Skip to content

Tengiltvinnbílar skulu þeir heita

Höfundur: Þorkell Helgason, September 9th, 2007

Grein fengin af Mbl.is, skrifuð Sunnudaginn 9. september, 2007

UMRÆÐA um rafbíla er að aukast. Lengi vel var þá aðeins átt við bíla sem ganga alfarið fyrir rafmagni sem geymt er á rafhlöðum í bílunum. Þróun í gerð rafhlaðna í því skyni hefur þó ekki verið sem skyldi; rafhlöðurnar hafa ekki getað geymt nægilegt rafmagn til að akstursvegalengd á milli endurhleðslna væri viðunandi. En með gerð svokallaðra tvinnbíla hafa skapast ný viðhorf. Á útlensku kallast þeir “hýbrid-bílar”, en það eru bílar sem ganga í raun fyrir bensíni eða olíu, en nota jafnframt rafhreyfil og rafhlöðu til að auka nýtni eldsneytisins. Talsverður fjöldi slíkra bíla er þegar á götum hér á landi. En nú er skammt í næsta þrep í þessari þróun. Rafhlaðan í tvinnbílunum verður stækkuð þannig að hún nægi fyrir akstri á rafmagninu einu nokkra tugi kílómetra. Og það sem meira er, geymana má endurhlaða með rafmagni úr almenna rafkerfinu. Notkunarmunstur venjulegra einkabíla hérlendis er þannig að ætla má að tvinnbílar af þessari gerð geti gengið að þremur fjórðu hlutum fyrir innlendu rafmagni, en aðeins um fjórðungur orkunnar þurfi að koma úr innfluttu eldsneyti.

Í Morgunblaðinu og Blaðinu 7. sept. sl. eru fróðlegar frásagnir af þessum væntanlegu bílum. En þar eru þeir kallaðir “tengitvinnbílar”. Enska heitið á þessum bílum, “Plug-in Hybrids”, vísar til þess mikilvæga eiginleika þeirra að orkan í þá, rafmagnið, kemur í gegnum venjulega raftengla. Við á Orkustofnun höfum um nokkurt árabil fylgst með þessari þróun og fyrir tæpu ári var skrifuð skýrsla m.a. um slíka bíla. Áður en skýrslan var birt veltu málhagir menn á stofnuninni fyrir sér heiti á þessa gerð bíla og niðurstaðan var sú að kalla þá “tengiltvinnbíla”, þ.e.a.s. vísa skýrt til raftengilsins í heitinu. Án l-sins í nafninu þótti hætta á að heitið yrði tengt við annað orð sem hefur hlotið sess, “tengivagn”, og sá misskilningur kynni jafnvel að komast á kreik að rafhlöðurnar væru hangandi aftan í bílunum á e.k. tengivögnum!

Við mælum því með “tengiltvinnbílum” þar til hugmynd um enn þjálla orð kemur upp.

ÞORKELL HELGASON

orkumálastjóri.

Frá Þorkeli Helgasyni

From → Greinar

Comments are closed.