[Birt í Fréttatímanum 25. febrúar 2011]
Eftir þriðju synjun forseta Íslands á staðfestingu á lögum frá Alþingi er tilvist og hlutverk embættisins í brennidepli. Stjórnarskráin frá 1944 er ótraust heimild um verksvið forseta í ljósi þeirrar túlkunar sem núverandi forseti hefur haft á hlutverki sínu. Það er reyndar engin furða þar sem orðanna hljóðan í stjórnarskránni segir eitt en svokallaðir lögspekingar annað. Þótt stjórnarskránni væri ekki breytt að öðru leyti en því að gera ákvæðin um forsetann skiljanleg venjulegu fólki væri það mikilsverð betrumbót. Eftir að núverandi forseti hefur varpað mörgum af hefðunum um embættið fyrir róða þarf þó að fjalla um hlutverk og vald forsetans frá grunni.
Hættulegt forsetaræði
Fyrsta spurningin er hvort við viljum áfram þingræði, þ.e. að framkvæmdarvaldið sitji í skjóli Alþingis. Sömuleiðis hvort löggjafarvaldið eigi næsta óskorað að vera hjá Alþingi. Þetta eru spurningar um það hvort við viljum í meginatriðum búa við fulltrúalýðræði, að við kjósum okkur fulltrúa, þingmenn, til að fara með öll meginmál okkar. Ég hef á öðrum vettvangi svarað þessum spurningum játandi. Ég tel forsetaræði í hvaða mynd sem er í senn óhentugt og hættulegt smáþjóð.
Hví segi ég óhentugt? Ef við tækjum upp forsetaræði, þ.e. fullan aðskilnað þings og framkvæmdarvalds, væri það að óbreyttu ójafn leikur. Þjóðkjörinn forseti eða forsætisráðherra hefði allt stjórnarráðið undir sér og væri því með ótvírætt forskot á þingið um þekkingu og sérfræðingalið. Þingið myndi skjótt bregðast við. Hugboð mitt er að Alþingi kæmi sér upp umtalsverðu sérfræðingaliði til að eiga í fullu tré við framkvæmdarvaldið. Grófir reikningar benda til 2-3 milljarða kr. kostnaðarauka á ári. Höfum við efni á því?
En hví er það hættulegt? Þjóðkjörinn æðsti maður framkvæmdarvaldsins gæti orðið mjög valdamikill. Allt vald spillir. Höfum við ekki séð dæmi um það? Það yrði þá að minnsta kosti að búa þannig um hnútana að enginn gæti verið í slíkri aðstöðu nema mjög takmarkaðan tíma. Hitt er ekki síður alvarlegt að þing og stjórn gætu eldað grátt silfur saman þannig að erfitt yrði að leiða brýn mál til lykta. Við höfum fundið smjörþefinn af slíkum deilum. Þetta er ekki það sem okkur fýsir einmitt um þessar mundir.
Eigum við þá að láta forsetaembættið veg allrar veraldar? Munum ætíð að við búum í kotríki. Við verðum ávallt að gæta hagsýni og hafa okkar fyrirkomulag einfaldara en grannríkjanna. Vera má að við þurfum forseta sem sameiningartákn – en þá verður að fara varlega með embættið.
Umboðsmaður fólksins
Ef við viljum halda forsetaembættinu ætti að finna því raunhæf verkefni svo sem til styrktar nauðsynlegu aðhaldi að stjórnvöldum og Alþingi. Er ekki málskotsréttur forsetans, 26. gr. stjórnarskrárinnar, einmitt dæmi um slíkt aðhaldsvald? Jú, en eins og mál hafa nú þróast er bersýnilegt að þar skortir allar leikreglur. Þing og þjóð mega ekki vera í fullkominni óvissu um afdrif stórra mála þar til véfréttin á Bessastöðum hefur talað. Ég er fylgjandi því að forsetinn hafi neyðarhemil, svo sem til að stöðva framgang laga sem kunna að brjóta í bága við stjórnarskrá. Ferlið verður þó að vera gegnsætt, til dæmis þannig að forsetinn afli sér fyrst umsagnar Hæstaréttar sem væri þá í hlutverki stjórnlagadómstóls.
Á ólgutímum er kallað á aukið eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Nú eru allmörg embætti og stofnanir sem hafa það hlutverk að veita slíkt aðhald og gefa viðvaranir af ýmsum toga. Hvernig væri að setja ramma utan um þetta aðhalds-, úrskurðar- og eftirlitsvald og tryggja enn betur að það sé hlutlaust og standi utan við hið þrískipta ríkisvald? Að úr þessu verði eins konar umboðsmaður fólksins? Forseti lýðveldisins gæti verið yfirboðari þessa aðhaldsvalds í þeim skilningi að hann skipi yfirmenn þessa óháða valds. Forsetinn er þjóðkjörinn og hefði því gott umboð til slíkrar forystu.
Stjórnlagaþingið, þegar því tekst að hefja störf, hefur verk að vinna, ekki síst það að koma með úrbætur á stöðu og hlutverki forsetans. Það kann að reynast brýnt að koma slíkum umbótum á áður en forseti verður kosinn á næsta ári.