Skip to content
Flokkar

Framboðskynning hjá RÁS 1

Höfundur: Þorkell Helgason, November 22nd, 2010

Ríkisútvarpið hefur verið að taka upp stutt viðtöl við frambjóðendur sem verða síðan send út næstu daga. Eftirfarandi eru punktar sem ég hafði mér til handargagns í þessari upptöku. Hér má segja að stefnuskrá mín og tilefni framboðs míns birtist í hnotskurn:

Þarf að breyta stjórnarskrá lýðveldisins núna? Hverju helst?

  • Fyrst vil ég segja að núgildandi stjórnarskrá er um margt góð enda samin undir áhrifum af frelsisanda nítjándu aldar.
  • Ég sé fyrir mér að stjórnarskráin hefjist á fögrum orðum um að það sé hlutverk alls almannavalds að vernda fólkið og virða reisn mannsins.
  • Ég vil styrkja þingræðið, það fyrirkomulag að ríkisstjórn starfi í umboði Alþingis.
  • Ríkisstjórn á að vera þjónn þingsins, ekki öfugt. Ráðherrar eiga því ekki að sitja á þingi.
  • Þá vil ég að ríkisstjórn beri sameiginlega ábyrgð á gerðum sínum, en ekki einstakir ráðherrar.
  • Um leið kalla ég eftir aukinni formfestu í öllum stjórnarathöfnum. Koma verður í veg fyrir að foringjar ríkisstjórnar geti ráðslagast með mál án vitneskju meðráðherranna, eins og dæmin sýna.
  • Efla þarf aðhald og eftirlit með valdinu undir forystu umboðsmanns Alþingis sem verði e.k. umboðsmaður fólksins.
  • Um leið og ég vil halda í málsskotsrétt forsetans sem neyðarhemil vil ég ákvæði um þjóðaratkvæði í stjórnarskrá. Hér verður þó að gæta hófs. Megintilgangurinn er að veita þingi og ríkisstjórn aðhald.
  • Ég vil ákvæði um auðlindir í þjóðareigu sem taki til allra takmarkaðra gæða eða réttinda í almannaforsjá.
  • Í því sambandi vil ég tryggja að fulls jafnræðis sé gætt við ráðstöfun slíkra gæða. Sérhver breyting í þeim efnum verður þó að hafa eðlilega aðlögun.
  • Atkvæðisrétt verður að jafna að fullu. Það tel ég best gert með því að gera landið að einu kjördæmi. Það gerir þingmenn ábyrga fyrir velferð allra, líka þeirra sem búa utan höfuðborgarsvæðisins.
  • Um leið verður að útfæra persónukjör til að veita hverjum þingmanni sterkara umboð kjósenda.
  • Að lokum vil ég að stjórnarskráin sé endurskrifuð á mannamáli, því breytt sem breyta þarf en ekki sé verið að breyta breytinganna vegna.

Af hverju gefur þú kost á þér?

  • Ég býð mig fram vegna einlægs áhuga og vilja til að bæta stjórnarfarið og gera það tryggara að búa í okkar fagra landi.
  • Það sem ég hef til brunns að bera er menntun mín í stærðfræði svo og löng starfsreynslu m.a. sem aðalráðgjafi stjórnvalda um allt sem lýtur að kosningamálum.
  • Enda þótt ég hafi sterkar skoðanir á ýmsu í stjórnarskránni vil ég vera maður sátta og skynsemi.
  • Stjórnlagaþinginu er falið að skrifa sáttmála handa þjóðinni til að hún nái aftur fótfestu eftir hrun og aðra óáran.
  • Stjórnarskráin á eftir föngum að vera vörn gegn græðgi og afglöpum.
  • Því verðum við öll að kjósa á laugardaginn. Góð kosningarþátttaka verður sigur fyrir lýðræðið, fyrir vald fólksins.

Comments are closed.