Umsögn sexmenninga um 1. áfangaskýrslu stjórnarskrárnefndar hinnar nýju

[Við, sex félagar úr stjórnlagaráðinu sáluga, Ari Teitsson, Illugi Jökulsson, Katrín Fjeldsted, Guðmundur Gunnarsson, Þorkell Helgason og Vilhjálmur Þorsteinsson sendum hinn 30. sept. 2014 stjórnarskránefndinni nýjustu umsögn um fyrstu áfangaskýrslu hennar. Hér á eftir sést inngangsbréf okkar til nefndarinnar en umsögnin í heild er í skjalinu Umsögn sexmenninga um fyrstu áfangaskýrslu stjórnarskrárnefndar]

Við undirrituð, sem öll sátum í stjórnlagaráði, viljum með erindi þessu bregðast við ósk stjórnarskrárnefndar um athugasemdir við 1. áfangaskýrslu nefndarinnar og svara að nokkru spurningum þeim og álitamálum sem nefndin setur fram í undirköflum skýrslunnar merktum x.6.

Við fögnum því að viðfangsefnið — endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands — sé á dagskrá og væntum þess og vonum að hin nýja nefnd sinni því af alúð, enda er okkur málið hjartfólgið.

Eins og öllum er kunnugt fór fram umfangsmikil og lýðræðisleg vinna að nýrri stjórnarskrá í stjórnlagaráði 2011 og í aðdraganda þess með þjóðfundinum 2010, svo og með gagnaöflun og fræðivinnu stjórnlaganefndar sem undirbjó starf ráðsins. Þá unnu starfsmenn stjórnlagaráðs og ráðgjafar, sem leitað var til, mikið starf, og sama gildir um stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis á síðasta kjörtímabili og sérfræðinga á hennar snærum. Fullyrða má að ekki hafi verið jafn mikið í lagt í neinni af hinum mörgu fyrri tilraunum til að setja lýðveldinu heilsteypta stjórnarskrá.

Þjóðaratkvæðagreiðslan 2012 skapar þessari stjórnarskrárlotu sögulega sérstöðu. Niðurstöður atkvæðagreiðslunnar voru mjög afgerandi um helstu lykilatriði í tillögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Þar kom líka fram ósk tveggja þriðju hluta kjósenda sem afstöðu tóku um að tillögur ráðsins skyldu lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.[1]

Að öllu þessu virtu verður að telja að hinni nýju stjórnarskrárnefnd beri lýðræðisleg skylda til að leggja niðurstöður hins mikla starfs í undanfarinni lotu til grundvallar verki sínu og tillögugerð, í stað þess að hefja að nýju umræðu á breiðum grundvelli um efnisatriði stór og smá. Rökrétt er, og vænlegast til árangurs og sátta, að nefndin einbeiti sér að því að halda áfram umbótum og útfærslum á „grundvelli“ tillagna stjórnlagaráðs, eins og tveir þriðju kjósenda hafa kallað eftir.

Í samræmi við það sem þegar hefur verið sagt tjáum við undirrituð okkur í viðaukum 1-4 um einstakar spurningar á áfangaskýrslunni í ljósi þess sem stjórnlagaráð lagði til. Einnig höfum við hliðsjón af frumvarpi meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og breytingartillögum hans. Við víkjum þó frá þessum meginviðmiðum þegar við metum það svo, í ljósi umræðu og upplýsinga sem fram hafa komið, að rétt sé að kveða öðru vísu að. Árétta ber að svör þessi og athugasemdir eru sett fram í okkar nafni sem einstaklinga en ekki í nafni annarra fyrrum félaga okkar í stjórnlagaráði.

 



[1] Hér verður að skjóta því inn að atkvæðahlutföll þau úr þjóðaratkvæðagreiðslunni sem fram koma í áfangaskýrslunni eru villandi þar sem auð svör við einstökum spurningum eru talin til gildra atkvæða. Hlutföll já- og nei-svara leggjast því ekki saman í 100%. Þetta er öndvert við vilja löggjafans eins og hann birtist í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 91/2010 um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna, svo og hefðir um birtingu niðurstaðna úr þjóðaratkvæðagreiðslum og kosningum, sbr. t.d. töflu 10 í Hagtíðindum 2013:1.

Stóryrtar yfirlýsingar um stjórnlagaráð

[Birtist í Fréttablaðinu 2. júlí 2014]

Í ritstjórnargrein Fréttablaðsins 26. júní s.l. er fjallað um áfangaskýrslu hinnar nýju stjórnarskrárnefndar sem birt var á dögunum. Undirritaður sat í stjórnlagaráði og telur sér því málið skylt.
Eins og ritstjórinn fagna ég sérhverju skrefi í stjórnarskrármálinu; líka reifun málsins í áfangaskýrslu hinnar nýju stjórnarskrárnefndar, þótt beinar tillögur séu þar næsta fáar. Stjórnarskrármálið er þó aftur komið í umræðuna. Á hinn bóginn finnst mér ritstjórinn tala ómaklega um störf stjórnlagaráðs. Það hafi „skellt… fram illa ígrunduðum tillögum“ segir hann. Ráðið fékk afmarkaðan tíma til sinna starfa, rúma þrjá mánuði. Tíminn hafði verið verulega skorinn niður frá því sem upphaflega var ráðgert. Hinu má þó ekki gleyma að mikið starf hafði farið fram áður en stjórnlagaráðið tók til starfa, og það þurfti því ekki að hefja störf á byrjunarreit. Engu var „skellt fram“, enda störfuðu 25 einstaklingar ásamt sérfræðingum að verkefninu nótt sem nýtan dag sumarið 2011. Unnið var fyrir opnum tjöldum með samfelldu aðgengi almennings.
Dundar sér út kjörtímabilið
Nýja nefndin fær að dunda sér við málið út kjörtímabilið og er ekki einu sinni skuldbundin til að skila neinu frá sér, en stjórnlagaráði var uppálagt að skila drögum að frumvarpi. Að tillögur okkar hafi verið „illa ígrundaðar“ er órökstudd fullyrðing. Í lok ritstjórnargreinarinnar er talað um „hrærigraut[inn] sem hin misheppnaða tilraun um stjórnlagaþingið gat af sér.“ Það virðist í tísku að taka stórt upp í sig um störf stjórnlagaráðs, án þess að láta nokkuð í ljós sem stutt geti stóryrðin.
Ritstjóranum er tíðrætt um skoðanir stjórnlagaráðs. Ráðið samanstóð af einstaklingum sem sameiginlega hafa engar aðrar skoðanir en þær sem komu fram í skriflegum skilum ráðsins 29. júlí 2011. Ritstjórinn segir að „[r]áðið … virtist halda að … með [tillögum þess] væri komin ný stjórnarskrá, sem ekki mætti breyta eða ræða frekar.“ Það kann að vera að einstaka félagar í ráðinu hafi talað þannig, en flestir, ef ekki allir sögðu að vissulega bæri að gera þær breytingar sem til bóta mættu vera, eins og gert var í umfjöllun meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.
Sjötíu ára bið
Þá segir ritstjórinn að „[s]tóryrtar yfirlýsingar fyrrverandi stjórnlagaráðsmanna um „valdarán“ og „aðför að lýðræðinu“ í tilefni af áfangaskýrslunni eru fáránlegar.“ Hér er aftur verið að ýja að því að stjórnlagaráðsmenn fyrrverandi tali allir á sömu nótum. Sum okkar mundu nota önnur orð um þetta nýja plagg og tilurð þess.
Ritstjórinn segir að flest bendi „til að málið sé nú … lagt þannig upp að það geti fengið vandlega umræðu og skoðun, Alþingi fjallað um það á vandaðan hátt og þjóðin verði síðan spurð álits – með lýðræðislegum hætti.“ Vonandi hefur hann rétt fyrir sér, en reynslan segir því miður annað. Það var ekkert því til fyrirstöðu að frumvarp stjórnlagaráðs fengi „vandlega umræðu og skoðun“ og aldrei stóð annað til en „að þjóðin [yrði] .. spurð álits – með lýðræðislegum hætti“ um endanlegt stjórnarskrárfrumvarp, sem byggt væri á tillögum stjórnlagaráðs eins og 2/3-hlutar þeirra kjósenda, sem afstöðu tóku, óskuðu eftir í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012. En af öllu þessu varð ekki þar sem málið þvældist fyrir Alþingi í tvo vetur og endaði síðan í allsherjar málþófi eins og einatt áður.
Í sjötíu ár hefur verið beðið eftir raunhæfum stjórnarskrárbótum. Það á eftir að koma í ljós hvort nú sé „góð byrjun“ í þessa veru, eins og felst í yfirskrift ritstjórnargreinarinnar, það hvort útkoman verður yfirklór eða raunverulegar réttarbætur til eflingar almannahag gegn sérhagsmunum.