by Þorkell Helgason | jan 18, 2019 | Á eigin vefsíðu
Ég hef verið viðriðin kosningamál allt frá árinu 1982; fyrst sem stærðfræðilegur ráðgjafi við endurskoðun ákvæða um kosningar til Alþingis, bæði á árabilinu 1982-87 og aftur um og fyrir s.l. aldamót. Jafnfram hef ég liðsinnt landskjörstjórn við úthlutun þingsæta í öllum kosningum frá og með þeim árið 1987 til og með þeirra 2013.
Þegar ég af aldurssökum hætti að þjónusta landskjörstjórn eftir þingkosningarnar 2013 sendi ég henni e.k. kveðjubréf sem mig langar að halda til haga einmitt nú (2019) þegar endurskoðun kosningalaga stendur fyrir dyrum. Bréfið var þannig:
Til landskjörstjórnar.
Ég hóf afskipti af kosningamálum haustið 1982 en þá varð e.k. ráðgjafi flokksformanna sem þá voru að undirbúa breytingu á ákvæðum um kosningar til Alþingis. Síðan 1987 hef ég verið ráðgjafi landskjörstjórnar við úthlutun þingsæta. Nú er mál að linni og búið er að finna traustan eftirmann minn. Að vísu vænti ég þess að geta lokið mínu starfi með heildargreiningu á kosningaúrslitunum eins og ég hef gert á þrennum síðustu þingkosningum.
Ég vil með bréfi þessum þakka landskjörstjórn, fyrr og síðar, fyrir einkar ánægjulegt samstarf. En jafnframt vil ég með bréfinu hvetja til að allt fyrirkomulag kosninga verði tekið til endurskoðunar. Þar er ekki átt við hina pólitísku þátta málsins heldur um framkvæmdina alla. Kosningalög hafa ekki verið endurskoðuð í heild um afar langa hríð. Að hluta til má rekja ákvæðin öld aftur í tímann, jafnvel lengur.
Ég hef kynnt mér erlendar fyrirmyndir og ráðleggingar alþjóðastofnana og er eindregið þeirrar skoðunar að það eigi að vera einn lagabálkur um allar kosningar og þjóðaratkvæðagreiðslur, en vitaskuld með sérákvæðum um einstakar kosningar. Mikilvægur þáttur í þeim lögum ætti að vera að styrkja stöðu landskjörstjórnar og koma húsbóndavaldinu á eina hönd, hjá landskjörstjórn. Af erlendum fyrirmyndum vil ég sérstaklega benda á slík heildarkosningalög í Noregi.
Í kjölfar endurskoðunar er síðan brýnt að endurskoða allt gagnaflæði og gagnvinnslu og fella þetta saman í eitt kerfi. Á meðf. fylgiskjali, „Gagnaflæði við þingkosningar 2013“ , er þetta sýnt fyrir nýliðnar kosningar.
Eitt markmiða með endurbættu fyrirkomulagi og heilstæðu gagnakerfi ætti að vera að lækka kostnað við kosningar og þjóðaratkvæðagreiðslur, enda viðbúið að þeim muni fjölga á komandi árum.
Enda þótt formlegu starfi mínu fyrir landskjörstjórn sé að ljúka er ég reiðubúinn til að ljá þessum endurbótum lið, sé eftir því óskað.
Virðingarfyllst,
(sign. Þorkell Helgason)
by Þorkell Helgason | jan 15, 2019 | Á eigin vefsíðu
Ég hélt erindi (sem má finna með því að smella hér í málstofu í stærðfræðideild Tækniháskólans í München hinn 14. janúar 2019 undir heitinu “Bidimensional Election Systems: Apportionment methods in theory and practice”.
Erindið fjallaði um það sem ég og félagar mínir hafa lengi verið að bauka við, það stærðfræðilega viðfangsefni að úthluta þingsætum þegar úthlutunin er bundin í báða skó: Kjördæmin verða að fá sín sæti og engar refjar en flokkarnir sæti í samræmi við landsfylgi.
Þetta er hvergi nærri einfalt viðfangsefni. Þó er til ein, en aðeins ein, gerð úthlutana sem uppfyllir eðlilegar lágmarks gæðakröfur; svo sem að það má aldrei koma fyrir að listi fái fleiri sæti fækki atkvæðum hans; eða öfugt. En þetta getur gerst í flestum raunverulegum kosningakerfum, t.d. því sem er í kosningalögum á Íslandi.
Aðferðafræðin sem skilar hinni fullkomnu úthlutun þykir löggjafanum væntanlega of flókin. Þó er hún notuð í sumum kantónukosningum í Sviss. Því höfum við í svonefndum “Kosningafræðiklúbbi” verið að hugsa upp góðar nálgunaraðferðir og þróa hermilíkön til prófunar á kosningakerfum. Um þetta fjallaði erindi mitt.
Áheyrendur voru um fimmtán; stærð- og tölvunarfræðingar, bæði kennarar og doktorsnemar úr viðkomandi deildum Tækniháskólans, en hann er sá fremsti í Þýskalandi og þó víðar væri leitað. Það var gagnlegt að eiga skoðanaskipti við þessa sérfræðinga.
by Þorkell Helgason | okt 31, 2018 | Á eigin vefsíðu
Höfundur hefur á liðnum árum ritað skýrslur þar sem greind eru úrslit og úthlutun þingsæta í kosningum til Alþingis á þessar öld. Slíkar skýrslur um kosningarnar 2003, 2007, 2009 og 2013 voru unnar fyrir landskjörstjórn.
Nú hefur höfundur (á eigin ábyrgð) bætt við skýrslum um kosningarnar 2016 og 2017 en einnig stutt gerð með nokkrum lykilatriðum.
Greiningarskýrslurnar í heild er að finna hér:
Í skýrslunum eru dregnir fram ágallar á úthlutunaraðferðinni í gildandi kosningalögum:
- Jöfnuður milli þingflokka er engan veginn tryggður, enda náðist hann ekki í neinum af þrennum síðustu kosningum; hvorki 2013, 2016 né heldur 2017.
- Smávægilegar breyting á fylgi eins lista getur leitt til mikils hringlanda í skiptingu þingsæta milli annarra lista.
- Aðferðin getur leitt til nykurs, getur leitt til „nykurs“, þ.e.a.s. að atkvæðaaukning lista getur haft för með sér fækkun sæta eða öfugt minnki fylgið. Þetta fyrirbæri má finna bæði í niðurstöðum kosninganna 2009 og 2017.
Því þarf að taka upp betri aðferð við úthlutun jöfnunarsæta. Ein slík er „forgangsregla“ sem er nær oftast að finna þá úthlutun sem er fræðilega best í vissum, skilgreindum skilningi.
by Þorkell Helgason | okt 8, 2018 | Á eigin vefsíðu
Í þingkosningunum fer hluti atkvæða forgörðum vegna ákvæða um þröskuld, um lágmarksfylgi við úthlutun jöfnunarsæta, en flokkur á ekki rétt á slíkum sætum fái hann ekki a.m.k. 5% gildra atkvæða á landinu öllu. Sérstaklega voru áhrif þessa áberandi í kosningunum 2013. Við þessu má sjá með því að kjósendum verði gert kleift að tilgreina flokk til vara þannig að atkvæði þurfi ekki að daga uppi áhrifalaus nái sá flokkur er hann helst kýs ekki tilskildu lágmarksfylgi. Reifuð er útfærsla á slíku fyrirkomulagi í pistlinum „Þröskuldur með sveigjanleika“.
by Þorkell Helgason | maí 8, 2018 | Á eigin vefsíðu
[Eftirfarandi pistill birtist í Fréttablaðinu 8. maí 2018 og samdægurs á visir.is; sjá http://www.visir.is/g/2018180509166/fyrirkomulag-kosninga-er-forneskjulegt-]
Skammt er til sveitarstjórnarkosninga en framboðsfrestur ekki útrunninn, þegar þetta er skrifað. Engu að síður er löngu byrjað að kjósa í atkvæðagreiðslu utan kjörfundar og er þá kjörseðillinn autt blað. Þess munu vart dæmi um víða veröld að unnt sé að kjósa þannig út í bláinn, enda hefur lýðræðis- og mannréttindaskrifstofa Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) margsinnis gert athugasemdir við þetta fyrirkomulag. Þetta er aðeins eitt dæma um hvað kosningalög okkar eru um margt forneskjuleg, bæði lögin um kosningar til Alþingis svo og þau um kjör sveitarstjórna. Aldrei hefur verið gert hreint í þessum lagabálkum og ákvæðin færð til nútímahorfs. Þannig má t.d. ætla að enn sé kosið á opnum fundum, sbr. hugtakið „utankjörfundaratkvæðagreiðsla“.
Þó liggja hjá Alþingi hugmyndir um verulegar endurbætur á ákvæðum um framkvæmd þingkosninga. En það sama á við um þessi grundvallarlög og sjálfa stjórnarskrána: Alþingi virðist aldrei hafa dugnað til að taka á málinu. Eða skortir pólitískan vilja?
Af nógu er að taka eigi að benda á ákvæði sem laga þarf í kosningalögum. Þegar hefur verið nefndur sá afkáraleiki að framboð liggi ekki fyrir þegar kosning hefst. Þá erum við langt á eftir flestum grönnum okkar í því að auðvelda kjósendum að neyta kosningaréttar síns. Bréfkosningar þekkjast hér ekki, en sums staðar nýtir stór hluti kjósenda sér þá leið. Um rafrænar kosningar er nánast ekkert rætt, hvorki um kosti þeirra né galla.
Ofangreind dæmi lúta að framkvæmd kosninga en lýðræðisþáttur málsins er þó mikilvægastur.
Vita kjósendur að þeir geta nánast engin áhrif haft á röð frambjóðenda á listum við sveitarstjórnarkosningar? Útstrikanir eða umraðanir eru tilgangslausar. Þetta er þó ekki alveg markleysa í þingkosningum, enda var vægi slíkra breytinga aukið talsvert með lögum frá aldamótaárinu. En það hefur „gleymst“ í 18 ár að gera hliðstæðar breytingar á lögum um sveitarstjórnarkosningar. Þar gilda enn ákvæði frá 1987 sem gerðu kjósendur nær valdalausa um listabreytingar. Víðast hvar í grannlöndunum er þó kjósendum veitt meira vald til að velja sér frambjóðendur í kosningum til sveitarstjórna en til þjóðþinga. Á Íslandi er þessu öfugt farið! Að mati margra kjósenda skiptir þó meira máli hvaða einstaklingar veljast til sveitarstjórna en hvaða flokk þeir skipa.
Nefna má annað sem hefur dagað uppi í meðferð kosningalaga. Í þingkosningum geta framboð spyrt sig saman í vísi að kosningabandalögum. Ákvæðin eru þó ófullkomin og hafa því ekki verið nýtt. Með slíkum bandalögum væri þó unnt að gefa kjósendum vísbendingu um það hvaða fylkingar gætu staðið saman að myndum ríkisstjórnar eftir kosningar í stað þess að þeim sé haldið í óvissu með tuggunni „að ganga óbundin til kosninga“. Í lögum um sveitarstjórnarkosningar er ekki gefinn kostur á neinum slíkum listasamsteypum. Í þeim fjölda framboða, sem nú stefnir í, a.m.k. í Reykjavík, væri fengur að því fyrir kjósendur að framboðin sýndu lit með því að hópa sig eitthvað saman.
Hér er lítt tóm til að fjalla um brýnar lýðræðisumbætur í lögum um þingkosningar. Nefna má virkt persónukjör, eins og nær 80% kjósenda tjáðu sig fylgjandi í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012. Eða þá það ranglæti að vægi kjósenda er enn misjafnt. Vildu þó um 2/3 fyrrgreindra kjósenda fullan jöfnuð. ÖSE hefur þrívegis gert alvarlegar athugasemdir við þessi ójöfnu mannréttindi íslenskra kjósenda.
Þá er það ámælisvert að það skuli geta gerst að flokkar fái fleiri þingsæti en landsfylgi þeirra veitir þeim rétt til. Að ekki sé komið í veg fyrir þetta kann að vera stjórnarskrárbrot. En því miður höfum við engan dómstól sem tekur á stjórnlagabrotum með almennum hætti. Þó hefur þessi ójöfnuður milli flokka haft pólitískar afleiðingar. Síðasta ríkisstjórn, sú sem sat lungann úr árinu 2017, hafði eins sætis meirihluta á Alþingi með hjálp þessa lýðræðishalla.
Stjórnlagaráð gerði margvíslegar og útfærðar tillögur um bætt fyrirkomulag kosninga. En þeim, eins og öðrum tillögum ráðsins, hefur verið stungið undir stól. Þó hafa 2/3 hlutar kjósenda í almennri atkvæðagreiðslu kallað eftir nýrri stjórnarskrá á grundvelli tillagna ráðsins.
Höfundur sat í stjórnlagaráði