by Þorkell Helgason | sep 12, 2015 | Á eigin vefsíðu
[Eftirfarandi pistill birtist í tímaritinu Sjávarafli, ágústhefti 2015, bls. 4. Texti greinar minnar fylgir hér á eftir. Þar á eftir birtist forsíða tímaritsins og fæst þá aðgangur að heftinu um leið.]
Vart er lengur um það deilt að stjórna þarf aðgengi að takmörkuðum auðlindum eins og fiskistofnum. Takmörkun á veiðinni getur verið með ýmsu móti en flestir hag- og fiskifræðingar telja að aflakvótakerfi sé skilvirkasta aðferðin í því skyni.
Kvótunum var upphaflega úthlutað ókeypis en hafa síðan gengið kaupum og sölum. Það hefur þjóðin ekki getað sætt sig við – og gerir ekki enn, að mati greinarhöfundar. Því hefur útgerðin ekki getað notið til fulls kosta kvótafyrirkomulagsins og eilíft búið við óvissu um framtíð þess. Ástæðan er sú að það skortir siðferðilegan grundvöll undir kvótakerfið, grundvöll sem bæði þjóðin og þeir sem að sjávarútvegi starfa geta við unað.
Makrílmálið angi af sama meiði
Í vor leið var lagt fram stjórnarfrumvarp um úthlutun makrílkvóta með því nýmæli að kvótum skyldi ekki lengur úthlutað til eins árs í senn án frekari skuldbindinga. Í þess stað skyldi úthlutunin vera ótímabundin nema hvað stjórnvöld gætu afturkallað hana, en til þess þurfi sex ára aðdraganda. Eigi að segja ákvæðinu upp þurfi því meiri hluti á Alþingi að vera sama sinnis í tvö ef ekki þrjú kjörtímabil í röð. Það væri því jafnvel erfiðara að afturkalla makrílúthlutunina en að breyta sjálfri stjórnarskránni.
Hrundið var af stað undirskriftasöfnun til að hindra framgang þessa máls og skrifuðu yfir 53 þúsund kjósendur undir áskorun til „forseta Íslands að vísa í þjóðaratkvæðagreiðslu hverjum þeim lögum sem Alþingi samþykkir þar sem fiskveiðiauðlindum er ráðstafað til lengri tíma en eins árs á meðan ekkert ákvæði um þjóðareign á auðlindum hefur verið sett í stjórnarskrá og þjóðinni ekki verið tryggt fullt gjald fyrir afnot þeirra.“ Fjöldi þeirra sem skrifaði undir eru um 22% kosningabærra manna í landinu.
Makrílfrumvarpið var ekki smámál um smáan fisk heldur kynni það að ryðja brautina að endanlegri einkavæðingu fiskimiða við Íslandsstrendur. Því var frumvarpið ógæfuspor. Sjávarútvegsráðherra hlustaði á rökin og dró frumvarpið til baka, enda mun það ekki hafa verið ætlun hans að festa makrílúthlutunina í sessi, heldur hið gagnstæða. Fyrir þetta á hann hrós skilið.
Siðlegur grunnur kvótakerfisins
Nú þarf að vinna að varanlegri lausn sem tryggir gott kvótakerfi, en þá verður ekki undan því vikist að stjórnarskrárbinda ákvæði um raunverulega þjóðareign á sameiginlegum auðlindum; tryggja jafnræði í aðgengi að þeim og eðlilegt gjald fyrir afnot þeirra.
Ekki er sanngjarnt að innkalla kvótana fyrirvaralaust. Það er til millileið sem í senn tryggir fyllstu hagkvæmni, stóreykur jafnræði í aðgangi að veiðunum og veitir núverandi útgerðum og þar með kvótahöfum eðlilega aðlögun um leið og tekið er tillit til forsögunnar.
Þessi leið hefur lengi legið fyrir. Í henni er gengið út frá núverandi stöðu, þ.e.a.s. þeirri að kvótarnir eru, þegar af stað er lagt, í höndum tiltekinna útgerða. Aflahlutdeildum er síðan endurúthlutað nær óbreyttum frá ári til árs en þó skertar lítillega í hvert sinn, segjum 8% á hverju ári. Þau 8% eru síðan seld á opinberu uppboði og lúta sömu skerðingarákvæðum. Þeir sem vilja hefja útgerð geta því aflað sér kvóta á þessum uppboðsmarkaði. Þeir sem fyrir eru og vilja halda sínum hlut óskertum þurfa árlega að kaupa það sem nemur skerðingunni.
Sýna má fram á með hefðbundnum núvirðisreikningum að þessi leið fetar þann meðalveg að núverandi kvótahafar og þjóðin skipta á milli sín verðmæti aflahlutdeildanna nokkurn veginn til helminga. Það sem meira er þá ætti útgerðin að vera betur sett með slíkt kerfi en pólitískt ákvarðað veiðigjald á grundvelli hæpinna útreikninga og sífellda óvissu um framtíð alls kerfisins. Pólitísk verðlagning gæða heyrir til sögu haftáranna um og upp úr miðri s.l. öld en er nú tímaskekkja sem stingur í stúf við þann markaðsbúskap sem vel hefur reynst.
Í huga greinarhöfundar er ekki aðalatriðið hvort slíkt kerfi skilar eiganda fiskauðlindarinnar, þjóðinni, meiru eða minna í vasann en núverandi veiðigjöld, heldur það að jafnræði sé komið á og markaður en ekki pólitík ákvarði hvert afnotagjaldið skuli vera. Um leið er sanngjarnt að sá auðlindaarður, sem þannig er innheimtur, renni a.m.k í byrjun, í mestum mæli til þeirra byggða þaðan sem útgerð er stunduð. Þar má nota féð til að styrkja búsetu með ýmsum hætti. Þetta er betri leið en flókin útfærsla byggðakvóta, löndunarkvaða eða annarra kúnsta í margslungnu kerfi.
Niðurstaðan er sú að festa þarf kvótakerfið í sessi sjávarútveginum og þjóðinni til hagsbóta. En þetta verður aðeins gert þannig að fólki finnist ekki að verið sé að afhenda verðmæti til meintra útvalinna án eðlilegs endurgjalds. Markaðsfyrirkomulag er hlutlaus leið að þessu marki.
Þorkell Helgason, áhugamaður um sanngjarnt kvótakerfi
by Þorkell Helgason | maí 22, 2015 | Á eigin vefsíðu
Sýnimyndir með erindi Þorkels Helgasonar á þessum fundi Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga
21. maí 2015 á Grand hótel í Reykjavík, er að finna hér sem pdf-skjal: ÞHMarkaður á makrílmiðum birt. (Glæra 10 hefur verið lítillega lagfærð.)
by Þorkell Helgason | maí 6, 2015 | Á eigin vefsíðu
[Eftirfarandi pistill – hér lítilega lagfærður – birtist á vefsíðunni visir.is 6. maí 2015; sjá http://www.visir.is/kvotakerfid-er-gott—en-byggt-a-sidferdilegum-sandi/article/2015150509554. Styttri gerð birtist í Fréttablaðinu sama dag í kálfinum Markaðurinn bls. 10.]
ÞORKELL HELGASON SKRIFAR
Vart er lengur um það deilt að stjórna þarf aðgengi að takmörkuðum auðlindum eins og veiðum úr fiskistofnun. Takmörkun á afla getur verið með ýmsu móti en flestir hag- og fiskifræðingar virðast orðnir sammála um að skilvirkasta kerfið er kvótakerfi. Hagkvæmnin í veiðunum er best tryggð með því að kvótarnir séu eins og hver önnur aðföng, t.d. olía og veiðarfæri, sem afla má á markaði allt eftir því sem framboð leyfir.
Engum dytti í hug að skammta olíu úr hnefa stjórnvalda og afhenda langt undir markaðsverði. En einmitt þar stendur hnífurinn í kúnni með kvótakerfið. Kvótunum var upphaflega úthlutað ókeypis en hafa síðan gengið kaupum og sölum. Það hefur þjóðin ekki getað sætt sig við – og gerir ekki enn. Því hefur útgerðin ekki getað notið til fulls kosta kvótafyrirkomulagsins og eilíft búið við óvissu um framtíð þess. Ástæðan er sú að það skortir siðferðilegan grundvöll undir kvótakerfið, grundvöll sem bæði þjóðin og þeir sem að sjávarútvegi starfa geta við unað.
Strax í upphafi var bent á þennan vanda og á þá lausn að hin takmörkuðu gæði væru falboðin af hinu opinbera fyrir hönd eigendum þeirra, þjóðarinnar. Sjá t.d. grein eftir undirritaðan í Morgunblaðinu 4. nóvember 1987. Því er þar spáð að „ókeypis úthlutun [muni valda] eilífum ágreiningi. Sífellt verður reynt að lappa upp á úthlutunarreglurnar og tekið tillit til æ fleiri sjónarmiða, þar til kerfið er orðið óskapnaður. Þrátt fyrir það verður það aldrei sanngjarnt. Út úr þessum ógöngum er ekki nema ein fær leið: að hið opinbera selji kvótana á markaðsverði, jafnvel á eins konar uppboði.“[1] Allt á þetta enn við. Einmitt hefur verið lappað upp á kerfið og hefði það verið kórónað með svokölluðu „pottakerfi“ sem þriðji síðasti sjávarútvegsráðherra lagði til.
Margir vilja leysa siðferðisvandann með því að banna eða a.m.k. takmarka framsal á kvótum. Það er afleit leið af tvennum sökum. Í fyrsta lagi vegna þess að vandinn er ekki leystur með slíku banni. Takmörkuð gæði verða ævinlega að verðmætum og viðskipti með þau losna alltaf einhvern veginn úr viðjum. Ef ekki má framselja kvótana fá skip með kvótum aukið markaðsverð og það jafnvel þótt um ryðkláfa sé að ræða. En í öðru lagi er hagræðing í útgerð stórlega skert með hindrunum af hverju tagi.
Siðlegt kvótakerfi
Nú er kvótakerfið búið að vera við lýði í rúma þrjá áratugi. Kvótar hafa skipt um eigendur þrátt fyrir óvissu um framtíð kerfisins. Því væri ekki sanngjarnt að innkalla alla kvóta fyrirvaralaust. En það er til millileið sem í senn tryggir fyllstu hagkvæmni, stóreykur jafnræði í aðgangi að veiðunum og veitir núverandi útgerðum og þar með kvótahöfum eðlilega aðlögun um leið og tekið er tillit til forsögunnar hvort sem það eru fyrri kvótakaup eða uppsöfnuð veiðireynsla. Og það sem mestu máli skiptir: Lausnin færir auðlindirnar smám saman til baka til eigandans, þjóðarinnar, sem þá nýtur sanngjarns arðs af sinni eign.
Þessi leið hefur gengið undir ýmsum nöfnum en verður hér nefnd markaðsleið. Þar er gengið út frá núverandi stöðu, þeirri að nú eru kvótarnir í höndum tiltekinna útgerða. Aflahlutdeildum er síðan endurúthlutað frá ári til árs en þær skertar lítillega um leið, segjum 5-10% á hverju ári. Það sem þá situr eftir skal selt á opinberu uppboði og háð fyrrnefndum skerðingum strax árið eftir. Þeir sem fyrir eru og vilja halda sínum hlut óskertum þurfa því árlega að kaupa það sem nemur umræddri skerðingu, þ.e. 5-10% af eigin kvóta, en þeir sem vilja koma nýir í útgerð geta aflað sér kvóta á þessum uppboðsmarkaði. Sýna má fram á með núvirðisreikningum að þessi leið fetar þann meðalveg að núverandi kvótahafar og þjóðin skipta á milli sín verðmæti aflahlutdeildanna nokkurn vegin til helminga. Jafnframt er líklegt að verðmæti kvótanna hækki við upptöku markaðsleiðarinnar þar sem hún rennir stoðum siðferðis undir allt fyrirkomulagið sem ætti því að geta orðið til frambúðar. Lögspekingar hafa talsvert fjallað um það hvort kominn sé hefðarréttur á kvótaeignina. Almenna niðurstaðan er sú að ekki megi innkalla kvótana að fullu og það fyrirvaralítið en sú endurúthlutunarleið sem hér er nefnd sé lögmæt og leiði ekki til réttar á skaðabótum.
Þeir sem sjá ofsjónum yfir sköttum og gjöldum til að standa undir velferðarsamfélaginu hamra með nokkrum rétti á því að allar álögur á atvinnuvegina skapi hættu á atvinnuleysi þar sem fyrirtækin kunni að þurfa að draga saman seglin þeirra vegna. Gjöld sem ákvörðuð eru á markaði fyrir afnot af takmörkuðum auðlindum eru ekki háð þessum annmörkum. Uppboð á kvótum leiðir ekki til þess að fiskveiðar dragist saman. Uppboðshaldarinn, ríkið, mun taka öllum tilboðum þar til allt það sem er til ráðstöfunar gengur út. Ári illa í sjávarútvegi verða tilboðin sem því nemur lægri, en allt mun að lokum seljast. Auðlindagjöld með uppboði er því í senn efnahagslega skaðlaus en um leið sveiflujafnandi fyrir útgerðina.
Hugmyndin um þessa markaðsleið er nánast jafngömul kvótakerfinu og á sér auk þess erlendar fyrirmyndir. Hún var ítarlega kynnt í svokallaðri „sáttanefnd“ í tíð fyrrverandi ríkistjórnar (pottanefndinni) í skýrslu sem við Jón Steinsson hagfræðingur sömdum, en hún sem annað í þeirri nefnd dagaði uppi.[2] En nú hefur hreyfingin Viðreisn hafið merkið á loft, sbr. t.d. grein forvígismanns hennar, Benedikts Jóhannessonar, í Fréttablaðinu 30. apríl s.l.
Makrílfrumvarpið er ógæfuspor sem verður að stöðva
Stjórnarfrumvarp hefur verið lagt fram á Alþingi um úthlutun makrílkvóta. Úthlutunin á að mestu að byggja á veiðireynslu s.l. þrjú ár. Það er í stíl við það sem verið hefur. Nýmælið er að aflahlutdeildum er ekki lengur úthlutað eitt ár í senn án frekari skuldbindinga. Í þess stað er úthlutunin í raun ótímabundin nema hvað stjórnvöld geta afturkallað hana, en til þess þarf sex ára aðdraganda. Eigi að segja ákvæðinu upp þarf meiri hluti á Alþingi að vera sama sinnis í tvö ef ekki þrjú kjörtímabil í röð og a.m.k. einar kosningar á milli. Breyttur meiri hluti á þingi getur dregið uppsögnina til baka hvenær sem er. Það er því jafnvel erfiðara að afturkalla makrílúthlutunina en að breyta sjálfri stjórnarskránni.
En hættan af þessu óheillafrumvarpi er enn meiri. Segjum að ákvæði um auðlindir í almannaeign komist loks í stjórnarskrá, eins og og stjórnlagaráð lagði til og um þrír fjórðu hlutar kjósenda studdu í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2012. Þá væri samt ekki unnt að hrófla við makrílúthlutuninni næstu sex til sjö árin á eftir án þess að skapa ríkissjóði hættu á risaháum skaðabótakröfum. Ennfremur er eins víst að handhafa kvóta í öðrum tegundum myndu í krafti jafnræðis krefjast sömu bóta. Núverandi sjávarútvegsráðherra hefur raunar sagt að sex ára uppsagnarfrestur sé of stuttur[3] enda hafði hann fyrr reifað hugmyndir um að kvótahafar fái almennt að halda kvótunum óáreittir í 23 ár og það með sjálfvirkri framlengingu. Það er því augljóst að það stefnir í varanlegt afsal þjóðarinnar á fiskimiðunum sé ekki spornað kröftuglega við. Á móti kemur að vísu veiðigjald en það er sýnd veiði en ekki gefin. Gjaldið verður ákveðið af stjórnarmeirihluta á hverjum tíma allt eins og pólitísku kaupin gerast á eyrinni, en gjaldið nú svarar ekki nema til brots af markaðsvirði kvótanna.
Í stað tillögu sjávarútvegsráðherra um ráðstöfun á makrílkvótunum væri kjörið að beita nú framangreindri fyrningar- og uppboðsleið á þessar veiðar. Veiðireynsla, sem þó er ekki löng, væri virt í byrjunarstöðunni og því sársaukalítið fyrir útgerðina að fara þessa markaðsleið og hljóta að launum stuðning þjóðarinnar, eiganda auðlindarinnar.
Makrílfrumvarpið er ekki smámál um smáan fisk. Óbreytt mun frumvarpið ryðja brautina að endanlegri einkavæðingu fiskimiðanna við Íslandsstrendur. Því er frumvarpið ógæfuspor sem verður að stöðva. Lesandinn getur lagt sitt af mörkum með því að styðja undirskriftasöfnun á thjodareign.is
[2] Fylgiskjal 8 „Ráðstöfun aflahlutdeilda með samþættingu endurúthlutunar og tilboðsmarkaðar“með skýrslu um endurskoðun á stjórn fiskveiða, rit sjávarútvegsráðuneytisins nr. 53/2010; sjá http://www.atvinnuvegaraduneyti.is/media/Skyrslur/Fylgiskjal8_Tilbodsleid.pdf.
[3] Hádegisfréttir í ríkisútvarpinu 1. maí 2015, http://www.ruv.is/frett/makrilkvoti-til-sex-ara-mjog-stuttur-timi
by Þorkell Helgason | sep 6, 2012 | Á eigin vefsíðu
[Birtist í Fréttablaðinu 5. september 2012.]
Hinn 20. október n.k. verður haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá. Auk almennrar spurningar um grundvöllinn verður spurt um afstöðu til nokkurra lykilatriða í tillögum ráðsins. Önnur spurningin, sem lýtur að einu þessara atriða, felst í fyrirsögn þessa pistils en er í heild sinni þannig: „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign?“
Ekki virðist mikill ágreiningur meðal þjóðarinnar eða stjórnmálaflokkanna um svarið. Flestir virðast vilja stjórnarskrárvarið ákvæði um þjóðareign á náttúruauðlindum og eru þá einkum fiskimiðin og orkulindirnar hafðar í huga. En ágreiningur hefur verið um merkingu hugtaksins þjóðareign, einkum meðal lögfræðinga. Til eru þeir sem líta á þetta sem hátíðlega en merkingarlitla yfirlýsingu. Aðrir gefa minna fyrir orðið en vilja gæða hugtakið innihaldi og þá einkum því hvernig beri að nýta auðlindirnar auk skýrra ákvæða um endurgjald fyrir afnot af þjóðareignum.
Málið er eitt þeirra sem Alþingi fól stjórnlagaráði að taka sérstaklega til skoðunar. Það var gert eins og sést í ýtarlegum ákvæðum, einkum í 34. gr. í frumvarpi ráðsins. Að beiðni Alþingis var málið aftur yfirfarið á fundum þorra ráðsmanna 8.-11. mars s.l. Meginákvæðin í frumvarpsgreininni (eftir yfirferðina) eru þessi:
- A1: Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar.
- A2: Enginn getur fengið auðlindirnar, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja.
- A3: Til auðlinda í þjóðareign teljast náttúrugæði … sem ekki eru í einkaeigu.
- A4: Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn.
- A5: Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.
Fyrsti málsliðurinn, A1, er yfirlýsing um þjóðareign. Með A3 er skýrt tekið fram að ekki er verið að sölsa einkaeigur undir ríkisvaldið. Um innihaldið, meðferð þjóðareigna, er fjallað í liðum A3, A4 og A5. Vegur þar einna þyngst að fyrir hagnýtinguna eigi að greiða „fullt gjald“, sem er orðalag sótt í ákvæði núgildandi stjórnarskrár um eignarnám, og að nýtingarrétturinn skuli veittur á „jafnræðisgrundvelli“.
Spurningin um þjóðareignina í atkvæðagreiðslunni 20. október snýst að formi til aðeins um yfirlýsinguna, ígildi A1, en ætla verður að Alþingi muni skoða jáyrði við henni sem efnislegan stuðning við alla 34. gr. í frumvarpi ráðsins.
Rök fyrir JÁ við spurningunni
Ekki er tóm til að rekja þau fjölmörgu rök sem fram hafa komið um þjóðareign á auðlindum og verður aðeins tæpt á nokkrum:
- Á þjóðfundinum 2011 var áberandi sú skoðun að mæla bæri fyrir um eign þjóðarinnar á auðlindum í stjórnarskrá og að arður af nýtingu þeirra rynni að meginhluta til eigandans, þjóðarinnar.
- Með yfirlýsingu um þjóðareign á auðlindum og öðrum takmörkuðum gæðum sem ekki eru í einkaeigu er verið að taka af skarið um mál sem hefur velkst lengi fyrir þingi og þjóð. Nú er tækifæri að taka af skarið þannig að ekki verði um villst.
- Ekki síst er mikilvægt við hvers kyns samninga við erlend ríki eða ríkjasamtök að það sé á hreinu að auðlindir lands og sjávar eru í eigu íslensku þjóðarinnar.
- Verið er að vinna að afmörkun landareigna í einkaeigu. Afgangurinn á ekki að verða einskis manns land heldur ótvíræð sameign þjóðarinnar.
- Nýting þjóðareigna, fiskimiða eða orkulinda, á áfram að vera í höndum einstaklinga og fyrirtækja. Því er ekki verið að breyta með yfirlýsingu um þjóðareign.
- Stjórnarskrárákvæðin nýju setja því siðferðilegar skorður hvernig með skal fara við úthlutun nýtingarleyfa. En það verður áfram hlutverk Alþingis að setja leikreglurnar. Ákvæðin mæla t.d. hvorki fyrir um tiltekið kvótakerfi né einhverja aðra fiskveiðistjórnunaraðferð.
Rök fyrir NEI við spurningunni
Andstæðingar þjóðareignar hafa ekki tjáð sig mikið með beinum hætti heldur fremur þannig að gera eigi hlutina einhvern veginn öðru vísi:
- Sumir lögfræðingar segja hugtakið þjóðareign vera loðið og skapa ýmsan skilgreiningarvanda. Því er til að svara að í stjórnarskrárákvæðinu og í umræddri 34. gr. í frumvarpi ráðsins er kveðið skýrt á um merkingu orðsins.
- Sagt hefur verið að þjóðareign feli í sér þjóðnýtingu sem sé af hinu vonda. Þetta er á misskilningi byggt þar sem stjórnlagaráð tekur skýrt fram að þjóðareign nái aðeins til þeirra réttinda sem ekki eru þegar í einkaeigu. Hún nær einungis til þess sem enginn hefur með réttu getað eignað sér.
- Sumir hafa áhyggjur af því að ný eða breytt ákvæði um þjóðareign og afnotaskilmála setji allt á hvolf. Ég tel þetta óþarfa áhyggjur. Það er undir löggjafanum komið að tryggja að framkvæmd þjóðareignarákvæðisins eigi sér eðlilegan aðdraganda og aðlögunartíma.
Ályktun
Pistilhöfundur mælir með jáyrði við spurningunni. Þar með verði tryggt að sameiginlegur auður lands og sjávar haldist hjá þjóðinni en hverfi ekki til einstaklinga hvort sem er innan lands eða utan.
by Þorkell Helgason | nóv 22, 2010 | Á eigin vefsíðu
Ég hef nær alla starfsæfi mína komið að stefnumótun um nýtingu náttúruauðlinda. Í pistlinum Játningar fyrrverandi orkumálastjóra geri ég grein fyrir aðkomu minni að orku- og umhverfismálum. En ég hef líka langa reynslu af fiskveiðistjórnunarmálum. Bæði var að ég sinnti ýmissi reiknilíkanagerð á því sviði á prófessorsárum mínum en var einnig í vinnuhópum og nefndnum sem mótuðu kvótakerfið á fyrstu árum þess. Síðastliðið sumar var ég fenginn til að útfæra svokallaða tilboðsleið við útdeilingu á kvótum fyrir stjórnskipaða nefnd um fiskveiðistjórnunarkerfið.
Í báðum þessum málaflokkum hef ég reynt að beita mér fyrir því tvennu að auðlindirnar séu nýttar af varfærni og með sjálfbærni í huga og hins vegar að aðgengi að nýtingu þeirra sé á jafnréttisgrundvelli og að eigandinn, þjóðin, njóti eðlilegs arðs. Þetta hvort tveggja er lífsnauðsynlegt til að friður geti skapast í þjóðfélaginu og að viðkomandi atvinnugreinar geti fengið starfsfrið okkur öllum til hagsbóta.
Ég nefndi það strax í upphafi við ráðamenn sjávarútvegsmála að kvótakerfið myndi leiða til þess að kvótarnir fengju umtalsvert verðgildi og nauðsynlegt væri að ákveða fyrirfram hvernig þeim verðmætum yrði skipt milli útgerðar og þjóðarinnar. Viðbrögðin voru þau að fyrst skyldum við sjá arðinn verða til, áður en við færum að ráðstafa honum. Ég svaraði að þá yrði það of seint; þá væru illdeilurnar hafnar. Ég hef því miður reynst sannspár. Ég er sannfærður um að hin erfiða staða sjávarútvegs nú væri mun betri hefði kvótunum strax verið ráðstafað með tilboðum, með eðlilegum forgangi þeirra sem voru þá í útgerð. Þá hefði kvótaverðið og þar með skuldsetning útgerðarinnar ekki farið út fyrir öll velsæmismörk.
Hvað vil ég þá nú fá sett í stjórnarskrá? Áður en ég svara vil ég benda á að það eru fleiri gæði sem þarf að takmarka aðgang að en orkulindir og fiskimið. Nefna má losunarheimildir á gróðurhúsalofttegundum og fjarskiptarásir af ýmsu tagi. Og fleiri tilvik munu koma til þar sem gæðunum þarf að skipta.
Í 72. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um friðhelgi eignarréttarins. Í þá grein vil ég halda. En hvernig væri að næst á eftir henni kæmi önnur grein sem kvæði á um eign á almannagæðum? Ég ætla mér ekki þá dul að geta einn og óstuddur fært slíkt ákvæði í endanlegt letur; um það og allt annað sem ég mun leggja til, nái ég kjöri á stjórnlagaþing, vil ég hafa samráð við félaga á þinginu, sérfræðinga og almenning. En efnislega vil ég að greinin sé víðtæk en einföld og kveði á um þetta:
Takmörkuðum gæðum í eigu eða undir forsjá almannavaldsins má ekki ráðstafa varanlega. Heimilt er að framselja tímabundinn nýtingarrétt á þeim enda komi fullt verð fyrir. Þó er skylt að taka eðlilegt tillit til hagsmuna þeirra sem hafa fært sér gæðin í nyt áður en slík gjaldtaka er tekin upp.
Orðlagið „komi fullt verð fyrir“ er sótt beint í eignarnámsákvæði 72. greinarinnar.
Margs er að gæta við slíkt ákvæði, ekki síst fyrirvarans í seinni málsliðnum. Til útskýringar er best að taka fiskveiðikvótana sem dæmi. Ég hef frá upphafi verið þeirrar skoðunar að það ætti að bjóða þá upp. Það má gera að settum ýmsum skilyrðum svo sem um tengsl við sjávarbyggðir. En auðvitað má spyrja hvort ekki sé orðið of seint að taka slíkt kerfi upp nú einkum í ljósi þess að margir hafa keypt sér kvóta dýrum dómum af öðrum útgerðarmönnum. Hvort þá verði ekki ranglætið ekki tvöfalt með því að innkalla þá kvóta og láta menn síðan kaupa þá aftur á uppboði. Það er með þetta eins og t.d. lausnina á skuldavanda heimilanna að það er engin lausn til sem getur ekki virst ranglát gagnvart einhverjum. En af þessum sökum tel ég að innköllun á núverandi fiskveiðikvótum verði að vera varfærnisleg. Í mínum huga hefur innköllunin fremur táknræna merkingu, þá að staðfesta að fiskimiðin séu þjóðareign, en að innheimta eigi umtalsverðan auðlindaarð til þjóðarinnar. Því gæti ég séð fyrir mér að innköllunarhlutfallið væri mjög lágt, t.d. 3% á ári.
Nú hef ég reifað ákvæði í stjórnarskrá um ráðstöfun á nýtingarrétti á takmörkuðum gæðum. Þá er ekki nema hálf sagan sögð. Nýting auðlinda stangast í flestum tilfellum á við viðhald og vernd náttúrugæða. Málamiðlun í þessum efnum er óhjákvæmileg og bráðnauðsynleg. Við erum þegar búin að ganga á náttúruna þó ekki væri nema með byggð, ræktun og vegagerð. Flest af þessu er landgæðanýting sem við viljum ekki vera án.
Þetta breytir því ekki að ég styð að í stjórnarskrá komi ákvæði um umhverfismál og náttúruvernd. Ég er ekki sérfræðingur í þeim málum og mun þar hlusta gaumgæfilega á tillögur annarra. Sem viðmið vil ég hafa orðalag úr frumvarpi til breytingar á stjórnarskránni sem foringjar fjögurra flokka lögðu fram á vorþinginu 2008, en þar segir m.a.
„Allar náttúruauðlindir ber að nýta á sem hagkvæmastan hátt á grundvelli sjálfbærrar þróunar til hagsældar fyrir þjóðina og komandi kynslóðir.
Allir eiga rétt til umhverfis sem stuðlar að heilbrigði og þar sem líffræðilegri fjölbreytni er viðhaldið eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Réttur almennings til upplýsinga um ástand umhverfis og áhrif framkvæmda á það, svo og kostur á þátttöku í undirbúningi ákvarðana sem áhrif hafa á umhverfið, skal tryggður með lögum.“
Samandregið er afstaða mín í öllum þessum efnum skýr:
- Ég vil að aðgengi að takmörkuðum gæðum í almannaeigu sé á jafnræðisgrundvelli og háð eðlilegu afnotagjaldi. Þessu tvennu tel ég best fyrir komið með markaðsleiðum, uppboðsaðferð, fremur en með loðnum ákvæðum og ráðherravaldi.
- Samhliða tel ég rétt og skylt að allar breytingar séu varfærnislegar og sérstaklega að sé ekki traðkað á þeim sem hafa aflað sér aðgengisins dýrum dómum með kaupum frá öðrum sem var gert með leyfi stjórnvalda.
- Ég vil málamiðlun og sættir milli nýtingar- og verndarsjónarmiða.
- Ég styð ákvæði í stjórnarskrá um sjálfbæra þróun.
- Ég vil ákvæði í stjórnarskrá um rétt almennings til heilbrigðs umhverfis svo og rétt til þátttöku í ákvarðanatöku í þeim efnum.