langa reynslu af henni á Írlandi á vefsíðunni thorkellhelgason.is/?p=.

Vitaskuld þarf að gaumgæfa hvort að ofangreindar aðferðir séu í samræmi við stjórnarskrá. Hæstiréttur úrskurðar um lögmæti forsetakjörs og ætti því að bera skylda til upplýsa Alþingi um stjórnarskrárlögmæti ráðgerðra lagaákvæða í þessu efni. Fyrir slíku er fordæmi. (Stjórnlagaráð tók á vanda af þessu tagi með því að leggja til skipan Lögréttu.)

Þyki lagabreyting ófær ættu  lýðræðisunnendur að taka sig saman um að efna til vandaðrar skoðanakönnunar á hug kjósenda til frambjóðenda. Best færi á því að kjósendur yrðu spurðir bæði um aðal- og varaósk þeirra. Niðurstaðan gæti orðið leiðbeinandi, bæði frambjóðendum, sem kynnu að draga sig í hlé, en líka kjósendum sem sæju hvaða frambjóðendur kæmu helst til greina. En þetta er þrautaleið. Æskilegast væri að sjálft fyrirkomulag kosninganna væri slíkt að atkvæði kjósenda dagi ekki uppi.

Þorkell Helgason, áhugamaður um bætta stjórnarskrá og sat í stjórnlagaráði

Umsögn á vefsíðu Vísis: http://www.visir.is/forsetakosningarnar-mega-ekki-verda-markleysa/article/2016160329696

Við þessa grein mína verður að bæta því að stjórnvöld hafa formlega birt auglýsingu um forsetakosningarnar. Því er það siðferðilega og ef til vill lagalega erfiðara að breyta einhverju í fyrirkomulagi kosninganna. Þetta er eitt af því sem þyrfti að gaumgæfa sé vilji til að breyta lögum eins og sem reifað í grein minni.

Athugasemdir við tillögur stjórnarskrárnefndar

Stjórnarskrárnefnd hefur kynnt tillögur sínar um breytingar á þremur meginþáttum í gildandi stjórnarskrá. Ég tel að endurskoða eigi stjórnarskrána í heild sinni á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs eins og 2/3 hluti þátttakenda í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 vildi. Engu að síður hef ég sent nefndinni erindi með umsögn, athugasemdum og betrumbótum á þessum tillögum.

Erindi mitt má kalla fram með því að styðja hér á heiti þess: Athugasemdir Þorkels Helgasonar við frumvarpsdrög stjórnarskrárnefndar

Meginatriði í athugasemdum mínum við frumvarpsdrög stjórnlaganefndar eru þessi:

Um þjóðaratkvæðagreiðslur

  • Ekki er gerður ágreiningur um að krafa um þjóðaratkvæðagreiðslu verði að koma frá a.m.k. 15% kosningabærra manna.
  • Sá fjögurra vikna frestur sem gefinn er til að skila undirskriftum er of skammur. Reifuð er málamiðlun í þeim efnum.
  • Takmarka ætti það tímarúm sem Alþingi hefur til að stöðva þjóðaratkvæðagreiðslu með afturköllun máls.
  • Því er andmælt að settur sé synjunarþröskuldur sem takmarki rétt kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslum. Til málamiðlunar er stungið upp á að lækka þröskuldinn úr 25% í 15% sem svarar þá til þess hlutfalls kjósenda sem þarf til að kalla eftir atkvæðagreiðslunni.
  • Bent er á að þess sé krafist að lög um útfærslu á þjóðaratkvæðagreiðslum þurfi að samþykkja með 2/3 hlutum atkvæða á Alþingi. Spurt er hvað gerist ef sá meiri hluti næst ekki? Lögð er til breyting á frumvarpsdrögunum sem tekur á þessum vanda.

Um umhverfisvernd

  • Hafðar eru af því áhyggjur hvort raunverulega sé verið að tryggja almannarétt til frjálsrar farar um landið.

Um náttúruauðlindir

  • Fagnað er því inngangsákvæði að „auðlindir náttúru Íslands [skuli] tilheyra íslensku þjóðinni“.
  • Bagalegt er að þjóðareignir skuli ekki skilgreindar í frumvarpstextanum.
  • Treysta verður því að með ákvæðum frumvarpsins séu tekin af öll tvímæli um að enginn getur fengið varanleg yfirráð yfir þjóðareignum.
  • Það býður heim deilum og túlkunum út og suður að hafa jafn loðið ákvæði í stjórnarskrá og „[a]ð jafnaði skal taka eðlilegt gjald fyrir heimildir til nýtingar auðlinda“.
  • Kallað er eftir því að stuðst verði við orðalag stjórnlagaráðs um „fullt gjald“ fyrir afnot af þjóðareignum en það um leið aðlagað sjónarmiðum nefndarinnar.
  • Sérstaklega er nefndin krafin svara um það hvort stjórnarskrárbreytingin festi hið umdeilda „gjafakvótakerfi“ í sessi. Minnt er á undirskriftir gegn makrílkvótafrumvarpinu á sl. vori.

 

Aðferðir við sameiginlegar ákvarðanir þings og þjóðar

[Lítilega endurskoðað í des. 2018]

Stjórnarskrárnefnd sú sem starfaði 2013-2016  skilaði tillögum um nokkrar mikilvægar breytingar á stjórnarskránni. Ein þeirra lýtur að því hvernig kjósendur geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um nýsamþykkt lög frá Alþingi. Þar er settur þröskuldur sem þannig er orðaður:

„Til þess að hnekkja lögum þarf meirihluti í þjóðaratkvæðagreiðslu, þó minnst fjórðungur [25%] kosningarbærra manna, að synja þeim samþykkis.“

Slíkt ákvæði um stuðningslágmark órökrétt og styðst ekki við nein viðmið. Hvers vegna ekki 20% eða 30%? Þar nægir ekki að segja að 25% hafi verið málamiðlun í nefndinni. Þá er ávallt sá galli á ákvæði sem þessu að það er verið að gera þeim sem heima sitja upp skoðanir, að þeir séu upp til hópa á annarri skoðun en þeir sem þátt taka. Vafasamt er að þessir kjósendur geri sér grein því hvernig í raun er verið að gera þeim upp skoðun.

Hugmynd um aðra aðferð til að tengja saman atkvæðagreiðslu á þingi og meðal þjóðarinnar hefur verið að þróast.  Hugsunin er sú að þeir sem taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni séu þar með að kalla til baka það umboð sem þeir hafa áður veitt þingmönnum í kosningum til Alþingis.  Hinir sem heima sitja séu aftur á móti sáttir við afstöðu þingmanna og það hvernig atkvæði féllu á Alþingi um málið. Kalla má þessa leið samþætta ákvörðun þings og þjóðar en hana má finna með því að styðja hér á þessa nafngift.

Hugmyndin er enn gerjun. Því væri höfundi fengur af málefnalegu áliti lesenda. Þeir eru því beðnir að hafa samband á netfanginu thorkellhelga@gmail.com