by Þorkell Helgason | okt 3, 2014 | Á eigin vefsíðu
[Við, sex félagar úr stjórnlagaráðinu sáluga, Ari Teitsson, Illugi Jökulsson, Katrín Fjeldsted, Guðmundur Gunnarsson, Þorkell Helgason og Vilhjálmur Þorsteinsson sendum hinn 30. sept. 2014 stjórnarskránefndinni nýjustu umsögn um fyrstu áfangaskýrslu hennar. Hér á eftir sést inngangsbréf okkar til nefndarinnar en umsögnin í heild er í skjalinu Umsögn sexmenninga um fyrstu áfangaskýrslu stjórnarskrárnefndar]
Við undirrituð, sem öll sátum í stjórnlagaráði, viljum með erindi þessu bregðast við ósk stjórnarskrárnefndar um athugasemdir við 1. áfangaskýrslu nefndarinnar og svara að nokkru spurningum þeim og álitamálum sem nefndin setur fram í undirköflum skýrslunnar merktum x.6.
Við fögnum því að viðfangsefnið — endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands — sé á dagskrá og væntum þess og vonum að hin nýja nefnd sinni því af alúð, enda er okkur málið hjartfólgið.
Eins og öllum er kunnugt fór fram umfangsmikil og lýðræðisleg vinna að nýrri stjórnarskrá í stjórnlagaráði 2011 og í aðdraganda þess með þjóðfundinum 2010, svo og með gagnaöflun og fræðivinnu stjórnlaganefndar sem undirbjó starf ráðsins. Þá unnu starfsmenn stjórnlagaráðs og ráðgjafar, sem leitað var til, mikið starf, og sama gildir um stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis á síðasta kjörtímabili og sérfræðinga á hennar snærum. Fullyrða má að ekki hafi verið jafn mikið í lagt í neinni af hinum mörgu fyrri tilraunum til að setja lýðveldinu heilsteypta stjórnarskrá.
Þjóðaratkvæðagreiðslan 2012 skapar þessari stjórnarskrárlotu sögulega sérstöðu. Niðurstöður atkvæðagreiðslunnar voru mjög afgerandi um helstu lykilatriði í tillögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Þar kom líka fram ósk tveggja þriðju hluta kjósenda sem afstöðu tóku um að tillögur ráðsins skyldu lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.[1]
Að öllu þessu virtu verður að telja að hinni nýju stjórnarskrárnefnd beri lýðræðisleg skylda til að leggja niðurstöður hins mikla starfs í undanfarinni lotu til grundvallar verki sínu og tillögugerð, í stað þess að hefja að nýju umræðu á breiðum grundvelli um efnisatriði stór og smá. Rökrétt er, og vænlegast til árangurs og sátta, að nefndin einbeiti sér að því að halda áfram umbótum og útfærslum á „grundvelli“ tillagna stjórnlagaráðs, eins og tveir þriðju kjósenda hafa kallað eftir.
Í samræmi við það sem þegar hefur verið sagt tjáum við undirrituð okkur í viðaukum 1-4 um einstakar spurningar á áfangaskýrslunni í ljósi þess sem stjórnlagaráð lagði til. Einnig höfum við hliðsjón af frumvarpi meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og breytingartillögum hans. Við víkjum þó frá þessum meginviðmiðum þegar við metum það svo, í ljósi umræðu og upplýsinga sem fram hafa komið, að rétt sé að kveða öðru vísu að. Árétta ber að svör þessi og athugasemdir eru sett fram í okkar nafni sem einstaklinga en ekki í nafni annarra fyrrum félaga okkar í stjórnlagaráði.
[1] Hér verður að skjóta því inn að atkvæðahlutföll þau úr þjóðaratkvæðagreiðslunni sem fram koma í áfangaskýrslunni eru villandi þar sem auð svör við einstökum spurningum eru talin til gildra atkvæða. Hlutföll já- og nei-svara leggjast því ekki saman í 100%. Þetta er öndvert við vilja löggjafans eins og hann birtist í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 91/2010 um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna, svo og hefðir um birtingu niðurstaðna úr þjóðaratkvæðagreiðslum og kosningum, sbr. t.d. töflu 10 í Hagtíðindum 2013:1.
by Þorkell Helgason | júl 2, 2014 | Á eigin vefsíðu
[Birtist í Fréttablaðinu 2. júlí 2014]
Í ritstjórnargrein Fréttablaðsins 26. júní s.l. er fjallað um áfangaskýrslu hinnar nýju stjórnarskrárnefndar sem birt var á dögunum. Undirritaður sat í stjórnlagaráði og telur sér því málið skylt.
Eins og ritstjórinn fagna ég sérhverju skrefi í stjórnarskrármálinu; líka reifun málsins í áfangaskýrslu hinnar nýju stjórnarskrárnefndar, þótt beinar tillögur séu þar næsta fáar. Stjórnarskrármálið er þó aftur komið í umræðuna. Á hinn bóginn finnst mér ritstjórinn tala ómaklega um störf stjórnlagaráðs. Það hafi „skellt… fram illa ígrunduðum tillögum“ segir hann. Ráðið fékk afmarkaðan tíma til sinna starfa, rúma þrjá mánuði. Tíminn hafði verið verulega skorinn niður frá því sem upphaflega var ráðgert. Hinu má þó ekki gleyma að mikið starf hafði farið fram áður en stjórnlagaráðið tók til starfa, og það þurfti því ekki að hefja störf á byrjunarreit. Engu var „skellt fram“, enda störfuðu 25 einstaklingar ásamt sérfræðingum að verkefninu nótt sem nýtan dag sumarið 2011. Unnið var fyrir opnum tjöldum með samfelldu aðgengi almennings.
Dundar sér út kjörtímabilið
Nýja nefndin fær að dunda sér við málið út kjörtímabilið og er ekki einu sinni skuldbundin til að skila neinu frá sér, en stjórnlagaráði var uppálagt að skila drögum að frumvarpi. Að tillögur okkar hafi verið „illa ígrundaðar“ er órökstudd fullyrðing. Í lok ritstjórnargreinarinnar er talað um „hrærigraut[inn] sem hin misheppnaða tilraun um stjórnlagaþingið gat af sér.“ Það virðist í tísku að taka stórt upp í sig um störf stjórnlagaráðs, án þess að láta nokkuð í ljós sem stutt geti stóryrðin.
Ritstjóranum er tíðrætt um skoðanir stjórnlagaráðs. Ráðið samanstóð af einstaklingum sem sameiginlega hafa engar aðrar skoðanir en þær sem komu fram í skriflegum skilum ráðsins 29. júlí 2011. Ritstjórinn segir að „[r]áðið … virtist halda að … með [tillögum þess] væri komin ný stjórnarskrá, sem ekki mætti breyta eða ræða frekar.“ Það kann að vera að einstaka félagar í ráðinu hafi talað þannig, en flestir, ef ekki allir sögðu að vissulega bæri að gera þær breytingar sem til bóta mættu vera, eins og gert var í umfjöllun meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.
Sjötíu ára bið
Þá segir ritstjórinn að „[s]tóryrtar yfirlýsingar fyrrverandi stjórnlagaráðsmanna um „valdarán“ og „aðför að lýðræðinu“ í tilefni af áfangaskýrslunni eru fáránlegar.“ Hér er aftur verið að ýja að því að stjórnlagaráðsmenn fyrrverandi tali allir á sömu nótum. Sum okkar mundu nota önnur orð um þetta nýja plagg og tilurð þess.
Ritstjórinn segir að flest bendi „til að málið sé nú … lagt þannig upp að það geti fengið vandlega umræðu og skoðun, Alþingi fjallað um það á vandaðan hátt og þjóðin verði síðan spurð álits – með lýðræðislegum hætti.“ Vonandi hefur hann rétt fyrir sér, en reynslan segir því miður annað. Það var ekkert því til fyrirstöðu að frumvarp stjórnlagaráðs fengi „vandlega umræðu og skoðun“ og aldrei stóð annað til en „að þjóðin [yrði] .. spurð álits – með lýðræðislegum hætti“ um endanlegt stjórnarskrárfrumvarp, sem byggt væri á tillögum stjórnlagaráðs eins og 2/3-hlutar þeirra kjósenda, sem afstöðu tóku, óskuðu eftir í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012. En af öllu þessu varð ekki þar sem málið þvældist fyrir Alþingi í tvo vetur og endaði síðan í allsherjar málþófi eins og einatt áður.
Í sjötíu ár hefur verið beðið eftir raunhæfum stjórnarskrárbótum. Það á eftir að koma í ljós hvort nú sé „góð byrjun“ í þessa veru, eins og felst í yfirskrift ritstjórnargreinarinnar, það hvort útkoman verður yfirklór eða raunverulegar réttarbætur til eflingar almannahag gegn sérhagsmunum.
by Þorkell Helgason | mar 27, 2013 | Á eigin vefsíðu
Viðbót síðdegis 27. mars 2013:
Nú er „samkomulagið“ komið fram; sjá http://www.althingi.is/altext/141/s/1367.html.
Eins og ég sagði í lok pistils míns hér neðar vonaði ég að þetta væri ekki alveg eins svart og sagt var í netmiðlum. Hin framlagða gerð er eilítið skárri. Í fyrsta lagi er þetta bráðbirgðaákvæði, í öðru lagi þarf ekki samþykki tveggja þinga og enn fremur virðist mega breyta stjskr. áfram upp á gamla mátann líka. En eitt er verra í hinni framlögðu tillögu: Það þarf 2/3 meirihluta á Alþingi, ekki bara 60% eins sögusagnir hermdu. Ég stend því við það að stjórnarskrárbreytingar verða með þessu lagi handan við dönsku öfgarnar.
Í skýrslu sinni, CDL-AD(2010)001, ON CONSTITUTIONAL AMENDMENT, tekur Feneyjarnefndin Danmörku sem dæmi um land þar sem einna erfiðast sé að breyta stjórnarskrá. Þar þarf samþykki tveggja þinga og kosningar á milli og síðan samþykki meirihluta kjósenda en þó minnst 40% þeirra sem eru á kjörskrá. Jafnframt nefna þeir Svíþjóð og Íslands sem dæmi um land þar sem auðvelt sé að breyta, þ.e.a.s. einfaldur meirihluti á tveimur þingum með kosningum á milli.
Nú, á hádegi 27. mars 2013, er sagt að „samkomulag“ sé á Alþingi um að fara úr einum öfgunum í aðrar, að taka upp danska fyrirkomulagið, en með því viðbótarskilyrði að það eigi líka að þurfa aukinn meirihluta á fyrra þinginu, 60% herma sumir.
Hvaða rannsókn skyldi nú hafa farið fram? Hvaða siðferðilegan rétt hefur þetta þing á lokadögum að binda komandi kynslóðir og gera þeim illmögulegt að komast út úr bráðabirgðastjórnarskránni frá 1944? Er verið að hafa þá að fífli sem mættu á þjóðfundinn 2010, þá sem buðu sig fram til stjórnlagaþings og tóku síðan sæti í stjórnlagaráði, og ekki síst þjóðina sem sagði skýrt álit sitt 20. október 2012?
Vita þingmenn hvað þeir eru að gera? Enn er von til að sögusagnirnar um „samkomulagið“ séu orðum auknar. Held í þá von, en bið samt alla að hafa varann á sér.
by Þorkell Helgason | mar 17, 2013 | Á eigin vefsíðu
Stjórnarskrármálið fór glæsilega af stað á vorþinginu 2009 með frumvarpi um bindandi stjórnlagaþing og flutt var fyrir hönd þeirra þriggja flokka sem studdu þáverandi ríkisstjórn. Síðan tók við hrakfallaferli sem hófst strax þá um vorið með málþófi sem drap þetta frumvarp. Sögu stjórnarskrármálsins verður að skrá í smáatriðum því hún verður að vera þjóðinni lærdómsrík.
Grundvöllur þjóðfélagsins hefur verið mér hugleikinn allt frá unglingsárum. Því bauð ég mig fram til stjórnlagaþings haustið 2010, náði góðu kjöri og tók sæti í stjórnlagaráði. Þar reyndi ég, eins og við öllum sem þar sátum, að vinna vel og af heilindum. Ég hef helgað mig þessu máli í nær þrjú ár. En allt þetta virðist hafa verið unnið fyrir gíg.
Úr því sem komið er verð ég að viðurkenna að það skásta sem hægt er að gera nú er að Alþingi samþykki þá tvíþættu tillögu sem lögð hefur verið fram af þremur flokksformönnum – væntanlega fyrir hönd meirihluta þingmanna – um nýtt breytingarákvæði og þingsályktun um framhald málsins á næsta þingi.
Þessi sami meirihluti mun ekki samþykkja fyrirliggjandi stjórnarskrárfrumvarp í heild sinni. Tillaga þremenninganna er því eini vonarneistin um framhald, þótt daufur sé.
Ég kom því reyndar á framfæri í viðeigandi herbúðum að farinn yrði sá millivegur að samþykkja stjórnarskrárpakkann nú í heild en með því mikilvæga ákvæði til bráðbirgða að ný stjórnarskrá taki fyrst gildi eftir ár, t.d. á sjötíuára afmæli lýðveldisins. Breytingarákvæðið taki þó strax gildi, þ.e.a.s. ákvæðið um að héðan í frá fari stjórnarskrárbreytingar, sem Alþingi hefur samþykkt, rakleiðis í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Ég taldi þetta geta verið málamiðlun milli þeirra sem vilja umbæturnar afgreiddar nú og hinna sem vilja betra tóm. Á næsta vetri væru tök á að koma fram með lagfæringar þar sem stjórnarskráin væri í eins konar biðstöðu, yrði lagfæringa talin þörf. Slíkar breytingar yrði þá að bera undir þjóðina, sem mætti útfæra sem bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá í heild sinni.
Meginkosturinn við þessa leið er að framhald er tryggt, nema þá að nýtt þing felldi allt strax í upphafi. En það gæti nýr þingmeirihluti ekki gert með þeim rökum að ekki sé tækifæri til að lagfæra eða bæta stjórnarskrána.
En ég hef engin viðbrögð fengið við þessari hugmynd; játa mig sigraðan og finnst skömminni skást að þingið samþykki tillögu þremenninganna.
by Þorkell Helgason | okt 22, 2012 | Á eigin vefsíðu
[Skrár sem vísað er í voru leiðréttar 23. okt. 2012 kl 20, en já og nei hafði víxlast í svörum við 3. spurningu, um þjóðkirkjuna í könnun MMR. Skrifast á reikning ÞH.]
Úrslit þjóðaratkvæðagreiðslan um stjórnarskrármálið liggja nú fyrir og hef ég dregið tölurnar saman á meðf. Excel-skjali, enda þótt ekki séu alveg öll kurl komin til grafar; sjá gullitaðar athugasemdir.
Úrslit þjóðaratkv.greiðslu 20 10 2012
(Smellið á bláu skrána hér í næstu línu fyrir ofan. Hún kann að birtst sem Excel-auðkenni neðst í vefsíðuglugganum. Þá þarf að smella á hana aftur þar.)
Þjóðaratkvæðagreiðslan sýnir ótrúlega mikla samstöðu þjóðarinnar ekki síst ef úrslitin eru borin saman við þá einu skoðanakönnun sem gerð var á undan atkvæðagreiðslunni. Það gerði MMR s.l. vor og niðurstöðurnar voru nánast þær sömu og fengust á laugardaginn. Sjá könnunin: http://mmr.is/frettir/birtar-nieurstoeeur/249-tveir-trieju-styeja-tilloegur-stjornlagaraes
Þennan samanburð má sjá á flipanum „Súlurit“ í Excel-skjalinu:
Súlurit
T.d. voru 66,9% þeirra sem afstöðu tóku í þjóðaratkvæðagreiðslunni sammála því að leggja tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar frumvarpi að breyttri stjórnarskrá en hjá MMR var hlutfallið 66,1%. Munurinn er langt innan skekkjumarka. Í öðrum spurningum voru jáyrðin í skoðanakönnuninni nokkru eindregnari en þau voru í þjóðaratkvæðagreiðslunni (þó var ekki marktækur munur í kirkjuspurningunni). Ekkert verður hér fullyrt en þó bendir þetta vart til annars en að þeir sem heima sátu hafi verið hinum sem greiddu atkvæði næsta sammála.