Forsmánin við Skálholtskirkju og fjóspúkarnir á bitanum

[Birtist í visir.is og í styttri gerð í Fréttablaðinu 15. júlí 2014.]

 

 

clip_image002

VINIR SKÁLHOLTS SKRIFA:

Í Fréttablaðinu 8. júlí sl. er hálfkveðin „frétt“ um svokallað Þorláksbúðarmál. Skýrt er frá því að kirkjuráð hafi ákveðið að „lána“ Þorláksbúðarfélaginu 10,3 milljónir kr. og gefa eina milljón að auki til að félagið geti gert upp skuld við smið byggingar þeirrar sem hefur verið reist yfir rúst svokallaðrar Þorláksbúðar. Smiðurinn er verður launa sinna eftir að hafa verið vélaður til verksins á sínum tíma.

Árni Johnsen, sem er eins konar forystusauður svonefnds Þorláksbúðarfélags, segir að félagið hafi verið í fjárþröng vegna þess að „fjóspúkar á bitanum“ hafi haldið uppi harðri gagnrýni á verkefnið. Ragnhildur Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri kirkjuráðs, tekur í sama streng og kennir gagnrýnendum um fjárskort félagsins. Þess vegna hafi kirkjuráð lánað félaginu og vonast hún nú til að þeir finnist sem leggja vilja fé af mörkum, en bætir við að seinna meir verði hægt að „leita til ríkisins“. Hve oft hefur ekki hið opinbera þurft að greiða óreiðuskuldir ævintýramanna. Nú á að bæta þar við.

Það er rétt að við undirritaðir, og margir aðrir, höfum barist gegn því að umrædd smíð rísi þétt upp við Skálholtskirkju og tökum því það til okkar að vera fjóspúkar í augum Árna. Hvað höfum við á móti framkvæmdinni?

  • Sögulegt gildi nýrrar Þorláksbúðar er ekkert. Engar heimildir eru fyrir því að tóftin tengist Þorláki biskupi. Nafngiftina Þorláksbúð er fyrst að finna á 16. öld, mörgum öldum eftir daga Þorláks og tilgátuhúsið, sem risið er ofan á tóftina, á sér enga sögulega fyrirmynd.
  • Með þeirri yfirbyggingu tóftarinnar er friðuðum fornleifum spillt, sem er óheimilt. Væri tóftin í raun nátengd heilögum Þorláki, eins og forkólfurinn Árni hefur einatt haldið fram, væri þetta enn alvarlegra mál.
  • Með smíðinni er grafarró raskað í gamla kirkjugarðinum, sem varðar við lög.
  • En ekki síst er yfirbygging Þorláksbúðar fádæm smekkleysa, þar sem hún er trónir þétt upp við kirkjuna, hornskakkt á hana. Hún er vanvirðing við þá sem stóðu að gerð Skálholtskirkju hinnar nýju og þyrnir í augum allra þeirra sem vilja reisn staðarins sem mesta.

Allt verklagið við þennan gerning er með ólíkindum. Göslast var áfram þvert á gildandi skipulag og áður en tilskilin leyfi voru fengin, svo sem byggingarleyfi. Margir þeir sem hefðu þurft að veita slík leyfi voru ekki spurðir, eða þá fyrst spurðir þegar þeir stóðu frammi fyrir orðnum hlut. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur líka lýst furðu sinni á verklaginu.

Allt á huldu

Allt er á huldu um hvað Þorláksbúðarfélagið er, hverjir að því standa, hvernig fjárreiður þess eru o.s.frv. Eitt er þó víst að það er rangt sem framkvæmdastjóri kirkjuráðs segir í umræddri frétt „að kirkjan hafi ekki áður lagt fé til Þorláksbúðar“. Í bréfi Ríkisendurskoðunar sem vitnað er til í skýrslu stjórnskipunar og eftirlitsnefndar Alþingis á 141. löggjafarþingi segir: „Í bréfi Ríkisendurskoðunar kom fram að Félag áhugafólks um uppbyggingu Þorláksbúðar fékk á árunum 2008–2011 úthlutað samtals 9,4 millj. kr. úr ríkissjóði og að auki 3 millj. kr. frá kirkjuráði“. Síðan kann meira að hafa komið til. Það er því ósatt að kirkjan hafi ekki þegar lagt fé í þessa framkvæmd Árna Johnsens í Skálholti. Þá er það deginum ljósara að það mun lenda á kirkjunni að standa undir viðhaldi og rekstrarkostnaði byggingarinnar. Það getur orðið dágóð upphæð.

Árni Johnsen „segist vona að málið sé allt komið í góðan farveg nú þegar kirkjan sé „með í dæminu“. Framkvæmdastjóri kirkjuráðs er sama sinnis og vonast til að „neikvæð umræða um verkefnið dofni“. Við, vinir Skálholts, getum lofað henni því að við munum halda áfram að gagnrýna óskundann í Skálholti og ekki linna látum fyrr en Þorláksbúðarbyggingin hefur verið fjarlægð. Vissulega verður róðurinn erfiðari nú þegar kirkjan er orðin samsek og hefur hagsmuna að gæta með tóftarfélaginu. Það sem haft er eftir framkvæmdastjóranum um þetta bendir frekar til að hún sé orðin fjölmiðlatengill Árna Johnsens fremur en þeirrar kirkju sem á að gæta að sóma Skálholts. Talar hún fyrir munn biskups Íslands?

Framkvæmdastjóri kirkjuráðs segir að flestir útlendingar sem koma í Skálholt skoði Þorláksbúð. Við undirritaðir erum oft í Skálholti og það er rétt að margir horfa á tóftarbygginguna, jafnvel líta þar inn. En er það til að dást að hinum „algjöra gullmola“, eins og Árni kallar smíðina, eða er það til furða sig á smekkleysu og molbúahætti Íslendinga? Við höfum ekki enn hitt þann útlending sem hefur dásamað fyrirbærið, en viðmælendur okkar hafa lýst mikilli undrun og spurt hvernig annað eins geti gerst á þessum sögulega og helga stað.

Það eitt er til ráða að fjarlægja bygginguna úr kirkjugarðinum og reyna að koma tóftinni í fyrra horf, hafi hún ekki þegar verið eyðilögð. Taka má undir með framkvæmdastjóranum títtnefnda að tréverkið er á sinn hátt „listasmíð“. Húsið mætti því endurreisa á Skálholtsstað þar sem það spillir ekki staðarmyndinni og gæti jafnvel nýst til einhverrar þjónustu við gesti og gangandi. Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Minjastofnunar Íslands, hefur sagt að það sé „ekki vilji Minjastofnunar Íslands að húsið verði áfram þar sem það er nú“. Þetta verður ekki skilið öðru vísi en að stofnunin vilji húsið burt. Í viðbótarfrétt í Fréttablaðinu 9. júlí eru orð hennar þá og nú túlkuð á þennan veg. Aðspurð segir forstöðumaðurinn að vel sé hægt að flytja húsið. Árni Johnsen og framkvæmdastjóri kirkjuráðs segja, eins og við var búist, bæði tvö, að það sé „útilokað að færa Þorláksbúð“. Kristín Huld segir á hinn bóginn að húsið hafi einmitt verið reist þannig að flytja mætti það burt. Væntanlega hefur Árni kríað út leyfi með því lofa þessu, en nú heldur hann öðru fram.

Það kostar fé að færa bygginguna. Kirkjuráð hefur nú fundið rúmar tíu milljónir króna handa tóftarfélaginu, mitt í miklum harðindum Þjóðkirkjunnar. Þau lýsa sér m.a. í því að kirkjan hefur hætt öllum beinum fjárstuðningi við Sumartónleikana, það starf í Skálholti sem er staðnum einna mest til sóma, en þeir halda nú upp á fertugasta hátíðarsumarið. Milljónir kirkjuráðs verða afskrifaðar, hvað sem öllu líður. Væntanlega stendur það í kirkjunni að fórna meiru. Hverjir vilja ljá málinu lið og leggja fram þá tugi milljóna kr. sem þarf til að gera gott úr smíðinni og afmá þá hneisu sem Þorláksbúðarbyggingin er á núverandi stað?

Allt ferli Þorláksbúðarmálsins á að verða rannsóknarefni fyrir þar til bær yfirvöld, þó ekki væri nema til að koma í veg fyrir að hægt sé með frekju og yfirgangi að þjösnast áfram á kostnað almennings. Fyrir félagsvísindamenn getur málið líka verið áhugavert, hvort það sé einkenni kunningjasamfélagsins að menn komist upp með að brjóta lög og reglur.

Eiður Svanberg Guðnason, fv. stjórnmálamaður
Hörður H. Bjarnason, fv. sendiherra
Jón Hákon Magnússon, framkvæmdastjóri
Ormar Þór Guðmundsson, arkitekt
Þorkell Helgason, prófessor emeritus
Vilhjálmur Bjarnason, alþingismaður

Kjörheftir kjósendur

[Birtist í Fréttablaðinu 7. maí 2014.]

Framundan eru kosningar til sveitarstjórna á Íslandi. Ímyndum okkur að kosningakerfið væri þannig að á kjörseðlinum stæðu einungis nöfn flokka en engir væru frambjóðendurnir. Að kosningum loknum væri það hlutverk flokkanna sjálfra að velja fulltrúa til að skipa þau sæti sem kæmu í hvers hlut.

Varla þætti okkur þetta lýðræðislegt fyrirkomulag? En þannig er kerfið í raun. Hjá þeim sem kjósa utan kjörfundar er „kjörseðillinn“ meira að segja autt blað. Kjósendur sem kjósa fyrir kjördag vita lengst af ekki einu sinni hvaða flokkar eru í framboði. En jafnvel þótt kosið sé á kjördegi stendur kjósandinn aðeins frammi fyrir vali milli lista. Hann sér að vísu hvernig listarnir eru mannaðir, en getur vart haft áhrif á það hverjir munu skipa sætin. Það hafa flokkarnir ákveðið fyrirfram.

Að vísu voru áhrif útstrikana talsvert aukin með breytingum á lögum um kosningar til Alþingis um aldamótaárið. Þessi breyting hefur leitt til þess að í fjögur skipti hefur frambjóðandi færst niður um sæti. En þessu er ekki að heilsa í sveitarstjórnarkosningum. Alþingi hefur ekki komið því í verk að gera hliðstæðar breytingar á lögum um kosningar til sveitarstjórna. Þar er vald kjósenda til breytinga á framboðslistum enn aðeins áhrifalaus sýndarmennska.

Stuðningur nær 80 prósenta
Allt bendir þó til að kjósendur séu mjög áfram um að fá nokkru um það ráðið hvaða persónur veljast sem fulltrúar þeirra. Í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu í október 2012 um tillögur Stjórnlagaráðs hlaut spurning um aukið persónukjör stuðning nær 80% kjósenda. En síðan hefur ekkert gerst.

Óvíða er jafn víðtækt persónukjör og í Bæjaralandi þar sem þessi greinarstúfur er ritaður. Framboðslistum er í kynningarskyni stillt upp í forgangsröð en kjósendur ráða því samt alfarið hverjir veljast á landsþing eða í sveitarstjórnir. Til þess hafa þeir mikið valfrelsi. Þeir geta valið sér frambjóðendur, og það þvert á lista. Um leið, eða í staðinn, geta þeir merkt við lista, jafnvel allt að þremur. Kjósendur hafa þó allir sama kosningarétt. Dreifi þeir atkvæðinu á marga frambjóðendur eða flokka þynnist það út í sama mæli.

Stjórnlagaráð lagði til ákvæði um persónukjör við kosningar til Alþingis, en þó ekki jafn galopið og hér í Suður-Þýskalandi. Engu að síður stóð ekki á fullyrðingum ýmissa stjórnmálafræðinga um að persónukjör að hugmynd ráðsins þekktist hvergi. Einn þeirra sagði að það að atkvæði gæti skipst á milli flokka væri brot á mannsréttindasáttmálum.

Aðrir fræðingar telja persónukjör stórhættulegt lýðræðinu. Ekki verður þó annað séð en það virki mæta vel hér um slóðir. Þarf að matreiða frambjóðendur ofan í íslenska kjósendur? Eru þeir vanhæfari en t.d. þýskir að velja sér fulltrúa af viti?

Þorkell Helgason sat í Stjórnlagaráði

Krafa Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu um umbætur á fyrirkomulagi kosninga

[Birtist í Fréttablaðinu 10. apríl 2014 í styttri gerð.]

Á þessu ári eru liðin 140 ár frá því að fyrst var kosið til Alþingis sem löggjafarþings. Jafnframt eru 110 ár síðan hlutfallskosningar voru innleiddar hér á landi. Engu atriði stjórnarskrár hefur jafn oft verið breytt og ákvæðum um kosningar til Alþingis og fá ef nokkur löggjöf hefur verið sömu breytingum undirorpin og kosningalög. Engu að síður er fyrirkomulag þingkosninga um margt úrelt. Kosningalögin hafa aldrei verið yfirfarin í heild sinni og aðlöguð aðstæðum, hvað þá samræmd sívaxandi kröfum um fullan jöfnuð atkvæða og persónuval svo að tvö þungvæg atriði séu nefnd.

Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) fylgdist með framkvæmd Alþingiskosninganna 2009 og 2013 og gaf út skýrslur með athugasemdum og aðfinnslum.[i] Í skýrslunni um fyrri kosningarnar eru 13 ábendingar um það sem betur megi fara. Þar sem á engum þeirra var tekið milli kosninganna er upptalningin endurtekin og aukin í umfjölluninni um seinni kosningarnar. Í skýrslunni 2013 eru dregin saman 15 tilmæli, þar af sex sett í sérstakan forgang.

Í einfaldaðri framsetningu eru tilmæli ÖSE 2013 þessi:[ii]

1. Jafna kosningarétt eftir búsetu.

2. Heimila alþjóðlegt eftirlit með kosningum.

3. Samræma og samhæfa allt starf við framkvæmd kosninga.

4. Refsa fyrir brot á lögum um fjármál stjórnmálaflokka.

5. Auka umfjöllun RÚV um kosningar og tryggja rétt framboða til kynningar.

6. Kærur um gildi kosninga fari fyrir dómstóla en Alþingi úrskurði ekki sjálft.

7. Framboð liggi fyrir áður en utankjörfundaratkvæðagreiðsla hefst.

8. Tryggja að Ríkisendurskoðun geti fylgst með útgjöldum framboða.

9. Loka smugum í löggjöf um framlög til stjórnmálaflokka.

10. Takmarka samþjöppun á fjölmiðlamarkaði.

11. Fjölmiðlanefnd verði falið að stuðla að óhlutdrægri umfjöllun um framboð.

12. Huga að ákvæðum um skoðanakannanir og birtingu þeirra.

13. Endurskoða alla framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslu.

14. Uppfræða kjósendur um vald þeirra til að breyta röð frambjóðenda.

15. Setja yfirvöldum tímamörk við afgreiðslu á kærum og kvörtunum.

Hér skal nokkrum meginatriðunum gerð nánari skil:

1. Jöfnun kosningaréttar. Verulegt ósamræmi er milli vægis atkvæða eftir búsetu. Sumir kjósendur hafa helmingi meira vægi en aðrir. ÖSE lagði á það ríka áherslu þegar í skýrslunni 2009 að ekki mætti lengur dragast að jafna kosningaréttinn. Í skýrslu ÖSE 2013 er ekki tekið jafn sterkt til orða, en það á sér þá skýringu að stofnunin telur að Alþingi sé að vinna að jöfnuninni. Í því sambandi vísa þeir til þess að sæti hafi verið fært frá Norðvesturkjördæmi til Suðvesturkjördæmis milli kosninga. Stofnunin virðist halda að þetta hafi verið gert með lagabreytingu, sem lýsi þá góðum vilja Alþingis.[iii] Þetta er misskilningur hjá ÖSE þar sem þessi færsla sætis gerðist sjálfvirkt á grundvelli kosningalaganna frá 2000. En ÖSE heldur sig samt við sinn keip og bendir á í skýrslu sinni 2013 að ójafn kosningaréttur stangist á við þá grundvallarsamþykkt samtakanna frá árinu 1990 og kennd er við Kaupmannahöfn.[iv] Jafnframt rifjar ÖSE upp, að Feneyjanefndin[v] svokallaða hafi fagnað því að í frumvarpi að nýrri stjórnarskrá, sem lá fyrir Alþingi veturinn 2012-13 og ættað var frá Stjórnlagaráði, hafi verið kveðið á um fulla jöfnun kosningaréttar.[vi] ÖSE harmar greinilega að þessari tillögu hafi verið hafnað.[vii]

3. Samræming á framkvæmd kosninga. ÖSE þykir glundroði ríkja í stjórn kosningamála þar sem við sögu koma innanríkisráðuneyti, landskjörstjórn, yfirkjörstjórnir og mýgrútur undirkjörstjórna. Boðvald er afar óskýrt. T.d. hefur landskjörstjórn ekkert yfir yfirkjörstjórnum að segja. Í skýrslu sinni 2009 segir ÖSE að veita eigi landskjörstjórn aukið umboð og fela henni stærra hlutverk.[viii] Undir þetta tók Stjórnlagaráð í frumvarpi sínu að nýrri stjórnarskrá.[ix]

6. Um gildi kosninga. Samkvæmt gildandi lögum er Alþingi dómari í eigin máli þar sem þingið úrskurðar sjálft um gildi þingkosninga. Eðlilega gerir ÖSE alvarlegar athugasemdir við þetta fyrirkomulag og vill að dómstólar hafi lokaorðið um gildi kosninga svo og um allar kosningakærur. Bendir ÖSE á ákvæði í svonefndu Moskvuskjali stofnunarinnar frá 1991 þessa efnis.[x] Stjórnlagaráð var sama sinnis og vildi færa úrskurðarvaldið frá Alþingi til landskjörstjórnar, en öllum úrskurðum hennar væri síðan hægt að skjóta til dómstóla.[xi]

7. Framboð liggi fyrir áður en kosning hefst. Utankjörfundaratkvæðagreiðsla hefst áður en framboðsfresti líkur. Kjörseðlar eru þá ekki tilbúnir. Þetta gerir kosningarathöfnina ómarkvissa og takmarkar mjög möguleika kjósenda til útstrikana svo eitthvað sé nefnt. Þetta ósamræmi þekkist ekki í löndunum í kringum okkur. Í skýrslunni 2009 segir ÖSE þetta ótækt en tjáir sig með hógværum hætti 2013 og segir fyrirkomulagið „óheppilegt“!

14. Um persónukjör. Í þing- og sveitarstjórnarkosningunum er skylt að bjóða fram lista. Kjósendur geta breytt röð frambjóðenda og strikað út nöfn á þeim listum sem þeir greiða atkvæði sitt. En áhrif slíkra breytinga hafa lengst af verið lítil sem engin. Á tímabilinu 1959 til 2000 má heita að það hafi verið borin von að kjósendur gætu haft nokkur áhrif. Á hinn bóginn voru áhrif breytinga aukin talsvert með kosningalögum árið 2000. Kjósendur hafa samt aldrei verið upplýstir að neinu gagni um þessa möguleika þrátt fyrir lagafyrirmæli þar að lútandi. Svo virðist sem stjórnvöld vilji hafa hljótt um þennan rétt kjósenda. ÖSE bendir á þessa grafarþögn í skýrslu sinni 2013 og mælist til þess að kjósendur verði betur upplýstir, m.a. í ríkissjónvarpinu. Stjórnlagaráð vildi ganga mun lengra og leyfa kjósendum alfarið að sjá um uppröðun á framboðslistum.[xii] En það er önnur og lengri saga.

Athyglisvert er Stjórnlagaráð og ÖSE eru sammála um margt, ef ekki flest, í þeim umbótum sem gera þarf á kosningakerfinu. Unnt er að verða við nær öllum tilmælum ÖSE með því einu að breyta kosningalögum. Stjórnarskrárbreytingar er aðeins þörf í einu tilviki. Sama gildir raunar um breytingar þær sem Stjórnlagaráð lagði til. Þær rúmast langflestar innan gildandi stjórnarskrár. En í ljósi slæmrar reynslu af vilja og verklagi Alþingis í þessum efnum vildi Stjórnlagaráð að meginatriði í fyrirkomulagi kosninga yrðu negld niður í stjórnarskrá en þau ekki látin vera háð duttlungum þingmeirihluta hverju sinni. Dæmin hræða í þeim efnum, nú síðast hvernig meirihluti þingsins í Ungverjalandi hagræðir kosningakerfinu fyrir kosningar þar í vor; og vitaskuld sér til hagsbóta.

Það er ekki seinna vænna að hrinda í framkvæmd þeim umbótum á kosningakerfinu sem ÖSE leggur til, nú þegar brátt eru liðin fimm ár frá því að stofnunin bar fram tilmæli sín. Stjórnvöld geta ekki virt tilmæli þessarar alþjóðastofnunar að vettugi. Hana má ekki afgreiða með því að ekki þurfi að hafa „miklar áhyggjur af því hvað hinum og þessum skammstöfunum finnst“ eins og okkar æðsti ráðamaður sagði sl. sumar, þó af öðru tilefni.[xiii]

Þorkell Helgason, hefur verið ráðgjafi um kosningamál í áratugi


[i] Um kosningarnar 2009 sjá http://www.osce.org/odihr/elections/iceland/38309. Um kosningarnar 2013 sjá http://www.osce.org/odihr/elections/100321 og á íslensku í http://www.osce.org/is/odihr/elections/103314.

[ii] Íslenska gerð skýrslunnar 2013, bls. 18-19.

[iii] Sjá síðustu mgr. á 3. bls. í íslensku gerðinni 2013: http://www.osce.org/is/odihr/elections/103314.

[iv] Kaupmannahafnarskjalið http://www.osce.org/odihr/elections/14304, sjá atriði (7.3).

[v] Álit Feneyjanefndarinnar: http://www.venice.coe.int/WebForms/documents/?pdf=CDL-AD(2013)010-e eða líka http://www.althingi.is/pdf/Feneyjanefnd_skyrsla_e.pdf.

[vi] Hér er átt við frumvarp það sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis lagði fram 16. nóv. 2012: http://www.althingi.is/altext/141/s/0510.html. Sjá 2. mgr. 39. gr. frumvarpsins. Samhljóða ákvæði er á sama stað í frumvarpsdrögum Stjórnlagaráðs: http://www.althingi.is/altext/140/s/0003.html.

[vii] Sjá niðurlag 1. mgr. á 5. bls. í íslensku gerðinni 2013: http://www.osce.org/is/odihr/elections/103314.

[viii] Sjá tilmæli neðst á 8. bls. í skýrslu ÖSE 2009: http://www.osce.org/odihr/elections/iceland/38309

[ix] Sjá 43. gr. í frumvarpsdrögum ráðsins sem er að finna í skjalinu http://www.althingi.is/altext/140/s/0003.html. Samhljóða ákvæði er í 43. gr. í frumvarpi meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar: http://www.althingi.is/altext/141/s/0510.html.

[x] Moskvuskjalið: http://www.osce.org/odihr/elections/14310 , sjá 18.4 gr.

[xi] Sjá aftur 9. neðanmgr.

[xii] Sjá 39. gr. hvort sem er í frumvarpsdrögum Stjórnlagaráðs eða frumvarpi meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis: http://www.althingi.is/altext/140/s/0003.html. Sami meiri hluti dró þó aðeins í land í þessum efnum; sjá 6. lið í breytingartillögu meiri hlutans: http://www.althingi.is/altext/141/s/1112.html.

[xiii] Sjá frétt RÚV: http://www.ruv.is/frett/ekki-ahyggjur-af-skammstofunum.

Ný stjórnarskrá: Góð málamiðlun um kosningakerfi

[Birtist í Fréttablaðinu 19. febrúar 2013.]

Meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis hefur lagt fram tillögur til breytinga á stjórnarskrárfrumvarpinu. Einna mikilvægasta nýjungin er breytt fyrirkomulag þingkosninga. Þetta ætti að þoka öllu stjórnarskrármálinu áfram til samkomulags með góðum vilja þingmanna.

Nýtt kosningakerfi

Meginþættir hinna nýju ákvæða eru þessir:

·        Jafnt vægi atkvæða, eins og í upphaflega frumvarpinu. Kjósendur njóta þá allir sömu mannréttinda við kjörborðið öndvert við það sem nú er.

·        Eitt eða fleiri kjördæmi. Hér er ekki lengur sett hámark við töluna átta. Kjördæmaskipan er alfarið hlutverk löggjafans með setningu kosningalaga.

·        Eingöngu kjördæmalistar. Þar með er horfið frá því að bjóða upp á landslista eins og er í tillögum stjórnlagaráðs. Á móti kemur að sömu nöfn mega vera í boði á fleiri en einum kjördæmislista sama flokks.

·        Persónukjör valkvætt. Það er ekki skylda að hafa alla lista óraðaða eins og er í reynd í frumvarpinu. Hver flokkur fyrir sig ákveður sjálfur hvort listar hans eru raðaðir eða óraðaðir.

·        Þingsætum skal úthluta til flokka, lista og frambjóðenda og það í þessari röð. Ekki er lengur hætta á því að kjördæmi verði hlunnfarin um þingsæti.

Ávinningur

Breytingartillagan tekur á velflestri þeirri gagnrýni sem fram hefur komið á kosningaákvæðin í stjórnarskrárfrumvarpinu:

·        Ákvæðin eru verulega einfölduð og um leið færð mun nær því kerfi sem tíðkast hefur. Framboð geta verið alfarið með sama hætti og nú og kjörseðlar verða áfram kunnuglegir.

·        Aukið svigrúm við setningu kosningalaga.  Með breytingunni fær löggjafinn aukið svigrúm við setningu kosningalaga en samkvæmt stjórnarskrárfrumvarpinu. Hlutverk löggjafans verður viðamikið en hann fær líka góðan tíma, tvö ár, til að breyta kosningalögum.

·        Staða kjördæmanna treyst. Með brottfalli landslista og skarpari ákvæðum um úthlutun þingsæta er brugðist við þeirri gagnrýni á upphaflega frumvarpið að þingsæti gætu hópast úr landsbyggðakjördæmum til höfuðborgarsvæðisins.

Þá sem óttast breytingar er hægt að róa. Flokkar geta boðið fram með nákvæmlega sama hætti og nú. Þeir halda sig þá við aðskilda kjördæmislista og bjóða fram raðaða lista, sem kjósendur mega að vísu breyta en hin gefna röðun mun væntanlega ráða mestu.

Hinir sem vilja horfa á landið sem heild og vilja gefa kjósendum valfrelsi, t.d. nýir flokkar eða grasrótarhreyfingar, hafa líka tækifæri. Þeir geta boðið fram sama fólkið í öllum kjördæmum og það á óröðuðum listum.

Feneyjarnefndin

Eins og alkunna er hefur svokölluð Feneyjanefnd nú gert athugasemdir við stjórnarskrárfrumvarpið. Í umsögn um ákvæðin um kosningar til Alþingis segir nefndin einkum þetta, ásamt athugasemdum greinarhöfundar:

·        Nefndin fagnar jöfnu vægi atkvæða, grundvallarforsendu lýðræðis (málsgr. 69).

·        Hún hefur vissar áhyggjur af því að með persónukjöri sé dregið úr því hlutverki flokkanna að velja fólk til forystu (73).

o   Persónukjör er virkt á öðrum Norðurlöndum nema Noregi. Er einhver foringjakreppa í þessum löndum?

o   Með fyrrgreindri breytingu á frumvarpinu er hverjum flokki í sjálfsvald sett hvaða valdi hann vill halda og hvað framselja til kjósenda. Áhyggjurnar ættu því að vera úr sögunni.

·        Nefndin virðist ekki skilja ákvæði í frumvarpinu um að tryggja megi kjördæmum lágmarkstölu sæta þrátt fyrir tilvist landslista (71).

o   Með breytingartillögunum er þetta vandamál úr sögunni.

·        Nefndin telur sambland flokkslistakjörs og persónukjörs flókið viðfangsefni sem sé skilið eftir fyrir kosningalög (74).

o   Aftur má minna á að nákvæmleg sama er uppi á teningnum í fyrrgreindum grannlöndum og víðar.

o   Vitaskuld væri einfaldara að hafa annað hvort hreint listakjör eða hreint persónukjör, en almennur vilji virðist vera til að fara hina blönduðu leið. Á þessu er nánar tekið með breytingartillögunni.

·        Nefndin bendir á að þröskuldur sé enginn og virðist hafa áhyggjur af smáflokkakraðaki sem torveldi myndun ríkisstjórna og auki baktjaldamakk á þingi (75).

o   Spyrja má hvort myndun ríkisstjórna og baktjaldamakk séu ekki þegar þekkt vandamál!

o   En vissulega kemur til greina að hafa þröskuld. Nú getur listi náð manni á þing jafnvel út 1% af landsfylgi eða svo. Viðfangsefnið er því þekkt og kynni Feneyjanefndin efalaust að geta velt vöngum yfir núverandi fyrirkomulagi.

o   Á hinn bóginn vekur Feneyjanefndin líka athygli á því að einstaklingar geti aðeins boðið sig fram á listum (70). Þetta sýnir að nefndin er eitthvað tvístígandi í þessu þröskuldsmáli.

o   Allt um það ætti Alþingi að íhuga setningu lágmarksskilyrða þannig að flokkur þurfi að hafa fylgi sem nægi fyrir tveimur eða þremur þingmönnum hið minnsta til eiga tilkall til þingsæta.

·        Nefndin virðist hugsi yfir því að löggjafinn fái mikið vald til að setja kosningalög. Fyrsta þing eftir gildistöku nýrrar stjórnarskrár setji þau lög sem síðan verði aðeins breytt með 2/3 atkvæða á þingi. (Sjá mgr. 76 og 77.)

o   Fyrst er því til að svara að það er mjög á reiki hvað er í stjórnaskrá og hvað í kosningalögum í þessum efnum. Ákvæðin í frumvarpinu eru í meðalhófi hvað þetta varðar.

o   Hitt er rétt að ákvæðin um setningu kosningalaga orka tvímælis. Stjórnlagaráð tók þetta orðrétt upp úr gildandi stjórnarskrá. Gagnrýni Feneyjanefndarinnar á því jafnframt við um hana.

o   Alþingi ætti að íhuga að fella þetta sérákvæði niður.

·        Í lokinn segir Feneyjanefndin kosningaákvæðin vera mjög flókin (78).

o   Mat á slíku er alltaf huglægt. Kosningakerfi eru hvergi einföld. Viðfangsefnið er í eðli sínu flókið. En á hinn bóginn má fullyrða að með fyrirliggjandi breytingartillögum er búið að einfalda hina upphaflegu gerð frumvarpsins verulega.

Með breytingartillögum meiri hluta skipulags- og eftirlitsnefndar Alþingis er tekið á flestu í umsögn Feneyjanefndarinnar um kosningaákvæðin. Eftir situr hvort setja eigi lágmarksþröskuld og hvort krefjast eigi aukins meiri hluta á Alþingi við framtíðarbreytingu á kosningalögum.

Áfram veginn

Nú þarf að halda áfram í samkomulagsátt í stjórnarskrármálinu og freista þess að finna sem stærstan samnefnara innan þess ramma sem markaður var með afgerandi úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október s.l.

Fyrirliggjandi hugmyndir um kosningaákvæði stjórnarkrárinnar ættu að geta verið stór hluti slíkrar málamiðlunar.

Leiðir persónukjör til spillingar?

[Birtist í Fréttablaðinu 7. febrúar 2013.]

Í umræðu um stjórnarskrárfrumvarpið er því iðulega haldið fram að rannsóknir sýni að hætta geti verið á meiri spillingu með auknu vægi persónukjörs. Þetta endurspeglast m.a. í Kögunarhólspistli hér í blaðinu 26. janúar sl. undir þeirri afdráttarlausu millifyrirsögn „Meiri spilling“.

Eru þetta einhlítar niðurstöður og traustar rannsóknir? Að mati undirritaðs er svarið nei. Þvert á móti benda vandaðar rannsóknir fremur til þess að þar sem er persónukjör sé spilling minni en ella, þvert á fullyrðingar hér innanlands. Þetta er rökstutt í erindi til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis sem finna má á vefsíðunni https://thorkellhelgason.is/?p=1844 en niðurstaðan er reifuð í þessari blaðagrein.

Hæpin tölfræði

Í fræðimannaumræðunni er einkum vísað í grein eftir stjórnmálafræðingana Eric C.C. Chang og Miriam A. Golden með heitinu „Electoral Systems, District Magnitude and Corruption“ til sönnunar fullyrðingunni um samhengi persónukjörs. Í upphafi greinarinnar viðurkenna höfundar að vísu að fyrri rannsóknir hafi bent til þess að þessu sé öfugt farið, að saman fari spilling og raðaðir listar, þ.e.a.s. án persónukjörs. En umrædda fræðimenn fýsir að komast að hinu gagnstæða, þ.e.a.s. að þeirri niðurstöðu sem hampað er hérlendis. Til þess beita þeir tölfræði á safn rúmlega fjörutíu meintra lýðræðisríkja. Mælikvarði á spillingu sem þeir nota er frá samtökunum Transparency International. Hann er ekki einskorðaður við spillingu í stjórnmálum einum heldur líka og ekki síður í viðskiptalífinu, en skárri alþjóðlegan mælikvarða finna þeir ekki. Því má skjóta inn í að spilling á Íslandi var á þessum sama mælikvarða talin ein hin minnsta í heimi allt fram að hruni, á góðu árunum svokölluðu!

Tölfræðin hjá Chang og Golden er bágborin enda eru örfá tilfelli í hverjum hópi umræddra ríkja þegar búið er að skipta þeim eftir stigi persónukjörs og flokka síðan eftir kjördæmastærð. En sé greinin engu að síður tekin alvarlega getur hún engan veginn talist sönnun þeirrar fullyrðingar að persónukjör bjóði upp á spillingu.

Niðurstaðan er öndverð: Að það sé minni spilling þar sem saman fer persónukjör en þar sem listar eru raðaðir og lítt breytanlegir, a.m.k. svo lengi sem kjördæmi eru skaplegrar stærðar.

Bitastæðari fræðimennska

Sænski hagfræðinginn Torsten Persson og ítalskur kollegi hans, Guido Tabellini, hafa gert mun vandaðri greiningu á fyrirbærinu spilling og persónukjör en fyrrgreindir Cheng og Golden. Þetta kemur fram í bók þeirra The Economic Effects of Constitutions (MIT-Press, 2005). Hagfræðingarnir hafa fleiri ríki undir og gera ítarlegri greinarmun á ríkjunum eftir lýðræðislegum þroska þeirra.

Þeir Persson og Tabellini komast að þeirri meginniðurstöðu að þar sem kjósendur velja einstaklinga sé spilling minni en þar sem þeir merkja við lokaða flokkslista. Þeir tala meira að segja um fimmtungi minni spillingu þar sem allir þingmenn eru valdir persónukjöri í samanburði við hinar öfgarnar, allir valdir af lokuðum listum. Þorvaldur Gylfason fer ítarlega yfir niðurstöður Perssons og Tabellinis í nýlegu Dv-bloggi.

Persónukjör í hófi

Upprunalegar tillögur stjórnlagaráðs um persónukjör fela í sér að allir listar skuli vera óraðaðir í raun, þ.e.a.s. alfarið persónukjör. Þetta hefur sætt gagnrýni fyrir það að of langt sé gengið. Nú hefur meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis brugðist við og lagt til að farið verði hægar í sakirnar. Meginbreyting nefndarinnar er sú að flokkarnir geti sjálfir ákveðið hvort listar þeirra teljist raðaðir eða óraðaðir. Þannig geta flokkar sem vilja treysta á eigin prófkjör haldið sig við raðaða lista um leið og aðrir flokkar kunna að leyfa kjósendum sínum að velja frambjóðendur af hlaðborði í kjörklefanum. Svipað valfrelsi hefur verið í Danmörku í rúman aldarfjórðung.

Fyrst voru flestir listar raðaðir en nú hefur þetta snúist við. Breytingartillagan ætti að geta orðið til sátta og ber að fagna henni þó ekki væri nema af þeirri ástæðu.

Hver dæmir?

Umsagnir fræðimanna geta vissulega leitt til endurbóta á stjórnarskrárfrumvarpinu. En fræðimenn mega ekki vera með einhliða hræðsluáróður þar sem máli virðist í sumum tilvikum mjög vera hallað.

Allt orkar tvímælis þá er gert er, líka það að innleiða virkt persónukjör. En hverjir eru þess umkomnir að segja hvað sé þjóðinni fyrir bestu? Eru það fræðimenn eða fólkið sjálft og kjörnir fulltrúar þess? Er það fræðimanna að hafa vit fyrir 78% íslenskra kjósenda, þeim sem tóku afstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október sl. og lýstu yfir stuðningi við þá nýbreytni að fá að velja sér þingmenn við kjörborðið?