Hrindum atlögunni að Skálholti !

[Birtist í Morgunblaðinu 19. nóvember 2013]

Þorkell Helgason:

Uppbygging

Skálholt var í raun höfuðstaður landsins um aldir. Síðan hallaði undan fæti og um miðja síðustu öld var þar orðið lítt meira en stekkur. En þá spratt upp hreyfing um endurreisn staðarins en fyrir henni stóð einn mesti kirkjuhöfðingi seinustu aldar, sr. Sigurbjörn Einarsson biskup. Allt gekk undravel. Vinir staðarins nær og fjær, ekki síst annars staðar á Norðurlöndunum, gáfu fé og önnur verðmæti sem dugðu til að reisa þá göfugu höfuðkirkju sem þar stendur, verk Harðar Bjarnasonar húsameistara og hans manna, skreytt ómetanlegum listaverkum þeirra Nínu Tryggvadóttur og Gerðar Helgadóttur. Við vígsluna fyrir fimmtíu árum færði þáverandi kirkjumálaráðherra, Bjarni Benediktsson, þjóðkirkjunni jörðina Skálholt að gjöf og með vilyrði um viðvarandi heimanmund.

Sumarið 1975 hófst það menningarstarf í Skálholti sem alþjóð þekkir, Sumartónleikar í Skálholtskirkju. Helga Ingólfsdóttir, sem þá var nýkomin frá námi í semballeik, fyrst Íslendinga, og um leið brautryðjandi í túlkun barokktónlistar, hreifst af Skálholti og skynjaði hvílíkt undur hljómburður í Skálholtskirkju er fyrir þá tónlist sem hana langaði að koma á framfæri. Fjölmargir komu til liðs, svo sem Manúela Wiesler sem töfraði alla með flautuleik sínum. Margir heimsfrægir tónlistarmenn urðu þátttakendur, jafnvel þótt þeir eins og aðrir fengju litla sem enga umbun fyrir. Brautryðjandi í endurvakningu barokktónlistar, Hollendingurinn Jaap Schröder, hefur tekið ástfóstri við Skálholt og komið á hverju sumri í tvo áratugi. Ekki nóg með það heldur hefur hann gefið geysiverðmætt nótna- og bókasafn sitt til staðarins.

En Sumartónleikarnir voru og eru ekki aðeins smiðja barokktónlistar, og þar með tónlistar Jóhanns Sebastíans Bachs, heldur markaði Helga strax í upphafi þá stefnu að Sumartónleikarnir ættu að vera miðstöð nýrrar tónlistar. Tónskáld voru fengin til að semja, ekki einhverja tónlist heldur þá sem hæfði staðnum og helgi kirkjunnar. Tónskáldin hlýddu þessu kalli, bæði þau sem þekkt voru en ekki síður ungskáldin sem náðu mörg að hasla sér völl í gegnum Sumartónleikana. Tónverkin, stór og smá, sem frumflutt hafa verið á Sumartónleikum í Skálholtskirkju skipta hundruðum. Sum þeirra hafa orðið að þjóðargersemum, eins og Óttusöngur að vori eftir Jón Nordal við texta Matthíasar Johannessen; verk sem var endurflutt á kristnitökuhátíðinni á Þingvöllum aldamótaárið síðasta.

Sumartónleikar í Skálholtskirkju undir listrænni stjórn Sigurðar Halldórssonar sellóleikara stefna nú á fertugasta sumarið í starfsemi sinni. Þessi alþjóðlega tónlistarhátíð er elsta starfandi barokktónlistarhátíð á Norðurlöndum. Af þeim sökum er ráðgerð mikil norræn hátíð á komandi sumri, á fertugsafmæli hátíðarinnar.

Niðurrif

En nú stefnir í að öll þessi uppbygging og starf í Skálholti verði lagt í rúst og það strax á komandi ári. Kirkjuráð, sem virðist búið að taka öll völd innan Þjóðkirkjunnar, ætlar að leigja allan staðinn út undir ferðamennsku. Þetta kom fram á kirkjuþingi því sem haldið er þessa dagana. Hvorki vígslubiskupinn í Skálholti né aðrir heimamenn hafa verið spurðir álits á þessari ákvörðun æðsta ráðsins. Þeir sem vilja koma til starfa á staðnum mega þá þóknanlegast borga hótelprísa fyrir allan beina og það ekki af lægra taginu, því að þetta á að verða mikill bisness sem skili fúlgum fjár. Sumartónleikarnir munu þá leggjast af. Kirkjuráð hefur smám saman verið að skera niður fjárframlag til Sumartónleikanna og var ekkert beint framlag á seinasta sumri. En nú á að úthýsa þeim alveg.

Vígslubiskupa á að leggja niður í núverandi mynd. Þetta kemur fram í frumvarpi til nýrra þjóðkirkjulaga sem liggur fyrir kirkjuþingi sem situr þegar þetta er ritað. Greinargerð með frumvarpinu tekur af allan vafa um þessa ætlan. En ekki aðeins það. Heldur stendur nú til að gera sjálfan biskup Íslands að „undirkontórista“, ekki í kirkjumálaráðuneytinu eins og segir í Kristnihaldi Kiljans, heldur hjá kirkjuráði eða kirkjuþingi. Þetta jaðrar við að biskupi sé steypt af stóli. Alþingi Íslendinga verður að hafna þessu ákvæði frumvarpsins.

Rekstur Skálholtsstaðar mun hafa verið í ólestri og skuldir höfðu safnast upp. En núverandi vígslubiskup, sr. Kristján Valur Ingólfsson, hefur náð að snúa þeirri þróun við. Það þarf því ekki að braska með Skálholt til að bæta fjárhag staðarins. Hver hefur gefið þessu Kirkjuráði heimild til að setja Skálholt undir Mammon? Samræmist það skilmálum gjafar ríkisins? Stjórnvöld verða að svara því. Er þá ótalin sú vanvirða sem öllum þeim er sýnd sem hafa lagt líf sitt og sál til endurreisnar Skálholts.

Mala domestica maiora sunt lacrimis varð Brynjólfi Skálholtsbiskup að orði um harmasögu sína og sinna. Nú dugar ekki harmagrátur heldur verður að skera upp herör gegn atlögunni að Skálholti, einum þeirra höfuðstaða sem geyma okkar þjóðarsál að fornu og nýju. Það á enginn að geta ráðskast með Skálholt með þessum hætti, ekki frekar en Þingvelli. Skálholt er þjóðareign – eins og Þingvellir.

Höfundur er ekkill eftir Helgu Ingólfsdóttur

Grafarþögn um Þorláksbúð

 [Þessi grein, sem birtist í Morgunblaðinu 9. nóvember 2013, eru eftir  Eið Svanberg Guðnason, Hörð H. Bjarnason, Jón Hákon Magnússon, Vilhjálm Bjarnason og Þorkel Helgason.]

Eins og kunnugt er hefur bygging verið reist ofan á svokallaðri Þorláksbúð, skáhallt á hina formfögru Skálholtskirkju. Þessi yfirbygging er ranglega sögð tilgátuhús, en Þorláksbúð hefur engin söguleg tengsl við Þorlák biskup helga. Þetta er skemmd á allri ásýnd Skálholtsstaðar og vanvirða við þá sem stóðu að gerð þeirrar kirkju, sem átti hálfrar aldar vígsluafmæli á liðnu sumri. Fram hefur komið í umræðunni að kofinn við kirkjuvegginn er byggður á ósannindum og rangfærslum. Þjóðkirkjan íslenska má ekki una því. Þögn hefur ríkt um málið að undanförnu. Mörgum spurningum er enn ósvarað.

Við bygginguna ofan á Þorláksbúð hafa lög og reglugerðir ítrekað verið brotin.

1. Hvers vegna leyfði Minjastofnun Íslands að grafarró væri raskað í kirkjugarðinum í Skálholti? Tilgátuhúsið er byggt ofan á grafir frá fyrri tímum. Forstöðumaður Minjastofnunar Íslands hefur aldrei svarað hvers vegna hún leyfði þessa fordæmalausu framkvæmd.

2. Hvers vegna leyfði Minjastofnun Íslands að byggt væri ofan á friðlýstar fornminjar við vegg dómkirkjunnar í Skálholti og þeim raskað? Forstöðumaður Minjastofnunar Íslands hefur aldrei svarað því.

3. Byggingarleyfi Bláskógabyggðar fyrir torfkofanum sem nú er risinn var gefið út þegar framkvæmdum var nánast lokið. Hvernig stóð á því?

4. Fjárveitingar komu til verksins úr ríkissjóði. Samtals 9,4 milljónir á árunum 2008 til 2011. Aldrei hefur verið gerð grein fyrir því hvernig þeim fjármunum úr vösum almennings var ráðstafað. Bað Alþingi aldrei um endurskoðaða ársreikninga? Hversvegna hefur Ríkisendurskoðun ekki gengið eftir svörum um það hvernig þessum fjármunum var varið?

5. Hefur kirkjuráð gert grein fyrir því hvernig fjármunum kirkjunnar sem runnu til byggingar Þorláksbúðar var varið? Það voru 3 milljónir króna á árunum 2008 til 2011. Hefur kirkjuráð óskað eftir uppgjöri eða endurskoðuðum ársreikningum fyrir árin 2011 og 2012?

6. Hve mikið fé hefur runnið samtals til Þorláksbúðarfélagsins frá Alþingi og frá Kirkjuráði fyrir og eftir 2012?

7. Í bréfi Ríkisendurskoðunar til forseta Alþingis 28. júní 2012 kom fram að Þorláksbúðarfélag ætti von á reikningum „upp á nokkrar milljónir“ vegna þegar unninna verka. Hefur Ríkisendurskoðun fylgt því máli eftir?

8. Hefur sá sem byggði húsið fengið greitt fyrir sína vinnu og efnisframlag?

9. Í skýrslu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis (141. löggjafarþing, 2013) segir orðrétt: „Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hvetur Ríkisendurskoðun til að ljúka því verki að upplýsa um hvernig skattfé sem runnið hefur til þessa verkefnis hefur verið varið. Nefndin telur það ekki varpa ljósi á ráðstöfun fjárins að nokkrar milljónir króna séu útistandandi og að óvissa ríki um fjárhagsstöðu félagsins eins og fram kom í bréfi Ríkisendurskoðunar, dags. 28. júní 2012. Telur nefndin að í því efni skipti engu þó að byggingin verði ekki afhent Skálholtsstað fyrr en skuldir hennar hafa verið gerðar upp. Nefndin hvetur Ríkisendurskoðun til að ráðast í þetta verkefni hið fyrsta.“ Hvað hefur Ríkisendurskoðun gert í þessu máli? Hefur Ríkisendurskoðun sinnt þessum tilmælum Alþingis? Af hverju þessi þögn?

Ríkisendurskoðun, Minjastofnun Íslands og kirkjuráð þurfa að rjúfa þögnina sem ríkt hefur um þetta mál áður en það verður enn óþægilegra fyrir biskup Íslands og íslensku þjóðkirkjuna. Þjóðin á rétt á því að vita hvernig fé úr opinberum sjóðum er ráðstafað. Yfir því á ekki að vera neinn leyndarhjúpur.

Ekki er nóg að svör fáist við þessum spurningum, heldur verður að bæta fyrir þessi staðarspjöll með því að finna hinu meinta tilgátuhúsi annan stað.

Höfundar eru áhugamenn um velferð Skálholtsstaðar. 

Vilt þú ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá?

[Birtist í Fréttablaðinu 13. september 2012.]

Í þjóðaratkvæðagreiðslunni um tillögur stjórnlagráðs 20. október n.k. verður spurt um stjórnskipunarlega stöðu þjóðkirkjunnar. Ekki um tilvist hennar heldur um það hvort kirkjunnar skuli getið sérstaklega í sjálfri stjórnarskránni. Orðrétt er spurningin þannig: „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?“

Málið er hitamál og eðlilegt að þjóðin sé spurð. Frambjóðendur til stjórnlagaþings – og síðar fulltrúar í stjórnlagaráði – fengu kröftug tilmæli annars vegar frá þeim sem vilja algeran aðskilnað ríkis og kirkju og þar með öll ákvæði um þjóðkirkju burt úr stjórnarskrá og hins vegar frá þeim sem vilja óbreytt fyrirkomulag.

Á Þjóðfundinum 2010, sem var aðdragandi að öllu starfi stjórnlagaþings og síðar stjórnlagaráðs, voru skoðanir skiptar um þetta mál. Stjórnlaganefnd – sem var fagnefnd til undirbúnings starfinu – reifaði því báða kosti og lagði fram textadæmi um hvort tveggja.

Skulu nú færð helstu rök fyrir hvoru tveggja svarinu, já eða nei.

Rök fyrir JÁ við spurningunni

Þeir sem svara umræddri spurningu með jái eru væntanlega að greiða því atkvæði að ákvæði um þjóðkirkjuna verði óbreytt frá því sem er í gildandi stjórnarskrá, en þau eru einkum þessi:

S1: Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Breyta má þessu með lögum. (62. gr.)

S2: Allir eiga rétt á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins. Þó má ekki kenna eða fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði eða allsherjarreglu. (63. gr.)

S3: Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipun ríkisins samkvæmt 62. gr. og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar, og skal atkvæðagreiðslan vera leynileg. (79. gr., 2. mgr.)

Rök fyrir því að halda þessum ákvæðum efnislega óbreyttum eru m.a. sögð þessi:

  • Mikill meirihluti þjóðarinnar er í þjóðkirkjunni. Ekki er ástæða eða tilefni nú til að losa um tengsl þjóðkirkjunnar og ríkisins.
  • Mannréttindadómstóll Evrópu telur ríkiskirkju ekki stangast á við önnur mannréttinda- eða trúfrelsisákvæði.
  • Þjóðkirkja er í Danmörku og Noregi, en þangað sækjum við margt, ef ekki flest, í stjórnskipun okkar.
  • Sérhver breyting á stjórnarskrárákvæðunum um kirkjuna (S1-S3) kallar á sérstakt samþykki þjóðarinnar (S3) að mati sumra lögspekinga. Þessu er andmælt af öðrum með þeim rökum að einungis þurfi að leita til þjóðarinnar ef kirkjuskipaninni er breytt með almennum lögum. Þetta geti ekki átt við um stjórnarskrárbreytingar.
  • Hví ekki að fara að eins og nú er ráðgert í Noregi um að ríkið skuli áfram styðja þjóðkirkjuna en jafnframt önnur trúfélög svo að jafnræðis sé gætt? Ámóta lausn var rædd í stjórnlagaráði en talið varhugavert að gefa illa skilgreinanlegum félögum vilyrði um ríkisstuðning.

Rök fyrir NEI við spurningunni

Ekki er fulljóst hvað taki við verði neiið ofan á. En væntanlega eru þeir sem segja nei að lýsa yfir stuðningi við tillögur stjórnlagaráðs um kirkjuskipanina en þær eru einkum þessar:

R1: Öllum skal tryggður réttur til trúar og lífsskoðunar, þar með talinn rétturinn til að breyta um trú eða sannfæringu og standa utan trúfélaga. (18. gr., 1. mgr.)

R2: Í lögum má kveða á um kirkjuskipan ríkisins. (19. gr., 1. mgr.)

R3: Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipan ríkisins og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar. (19. mgr., 2. mgr.)

Eftir miklar vangaveltur í stjórnlagaráði fannst þessi gerð sem þótti vænleg málamiðlun og sáttatillaga milli beggja hugmynda stjórnlaganefndar. Rökin eru t.d. þessi:

  • Sé þjóðkirkjuákvæðið (S1) fellt út úr stjórnarskránni er trúfrelsið (R1) formlega að fullu virt. Þetta á að gera nú, þegar stjórnarskráin er í heildarendurskoðun, en ekki gera það að sérstöku ágreiningsefni síðar.
  • Málamiðlun ráðsins felst í því að heimila áfram sérstök lög um samband ríkis og kirkju (R2) og halda því óbreyttu að lagabreytingar um kirkjuskipanina þurfi að bera undir þjóðina (R3).
  • Stjórnarskrárákvæði um sérstaka þjóð- eða ríkiskirkju eru á undanhaldi í grannlöndunum. Þannig hurfu þau út úr sænsku og finnsku stjórnarskránum um síðustu aldamót.
  • Finna má nýtt fyrirkomulag um samskipti ríkis og kirkju við hentugleika, t.d. að sænskri fyrirmynd þar sem ríkið og þjóðkirkjan hafa gert með sér sérstakan þjónustusamning. Þar yrði m.a. kveðið á um hið mikilvæga menningarhlutverk kirkjunnar.

Ályktun

Stjórnlagaráð fór að dæmi Þorgeirs ljósvetningagoða um bil beggja. Ráðið leggur til nýja skipan þar sem engin trú nýtur sérstakrar stjórnarskrárbundinnar verndar ríkisins, en að samband ríkis og þjóðkirkju megi haldast óbreytt þar til þjóðin kann að kjósa annað.

Þeir sem vilja svara þessari spurningu í anda frumvarps stjórnlagaráðs gera það með neii. Það er öndvert við allar hinar spurningarnar í þjóðaratkvæðagreiðslunni þar sem stuðningur við sjónarmið ráðsins felst í jáyrði.

Pistilhöfundur mælir með neii við spurningunni um sérstakt þjóðkirkjuákvæði en telur þó að slíkt ákvæði stangist ekki á við aðra þætti í stjórnarskrárdrögunum vilji þjóðin halda formlegri stöðu þjóðkirkjunnar óbreyttri. Hvort sem verður ofan á breytir það því ekki að stjórnarskrá okkar, sú núverandi og sú komandi, er og verður byggð á kristnum gildum.

Hvert stefnir í Skálholti?

[Birtist í Fréttablaðinu 23. nóv. 2011, en án myndarinnar.]

Skálholt var höfuðstaður í þjóðlífinu um aldir, ekki aðeins í andlegum efnum heldur einnig veraldlegum. Alkunna er hver urðu örlög staðarins, niðurníðsla af náttúrunnar- og mannavöldum. Fyrir tilstilli mætra manna hefur staðurinn verið endurvakinn. Skálholtskirkja reis fyrir hálfri öld, fögur og tilkomumikil þar sem hún gnæfir yfir umhverfið. Jafnframt hafa verið reist í Skálholti húsakynni sem gert hafa ýmsa menningarstarfsemi mögulega. En hús, jafnvel kirkjur, þarf að glæða lífi. Það hefur vissulega verið gert. Auk kirkjuhaldsins sjálfs hefur tónlistarstarf ekki síst varpað ljóma á staðinn enda býður Skálholtskirkja upp á einna bestan hljómburð hér á landi fyrir þá tónlist sem hæfir guðshúsi. Sumartónleikar í Skálholtskirkju hafa verið haldnir í nær fjóra áratugi og er hátíðin ein elsta og umfangsmesta tónlistarstarfsemi á landinu, smiðja nýrrar tónlistar en líka miðstöð í túlkun á tónlist fyrri alda. Menningarsetrið Skálholtsskóli hefur einnig í sívaxandi mæli haslað sér völl sem vettvangur andlegra starfsemi jafnframt því að láta til sín taka í þjóðmálaumræðunni.

Hvert stefnir nú? Kirkjan sem og margar aðrar stofnanir þjóðfélagsins þurfa að draga saman seglin eftir óáran af mannavöldum. Öllum starfsmönnum Skálholtsskóla hefur verið sagt upp. Framtíð Sumartónleikanna er í óvissu. En á sama tíma er brambolt í gangi til að reisa hús utan í kirkjunni sjálfri og það sagt vera til að endurreisa rúst Þorláksbúðar, sem lítið er þó vitað um. Undirritaður skrifaði um þessa ósvinnu grein í Morgunblaðið 25. ágúst s.l. undir heitinu Búngaló að rísa hornskakkt á Skálholtskirkju og vitnaði þar í hliðstæða „höfuðósmíð fyrir vestan“ sem kemur við sögu í Kristnihaldi undir jökli. Síðan hafa margir tjáð sig um fyrirbærið og gripið hefur verið til skyndifriðunar til að stöðva verknaðinn. Henni þarf að fylgja eftir og tryggja að menningarslys verði ekki á staðnum. Kirkjuráð þarf að sjá sig um hönd og stöðva framkvæmdir endanlega.

Sumir telja það lausn á deilunni um Þorláksbúð að færa bygginguna. Hvað með stofn- og rekstarkostnað? Sagt er að fé komi úr vösum svokallaðra áhugamanna um verkefnið en trúlegra er að reikningurinn verði sendur á kirkjuna og ríkissjóð. Að mörgu leiti var rekið smiðshögg á hina veraldlegu uppbyggingu í Skálholti í tíð Sigurðar vígslubiskups Sigurðarsonar heitins. Skólahúsið var  stækkað, reistur sýningarskáli og aðkoma að staðnum stórbætt. Nú er ekki brýnast að festa meira fé í byggingum, allra síst tilgangslítið tildurhús, á sama tíma og sjálft lífið á staðnum, helgihald, menningarstarfsemi og tónlist, á í vök að verjast. Þeir sem ráða yfir Skálholti eiga að beina kröftum sínum að vörslu þess sem er og hefur sannað gildi sitt.

Í Hinu ljósa mani Halldórs Laxnes segir: „Þennan haustdag var alt kyrt í Skálholti, og einginn vissi að neitt hefði gerst, en byrjað að frjósa, og þar með dregið úr fnykri þeim af sorpi og svaði sem einkendi staðinn.“ Betur væri að allt væri kyrrt í Skálholti og enginn fnykur af fjárskorti og smekklausum framkvæmdum.

Þorkell Helgason, stærðfræðingur er áhugamaður um málefni Skálholts.

[Vona að höfundur myndarinnar, sem ég veit ekki hver er, afsaki að ég hef tekið hana traustataki.]

Ný stjórnarskrá: Er kirkjan úti í kuldanum?

[Birtist í Fréttatímanum 18. nóvember 2011; fyrri gerð hér á vefsíðunni hefur verið stytt lítillega vegna rýmistakmarkana blaðsins.]

Forseti kirkjuþings gerði frumvarp stjórnlagaráðs um kirkjuákvæði stjórnarskrár að umtalsefni í ræðu við setningu þingsins s.l. laugardag. Tónninn var sleginn með tilvitnun í hin fleygu orð Halldórs Laxness úr munni Jóns Hreggviðssonar „Vont er þeirra ránglæti, verra þeirra réttlæti”.

Þjóðkirkja og kirkjuskipan

Kirkjuþingsforsetinn segir að stjórnlagaráð hafi „hlaupist undan þeim vanda að kveða á um hvort hér á landi skuli vera þjóðkirkja eða ekki.“ Orðið þjóðkirkja kemur ekki fyrir í frumvarpi stjórnlagaráðs en meginbreytingin fellst í þeirri tillögu að brott falli ákvæði um „að ríkisvaldið skuli styðja og vernda þjóðkirkjuna“ svo vitnað sé í ræðuna og um leið í ákvæði 62. gr. núgildandi stjórnarskrár. Forseti kirkjuþings er sammála þessari einu raunverulegu efnisbreytingu um þjóðkirkjumálið sem stjórnlagaráð leggur til: „Þetta er arfur frá gamalli tíð og engin þörf er lengur á slíku verndarákvæði í stjórnarskrá.“

Þá segir forseti kirkjuráðs að „breytingar á kirkjuskipaninni – og þar með sú spurning hvort hér skuli vera þjóðkirkja eða ekki – [eru samkvæmt gildandi stjórnarskrá] háðar því að Alþingi taki skýra ákvörðun um afnám þjóðkirkju og þjóðin fái að greiða atkvæði um þá ákvörðun sérstaklega.“ Hér hefði forsetinn mátt vitna beint í ákvæði 2. mgr. 79. gr. stjórnarskrárinnar: „Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipun ríkisins samkvæmt 62. gr., og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar, og skal atkvæðagreiðslan vera leynileg.“

Forsetinn telur á hinn bóginn að stjórnlagaráð leggi til að „ákvörðunarvald“ um það „hvort hér á landi skuli vera þjóðkirkja eða ekki“ sé „fengið Alþingi með orðunum: „Í lögum má kveða á um kirkjuskipan ríkisins” og vitnar hann þá í 1. mgr. 19. gr. frumvarpsins. Kirkjuþingsforseti hefði mátt vitna í framhald frumvarpsgreinarinnar, en í 2. mgr. hennar segir „Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipan ríkisins og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar.“ Er þetta frábrugðið því sem er í gildandi stjórnarskrá?

„Með þessari tillögugerð stjórnlagaráðs [um kirkjuskipanina] er því sköpuð óviðundandi óvissa,“ segir forseti kirkjuþings. Hún er þó ekki meiri en í gildandi stjórnarskrá. Bæði samkvæmt henni svo og frumvarpi stjórnlagaráðs verður breyttri skipan ekki komið á nema þjóðin ákveði það í sjálfstæðri atkvæðagreiðslu að frumkvæði Alþingis. Hefði forseti kirkjuþings kosið að stjórnlagaráð hefði tekið fram fyrir hendurnar á þjóðinni og lagt til brottfall allra ákvæða um kirkjuskipanina?

Var stjórnlagaráð með sjónhverfingar?

Forseti kirkjuþings leggur út af ofangreindri tillögu stjórnlagaráðs um að Alþingi sé heimilt að kveða á um kirkjuskipanina með því að segja: „rétt eins og sérstaka heimild þurfi í stjórnarskrá til að Alþingi geti gegnt löggjafarhlutverki sínu!“ Vitaskuld er það ekki svo að Alþingi geti sett lög um hvað sem er. Stjórnarskrá er til þess að setja lagasetningu eðlileg mörk. Í ráðgerðri stjórnarskrá er kveðið á um jafnræði og trúfrelsi, allt eins og í hinni núgildandi. Án skýrrar heimildar í stjórnarskrá getur Alþingi því vart sett lög um sérstaka kirkjuskipan.

Þá segir forseti kirkjuþings: „Það er hins vegar stjórnarskrárvarinn réttur þjóðarinnar sjálfrar að ákveða hvort þjóðkirkja skuli vera hér í landi eða ekki. Framhjá þessum rétti þjóðarinnar verður ekki gengið með sjónhverfingum einum saman.“ Hér virðist forsetinn vera að segja að það eitt að orðalagi um kirkjumálin verði breytt í stjórnarskrá kalli á sérstaka þjóðaratkvæðagreiðslu samkvæmt núgildandi stjórnarskrá. Um þetta deila lögfræðingar eins og einatt er. Hinu verður að vísa á bug að stjórnlagaráð sé með „sjónhverfingar“.

Hvers vegna hin stóru orðin?

Vitaskuld er kirkjunnar mönnum rétt og skylt að tjá sig um trúar- og kirkjumálaákvæði ráðgerðrar stjórnarskrár. Í ljósi þess sem að ofan greinir eru þung orð forseta kirkjuþings, æðstu stofnunar þjóðkirkjunnar, um frumvarp stjórnlagaráðs þó illskiljanleg.

 

Þorkell Helgason, sat í stjórnlagaráði