Skip to content
Flokkar

Er til gnægð ónýttrar raforku?

Höfundur: Þorkell Helgason, June 15th, 2001

Grein fengin af Mbl.is, Skrifuð Föstudaginn 15. júní, 2001

Það er heillandi framtíðarsýn, segir Þorkell Helgason, að unnt verði að anna allri orkuþörf okkar með innlendum orkulindum.

UM fimmtungur af frumorkunotkun okkar fer til að knýja farartæki á landi og sjó og eru 3/4 hlutar innflutts eldsneytis til þessara þarfa. Á sama hátt má rekja nær 60% af koltvísýringslosun til orkunotkunar hreyfanlegra tækja.

Þar sem við Íslendingar erum jafn háðir eldsneyti og raun ber vitni er það okkur keppikefli að nýta innlenda orkugjafa til að leysa innflutt eldsneyti af hólmi. Hingað til hefur það ekki verið talið hagkvæmt. En forsendur eru að breytast. Það hyllir undir að efnarafalar sem ganga fyrir vetni komi í almenna framleiðslu. Notkun efnarafala í farartækjum er forsenda þess að vetni framleitt með íslenskri raforku geti keppt við innflutt eldsneyti. Jafnframt kann að stefna í að losun koltvísýrings verði verðlögð á alheimsvísu en þá verður öll notkun jarðefnaeldsneytis sem því nemur dýrari.

Það er því ekki nema að vonum að margir horfi til þess fagnandi að það verði mögulegt og skynsamlegt að nýta innlenda, endurnýjanlega orku í stað þeirrar innfluttu. Mikilvægt er að upplýsingar til almennings í þessum málum séu á traustum grunni og að ekki séu gerðar gyllingar. Skýrsla sem kom út nú í aprílmánuði á vegum World Wildlife Fund og Náttúruverndarsamtaka Íslands er á hinn bóginn dæmi um villuljós.

Margt er af rangfærslum og ýkjum í skýrslunni en hér verður aðeins staldrað við meginfirruna; þá að tiltæk sé gnægð af e.k. ónýttri raforku, svo mikið að með henni megi framleiða vetni til að knýja um 22% af bíla- og fiskiskipaflota landsmanna án þess að reisa þyrfti eina einustu virkjun. Og í kjölfarið er að því vikið að þessi ónýtta orka kosti lítið og þar með geti vetnisvæðingin hafist án hagrænna fórna.

Hvernig er raforkan unnin?
Sem kunnugt er vinnum við raforku úr vatnsafli og háhita, um 83% úr vatnsaflinu og afganginn úr jarðvarmanum. Háhitaorkuver takmarkast af uppsettu afli þeirra. Orkugjafinn er ætíð til staðar og hentar því best að hafa orkuvinnsluna sem stöðugasta. Í rekstri vatnsorkuvera er orkugjafinn, vatnið, hinn takmarkandi þáttur. Vatn í ám og fljótum er breytilegt, innan sólarhringsins, milli árstíða og ára. Miðlunarlón eru einmitt reist til að jafna út þennan breytileika, eins og kostur er og hagkvæmt þykir. Aflvélarnar sjálfar eru aftur á móti hafðar nokkuð við vöxt og miðast afl þeirra við það hámark sem hagkvæmt er að framleiða á hverjum tíma.

Eftirspurnin stóriðjuveranna, sem nú kaupa um tvo þriðjuhluta af raforkunni er nokkuð samfelld. En þarfir hins almenna atvinnulífs og heimilanna er breytilegar: Þörfin er minni á nóttu en degi, minni um sumar en vetur. Þannig er hin almenna orkuþörf að meðaltali aðeins um 65% af því sem hún getur orðið að hámarki á hverju ári. Þetta hlutfall gengur undir ýmsum nöfnum, en umræddur skýrsluhöfundur notar enska heitið “load factor” og misskilur hrapalega hvað felst í hugtakinu.

Í raforkukerfi okkar er keppt að því samstilla framboð frumorkunnar og raforkuþörfina og það á hagkvæmastan hátt. Til þess að ná sem mestri nýtni bjóða orkuverin – sem eru flest í eigu Landsvirkjunar – upp á ótryggða orku í viðbót við það sem á að vera unnt að tryggja hvað sem tautar og raular. Eins og nafnið ber með sér er ekki unnt að ábyrgjast að ótryggða orkan sé ávallt í boði. Það fer eftir vatnsbúskap og árferði. Stóriðjuverin kaupa hluta af orku sinni, minnst 10% og stundum meira, með þessum skilmálum. Sama gera fiskimjölsverksmiðjur og aðrir þeir sem geta gripið til ráðstafana – svo sem notkunar á olíu – þegar takmarka þarf afhendingu ótryggðu orkunnar.

Ótryggða orkan er stundum ranglega nefnd umframorka og það villir mönnum sýn, og hugsanlega hefur margnefndur skýrsluhöfundur fallið í þá gryfju.

Er umframorka yfirfljótandi?
Þrátt fyrir að keppt sé að fullnýtingu orkuveranna fer alltaf einhver frumorka í súginn. Þetta vita allir sem séð hafa vatn falla fram af stífluveggjum á fögrum síðsumardögum, en einmitt þá getur það gerst að orkugeymslurnar, lónin, séu orðin full um leið og sólargeislar halda áfram að bræða jöklana orkuverunum til óþurftar. Vissulega væri það ánægjulegt ef einhver kaupandi væri tiltækur sem gæti nýtt sér þennan dreitil. En hætt er við að þeim sama þætti naumt skammtað.

Spáreikningar sýna að á árabilinu 2002-2006 verður orkugeta orkuveranna svo til fullnýtt, eða að meðaltali með 97% til nær 100% nýtingu eins og fram kemur í meðfylgjandi töflu. Hér er reiknað með stækkun álversins á Grundartanga og Vatnsfellsvirkjun og stækkaðri Nesjavallavirkjun auk núvarandi virkjana.

(Sjá töflu.)

Orkan sem af gengur er þannig bæði lítill og stopull. Tölurnar um umframorku eru ársmeðaltöl, og verður orkan líklegast aðeins tiltæk að sumarlagi. Útilokað er að byggja einhverja vetnisframleiðslu á slíkum dreggjum.

Hvernig reikna náttúruverndarsamtök orku í vetnisverin sín?
Í umræddri skýrslu segir í lauslegri þýðingu: “Álagsstuðull (“load factor”) orkuvera sem framleiða rafmagn fyrir orkufrekan iðnað er u.þ.b. 90% en fyrir almennan markað er stuðullinn u.þ.b. 65%.” Af þessum upplýsingum dregur skýrsluhöfundur þá ályktun að orkuverin hljóti að vera vannýtt: Úr því að vinnslan fyrir stóriðjuna sé með 90% álagsstuðli hljóti að vera unnt að kreista sama út úr þeim hluta vinnslunnar sem er fyrir hinn almenna markað. Munurinn á 65% og 90% hljóti að vera fundið fé. Reiknað er út að þetta svari til 1.115 GWh á ári sem er langleiðina í það sem Fljótsdalsvirkjun var ætlað að framleiða. Þetta er meginatriðið í skýrslunni og það sem fjölmiðlar hafa sérstaklega hent á lofti. Má t.d. vitna í hádegisfréttir Ríkisútvarpsins 19. apríl s.l. og frétt í Morgunblaðinu 22. apríl þar sem þetta er í báðum tilvikum gert að aðalatriði málsins.

Eins og ljóst ætti að vera af framansögðu er þessi ályktun byggð á misskilningi. Álagsstuðull í orkuframleiðslu okkar segir nánast ekkert um það hvort orka sé aflögu. Þar með er ekki fótur fyrir stærstu ályktuninni í margumræddri skýrslu.

Það er heillandi framtíðarsýn að unnt verði að anna allri orkuþörf okkar með innlendum orkulindum. Hvenær það verður hagkvæmt og skynsamlegt er enn óráðið. Lítt gagnar í þeim efnum að reisa loftkastala – sem eru að auki byggðir á sandi.

Höfundur er orkumálastjóri.

From → Greinar

Comments are closed.