Ríkisútvarpið hefur verið að taka upp stutt viðtöl við frambjóðendur sem verða síðan send út næstu daga. Eftirfarandi eru punktar sem ég hafði mér til handargagns í þessari upptöku. Hér má segja að stefnuskrá mín og tilefni framboðs míns birtist í hnotskurn:
Þarf að breyta stjórnarskrá lýðveldisins núna? Hverju helst?
Fyrst vil ég segja að núgildandi stjórnarskrá er um margt góð enda samin undir áhrifum af frelsisanda nítjándu aldar.
Ég sé fyrir mér að stjórnarskráin hefjist á fögrum orðum um að það sé hlutverk alls almannavalds að vernda fólkið og virða reisn mannsins.
Ég vil styrkja þingræðið, það fyrirkomulag að ríkisstjórn starfi í umboði Alþingis.
Ríkisstjórn á að vera þjónn þingsins, ekki öfugt. Ráðherrar eiga því ekki að sitja á þingi.
Þá vil ég að ríkisstjórn beri sameiginlega ábyrgð á gerðum sínum, en ekki einstakir ráðherrar.
Um leið kalla ég eftir aukinni formfestu í öllum stjórnarathöfnum. Koma verður í veg fyrir að foringjar ríkisstjórnar geti ráðslagast með mál án vitneskju meðráðherranna, eins og dæmin sýna.
Efla þarf aðhald og eftirlit með valdinu undir forystu umboðsmanns Alþingis sem verði e.k. umboðsmaður fólksins.
Um leið og ég vil halda í málsskotsrétt forsetans sem neyðarhemil vil ég ákvæði um þjóðaratkvæði í stjórnarskrá. Hér verður þó að gæta hófs. Megintilgangurinn er að veita þingi og ríkisstjórn aðhald.
Ég vil ákvæði um auðlindir í þjóðareigu sem taki til allra takmarkaðra gæða eða réttinda í almannaforsjá.
Í því sambandi vil ég tryggja að fulls jafnræðis sé gætt við ráðstöfun slíkra gæða. Sérhver breyting í þeim efnum verður þó að hafa eðlilega aðlögun.
Atkvæðisrétt verður að jafna að fullu. Það tel ég best gert með því að gera landið að einu kjördæmi. Það gerir þingmenn ábyrga fyrir velferð allra, líka þeirra sem búa utan höfuðborgarsvæðisins.
Um leið verður að útfæra persónukjör til að veita hverjum þingmanni sterkara umboð kjósenda.
Að lokum vil ég að stjórnarskráin sé endurskrifuð á mannamáli, því breytt sem breyta þarf en ekki sé verið að breyta breytinganna vegna.
Af hverju gefur þú kost á þér?
Ég býð mig fram vegna einlægs áhuga og vilja til að bæta stjórnarfarið og gera það tryggara að búa í okkar fagra landi.
Það sem ég hef til brunns að bera er menntun mín í stærðfræði svo og löng starfsreynslu m.a. sem aðalráðgjafi stjórnvalda um allt sem lýtur að kosningamálum.
Enda þótt ég hafi sterkar skoðanir á ýmsu í stjórnarskránni vil ég vera maður sátta og skynsemi.
Stjórnlagaþinginu er falið að skrifa sáttmála handa þjóðinni til að hún nái aftur fótfestu eftir hrun og aðra óáran.
Stjórnarskráin á eftir föngum að vera vörn gegn græðgi og afglöpum.
Því verðum við öll að kjósa á laugardaginn. Góð kosningarþátttaka verður sigur fyrir lýðræðið, fyrir vald fólksins.
Að ósk formanns Starfshóps um endurskoðun á lögum um fiskveiðistjórnun, Guðbjarts Hannessonar alþm., reifum við í greinargerð þessari leið um breytt fyrirkomulag fiskveiðistjórnunar sem grundvallast á hugmynd um innköllun aflahlutdeilda og endurúthlutun þeirra að stærstum hluta en endurráðstöfun þess sem inn er kallað á opinberum tilboðsmarkaði.
Okkur er ekki ætlað það pólitíska hlutverk að velja leið og munum því að mjög litlu leyti bera þessa grunnleið saman við hugsanlegar aðrar leiðir. Á hinn bóginn reifum við möguleg afbrigði af grunnleiðinni m.a. með vísan til kosta hennar og galla.
Ekki eru gerðar tillögur um lagabreytingar á þessu stigi enda þarf fyrst að ákvarða einstök útfærsluatriði.
Joseph Stiglitz, nóbelsverðlaunahafi, hefur lagt til að verðtrygging lána miðist fremur við laun en neysluverð. Þannig tengist greiðslubyrðin beint við afkomu lángreiðenda. Hængurinn er sá að til lengdar litið hafa laun hækkað meira en verðlag og svo verður vonandi í framtíðinni. Í frétt á forsíðu Fréttablaðsins í gær er t.d. bent á að launavísitala hafi hækkað um 29% umfram vísitölu neysluverðs síðan 1991. Því er hæpið að lántakendum sé greiði gerður með tengingu höfuðstóls við laun.
En til er svipuð en betri lausn. Hún felst í ársgamalli lagasetningu um greiðslujöfnun á verðtryggðum fasteignaveðlánum. Lánin eru samkvæmt þessu fyrirkomulagi verðtryggð miðað við neysluverð en greiðslubyrðin aðlöguð breytingu á launum frá ársbyrjun 2008. Þannig er byrðin léttari nú en ella væri, og gott betur því einnig er tekið tillit til lækkandi atvinnustigs. Aftur á móti mun höfuðstóllinn ekki hækka meira en svarar til hækkunar neysluverðs þegar hagur þjóðarinnar fer að vænkast og kaupmáttur að vaxa á ný. Undarlegt er að bjargráðið sem felst í greiðslujöfnunarlögunum hefur lítt borist almenningi til eyrna og fáir nýtt sér möguleikann. Lækkun á greiðslubyrði er vissuleg keypt því verði að lánin lengjast. Dágóð von er samt til þess að þeir sem nýta sér greiðslujöfnun séu á endanum betur settir en með verðtryggingu að hætti Stiglitz. Engu að síður kann kúfurinn sem bætist við lánin að vera ástæða þess að lausnin er vannýtt.
Nú hefur kvisast út að félagsmálaráðherra hyggist dusta nýfallið ryk af greiðslujöfnunarlögunum og gera tillögur um endurbætur og útvíkkun á þeim í ljósi reynslunnar. M.a. mun hugað að viðlagaákvæði sem taki með samfélagslegum hætti á eftirhreytum greiðslujafnaðra lána verði þær óeðlilega miklar. Tillögur ráðherrans virðast því bæði sneiða hjá þeim galla sem felst í tengingu höfuðstóls við laun og jafnframt stemma stigu við löngum skuldahala ef efnahagsbati lætur á sér standa. Gagnrýni er samt þegar komin á kreik, t.d. í fyrrgreindri frétt blaðsins. Þjóðmálaumræða á Íslandi er einatt þannig að byrjað er að gagnrýna áður en ljóst er að hverju hún beinist. Hvernig væri að sjá tillögur ráðherrans áður en gripið er til vopna?
Höfundur sat á sínum tíma í vinnuhópi um greiðslujöfnun.
[Grein fengin af Visir.is, birtist líka í Fréttablaðinu 7. sep. 2009.]
Þorkell Helgason skrifar um kjör aldraðra
Margir kunna að halda af fyrirsögninni að greinarstúfur þessi fjalli um Icesave-málið. Svo er ekki – og þó. Alls kyns talsmenn aldraðra (eða „eldri borgara“ eins og það heitir á teprulegu máli) hafa undanfarið andmælt því að stjórnvöld hafa neyðst til að draga úr ríkisútgjöldum og afla tekna m.a. með því að auka skerðingu ellilífeyris vegna annarra tekna.
Framkvæmdastjórn Landssambands eldri borgara „mótmælir harðlega“; aðrir spara ekki stóru orðin eins og segja þetta koma frá „siðblind[ri] og svikul[i] ríkisstjórn“ eins og fyrrverandi talsmaður einna þessara samtaka orðaði það. Halda menn að þeir sem eru nú við stjórnvölin við að berja í bresti þjóðfélagsins hafi einhverja sérstaka ánægju af því að níðast á öldruðum? Menn skyldu gæta orða sinna. Undirritaður er kominn á þann aldur að vera orðinn eftirlaunamaður og innan skamms á ellilífeyrisaldri. Því hef ég stöðu til að geta sagt að andmæli af slíku tagi er ekki í mínu nafni.
Væntanlega hefur ekki farið fram hjá neinum að yfir okkur hafa dunið hamfarir af manna völdum en á undan var genginn tími sýndarveruleika, meints góðæris. Nú stöndum við frammi fyrir nöturlegum staðreyndum, þeim að ríkissjóður og þjóðarbúið allt er skuldum vafið og eru Icesave-skuldirnar alræmdu aðeins kornið sem fyllti mælinn. Það verður því að skera niður og skerða í hvívetna. Vandinn er eins og alltaf hvar á að bera niður; allir segja ekki hjá mér heldur hinum.
Aldraðir eru sundurleitur hópur. Þar eru vissulega margir sem eru lítt eða ekki aflögufærir og verður ekki betur séð en þeim sé hlíft eftir föngum í þeim aðgerðum þegar eru komnar fram. Síðan eru aðrir sem eru bjargálna og vel það, hafa etv. drjúgan lífeyri og jafnvel einhverjar atvinnutekjur að auki. Við sem þar erum getum vel tekið á okkur að axla hluta þeirra byrða sem fjárglæframenn og meðvirk eða sofandi stjórnvöld fyrri ára hafa lagt á herðar þjóðarinnar og verður ekki undan vikist. Við höfum amk. breiðari bök en þær barnafjölskyldur margar sem nú berjast í bökkum við að halda þakinu yfir höfði sér – og standa jafnframt undir ellilífeyrisgreiðslunum að drjúgum hluta. Ekki gera auðmennirnir það!
Að lokum aftur um Icesave-skuldirnar. Þær verða greiddar á árabilinu 2016-2023. Mörg okkar sem nú erum lífeyrisþegar verða þá orðin undanþegin greiðsluskyldu forsjónarinnar vegna. Væri þeim okkar sem erum enn aflögufær ekki nær að greiða okkar skerf meðan við erum þó enn ofanjarðar? – t.d. að þau okkar sem hafa 4 millj. kr. eða þaðan af meira í lífeyristekjur á ári (en þar eru mörkinn í skerðingarlögunum) heimti ekki elliframlag að auki frá þeim ungu sem standa undir þeim greiðslum.
Höfundur er eftirlaunamaður og bráðlega óvirkur ellilífeyrisþegi.
[Ég sendi stjórnarskrárnefnd þeirri sem skipuð var 2005 minnisblað sem hér má lesa.]
Minnisblaðið hefst þannig:
Ákvæði um kjör forseta Íslands er að finna í 5. gr. stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, en þar segir: Forseti skal kjörinn beinum, leynilegum kosningum af þeim, er kosningarrétt
hafa til Alþingis. Forsetaefni skal hafa meðmæli minnst 1500 kosningarbærra
manna og mest 3000. Sá, sem flest fær atkvæði, ef fleiri en einn eru í kjöri, er
rétt kjörinn forseti. Ef aðeins einn maður er í kjöri, þá er hann rétt kjörinn án
atkvæðagreiðslu.
Samkvæmt þessu fyrirkomulagi, einfaldri meirihlutakosningu, getur það hæglega gerst að forseti nái kjöri án þess að fá hreinan meirihlutanatkvæða, hvað þá að hann njóti stuðnings meirihluta kjósenda. Eins og fram kemur í 1. og 2. töflu hafa tveir síðustu forsetarlýðveldisins ekki verið kosnir með meirihluta atkvæða að baki sér þegar þeir voru kosnir í fyrsta sinn.