Alþingi hefur samþykkt þingsályktun um skipun Stjórnlagaráðs. Drjúgur meirihluti þeirra þingmanna sem afstöðu tóku studdu ályktunina. Þeim 25 sem hlotið höfðu kjörbréf til setu á Stjórnlagaþingi hefur verið boðin seta í ráðinu. Ég er einn þeirra.
Í kosningunni til Stjórnlagaþings hlaut ég tilnefningu nær 13 þúsunda kjósenda sem safnaðist upp í 3196 atkvæði. Þrátt fyrir úrskurð Hæstaréttar um ógildingu kosningarinnar tel ég mig hafa stuðning þessa góða fólks auk þess að hafa skyldur við það til að vinna að því brýna verki að endurbæta stjórnarskrá lýðveldisins. Þeir 25 sem fengu mestan stuðning í kosningunni höfðu 83% gildra atkvæða að baki sér. Þessar tölur má lesa út úr talningu landskjörstjórnar en á þær hefur Hæstiréttur ekki borið brigður. Stuðningur við hópinn var því mikill meðal þeirra sem kusu.
Það er ábyrgðarmikið verkefni að gera endurbætur á stjórnarskránni og starfstími Stjórnlagaráðs er knappur. Með samstilltu átaki vænti ég þess engu að síður að unnt verði að leggja fyrir þing og þjóð ígrundað frumvarp til nýrra stjórnskipunarlaga innan settra tímamarka. Í því starfi er fengur að góðum ábendingum frá Þjóðfundinum 2010. Að auki er mikils að vænta af vinnu stjórnlaganefndar þeirrar sem hefur unnið sleitulaust frá s.l. sumri að gagnaöflun og greinargerðum um stjórnarskrármálið. Niðurstaða nefndarinnar verður lögð fyrir Stjórnlagaráðið um leið og það kemur saman.
Úrskurður Hæstaréttar um ógildingu kosningarinnar til Stjórnlagaþings varpar vissulega skugga á tilurð og tilvist Stjórnlagaráðsins. Ég hef haft efasemdir um niðurstöðu hæstaréttardómaranna, sbr. skrif mín á vefsíðunum https://thorkellhelgason.is/?p=724, svo og https://thorkellhelgason.is/?p=730. Dómurunum var í endurupptökubeiðni bent á hvernig höggva mætti á hnútinn. Úrræðið fólst í endurtalningu fyrir opnum dyrum eftir að öll auðkenni hefðu verið fjarlægð af kjörseðlunum. Þá hefðu þeir tveir „annmarkar“ á framkvæmd kosningarinnar sem dómararnir töldu „alvarlega“ verið úr sögunni. Við beiðninni var ekki orðið og eftir situr upprunanlega ákvörðunin sem hin endanlega. Þau sem taka boði Alþingis um setu í Stjórnlagaráði bera hvorki ábyrgð á þeim mistökum sem leiddu til umræddrar niðurstöðu né heldur þeirri lausn málsins sem nú liggur fyrir. Þau hafa einungis skyldur við þjóð og þing um að vinna vel og samviskusamlega að því verkefni sem þeim er falið.
Allt frá stofnun lýðveldisins hefur það verið ætlun Alþingis að endurskoða stjórnarskrána í heild. Alkunna er hvernig til hefur tekist. Verði það tækifæri sem nú býðst ekki nýtt óttast ég að þess verði langt að bíða að til verði vandaður, auðskilinn og sanngjarn sáttmáli um lýðræðiskipulag okkar; sáttmáli í búningi stjórnarskrár sem verði þjóðinni hjartfólgin. Markmiðið má ekkert vera minna. Því verður í starfi Stjórnlagaráðs að tryggja að þjóðin fái sem víðtækasta aðkomu að málinu. Það er hún sem er hinn raunverulegi stjórnarskrárgjafi.
Í ljósi alls þessa hef ég tekið boði Alþingis um skipun í Stjórnlagaráð.
27. mars 2011, Þorkell Helgason