Skip to content

Er dyggð að spara orku?

Höfundur: Þorkell Helgason, December 10th, 2005

Grein fengin af Mbl.is – Laugardaginn 10. desember, 2005

Þorkell Helgason fjallar um orkunotkun og orkusparnað: “Mikilvægast er að draga úr eldsneytisnotkun.”

Oft er því haldið fram að óþarft sé að spara orku á Íslandi; hér sé slík ofgnótt að sparnaður skipti engum sköpum. Vissulega er Ísland orkuríkt land, en auðlindirnar eru ekki ótakmarkaðar og því felst ávinningur í því að fara vel með þær og sóa þeim ekki. Jafnvel þótt frumuppsprettan, hvort sem það er jarðhiti eða rafmagn, sé til í ríkum mæli kostar það mikla fjármuni að afla orkunnar og miðla henni. Og fyrir innflutta orku, þ.e. bensín og olíu, greiðum við dýrum dómum.

Ráðstefna um orkusparnað
Orkustofnun og iðnaðarráðuneytið efndu fyrir skömmu til ráðstefnu á Akureyri þar sem orkusparnaður og bætt orkunýting var til umræðu. Tilefnið var efling útibús Orkustofnunar á Akureyri, en þar eru tveir nýir starfsmenn að taka til starfa og mun annar sinna almennum orkusparnaðarverkefnum undir hatti svonefnds Orkuseturs sem er samstarfsvettvangur Orkustofnunar, iðnaðarráðuneytisins og Samorku en með stuðningi Evrópusambandsins og KEA. Hinn starfsmaðurinn tekur við verkefni sem ber heitið Vistvænt eldsneyti og er samstarfsverkefni margra ráðuneyta um upplýsingaöflun, stefnumótun og aðgerðir til að stuðla að bættri nýtingu innflutts eldsneytis svo og leiðir til að drýgja það eða leysa af hólmi með innlendum orkugjöfum.

Á ráðstefnunni bar margt á góma sem á erindi til almennings en fyrirlestrarnir eða myndefni þeirra er aðgengilegt á vef Orkustofnunar:

http://www.os.is/page/radstefna_orkunotkun. Meðal þess sem fram kom á ráðstefnunni um orkusparnaðarmál er þetta:

Langstærsti útgjaldaliðurinn í orkukaupum heimila eru olía og olíuafurðir.

Íslendingar horfa frekar til stofnkostnaðar en rekstrarkostnaðar þegar keypt eru orkufrek tæki, hvort sem það eru bílar eða heimilistæki.

Almenn raforkunotkun heimila hefur aukist undanfarin ár, sem skýrist m.a. af aukinni lýsingu og af sívaxandi fjölda heimilistækja. En lítill hvati er til sparnaðar.

Í ýmsum iðnaði er raunhæft að spara orku, en líka vatn, um 10-35%, og í sumum greinum, eins og t.d. fiskeldi, er hægt að gera enn betur. Náðst hefur að draga úr eldsneytisnotkun fiskiskipa um 8-12% með orkustjórnunarkerfum.

Raflýsingu í gróðurhúsum, sem getur meira en tvöfaldað uppskeru, má stýra eftir dagsbirtu. Þá má spara með því að nota réttar perur og lýsa á milli plantnanna frekar en að hengja ljósin upp.

Tökum okkur tak
Glöggt er gests augað. Erlendir sérfræðingar á sviði orkumála, sem sækja okkur heim, hafa margir orð á því að við sólundum orku; ofkyndum húsnæði og látum ljósin loga að ógleymdum fjallabílunum sem við notum til snattferða innanbæjar. Staðreyndin er sú að við Íslendingar notum mjög mikla orku – og það þótt orkunotkun stóriðjunnar sé undanskilin. Þetta gildir jafnt um heimilisnotkun, orkunotkun fyrirtækja, fiskiskipa og annarra skipa svo og flugflotans. Margt af þessu á sér réttmætar skýringar, svo sem að við búum á norðlægum slóðum í stóru eylandi. En engu að síður getum við tekið okkur tak í bættri umgengni við orkuna.

Mikilvægast er að draga úr eldsneytisnotkun. Kemur þar einkum tvennt til: Annars vegar getur heimsmarkaðsverð á eldsneyti ekki stefnt annað en upp á við þegar til lengdar lætur, enda er hér um mjög takmarkaðar auðlindir að ræða. Hins vegar bendir flest til þess að brennsla eldsneytis valdi þeim veðurfarsbreytingum sem bersýnilega eru að koma í ljós. Því verður sívaxandi þrýstingur á okkur sem og aðra jarðarbúa að hemja brennsluna.

Leiðir til þess að draga úr eldsneytisnotkun eru margvíslegar. Til lengdar kann að verða kleift að nota tilbúið eldsneyti, sem þá væri óbeint unnið úr okkar ríkulegu endurnýjanlegu orkulindum. Flestir horfa þar til vetnis sem milliliðs en fleira kemur til álita. Ákjósanlegast væri ef unnt væri að nota raforkuna beint á farartækin, en þróun í geymslu rafmagns gengur hægt. Þessar langtímalausnir báðar eru þó ekki handan við hornið og allmörg ljón í veginum.

En við getum gripið til aðgerða í samgöngumálum okkar sem hrífa strax. Einfaldasta lausnin er einfaldlega að nota sparneytna bíla. Þeir eru til og framboð á þeim mun fara vaxandi svo sem með samþættingu rafmótora og sprengihreyfla, eins og gert er í svokölluðum tvinnbílum. Fleira getur komið til svo sem notkun hreyfilhitara, en þeir eru næsta óþekktir hér en mikið notaðir annars staðar á Norðurlöndum. Og síðan ættu menn auðvitað ekki að fara einmana í einkabílum, heldur deila fari með öðrum og helst að nota almenningssamgöngutæki. Fróðlegt væri að kortleggja eldsneytiskostnað við að koma okkur til vinnu. Ekki kæmi á óvart ef hann mætti lækka um helming með bættri hegðan og hagkvæmari samsetningu á bílaflotanum. En til þess að Íslendingar dragi úr eldsneytisnotkun þarf breytta hugsun; það er enn í tísku að eiga sem stærsta einkabíla.

Það sem hér hefur verið drepið á og margt fleira verður viðfangsefni Orkusetursins og Vettvangsins um vistvænt eldsneyti á Akureyri.

Höfundur er orkumálastjóri.

From → Greinar

Comments are closed.