by Þorkell Helgason | mar 17, 2015 | Á eigin vefsíðu
[Birtist í Fréttablaðinu 17. mars 2015.]
Undanfarna daga hefur verið deilt um grundvallarþætti lýðræðisins, um þingræðið og framkvæmdarvaldið í tilefni þess að ríkisstjórnin hefur – að því er virðist – afturkallað umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Hefur hún rétt til að gera þetta upp á sitt eindæmi eða þarf hún að leita fulltingis Alþingis? Hér verður ekki farið út í efni þessa einstaka tilviks heldur einblínt á lýðræðisþátt málsins.
Deilur af þessum toga væru í mörgum lýðræðisríkjum útkljáðar fyrir stjórnlagadómstóli. Af alræmdu tilefni ruddu Þjóðverjar brautina eftir stríð og settu á laggirnar stjórnlagadómstól sem vakir yfir því að valdi sé ekki misbeitt. Síðan hafa fjölmörg Evrópuríki fetað í fótspor þeirra, ekki síst hin nýju lýðræðisríki í Austur-Evrópu.
Vitaskuld verður ekki stjórnlagadómstól komið á nema með breyttri stjórnarskrá. Atvikin undanfarið ættu að sýna okkur hve brýnt er að koma nýrri stjórnarskrá í höfn. Hvers vegna? Forseti þýska stjórnlagadómstólsins hefur svarað þessu skorinort. „Frelsi og lýðræði án stjórnarskrár er óhugsandi,“ sagði dómsforsetinn og bætti við að stjórnarskrá væri handa minnihlutanum. Meirihluti sem ekki byggi við aðhald gæti leiðst til að kúga minnihlutann. Þess vegna þyrfti óvefengjanleg grunnréttindi, þess vegna þyrfti að tjóðra stjórnmálin með réttarreglum og þess vegna væri nauðsynlegt að hafa dómstól, stjórnlagadóm, sem gætti þess að farið væri að grunnreglunum.
Stjórnlagaráð tók að nokkru á þessum vanda og vildi koma á sérstakri úrskurðarnefnd, Lögréttu, sem vísi að stjórnlagadómstól. Trúlega þarf að ganga lengra. Það mætti hugsanlega gera í tengslum við þá áformuðu breytingu á dómskerfinu að koma á millidómstigi. Þá verður Hæstarétti lyft á hærri stall og kynni hann því að geta tekið að sér hlutverk stjórnlagadómstóls. En grundvöllurinn verður að vera traustur og byggjast á stjórnarskrárákvæði.
Lærum af reynslunni. Treystum lýðræðið – með endurbættri stjórnarskrá.
by Þorkell Helgason | maí 8, 2014 | Á eigin vefsíðu
[Birtist í Fréttablaðinu 7. maí 2014.]
Framundan eru kosningar til sveitarstjórna á Íslandi. Ímyndum okkur að kosningakerfið væri þannig að á kjörseðlinum stæðu einungis nöfn flokka en engir væru frambjóðendurnir. Að kosningum loknum væri það hlutverk flokkanna sjálfra að velja fulltrúa til að skipa þau sæti sem kæmu í hvers hlut.
Varla þætti okkur þetta lýðræðislegt fyrirkomulag? En þannig er kerfið í raun. Hjá þeim sem kjósa utan kjörfundar er „kjörseðillinn“ meira að segja autt blað. Kjósendur sem kjósa fyrir kjördag vita lengst af ekki einu sinni hvaða flokkar eru í framboði. En jafnvel þótt kosið sé á kjördegi stendur kjósandinn aðeins frammi fyrir vali milli lista. Hann sér að vísu hvernig listarnir eru mannaðir, en getur vart haft áhrif á það hverjir munu skipa sætin. Það hafa flokkarnir ákveðið fyrirfram.
Að vísu voru áhrif útstrikana talsvert aukin með breytingum á lögum um kosningar til Alþingis um aldamótaárið. Þessi breyting hefur leitt til þess að í fjögur skipti hefur frambjóðandi færst niður um sæti. En þessu er ekki að heilsa í sveitarstjórnarkosningum. Alþingi hefur ekki komið því í verk að gera hliðstæðar breytingar á lögum um kosningar til sveitarstjórna. Þar er vald kjósenda til breytinga á framboðslistum enn aðeins áhrifalaus sýndarmennska.
Stuðningur nær 80 prósenta
Allt bendir þó til að kjósendur séu mjög áfram um að fá nokkru um það ráðið hvaða persónur veljast sem fulltrúar þeirra. Í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu í október 2012 um tillögur Stjórnlagaráðs hlaut spurning um aukið persónukjör stuðning nær 80% kjósenda. En síðan hefur ekkert gerst.
Óvíða er jafn víðtækt persónukjör og í Bæjaralandi þar sem þessi greinarstúfur er ritaður. Framboðslistum er í kynningarskyni stillt upp í forgangsröð en kjósendur ráða því samt alfarið hverjir veljast á landsþing eða í sveitarstjórnir. Til þess hafa þeir mikið valfrelsi. Þeir geta valið sér frambjóðendur, og það þvert á lista. Um leið, eða í staðinn, geta þeir merkt við lista, jafnvel allt að þremur. Kjósendur hafa þó allir sama kosningarétt. Dreifi þeir atkvæðinu á marga frambjóðendur eða flokka þynnist það út í sama mæli.
Stjórnlagaráð lagði til ákvæði um persónukjör við kosningar til Alþingis, en þó ekki jafn galopið og hér í Suður-Þýskalandi. Engu að síður stóð ekki á fullyrðingum ýmissa stjórnmálafræðinga um að persónukjör að hugmynd ráðsins þekktist hvergi. Einn þeirra sagði að það að atkvæði gæti skipst á milli flokka væri brot á mannsréttindasáttmálum.
Aðrir fræðingar telja persónukjör stórhættulegt lýðræðinu. Ekki verður þó annað séð en það virki mæta vel hér um slóðir. Þarf að matreiða frambjóðendur ofan í íslenska kjósendur? Eru þeir vanhæfari en t.d. þýskir að velja sér fulltrúa af viti?
Þorkell Helgason sat í Stjórnlagaráði
by Þorkell Helgason | mar 3, 2014 | Á eigin vefsíðu
[Eftirfarandi grein birtist sem lesendabréf eftir mig í einu af útbreiddasta dagblaði Þýskalands, Süddeutsche Zeitung, hinn 3. mars 2014.
Tilefnið var frétt blaðsins og e.k. leiðaragrein um áform ríkisstjórnar Íslands um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu, ESB. Í umfjöllun blaðsins gat þess misskilnings að deilan á Íslandi nú snerist um það hvort halda skildi þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildina sjálfa að ESB eða ekki. Þetta þótti mér nauðsynlegt að leiðrétta; nú snerist deilan um það hvort hætta ætti viðræðum eða ekki og um leið hvort leita ætti álits þjóðarinnar á þeirri fyrirætlan. Ég bendi á kosningaloforð stjórnarflokkanna sem ekki var hægt að skilja á annan veg en þann að þeir hygðust spyrja þjóðina um nákvæmlega þetta.
Þá læt ég ekki hjá líða í greininni að drepa á þær rangfærslur sem hafðar eru uppi um ESB af andstæðingum sambandsins, þ.m.t. forseta Íslands. Hann sagði eða gaf a.m.k. sterklega í skyn í þingsetningarræðu í fyrra að ráðamenn í ESB vildu ekkert með okkur hafa, án þess þó að nefna nein nöfn. Þess vegna vitna ég í tvær ræður þýskra forseta sem hafa sagt Ísland velkomið í ESB í borðræðum yfir sjálfum forseta Íslands. Þá tek ég sem annað dæmi hin fáranlegu ummæli einnar ráðandi þingkonu um „hungursneyð“ innan ESB-ríkja.
Suðurþýska dagblaðið birtir bréf mitt aðeins nokkrum dögum eftir að ég sendi það inn, en blað sem þetta birtir að jafnaði ekki nema lítið brot af innsendum lesendabréfum. (Kannski hjálpaði að ég titlaði mig doktor, titli sem ég flíka annars nær aldrei!) Hér er greinin eins og hún birtist í blaðinu, lítillega stytt frá hinu innsenda bréfi mínu. Titill lesendabréfsins er ekki eftir mig heldur er hann blaðsins.]
Die isländische Regierung will die Kandidatur Islands zur Europäischen Union zurückziehen (siehe „Aus Angst vor der EU“ und „Auf Eis gelegt“ in der SZ am 24. Februar 2014). Sowohl vor den Wahlen im vergangenen Jahr als auch in der Regierungserklärung hatten beide Regierungsparteien versprochen, eine Volksabstimmung über den weiteren Verlauf der Beitrittsverhandlungen durchzuführen. Die Debatte in Island, auch jetzt im Parlament, dreht sich um diese versprochene Abstimmung über die nächsten Schritte; nicht um den Beitritt per se.
Laut Meinungsumfragen will die Mehrheit des Volkes, dass die Verhandlungen zu Ende geführt werden und danach über ein Beitrittsabkommen abgestimmt wird. Eine noch größere Mehrheit (75%) möchte, dass die Volksabstimmung über die Weiterführung der Verhandlungen jetzt durchgeführt wird. Diese Umfrageergebnisse machen der voreingenommenen Regierung Angst. Darum bricht sie ihr Versprechen gegenüber den Wählern.
Die EU-Gegner in Island füttern die Inselbevölkerung mit Unwahrheiten. Eine leitende Abgeordnete der Regierungsparteien sagte z.B. vor einigen Tagen in einer Fernsehdebatte, es gäbe Hungersnot in der EU. Der Staatspräsident, Ólafur Ragnar Grímsson, der seit Jahren gegen die EU polemisiert, sagte bei der Eröffnung des neuen Parlaments im vergangenem Jahr, die EU sei an einer Mitgliedschaft Islands nicht interessiert. Dies hätte er aus Gesprächen mit vielen leitenden europäischen Staatsmännern erkannt. Namen konnte er jedoch nicht nennen.
Bundespräsident Gauck in einer Ansprache beim offiziellen Besuch des isländischen Präsidenten im vergangenen Sommer: „Wir würden uns sehr freuen, Island als Teil der Europäischen Union begrüßen zu dürfen.“ Bundespräsident Rau hatte sich zehn Jahre früher aus gleichem Anlass ähnlich geäußert, so wie auch mehrere europäische Staats- und Regierungsoberhäupter.
by Þorkell Helgason | nóv 19, 2012 | Á eigin vefsíðu
Í þýsku borgríkjunum Bremen og Hamborg var lögum um kosningar til borgarþinga gjörbreytt fyrir kosningar á árinu 2011. Tekið upp mjög virkt persónukjör þar sem hver kjósandi fer með 5 krossa í hverri einstakri kosningu (í kjördæmi eða í landskjöri). Áhrifin urðu umtalsverð, þannig að fjarri fór að allir þeir hafi náð kjöri sem skipuðu vinningssæti flokkanna. Ýmsir gallar eru þó á kerfunum sem væri auðvelt að laga.
Þessu öllu er nánar lýst í þessu skjali: I ítarefni BremenHamburg 31 okt 2012
by Þorkell Helgason | feb 16, 2012 | Á eigin vefsíðu
[Ritað 2008 og þá birt á vef landskjörstjórnar.]
Flokkur getur undir vissum kringumstæðum aukið þingstyrk sinn á þýska Sambandsþinginu við það að tapa atkvæðum. Hið öndverða er einnig mögulegt; að flokkur geti tapað sætum á auknu atkvæðafylgi – að öllu öðru óbreyttu. Við kosningar 2005 varð dæmi um þetta bersýnilegt. Þýski Stjórnlagadómstóllinn hefur nú kveðið upp úr með það að þetta gangi ekki lengur og mælir fyrir um að Sambandsþingið verði að betrumbæta kosningalögin. Pistill þessi fjallar um þetta stórmerka mál, sem sagt er að sé eitt athyglisverðasta grundvallarmál sem upp hefur komið í lýðræðissögu Sambandslýðveldisins Þýskalands. Jafnframt er vikið að lærdómi sem draga má af málinu – jafnvel fyrir okkur á Íslandi.
Meira um þetta í skjalinu Þýskur stjórnlagadómur.
——————————————————————————–