[Þessi pistill birtist í Fréttatímanum 25. mars 2011]

Í síðustu grein minni í Fréttatímanum færði ég siðferðileg rök fyrir því að kjósendur ættu að hafa jafnt atkvæðavægi, óháð búsetu, þegar kemur að því að kjósa til Alþingis. Því markmiði má ná með ýmsu fyrirkomulagi kosninga og kjördæmaskipunar. En um leið þarf að huga að fleiri sjónarmiðum, t.d. eftirfarandi og byrja ég þá á forsendunni sem áður greinir:

  1. Kjósendur hafi jafnt atkvæðavægi óháð búsetu.
  2. Jafnræði sé með stjórnmálasamtökum.
  3. Æskilegt er að þingmannsefni bjóði sig fram í nærumhverfi kjósenda.
  4. Kjósendur ráði vali á þingsmannsefnum a.m.k. innan þess flokks sem þeir styðja, jafnvel þvert á flokka.

Þessi upptalning er hvergi nærri tæmandi, en látum hér við sitja í svipinn. Ég hef þegar tekið af skarið með þá skoðun að frá fyrsta markmiðinu megi ekki víkja, enda fæ ég ekki séð að það þurfi að vera í mótsögn við neitt hinna markmiðanna.

Með öðru markmiðinu er átt við pólitískt jafnræði í þeim skilningi að þingflokkar fái rétta tölu þingmanna miðað við landsfylgi. Segja má að það hafi leynt eða ljóst verið markmið stjórnarskrárgjafans  a.m.k. allt frá kjördæmabreytingunni miklu 1959. En þetta pólitíska markmið kann að stangast á við fjórða markmiðið. Um það markmið ætla ég að ræða í síðari pistlum. Einblínum því nú á annað markmiðið og að hluta til það þriðja, en að því fyrsta sjálfgefnu.

Allir þingmenn verði landskjörnir

Annað markmiðið er í raun krafa um hlutfallskosningar í einhverri mynd; að þingsætin skiptist á milli flokka því sem næst í beinu hlutfalli við landsfylgi þeirra. Í grundvallaratriðum er þá aðeins ein tegund lausna: Uppskipting í kjördæmi, eitt eða fleiri, ásamt með nægilega mörgum jöfnunarsætum til að tryggja flokkajafnræði. Kjördæmaskiptingin verður að sjálfsögðu að vera slík að ekki halli á kjósendur eftir búsetu. Í ljósi þess hve búseta er misdreifð um landið skapar uppskipting í kjördæmi veruleg vandkvæði: Annað hvort verða kjördæmin með mjög mismarga kjósendur – og þar með mismarga þingmenn – eða brytja verður höfuðborgarsvæðið niður í mörg smá og tilviljunarkennd kjördæmi.

Nú eru jöfnunarsætin níu og mega ekki vera færri. Raunar er engin trygging fyrir því að sú tala dugi til að ná megi flokkajafnræði. Meinið við jöfnunarsætin, eins og þau hafa verið útfærð, er að þeim er troðið upp á kjördæmin. Þannig fá t.d. stuðningsmenn Framsóknarflokksins á Suðvesturlandi þingmenn að norðaustan, e.t.v. þvert á vilja sinn. Það er og verður flækjufótur að búa til kosningakerfi þar sem blandað er saman fylgi úr kjördæmum við landsfylgi. Til er stærðfræðileg sönnun á því að enginn aðferð er til í þeim efnum sem er í senn gallalaus og einföld.

Að mínum mati er leiðin út úr þessum ógögnum einföld: Hún er sú að sleppa kjördæmunum, hafa alla þingsmenn landskjörna. Meginrök mín eru einfaldlega þau að við erum ein smáþjóð í einu eylandi. Við eigum og verðum að gæta hagsmuna okkar allra í jöfnum mæli. Ekki síst er það hlutverk þingmanna. Hrepparígur og kjördæmapot hafa valdið okkur ómældum skaða.

… er í takt við þróunina

Landsbyggðamenn óttast að með einu kjördæmi, með meirihluta íbúa á höfuðborgarsvæðinu, verði hlutur þeirra fyrir borð borinn. Ég er sannfærður um að svo verður ekki en við þeirri hættu má líka sjá með ýmsu móti. Fyrirkomulag framboða má hafa þannig að frambjóðendur geti höfðað sérstaklega til einstakra landshluta. Þetta gera Danir að nokkru leyti, svo og Hollendingar sem hafa sitt fjölmenna en litla land eitt kjördæmi. Í reynd er þetta fyrirkomulag líka í Þýskalandi þótt útfærslan þar sé óþarflega flókin. Ég mun útlista þessa hugsun síðar í tengslum við persónukjör og þá víkja samtímis að þriðja og fjórða markmiðinu; hvernig persónukjör og nærumhverfishugsun geta farið saman.

Er ekki kjördæmi í landfræðilegum skilningi fyrirbæri frá fyrri öldum og á vart við á tímum greiðra samgangna og rafrænna samskipta? Þeir sem ég samsama mig mest við og vildi helst vera í „kjördæmi“ með, búa ekki endilega í næsta landfræðilega umhverfi mínu. Grannar mínir eru öllu frekar í mínu félagslega umhverfi jafnvel þótt það kunni að spanna allt landið.

Sumir segja eitt landskjördæmi nýstárlegt og ótímabært fyrirkomulag. Því fer fjarri. Þegar árið 1927 var málið reifað á Alþingi, etv. fyrr. Þá hefur þróunin verið í þessa átt allan lýðveldistímann. 1944 voru kjördæmin 28 að tölu og aðeins með 1,5 þingsæti að meðaltali hvert. 1959 var þeim fækkað í 8 og aftur í 6 um síðustu aldamót. Það sem meira er þá hefur landið verið pólitískt eins og eitt kjördæmi allt frá 1987. Því er einsýnt hvert stefnt hefur.

Sagt er að stjórnlagaþingskosningin hafi afskrifað hugmyndina um landskjördæmi og persónukjör sérstaklega. Þessu er jafnvel öfugt varið að mínu mati. Um það má lesa meira á vefsíðunni https://thorkellhelgason.is/?p=715.

Að lokum: Útfærsla kosninga og kjördæmaskipunar er að nokkru leyti stærðfræðilegt og tæknilegt mál, en má þó ekki ráðast af þeim mælistikum einum. Þar er í fleiri horn að líta.