Skip to content

Lærdómur af örlögum stjórnlagaþingskosningar

Höfundur: Þorkell Helgason, February 18th, 2011

[Þessi pistill birtist í Fréttatímanum 18. febrúar 2011]

Meginlærdómurinn er sá að enn á ný sjáum við hvað við erum fá og smá. Sumir segja að við bætum fámennið upp með sérstökum dugnaði og gáfum auk þessa íslenska séreinkennis að láta hlutina „reddast“. Þetta er 2007-hugsun, svo notað sé nútímamál. Það má ekki vera okkar haldreipi lengur að treysta á að hlutirnir bjargist einhvern veginn. Við verðum að vera raunsæ, taka tillit til smæðarinnar, leita einfaldra lausna og róa óhikað á erlend mið eftir fyrirmyndum, svo að fá hollráð séu nefnd. Umfram allt verðum við að nýta vel það takmarkaða mannvit sem við höfum úr að moða.

Hvað hefur þetta með kosningu til stjórnlagaþings að gera? Jú, við reistum okkur ef til vill hurðarás um öxl. Eftir rúmlega árs málþóf ákvað Alþingi skyndilega á miðju síðastliðnu sumri að efna til kosningar til stjórnlagaþings aðeins nokkrum mánuðum síðar, sem endaði með því að Hæstiréttur úrskurðaði kosninguna ógilda. Ég er ósáttur við margt í úrskurði Hæstaréttar og hef í fyrri greinum mínum bent á rökleysur, en um leið á það hvernig rétturinn hefði getað farið meðalhófsleið jafnframt því sem hann hefði vísað veginn til umbóta í framkvæmd kosninga. Engu að síður verður að sætta sig við ákvörðun Hæstaréttar og láta hana verða okkur tilefni til að haga framkvæmd kosninga í senn með vönduðum en líka sem einföldustum hætti. Því miður veitir úrskurður Hæstaréttar fáa vegvísa þar sem rétturinn rökstyður ákvörðun sína lítt og frávísun endurupptökubeiðnarinnar á engan hátt.

Almennar kosningar, einkum um einstök málefni, verða efalaust tíðari hér eftir en hingað til. Krafan um virkt lýðræði kallar á það. Nú eru í gildi ein fimm lög um slíkar kosningar, hver með sínum hætti. Þetta er of flókið fyrir okkar kotríki. Sameina ætti þessa lagabálka í einn þar sem kveðið væri á um öll sameiginleg framkvæmdaratriði. Þá verður ekki það klúður að vísað sé þvers og kruss milli laga með tilheyrandi mistökum og mistúlkunum, eins og reyndi á fyrir Hæstarétti. Þessi almennu lög verða að vera nútímaleg með það að markmiði að gera kosningar ódýrar í framkvæmd um leið og lýðræðið er í heiðri haft og kosningaleyndar gætt sem frekast er kostur. Það er ótækt að framkvæmd kosninga skuli kosta 200-300 milljónir króna. Við hljótum t.d. að geta sætt okkur við einföld kjörklefaskilrúm eða plastkjörkassa eins og aðrar lýðræðisþjóðir, ef það sparar fé. Stóri sparnaðurinn er hins vegar fólginn í einfaldaðri og samræmdri yfirstjórn en ekki síst í rafrænum aðferðum. Vitaskuld á kjörskrá að vera rafræn þannig að kjósa megi á hvaða kjörstað sem er. Taka þarf af skarið með heimild til rafænnar úrvinnslu kjörseðla og stefna að beinum rafrænum kosningum.

Við verðum að tryggja framkvæmd lýðræðisins á þann hátt sem hentar smáþjóð. Hér er verk að vinna.

Comments are closed.