Hvað sagði stjórnlagaráð um tillögur stjórnarskrárnefndar?

[Pistill þessi birtist í Fréttablaðinu, 2. apríl 2016. Uppsetningin er þar lítilega brengluð, en hér rétt.]

Stjórnarskrárnefnd sú er skipuð var 2013 hefur lagt fram drög að frumvörpum um breytingar á þremur meginþáttum núgildandi stjórnarskrár; nánar tiltekið um þjóðaratkvæðagreiðslur, umhverfisvernd og náttúruauðlindir.

Stjórnlagaráð sem starfaði sumarið 2011 fjallaði um öll þessi atriði og tók á þeim í frumvarpsdrögum sínum. Ítarlegan samanburð á tillögum nefndarinnar og ráðsins er að finna á vefsíðunni https://thorkellhelgason.is/?p=2395. Um margt gengur stjórnarskrárnefnd skemur en stjórnlagaráð.

Nefndin og ráðið

Undirritaður hnýtur einkum um eftirfarandi atriði þar sem stjórnlagaráð og stjórnarskrárnefnd greinir á:

  1. Stjórnlagaráð lagði til að 10% kosningabærra manna gæti kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu til að hnekkja nýsamþykktum lögum frá Alþingi. Í tillögum stjórnarkrárnefndar er þetta hlutfall hækkað í 15%.
  2. Stjórnlagaráð gekk út frá því að meirihluti þeirra sem taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni ráði örlögum laganna, staðfestingu þeirra eða höfnun. Stjórnarskrárnefnd gerir þeim sem vilja hafna lögunum erfiðara fyrir. Auk þess að skipa hreinan meirihluta verði þeir að samsvara a.m.k. fjórðungi kosningabærra manna.
  3. Stjórnarskrárnefndin leggur til þetta um greiðslu fyrir nýtingu á auðlindum í þjóðareigu, svo sem fyrir aflaheimildir: „Að jafnaði skal taka eðlilegt gjald fyrir heimildir til nýtingar auðlinda sem eru í eigu íslenska ríkisins eða þjóðareign.“ Stjórnlagaráð vildi kveða skýrt að orði og tala um „fullt gjald“ í þessu sambandi.

Stjórnarskrárnefnd hefur fengið dágóðan fjölda athugasemda, m.a. frá undirrituðum (sjá https://thorkellhelgason.is/?p=2417) og eru þar nokkrar ábendingar um breytingar sem kynnu að brúa bilið milli tillagna stjórnarskrárnefndar og stjórnlagaráðs. Minnt skal á að í þjóðaratkvæðagreiðslunni í október 2012 voru 2/3 þeirra kjósenda, sem afstöðu tóku, því hlynntir að tillögur stjórnlagaráðs yrðu lagðar til grundvallar að nýrri stjórnarskrá.

Afnotagjöld að jafnaði

Hér verður staldrað við síðasta punktinn hér að framan; þann sem snýr að gjaldtöku fyrir auðlindaafnot.

Í 72. gr. gildandi stjórnarskrár er kveðið á um friðhelgi eignarréttarins. Þar segir: „Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.“ Stjórnlagaráð hélt þessu ákvæði um eignarréttinn óbreyttu en taldi jafnframt að sama grundvallaratriði ætti að gilda um þjóðareignir. Því er freistandi að samræma í hina áttina og færa orðalag stjórnarskrárnefndar um eignarrétt þjóðarinnar yfir á hinn almenna eignarrétt. Þá yrði þetta sagt um eignarnámsbætur: „Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi að jafnaði eðlilegt verð fyrir.“ Varla þætti þetta góð latína. Er hún eitthvað betri þegar hún er látin taka til þjóðareigna?

Heildarendurskoðunar er þörf

Í núgildandi stjórnarskrá vantar ekki aðeins öll þau þrjú atriði, sem stjórnarskrárnefnd tekur nú til umfjöllunar, heldur og margt annað. Auk þess eru í stjórnarskránni andlýðræðisleg ákvæði eins og ójafnt vægi atkvæða. Og ekki má gleyma því að gildandi ákvæði um kjör forseta Íslands er með öllu ótækt. Viðbúið er að næsti forseti verði kjörinn með atkvæðum lítils hluta kjósenda. Kveða verður á um fyrirkomulag sem tryggir að forsetinn njóti stuðnings meirihluta kjósenda. Á því tókum við í stjórnlagaráði, en það sem annað hefur dagað uppi.

Bútasaumur á plagginu frá 1944, sem er grundvallað á konungsgjöf frá næst síðustu öld dugar því skammt. Núgildandi stjórnarskrá er full af hortittum og innra ósamræmi og gæti orðið enn grautarlegri með nýjum pjötlum hér og þar. Allir sæmilega læsir menn verða að geta lesið og skilið grundvallarlög hvers ríkis. Þar á ekki að þurfa langar útskýringar meintra sérfræðinga. Í slíku skjali má ekki standa staðhæfingin „Forseti lýðveldisins gerir samninga við önnur ríki.“ Allir vita að þetta er ekki svo, enda er forsetanum ætlað að skilja ákvæðið – eins og svo margt annað – í samhengi við annað ákvæði þar sem segir: „Forsetinn lætur ráðherra framkvæma vald sitt“, sem er í senn torskilin og vond íslenska. Eða þá að forsetinn hefur heimild til að veita „[…] annaðhvort sjálfur eða með því að fela það öðrum stjórnvöldum, undanþágur frá lögum samkvæmt reglum, sem farið hefur verið eftir hingað til.“ Vonandi tekur enginn forsetaframbjóðandi mark á þessari forneskju.

Um allt þetta – og margt fleira – fjallaði stjórnlagaráð og gerði tillögur til bóta.

Rætt verður áfram um stjórnarskrármálið í næstu grein undir heitinu: Er ein kráka í hendi betri en tvær í skógi?

Þorkell Helgason, áhugamaður um bætta stjórnarskrá og sat í stjórnlagaráði

Kvótakerfið er gott – en byggt á siðferðilegum sandi

Kvótakerfið er gott - en byggt á siðferðilegum sandi
ÞORKELL HELGASON SKRIFAR

Vart er lengur um það deilt að stjórna þarf aðgengi að takmörkuðum auðlindum eins og veiðum úr fiskistofnun. Takmörkun á afla getur verið með ýmsu móti en flestir hag- og fiskifræðingar virðast orðnir sammála um að skilvirkasta kerfið er kvótakerfi. Hagkvæmnin í veiðunum er best tryggð með því að kvótarnir séu eins og hver önnur aðföng, t.d. olía og veiðarfæri, sem afla má á markaði allt eftir því sem framboð leyfir.

Engum dytti í hug að skammta olíu úr hnefa stjórnvalda og afhenda langt undir markaðsverði. En einmitt þar stendur hnífurinn í kúnni með kvótakerfið. Kvótunum var upphaflega úthlutað ókeypis en hafa síðan gengið kaupum og sölum. Það hefur þjóðin ekki getað sætt sig við – og gerir ekki enn. Því hefur útgerðin ekki getað notið til fulls kosta kvótafyrirkomulagsins og eilíft búið við óvissu um framtíð þess. Ástæðan er sú að það skortir siðferðilegan grundvöll undir kvótakerfið, grundvöll sem bæði þjóðin og þeir sem að sjávarútvegi starfa geta við unað.

Strax í upphafi var bent á þennan vanda og á þá lausn að hin takmörkuðu gæði væru falboðin af hinu opinbera fyrir hönd eigendum þeirra, þjóðarinnar. Sjá t.d. grein eftir undirritaðan í Morgunblaðinu 4. nóvember 1987. Því er þar spáð að „ókeypis úthlutun [muni valda] eilífum ágreiningi. Sífellt verður reynt að lappa upp á úthlutunarreglurnar og tekið tillit til æ fleiri sjónarmiða, þar til kerfið er orðið óskapnaður. Þrátt fyrir það verður það aldrei sanngjarnt. Út úr þessum ógöngum er ekki nema ein fær leið: að hið opinbera selji kvótana á markaðsverði, jafnvel á eins konar uppboði.“[1] Allt á þetta enn við. Einmitt hefur verið lappað upp á kerfið og hefði það verið kórónað með svokölluðu „pottakerfi“ sem þriðji síðasti sjávarútvegsráðherra lagði til.

Margir vilja leysa siðferðisvandann með því að banna eða a.m.k. takmarka framsal á kvótum. Það er afleit leið af tvennum sökum. Í fyrsta lagi vegna þess að vandinn er ekki leystur með slíku banni. Takmörkuð gæði verða ævinlega að verðmætum og viðskipti með þau losna alltaf einhvern veginn úr viðjum. Ef ekki má framselja kvótana fá skip með kvótum aukið markaðsverð og það jafnvel þótt um ryðkláfa sé að ræða. En í öðru lagi er hagræðing í útgerð stórlega skert með hindrunum af hverju tagi.

Siðlegt kvótakerfi
Nú er kvótakerfið búið að vera við lýði í rúma þrjá áratugi. Kvótar hafa skipt um eigendur þrátt fyrir óvissu um framtíð kerfisins. Því væri ekki sanngjarnt að innkalla alla kvóta fyrirvaralaust. En það er til millileið sem í senn tryggir fyllstu hagkvæmni, stóreykur jafnræði í aðgangi að veiðunum og veitir núverandi útgerðum og þar með kvótahöfum eðlilega aðlögun um leið og tekið er tillit til forsögunnar hvort sem það eru fyrri kvótakaup eða uppsöfnuð veiðireynsla. Og það sem mestu máli skiptir: Lausnin færir auðlindirnar smám saman til baka til eigandans, þjóðarinnar, sem þá nýtur sanngjarns arðs af sinni eign.

Þessi leið hefur gengið undir ýmsum nöfnum en verður hér nefnd markaðsleið. Þar er gengið út frá núverandi stöðu, þeirri að nú eru kvótarnir í höndum tiltekinna útgerða. Aflahlutdeildum er síðan endurúthlutað frá ári til árs en þær skertar lítillega um leið, segjum 5-10% á hverju ári. Það sem þá situr eftir skal selt á opinberu uppboði og háð fyrrnefndum skerðingum strax árið eftir. Þeir sem fyrir eru og vilja halda sínum hlut óskertum þurfa því árlega að kaupa það sem nemur umræddri skerðingu, þ.e. 5-10% af eigin kvóta, en þeir sem vilja koma nýir í útgerð geta aflað sér kvóta á þessum uppboðsmarkaði. Sýna má fram á með núvirðisreikningum að þessi leið fetar þann meðalveg að núverandi kvótahafar og þjóðin skipta á milli sín verðmæti aflahlutdeildanna nokkurn vegin til helminga. Jafnframt er líklegt að verðmæti kvótanna hækki við upptöku markaðsleiðarinnar þar sem hún rennir stoðum siðferðis undir allt fyrirkomulagið sem ætti því að geta orðið til frambúðar. Lögspekingar hafa talsvert fjallað um það hvort kominn sé hefðarréttur á kvótaeignina. Almenna niðurstaðan er sú að ekki megi innkalla kvótana að fullu og það fyrirvaralítið en sú endurúthlutunarleið sem hér er nefnd sé lögmæt og leiði ekki til réttar á skaðabótum.

Þeir sem sjá ofsjónum yfir sköttum og gjöldum til að standa undir velferðarsamfélaginu hamra með nokkrum rétti á því að allar álögur á atvinnuvegina skapi hættu á atvinnuleysi þar sem fyrirtækin kunni að þurfa að draga saman seglin þeirra vegna. Gjöld sem ákvörðuð eru á markaði fyrir afnot af takmörkuðum auðlindum eru ekki háð þessum annmörkum. Uppboð á kvótum leiðir ekki til þess að fiskveiðar dragist saman. Uppboðshaldarinn, ríkið, mun taka öllum tilboðum þar til allt það sem er til ráðstöfunar gengur út. Ári illa í sjávarútvegi verða tilboðin sem því nemur lægri, en allt mun að lokum seljast. Auðlindagjöld með uppboði er því í senn efnahagslega skaðlaus en um leið sveiflujafnandi fyrir útgerðina.

Hugmyndin um þessa markaðsleið er nánast jafngömul kvótakerfinu og á sér auk þess erlendar fyrirmyndir. Hún var ítarlega kynnt í svokallaðri „sáttanefnd“ í tíð fyrrverandi ríkistjórnar (pottanefndinni) í skýrslu sem við Jón Steinsson hagfræðingur sömdum, en hún sem annað í þeirri nefnd dagaði uppi.[2] En nú hefur hreyfingin Viðreisn hafið merkið á loft, sbr. t.d. grein forvígismanns hennar, Benedikts Jóhannessonar, í Fréttablaðinu 30. apríl s.l.

Makrílfrumvarpið er ógæfuspor sem verður að stöðva
Stjórnarfrumvarp hefur verið lagt fram á Alþingi um úthlutun makrílkvóta. Úthlutunin á að mestu að byggja á veiðireynslu s.l. þrjú ár. Það er í stíl við það sem verið hefur. Nýmælið er að aflahlutdeildum er ekki lengur úthlutað eitt ár í senn án frekari skuldbindinga. Í þess stað er úthlutunin í raun ótímabundin nema hvað stjórnvöld geta afturkallað hana, en til þess þarf sex ára aðdraganda. Eigi að segja ákvæðinu upp þarf meiri hluti á Alþingi að vera sama sinnis í tvö ef ekki þrjú kjörtímabil í röð og a.m.k. einar kosningar á milli. Breyttur meiri hluti á þingi getur dregið uppsögnina til baka hvenær sem er. Það er því jafnvel erfiðara að afturkalla makrílúthlutunina en að breyta sjálfri stjórnarskránni.

En hættan af þessu óheillafrumvarpi er enn meiri. Segjum að ákvæði um auðlindir í almannaeign komist loks í stjórnarskrá, eins og og stjórnlagaráð lagði til og um þrír fjórðu hlutar kjósenda studdu í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2012. Þá væri samt ekki unnt að hrófla við makrílúthlutuninni næstu sex til sjö árin á eftir án þess að skapa ríkissjóði hættu á risaháum skaðabótakröfum. Ennfremur er eins víst að handhafa kvóta í öðrum tegundum myndu í krafti jafnræðis krefjast sömu bóta. Núverandi sjávarútvegsráðherra hefur raunar sagt að sex ára uppsagnarfrestur sé of stuttur[3] enda hafði hann fyrr reifað hugmyndir um að kvótahafar fái almennt að halda kvótunum óáreittir í 23 ár og það með sjálfvirkri framlengingu. Það er því augljóst að það stefnir í varanlegt afsal þjóðarinnar á fiskimiðunum sé ekki spornað kröftuglega við. Á móti kemur að vísu veiðigjald en það er sýnd veiði en ekki gefin. Gjaldið verður ákveðið af stjórnarmeirihluta á hverjum tíma allt eins og pólitísku kaupin gerast á eyrinni, en gjaldið nú svarar ekki nema til brots af markaðsvirði kvótanna.

Í stað tillögu sjávarútvegsráðherra um ráðstöfun á makrílkvótunum væri kjörið að beita nú framangreindri fyrningar- og uppboðsleið á þessar veiðar. Veiðireynsla, sem þó er ekki löng, væri virt í byrjunarstöðunni og því sársaukalítið fyrir útgerðina að fara þessa markaðsleið og hljóta að launum stuðning þjóðarinnar, eiganda auðlindarinnar.

Makrílfrumvarpið er ekki smámál um smáan fisk. Óbreytt mun frumvarpið ryðja brautina að endanlegri einkavæðingu fiskimiðanna við Íslandsstrendur. Því er frumvarpið ógæfuspor sem verður að stöðva. Lesandinn getur lagt sitt af mörkum með því að styðja undirskriftasöfnun á thjodareign.is



[2] Fylgiskjal 8 „Ráðstöfun aflahlutdeilda með samþættingu endurúthlutunar og tilboðsmarkaðar“með skýrslu um endurskoðun á stjórn fiskveiða, rit sjávarútvegsráðuneytisins nr. 53/2010; sjá http://www.atvinnuvegaraduneyti.is/media/Skyrslur/Fylgiskjal8_Tilbodsleid.pdf.
[3] Hádegisfréttir í ríkisútvarpinu 1. maí 2015, http://www.ruv.is/frett/makrilkvoti-til-sex-ara-mjog-stuttur-timi

Það þarf stjórnlagadómstól til að sporna við gerræði

[Birtist í Fréttablaðinu 17. mars 2015.]

Undanfarna daga hefur verið deilt um grundvallarþætti lýðræðisins, um þingræðið og framkvæmdarvaldið í tilefni þess að ríkisstjórnin hefur – að því er virðist – afturkallað umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Hefur hún rétt til að gera þetta upp á sitt eindæmi eða þarf hún að leita fulltingis Alþingis? Hér verður ekki farið út í efni þessa einstaka tilviks heldur einblínt á lýðræðisþátt málsins.

Deilur af þessum toga væru í mörgum lýðræðisríkjum útkljáðar fyrir stjórnlagadómstóli. Af alræmdu tilefni ruddu Þjóðverjar brautina eftir stríð og settu á laggirnar stjórnlagadómstól sem vakir yfir því að valdi sé ekki misbeitt. Síðan hafa fjölmörg Evrópuríki fetað í fótspor þeirra, ekki síst hin nýju lýðræðisríki í Austur-Evrópu.

Vitaskuld verður ekki stjórnlagadómstól komið á nema með breyttri stjórnarskrá. Atvikin undanfarið ættu að sýna okkur hve brýnt er að koma nýrri stjórnarskrá í höfn. Hvers vegna? Forseti þýska stjórnlagadómstólsins hefur svarað þessu skorinort. „Frelsi og lýðræði án stjórnarskrár er óhugsandi,“ sagði dómsforsetinn og bætti við að stjórnarskrá væri handa minnihlutanum. Meirihluti sem ekki byggi við aðhald gæti leiðst til að kúga minnihlutann. Þess vegna þyrfti óvefengjanleg grunnréttindi, þess vegna þyrfti að tjóðra stjórnmálin með réttarreglum og þess vegna væri nauðsynlegt að hafa dómstól, stjórnlagadóm, sem gætti þess að farið væri að grunnreglunum.

Stjórnlagaráð tók að nokkru á þessum vanda og vildi koma á sérstakri úrskurðarnefnd, Lögréttu, sem vísi að stjórnlagadómstól. Trúlega þarf að ganga lengra. Það mætti hugsanlega gera í tengslum við þá áformuðu breytingu á dómskerfinu að koma á millidómstigi. Þá verður Hæstarétti lyft á hærri stall og kynni hann því að geta tekið að sér hlutverk stjórnlagadómstóls. En grundvöllurinn verður að vera traustur og byggjast á stjórnarskrárákvæði.

Lærum af reynslunni. Treystum lýðræðið – með endurbættri stjórnarskrá.

Lífeyrisþegar geta lent í háum jaðarsköttum vegna ákvæða um fasteignagjöld

Fréttablaðið segir frá því 4. mars 2015 að ég hafi gagnrýnt „útfærslu fasteignaafsláttar og jaðarskatta í Garðabæ og víðar“ eins og blaðið orðar það. Fréttin á rætur að rekja til bréfs sem ég skrifaði bæjarstjórn Garðabæjar 22. febrúar s.á. Tilefni bréfsins var að ég rak mig á ákvæði um afslátt af fasteignagjöldum þegar mér barst álagningarseðill v. þessara gjalda. Ekki svo að þessi ákvæði snerti mig heldur furðaði ég mig á jaðaráhrifum þessara afsláttar. Frásögnin í Fréttablaðinu er ekki runnin undan mínum rifjum en úr því að bréfið er  komið á flakk er rétt að birta það í heild hér: Fasteignaskattar Garðabæ lagað II

Raunar kemur í ljós að ákvæði um afslátt af fasteignagjöldum eru víða einkennileg og er fyrirkomulagið í Garðabæ með skárra móti. Í bréfinu segi ég m.a.: „Nú er ég handviss um að þessi … há[i] heildarjaðarskattur – á sér ekki rætur í einhverri skattpíningaráráttu ráðamanna, heldur held ég að þetta sé aðeins eitt dæmið um það hvernig vinstri höndin í okkar velferðarkerfi veit ekki hvað sú hægri gerir.“

Í framhaldsbréfi, sem ég sendi eftir frásögnina á Fréttablaðinu segi ég ennfremur:
„Bréfið var hugsað til innansveitarbrúks og etv. skrifað í full léttúðugum stíl – enda þótt innihaldið sé full alvara! Vil því að það fari ekki milli mála að ég er ekki að gagnrýna bæjarstjórnina, enda er ég viss um – eins og ég sagði raunar í bréfinu – að umræddir meinbugir á afsláttarkerfi fasteignagjalda eru ekki til orðnir af ásettu ráði. Kerfið má auðveldlega laga, og það með ýmsum hætti, og treysti ég bæjarstjórninni fullkomlega til þess.“

Tímabært að gera umbætur á fyrirkomulagi kosninga

[Birtist í Fréttablaðinu 11. febrúar 2015.]

Fyrirkomulag kosninga til Alþingis hefur verið sífelldum breytingum háð allt frá fyrstu tíð. Síðustu meginbreytingar tóku gildi 1959, 1987 og 2000.

Búsetuflutningar á landinu hafa einkum verið tilefni þessara breytinga. Í kjölfar tilfærslu fólks frá dreifbýli til þéttbýlis hefur risið krafa um jöfnun vægis atkvæða eftir búsetu svo og krafa um hlutfallslega rétta skiptingu þingsæta á milli flokka. Jafnframt hefur einatt verið kallað eftir raunhæfu persónukjöri, þ.e.a.s. því að kjósendur fái vald til að ráða því hvaða frambjóðendur nái kjöri.

Alltaf hafa þessar breytingar verið hálfkveðin vísa: Misvægi atkvæða eftir búsetu hefur verið minnkað, en því ekki verið útrýmt, og hefur því ætíð hallað á ógæfuhliðina á ný. Nú hafa kjósendur um tvöfalt meira atkvæðavægi norðan Hvalfjarðarganganna en sunnan þeirra. Dregið hefur verið úr misvægi í skiptingu þingsæta milli flokka en sá ójöfnuður þó aldrei kveðinn í kútinn, samanber ójafna skiptingu sæta milli flokka eftir síðustu kosningar. Og persónukjör hefur ávallt verið í skötulíki eftir að listakosningar urðu meginreglan.

Þjóðin kallaði eftir breytingum í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012. Þannig lýstu 2/3 þeirra sem afstöðu tóku sig því fylgjandi „að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt“ og meira en 3/4 kölluðu eftir persónukjöri „í meira mæli en nú“.

Umbætur hafa látið á sér standa

Stjórnlagaráð lagði til að í nýrri stjórnarskrá yrði tekið á öllum þessum atriðum og viðeigandi ákvæði fest í stjórnarskrá þannig að Alþingi velktist ekki í vafa um útfærsluna í kosningalögum.

Umbætur hafa þó látið á sér standa. Málið er nú til umfjöllunar í enn einni stjórnarskrárnefndinni og verður að vænta þess að þar verði tillögum stjórnlagaráðs fylgt eftir. Innan ramma gildandi stjórnarskrár má þó gera ýmsar lagfæringar á fyrirkomulagi kosninga sé vilji fyrir hendi. Nokkrar hugmyndir þar að lútandi eru reifaðar í grein höfundar í vefritinu Stjórnmál og stjórnsýsla, 2. tbl., 2014.

„Heill lýðræðisríkja hvílir á lítilfjörlegu tæknilegu atriði: fyrirkomulagi kosninga. Allt annað er aukaatriði“ sagði hinn mikli spænski hugsuður José Ortega y Gasset. Því er kallað eftir umræðu um þennan grundvöll lýðræðisins.