Greinargerð þessi birtist í  í heild sinni í veftímaritinu Stjórnmál og stjórnsýsla 1.tbl. 7. árg. sem kom út 30. júní 2011.

Samantekt á innihaldi greinargerðarinnar:

  • Margt var sérstætt við þessa kosningu. Þetta var landskjör, þ.e. landið var eitt kjördæmi, framboð voru einstaklingsbundin, hreint persónukjör. Kosningin var um margt nýmæli, ekki aðeins hér á landi heldur líka sé leitað samanburðar út í hinn stóra heim.
  • Frambjóðendur skiptust þannig eftir kyni að 70% voru karlar en 30% konur. Hlutfall frambjóðenda var verulega umfram hlutfall kjósenda á kjörskrá í Reykjavík. Þessi hlutföll voru mjög ámóta á Suðvesturlandi en í öðrum kjördæmum hallaði á frambjóðendur, mest í Suðurkjördæmi þar sem hlutfall þeirra var einungis helmingur af hlutfalli kjósenda.
  • Kosningarþátttaka var dræm, 35,95%. Ógildir kjörseðlar, þar með talin auðir, námu 1,43% sem er minna en gerist og gengur í kosningum hérlendis. Á hinn bóginn  kunna allmörg atkvæði að hafa verið óvirk að hluta vegna umdeilanlegra  ákvæða laga um meinbugi á kjörseðlum.
  • Uppgjör kosningarinnar fór fram með aðferð, STV, sem ekki hefur verið notuð hérlendis áður. Kostir STV-aðferðarinnar eru tíundaðir: Atkvæði fara lítt í súginn, aðferðin er hlutfallsaðferð, hægt er að kjósa eftir sannfæringu, kjósandinn tekur ekki áhættu við að auka við röðun sína og það er erfitt að beita brögðum. STV-aðferðin hefur líka galla: Hún kann að þykja flókin, sem er aðallega vegna þess að hún er lítt þekkt. Enn fremur er hún ekki einhalla (frekar en margar aðrar), þ.e. búa má til dæmi þess efnis að frambjóðandi missi af kjöri við að fá of mörg atkvæði og öfugt.
  • Aðferðin í stuttu máli: Hver kjósandi fer með eitt atkvæði og raðar frambjóðendum í vallínur eftir þeim forgangi sem hann vill að þeir hafi að atkvæðinu. Sá sem er í efstu vallínu hjá kjósandanum hefur fyrstur aðgang að atkvæðinu. Sé frambjóðandinn úr leik – þ.e. hefur náð kjöri eða fallið út sakir lítils fylgis – færist atkvæðið til þess sem er næstur á óskalista kjósandans. Og síðan koll af kolli. Ítralegri lýsing er í fylgiskjali.
  • Þátttaka kjósenda í röðunarferlinu var mjög góð. Að meðaltali raðaði hver kjósandi 14,8 frambjóðendum en 29% röðuðu í allar þær 25 línur sem stóðu til boða. Hinir kjörnu hlutu 38,5% atkvæða þegar að 1. vali. 83,4% atkvæða áttu að hlutdeild í vali þeirra sem kjöri náðu. Afgangurinn, eða 16,6% atkvæða, dagaði uppi í þeim skilningi að þau atkvæði gögnuðust engum hinna kjörnu frambjóðenda. Að meðaltali hafði hver kjósandi nöfn 3,7 þeirra frambjóðenda sem kjöri náðu á seðli sínum.
  • Úthlutun með STV-aðferðinni, þeirri sem notuð var í raun, er borin saman við útkomu eftir ýmsum öðrum aðferðum: Einn kross, allt að 25 krossar, stigagjafaraðferð, prófskjörsaðferðin. 18 til 21 af hinum 25 kjörnu hefðu líka náð kjöri með hinum aðferðunum. Með STV-aðferðinni náðu 10 konur kjöri. Þær hefðu orðið 1-2 færri með hinum aðferðunum. Eftir STV-aðferðinni höfðu 59%-83% atkvæðanna raunverulega áhrif á val hinna 25 en aðeins 16%-21% atkvæðanna hefðu skipt sköpum um úthlutun sætanna ef öðrum aðferðum hefði verið beitt.
  • Brugðist er við ýmissi gagnrýni á kosningarkerfið: Því er andmælt að kosningaraðferðin sé íslenskur sérvitringsháttur og hrákasmíð. Vakin er athygli á þeirri gagnrýni að STV-aðferðin sé ekki einhalla. Því er andmælt að aðeins þeir sem ná fullum sætishlut séu rétt kjörnir. Leiðréttur er sá misskilningur að það skipti máli í hvað röð seðlarnir séu taldir. Öfgakenndu dæmi um að STV-aðferðin geti hyglað fámennri klíku er andmælt. Því er svarað hví ekki voru notaðar þróaðri útgáfur af STV-aðferðinni. Tekið er undir þá gagnrýni að aðferðin til úthlutunar sæta til kynjajöfnunar hafi verið gölluð, en sem betur fer reyndi ekki á hana.
  • Fjallað er ítralega um þá skoðun að kosningin hafi verið dauðadómur yfir persónukjöri og því að hafa landið eitt kjördæmi. Fullyrt er að því fari fjarri að stjórnlagaþingskosningin hafi sýnt að persónukjör á landsvísu sé illgerlegt. Kosningin hafi á hinn bóginn leitt í ljós viðfangsefni sem leysa þarf til að slíkt fyrirkomulag heppnist sem best. Bent er á nokkrar lausnir í því sambandi.
  • Í fylgiskjölum eru annars vegar vangaveltur um það hvers vegna fólk hafi setið heima í kosningunni. Hins vegar er farið ítarlega yfir STV-kosningaraðferðina og henni lýst með tilvísun í úrslit kosningarinnar.