[Birt í Fréttatímanum 11. febrúar 2011.]
Fyrir viku velti ég vöngum hér í blaðinu [Fréttatímanum] yfir þeirri ákvörðun Hæstaréttar að úrskurða kosningu til stjórnlagaþings ógilda. Síðan hefur talsvert vatn runnið til sjávar: Umræður hafa verið um skarpa greiningu Reynis Axelssonar á ákvörðun réttarins, skipuð hefur verið þingmannanefnd um viðbrögð við ákvörðuninni og nú síðast lögð fram beiðni til Hæstaréttar um endurupptöku málsins. Í beiðninni er farið fram á að ógildingin verði dregin til baka í ljósi nýrra upplýsinga. Í varakröfu er mælst til þess að rétturinn krefjist endurtalningar kjörseðla eftir að öll auðkenni á þeim hafi dyggilega verið fjarlægð, að talningin verði opin og skipaðir verði eftirlitsmenn til að gæta hagsmuna frambjóðenda. Nýr úrskurður í þessa veru er sá Salómonsdómur sem ég auglýsti eftir í grein minni fyrir viku.
Með endurtalningu af þessum toga væri þeim tveimur annmörkum á kosningunni rutt úr vegi sem Hæstiréttur taldi „verulega“. Hæstiréttur telur annars vegar að auðkenni á seðlunum hafi boðið hættunni heim en tekur sjálfur fram að það byggist á því að talningin hefði átt að fara fram fyrir opnum tjöldum. Hins vegar telur rétturinn einmitt það vera verulegan annmarka að talningin fór ekki fram með þeim hætti. Þar með er Hæstiréttur að segja að „glæpurinn“ hafi ekki enn verið drýgður, að kosningaleyndin, sem vitaskuld er öllum verðmæt, sé enn ekki rofin. Ábendingin sem fram kemur í endurupptökubeiðninni er um það hvernig slá megi tvær flugur í einu höggi, tryggja leyndina en telja samt fyrir opnum tjöldum. Þessi hugmynd hafði ekki komið upp í meðförum málsins, né heldur á opinberum vettvangi eftir því sem best er vitað. Hæstiréttur er því engan veginn að draga úr vörn sinni fyrir leynilegum kosningum og opinni talningu, leysi hann úr þessum tveimur verulegu annmörkum með þessum nýja hætti.
Væri þá öllum áhyggjum Hæstaréttar af annmörkum á kosningunni rutt úr vegi? Nei. Eftir sitja þeir þrír annmarkar sem hann taldi ekki til hinna verulegu, þ.e. um gerð kjörklefa, um ósamanbrotna seðla og um gerð kjörkassa. Hér eru vissulega álitamál. Rétturinn virðist, a.m.k. í tveimur fyrri atriðunum, taka stíft mið af orðanna hljóðan í lögum um kosningar til Alþingis enda þótt lög um stjórnlagaþing segi aðeins að miða skuli við þau „eftir því sem við á“. Um kassana hefur rétturinn þó þær eðlilegu áhyggjur að þeir hafi ekki verið nógu traustir. Rétturinn gæti gengið úr skugga um þetta atriði, m.a. fengið á hreint hversu vel kassarnir voru vaktaðir. Sagt er að þeir hafi aldrei vikið úr augsýn eftirlitsmanna milli þess sem þeir voru rammlæstir inni. Þessi atriði verður Hæstiréttur vitaskuld að meta á ný að lokinni rannsókn sinni en þá með það í huga að fyrirkomulag eins og hér var viðhaft tíðkast úti um allan heim.
Í frægum dómi Hæstaréttar um eignarrétt á Landmannaafrétti frá árinu 1981 kallaði dómurinn eftir lagasetningu, eftir því sem síðar varð að þjóðlendulögum. Hæstiréttur gæti farið eins að nú enda þótt hann komi nú fram sem stjórnvald. Hann gæti átalið það sem dómurunum þykir á bjáta í framkvæmd kosninga og bent á óljós og sundurlaus lagákvæði. Hann gæti kallað eftir því sem brýn nauðsyn er á, sem er almenn og heilsteypt löggjöf um framkvæmd allra kosninga. Þetta er ekki síst nauðsynlegt í ljósi þess að kosningum af ýmsum toga hefur og mun fara fjölgandi með aukinni lýðræðiskröfu.
Það er aftur á móti dýru verði keypt að ógilda heila þjóðarkosningu til að koma þessum réttmætu skilaboðum á framfæri.