by Þorkell Helgason | jan 29, 2013 | Á eigin vefsíðu
[Birtist í Fréttablaðinu 16. janúar 2013.]
„Heill lýðræðisríkja, hverrar gerðar eða þroska sem er, hvílir á lítilfjörlegu tæknilegu atriði: fyrirkomulagi kosninga. Allt annað er aukaatriði.“
Svo ritaði hinn mikli spænski hugsuður José Ortega y Gasset.
Alþingi lagði fyrir stjórnlagaráð að endurskoða stjórnarskrárákvæði um fyrirkomulag þingkosninga. Til grundvallar var umræða á þjóðfundi 2010 sem stjórnlaganefnd sú sem stóð að fundinum túlkaði almennt sem kröfur um jafnt vægi atkvæða og persónukjör auk þess sem flestir töldu að landið ætti að vera eitt kjördæmi.
Meginþættirnir í tillögu stjórnlagaráðs um ramma um kosningakerfi koma fram í 39. gr. í frumvarpi því að nýrri stjórnarskrá sem nú liggur fyrir Alþingi. Helstu nýmælin eru þessi:
- Tala kjördæma: Frá einu upp í átta að vali löggjafans.
- Vægi atkvæða: Skal vera jafnt, óháð búsetu.
- Landslistar: Flokkar geta bæði boðið fram kjördæmalista og landslista. Sömu nöfn mega vera á báðum.
- Persónukjör: Kjósendur merkja við einstaka frambjóðendur eða lista í heilu lagi en taka þá ekki afstöðu til röðunar á frambjóðendum.
- Fullur jöfnuður milli flokka: Sætum skal skipt upp á milli flokka í samræmi við landsfylgi og síðan ráðstafað til frambjóðenda hvers þeirra samkvæmt persónufylgi.
- Kjördæmavörn: Til að ekkert kjördæmi fari halloka við úthlutun sæta má nota nær helming þingsæta, eða 30 þeirra, sem lágmarkstryggingu fyrir einstök kjördæmi.
Í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október 2012 hlaut spurning um aukið persónukjör stuðning 78,4% þeirra sem tóku afstöðu og önnur um jafnt vægi atkvæða fékk með sama hætti jáyrði 66,5%. Þær tvær meginbreytingar sem stjórnlagaráð lagði til um fyrirkomulag kosninga fengu því yfirgnæfandi fylgi allt eins og hafði sýnt sig á þjóðfundinum.
Kjördæmavörn
Nokkrir fræðimenn hafa gagnrýnt framangreindar tillögur stjórnlagaráðs, þó með misgóðum rökum. Hér verður staðnæmst við málefnalega gagnrýni á ákvæðið um kjördæmavörn. Búa má til ýkt dæmi þess efnis að þetta ákvæði geti ýmist snúist upp í andhverfu sína eða dugi ekki til að ná settu markmiði.
· Hugsum okkur að landinu sé skipt upp í tvö kjördæmi, landsbyggðarkjördæmi og höfuðborgarkjördæmi. Segjum að kjósendur flokks nokkurs dreifi persónuatkvæðum sínum mjög á milli frambjóðenda flokksins á landsbyggðinni en séu aftur móti einhuga um menn á höfuðborgarlistanum. Vegna stærðarmunar kjördæmanna gæti svo farið að sterkustu mennirnir á höfuðborgarlistanum væru allir atkvæðaríkari en hver hinna á landsbyggðarlistanum. Flokkurinn fengi þá alla menn sína kjörna fyrir sunnan. Þóroddur Bjarnason, prófessor við Háskólann á Akureyri, hefur búið til dæmi í þessum stíl. Með ákvæðinu um kjördæmavörn mætti að vísu tryggja landsbyggðarkjördæminu þau 23 sæti sem það á rétt á m.v. kjósendatölu. En ákvæðið gæti ekki séð við bjögun innan flokka.
· Hið öndverða gæti líka gerst, að kjördæmi fái vægi umfram það sem kjósendafjöldi gefur tilefni til einmitt út á ákvæðið um kjördæmavörnina. Um þetta má taka dæmi það sem fylgdi sem viðauki með tillögum stjórnlagaráðs. Þar er kjördæmaskipan sem nú, nema hvað Reykjavíkurkjördæmin eru sameinuð og eru þá kjördæmin fimm að tölu. Gert er ráð fyrir að ákvæðið um kjördæmavörn sé nýtt þannig að að sex þingsæti séu bundin hverju kjördæmi. Kjósendur Norðvesturkjördæmis nægja einmitt til að standa undir sex þingsætum. Ef kjósendur þar greiða landslistum atkvæði í talsverðum mæli geta þeir út á bindinguna fengið viðbótarþingsæti og í ítrasta falli allt að tvöfalt vægi umfram kjósendatölu.
Sama atkvæðivægi
Ofangreind dæmi eru að vísu mjög ólíkleg. Engu að síður skapaði fyrra dæmið ótta hjá landsbyggðarfólki um að réttmæt hlutdeild þess í kjöri þingmanna væri í hættu ef tillaga stjórnlagaráðs yrðu óbreytt að ramma um kosningalög. Þetta kann að hafa verið ein meginástæða þess að stuðningur við jöfnun atkvæðavægis var rýr í Norðausturkjördæmi í þjóðaratkvæðagreiðslunni.
Ari Teitsson, fyrrverandi fulltrúi í stjórnlagaráði, hefur í góðri grein í Fréttablaðinu 9. janúar sl. bent á vandann og hvernig taka mætti á honum í kosningalögum innan ramma hinnar ráðgerðu stjórnarskrár. Tryggara er að lagfæra stjórnarskrárfrumvarpið með lítilsháttar breytingu. Hún felst í raun í því að skerpa meginmarkmiðið um að allir kjósendur hafi sama atkvæðavægi. Þetta má gera með ýmsu móti án þess að kollvarpa neinu, t.d. með því að setja kjördæmin enn frekar í forgang við úthlutun þingsæta og breyta lítilsháttar fyrirkomulagi landsframboða.
Alþingi á ekki að hika við að lagfæra það sem betur má fara. Markmiðið er góð stjórnarskrá, ekki hver samdi hana. En engan tíma má missa.
Þorkell Helgason, fyrrverandi fulltrúi í stjórnlagaráði
by Þorkell Helgason | okt 18, 2012 | Á eigin vefsíðu
[Birtist í Fréttablaðinu 18. október 2012.]
Þjóðaratkvæðagreiðslan laugardaginn 20. október snýst um sjálfa stjórnarskrána, grunnlög landsins. Með góðri þátttöku veita kjósendur Alþingi trausta leiðsögn um hvert stefna skuli í stjórnarskrármálinu.
Atkvæðagreiðslan snýst um tillögur stjórnlagaráðs um gagngerar endurbætur á stjórnarskrá lýðveldisins, EKKI um neitt annað:
- Hún snýst EKKI um það hvort ríkisstjórnin sé góð eða slæm.
- Hún er HVORKI til að þóknast Jóhönnu NÉ til að storka forsetanum, eða öfugt.
- Hún er EKKI tæki til að mæla fylgi stjórnmálaflokkanna, til þess gefst tækifæri í vor.
- Hún snýst EKKI um það hvort Evrópusambandið sé friðarbandalag eða ekki.
- Hún er EKKI tilefni til að ergja sig yfir því sem er á undan gengið, hvort sem er ógilding stjórnlagaþingskosningarinnar eða málsmeðferðin á Alþingi.
- Hún snýst EKKI um persónur þeirra sem sátu í stjórnlagaráði; þeim hvorki til lofs né lasts.
Viðfangsefnið er einungis og alfarið efni tillagna stjórnlagaráðs auk fimm álitamála í því sambandi.
Mörgu er ranglega haldið fram um hvað felst í tillögum ráðsins:
Í tillögunum er ekki kveðið á um inngöngu í Evrópusambandið. Þvert á móti eru þar ákvæði sem tryggja að slík ákvörðun verður aðeins tekin af þjóðinni sjálfri í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu.
- Það er EKKI verið að vega að landsbyggðinni með því mannréttindaákvæði að allir hafi jafnan atkvæðisrétt. Þvert á móti eru settir varnaglar í kosningakerfið til að tryggja landsbyggðinni eðlilega tölu fulltrúa á þingi. Um leið er í fyrsta sinn kveðið á um að ákvarðanir skuli eftir föngum teknar í heimabyggð.
- Það er EKKI verið að gera atlögu að flokkunum með persónukjörstillögum ráðsins. Flokkarnir eiga og munu eftir sem áður vera máttarstólpar lýðræðisins m.a. með því að tilnefna þá frambjóðendur sem kjósendum bjóðast.
- Það er EKKI verið að rýra þingræðið enda þótt þjóðin sjálf fái aukin tækifæri til að grípa inn í lagasetninguna. Þvert á móti eru ákvæði sem efla Alþingi til mótvægis við framkvæmdarvaldið.
- Það er EKKI verið að bylta uppbyggingu samfélagsins. Þvert á móti eru stoðir þess styrktar með skýrari skiptingu valdþáttanna.
- Það er EKKI verið að koma á forsetaræði að franskri eða amerískri mynd. Þvert á móti er vald forsetans og verksvið hans afmarkað með skýrum hætti og honum falið eftirlits- og aðhaldshlutverk, að vera öryggisventill ef í óefni stefnir. En vissulega veldur hver á heldur.
- Það er EKKI verið að koma á ríkisrekstri í sjávarútvegi, eins og heyrst hefur. Þvert á móti er frelsi til athafna óskert að virtum sanngjörnum reglum.
- Það er EKKI verið að leggja þjóðkirkjuna niður, hvað þá að víkja frá kristnum grunngildum. Þvert á móti eru sjónarmið miskunnsama Samverjans leiðarljós í bættum ákvæðum um félagsleg mannréttindi.
Fyrsta og um leið meginspurningin á atkvæðaseðlinum á laugardaginn er sú hvort leggja skuli tillögur ráðsins til „grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá“.
Já við þessari grunnspurningu felur ekki í sér samþykkt á endanlegri gerð nýrrar stjórnarkrár. En jáyrði vísar Alþingi veginn um framhaldið. Þingið verður í kjölfarið að bregðast við niðurstöðunum um álitamálin fimm, við áliti lögfræðingahóps um nauðsynlegar lagfæringar en líka við þeim ábendingum öðrum sem fram hafa komið og til bóta horfa.
Jáyrði við meginspurningunni felur ekki í sér kröfu um að Alþingi breyti engu í tillögum stjórnlagaráðs heldur þvert á móti áskorun um að vinna málið áfram á uppbyggjandi hátt, en á „grundvelli“ tillagnanna.
Að þessu sögðu mæli ég með eftirfarandi hrinu svara við spurningunum sex:
Já – Já – Nei – Já – Já – Já.
En umfram allt, tökum þátt í mótun samfélagssáttmálans og skundum á kjörstað 20. október.
by Þorkell Helgason | okt 3, 2012 | Á eigin vefsíðu
[Birtist í Fréttablaðinu 3. október 2012.]
Þetta er innihaldið í spurningu sem lögð verður fyrir þjóðina 20. október n.k. Orðrétt hljóðar hún svo: „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu?“
Þjóðaratkvæðagreiðslur hafa ekki verið algengar á Íslandi, enda þótt forsetinn hafi frá lýðveldisstofnun haft vald til að fela þjóðinni að staðfesta eða fella lög frá Alþingi. Núverandi forseti varð fyrstur til að nýta þetta ákvæði eins og kunnugt er. Á hinn bóginn hefur lengi verið um það rætt að kjósendur sjálfir ættu að geta kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu. Jafnframt hefur komið til álita að minnihluti þings gæti gripið til þessa úrræðis.
Alþingi fól stjórnlagaráði sérstaklega að gera tillögu í þeim efnum. Allir þrír möguleikarnir voru ræddir, þ.e.a.s. að frumkvæði að þjóðaratkvæði gæti komið frá forseta Íslands, frá skilgreindum minnihluta Alþingis eða beint frá kjósendum sjálfum. Niðurstaðan varð sú að horfa einkum til síðasta möguleikans, frumkvæðis þjóðarinnar sjálfrar, en halda þó málsskotsrétti forsetans sem algerum neyðarhemli.
Í 65. gr. frumvarps ráðsins er lagt til að 10% kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um gildi laga frá Alþingi jafnframt því sem málskotsrétti forsetans er haldið (60. gr.). En þjóðaratkvæðagreiðsla er vandmeðfarið úrræði sem ekki má leggja við hégóma. Í 67. gr. frumvarps síns leggur stjórnlagaráð til að kjósendur geti ekki krafist atkvæðagreiðslu um viss fjárhags- og þjóðréttarmál. Jafnframt er mælt fyrir um setningu laga um alla málsmeðferð svo sem um vandvirkni og formfestu við undirskriftasafnanir.
Í stjórnlagaráði var rætt um hvort hafa ætti skilyrði um þátttöku til að þjóðaratkvæðagreiðsla teldist gild. Gallinn við slík ákvæði er sá að þá getur það verið beittara vopn að sitja heima en mæta á kjörstað og taka afstöðu. Markmiðið um að fá fram berorða skoðun þjóðarinnar næðist þá ekki. Af þessum sökum hvarf stjórnlagaráð frá þáttökuskilyrðum enda eru engin slík ákvæði í gildandi stjórnarskrá. Benda má á lýðræðislegri leið. Hún gæti falist í því að þingmenn teldust taka ákvörðun fyrir þann hluta þjóðarinnar sem tekur ekki þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni.
Rök fyrir JÁ við spurningunni
Spurningin í þjóðaratkvæðagreiðslunni er almennt orðuð; hún snýst um markmiðið sjálft, ekki um útfærslu stjórnlagaráðs. Henni má hnika til, ef þarf.
Rökin fyrir því að svara með jáyrði eru m.a. þessi:
- Allt vald í lýðræðisríkjum er komið frá fólkinu sjálfu. Það felur að jafnaði kjörnum fulltrúum að fara með vald sitt eftir umboði. En að sama skapi á þjóðin að geta kallað valdið aftur til sín, m.a. með því að vefengja lagasetningu fulltrúaþingsins.
- Eindregin krafa kom fram á Þjóðfundinum 2010 um aukna aðkomu þjóðarinnar að ákvörðunum í mikilvægum málum.
- Þróunin nær hvarvetna í kringum okkur er í áttina að hæfilegu blandi af fulltrúalýðræði og beinu lýðræði. Við höfum verið eftirbátar annarra.
- Vilji þjóðarinnar til að geta úrskurðað í mikilvægum málum kom fram í góðri þátttöku í báðum þjóðaratkvæðagreiðslunum um Icesave-málið.
- Beint lýðræði kallar á ábyrgð fólksins og vekur þannig áhuga þess á lýðræðinu. Ekki veitir af þegar traust á stjórnvöldum öllum er í lágmarki.
Rök fyrir NEI við spurningunni
Vissulega eru líka rök fyrir því að stíga varlega til jarðar í beinu lýðræði:
- Sumir vitna til Kaliforníu þar sem atbeini kjósenda er sagður hafa stefnt ríkisfjármálunum í óefni (sem er reyndar þjóðsaga). Við þessu má sjá með því að leyfa ekki atkvæðagreiðslu um fjárhagsleg málefni og nokkur önnur viðkvæm mál. Þessi varnagli er í tillögum stjórnlagaráðs um frumkvæði almennings eins og fyrr segir.
- Sagt er að auðvelt sé að æsa 10% þjóðarinnar upp gegn óvinsælli en óhjákvæmilegri lagasetningu þingsins. Spurningin sem lögð verður fyrir þjóðina í haust snýst ekki um þetta hlutfall. Þyki mönnum það of lágt er hægur vandi að hækka það í meðförum þingsins.
- Sumir telja unnt að fá undirskriftir undir hvað sem er á Íslandi. Ekki er víst að þessi fullyrðing sé rétt. Alla vega hefur sumum reynst örðugt að safna meðmælendum í kosningum, t.d. við forsetakjör. Stjórnlagaráð velti vöngum yfir þessu atriði og leggur til að sett verði ströng ákvæði um undirskriftarsafnanir.
Ályktun
Allir valdhafar, líka þingmenn, starfa í umboði þjóðarinnar. Þegar hún telur þörf á kallar hún valdið til baka. Þannig eiga fulltrúaræðið og beina lýðræðið að geta styrkt hvort annað.
Pistilhöfundur mælir því með jáyrði við spurningunni um það hvort kjósendur geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu.
by Þorkell Helgason | sep 13, 2012 | Á eigin vefsíðu
[Birtist í Fréttablaðinu 13. september 2012.]
Í þjóðaratkvæðagreiðslunni um tillögur stjórnlagráðs 20. október n.k. verður spurt um stjórnskipunarlega stöðu þjóðkirkjunnar. Ekki um tilvist hennar heldur um það hvort kirkjunnar skuli getið sérstaklega í sjálfri stjórnarskránni. Orðrétt er spurningin þannig: „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?“
Málið er hitamál og eðlilegt að þjóðin sé spurð. Frambjóðendur til stjórnlagaþings – og síðar fulltrúar í stjórnlagaráði – fengu kröftug tilmæli annars vegar frá þeim sem vilja algeran aðskilnað ríkis og kirkju og þar með öll ákvæði um þjóðkirkju burt úr stjórnarskrá og hins vegar frá þeim sem vilja óbreytt fyrirkomulag.
Á Þjóðfundinum 2010, sem var aðdragandi að öllu starfi stjórnlagaþings og síðar stjórnlagaráðs, voru skoðanir skiptar um þetta mál. Stjórnlaganefnd – sem var fagnefnd til undirbúnings starfinu – reifaði því báða kosti og lagði fram textadæmi um hvort tveggja.
Skulu nú færð helstu rök fyrir hvoru tveggja svarinu, já eða nei.
Rök fyrir JÁ við spurningunni
Þeir sem svara umræddri spurningu með jái eru væntanlega að greiða því atkvæði að ákvæði um þjóðkirkjuna verði óbreytt frá því sem er í gildandi stjórnarskrá, en þau eru einkum þessi:
S1: Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Breyta má þessu með lögum. (62. gr.)
S2: Allir eiga rétt á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins. Þó má ekki kenna eða fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði eða allsherjarreglu. (63. gr.)
S3: Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipun ríkisins samkvæmt 62. gr. og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar, og skal atkvæðagreiðslan vera leynileg. (79. gr., 2. mgr.)
Rök fyrir því að halda þessum ákvæðum efnislega óbreyttum eru m.a. sögð þessi:
- Mikill meirihluti þjóðarinnar er í þjóðkirkjunni. Ekki er ástæða eða tilefni nú til að losa um tengsl þjóðkirkjunnar og ríkisins.
- Mannréttindadómstóll Evrópu telur ríkiskirkju ekki stangast á við önnur mannréttinda- eða trúfrelsisákvæði.
- Þjóðkirkja er í Danmörku og Noregi, en þangað sækjum við margt, ef ekki flest, í stjórnskipun okkar.
- Sérhver breyting á stjórnarskrárákvæðunum um kirkjuna (S1-S3) kallar á sérstakt samþykki þjóðarinnar (S3) að mati sumra lögspekinga. Þessu er andmælt af öðrum með þeim rökum að einungis þurfi að leita til þjóðarinnar ef kirkjuskipaninni er breytt með almennum lögum. Þetta geti ekki átt við um stjórnarskrárbreytingar.
- Hví ekki að fara að eins og nú er ráðgert í Noregi um að ríkið skuli áfram styðja þjóðkirkjuna en jafnframt önnur trúfélög svo að jafnræðis sé gætt? Ámóta lausn var rædd í stjórnlagaráði en talið varhugavert að gefa illa skilgreinanlegum félögum vilyrði um ríkisstuðning.
Rök fyrir NEI við spurningunni
Ekki er fulljóst hvað taki við verði neiið ofan á. En væntanlega eru þeir sem segja nei að lýsa yfir stuðningi við tillögur stjórnlagaráðs um kirkjuskipanina en þær eru einkum þessar:
R1: Öllum skal tryggður réttur til trúar og lífsskoðunar, þar með talinn rétturinn til að breyta um trú eða sannfæringu og standa utan trúfélaga. (18. gr., 1. mgr.)
R2: Í lögum má kveða á um kirkjuskipan ríkisins. (19. gr., 1. mgr.)
R3: Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipan ríkisins og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar. (19. mgr., 2. mgr.)
Eftir miklar vangaveltur í stjórnlagaráði fannst þessi gerð sem þótti vænleg málamiðlun og sáttatillaga milli beggja hugmynda stjórnlaganefndar. Rökin eru t.d. þessi:
- Sé þjóðkirkjuákvæðið (S1) fellt út úr stjórnarskránni er trúfrelsið (R1) formlega að fullu virt. Þetta á að gera nú, þegar stjórnarskráin er í heildarendurskoðun, en ekki gera það að sérstöku ágreiningsefni síðar.
- Málamiðlun ráðsins felst í því að heimila áfram sérstök lög um samband ríkis og kirkju (R2) og halda því óbreyttu að lagabreytingar um kirkjuskipanina þurfi að bera undir þjóðina (R3).
- Stjórnarskrárákvæði um sérstaka þjóð- eða ríkiskirkju eru á undanhaldi í grannlöndunum. Þannig hurfu þau út úr sænsku og finnsku stjórnarskránum um síðustu aldamót.
- Finna má nýtt fyrirkomulag um samskipti ríkis og kirkju við hentugleika, t.d. að sænskri fyrirmynd þar sem ríkið og þjóðkirkjan hafa gert með sér sérstakan þjónustusamning. Þar yrði m.a. kveðið á um hið mikilvæga menningarhlutverk kirkjunnar.
Ályktun
Stjórnlagaráð fór að dæmi Þorgeirs ljósvetningagoða um bil beggja. Ráðið leggur til nýja skipan þar sem engin trú nýtur sérstakrar stjórnarskrárbundinnar verndar ríkisins, en að samband ríkis og þjóðkirkju megi haldast óbreytt þar til þjóðin kann að kjósa annað.
Þeir sem vilja svara þessari spurningu í anda frumvarps stjórnlagaráðs gera það með neii. Það er öndvert við allar hinar spurningarnar í þjóðaratkvæðagreiðslunni þar sem stuðningur við sjónarmið ráðsins felst í jáyrði.
Pistilhöfundur mælir með neii við spurningunni um sérstakt þjóðkirkjuákvæði en telur þó að slíkt ákvæði stangist ekki á við aðra þætti í stjórnarskrárdrögunum vilji þjóðin halda formlegri stöðu þjóðkirkjunnar óbreyttri. Hvort sem verður ofan á breytir það því ekki að stjórnarskrá okkar, sú núverandi og sú komandi, er og verður byggð á kristnum gildum.
by Þorkell Helgason | sep 6, 2012 | Á eigin vefsíðu
[Birtist í Fréttablaðinu 5. september 2012.]
Hinn 20. október n.k. verður haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá. Auk almennrar spurningar um grundvöllinn verður spurt um afstöðu til nokkurra lykilatriða í tillögum ráðsins. Önnur spurningin, sem lýtur að einu þessara atriða, felst í fyrirsögn þessa pistils en er í heild sinni þannig: „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign?“
Ekki virðist mikill ágreiningur meðal þjóðarinnar eða stjórnmálaflokkanna um svarið. Flestir virðast vilja stjórnarskrárvarið ákvæði um þjóðareign á náttúruauðlindum og eru þá einkum fiskimiðin og orkulindirnar hafðar í huga. En ágreiningur hefur verið um merkingu hugtaksins þjóðareign, einkum meðal lögfræðinga. Til eru þeir sem líta á þetta sem hátíðlega en merkingarlitla yfirlýsingu. Aðrir gefa minna fyrir orðið en vilja gæða hugtakið innihaldi og þá einkum því hvernig beri að nýta auðlindirnar auk skýrra ákvæða um endurgjald fyrir afnot af þjóðareignum.
Málið er eitt þeirra sem Alþingi fól stjórnlagaráði að taka sérstaklega til skoðunar. Það var gert eins og sést í ýtarlegum ákvæðum, einkum í 34. gr. í frumvarpi ráðsins. Að beiðni Alþingis var málið aftur yfirfarið á fundum þorra ráðsmanna 8.-11. mars s.l. Meginákvæðin í frumvarpsgreininni (eftir yfirferðina) eru þessi:
- A1: Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar.
- A2: Enginn getur fengið auðlindirnar, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja.
- A3: Til auðlinda í þjóðareign teljast náttúrugæði … sem ekki eru í einkaeigu.
- A4: Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn.
- A5: Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.
Fyrsti málsliðurinn, A1, er yfirlýsing um þjóðareign. Með A3 er skýrt tekið fram að ekki er verið að sölsa einkaeigur undir ríkisvaldið. Um innihaldið, meðferð þjóðareigna, er fjallað í liðum A3, A4 og A5. Vegur þar einna þyngst að fyrir hagnýtinguna eigi að greiða „fullt gjald“, sem er orðalag sótt í ákvæði núgildandi stjórnarskrár um eignarnám, og að nýtingarrétturinn skuli veittur á „jafnræðisgrundvelli“.
Spurningin um þjóðareignina í atkvæðagreiðslunni 20. október snýst að formi til aðeins um yfirlýsinguna, ígildi A1, en ætla verður að Alþingi muni skoða jáyrði við henni sem efnislegan stuðning við alla 34. gr. í frumvarpi ráðsins.
Rök fyrir JÁ við spurningunni
Ekki er tóm til að rekja þau fjölmörgu rök sem fram hafa komið um þjóðareign á auðlindum og verður aðeins tæpt á nokkrum:
- Á þjóðfundinum 2011 var áberandi sú skoðun að mæla bæri fyrir um eign þjóðarinnar á auðlindum í stjórnarskrá og að arður af nýtingu þeirra rynni að meginhluta til eigandans, þjóðarinnar.
- Með yfirlýsingu um þjóðareign á auðlindum og öðrum takmörkuðum gæðum sem ekki eru í einkaeigu er verið að taka af skarið um mál sem hefur velkst lengi fyrir þingi og þjóð. Nú er tækifæri að taka af skarið þannig að ekki verði um villst.
- Ekki síst er mikilvægt við hvers kyns samninga við erlend ríki eða ríkjasamtök að það sé á hreinu að auðlindir lands og sjávar eru í eigu íslensku þjóðarinnar.
- Verið er að vinna að afmörkun landareigna í einkaeigu. Afgangurinn á ekki að verða einskis manns land heldur ótvíræð sameign þjóðarinnar.
- Nýting þjóðareigna, fiskimiða eða orkulinda, á áfram að vera í höndum einstaklinga og fyrirtækja. Því er ekki verið að breyta með yfirlýsingu um þjóðareign.
- Stjórnarskrárákvæðin nýju setja því siðferðilegar skorður hvernig með skal fara við úthlutun nýtingarleyfa. En það verður áfram hlutverk Alþingis að setja leikreglurnar. Ákvæðin mæla t.d. hvorki fyrir um tiltekið kvótakerfi né einhverja aðra fiskveiðistjórnunaraðferð.
Rök fyrir NEI við spurningunni
Andstæðingar þjóðareignar hafa ekki tjáð sig mikið með beinum hætti heldur fremur þannig að gera eigi hlutina einhvern veginn öðru vísi:
- Sumir lögfræðingar segja hugtakið þjóðareign vera loðið og skapa ýmsan skilgreiningarvanda. Því er til að svara að í stjórnarskrárákvæðinu og í umræddri 34. gr. í frumvarpi ráðsins er kveðið skýrt á um merkingu orðsins.
- Sagt hefur verið að þjóðareign feli í sér þjóðnýtingu sem sé af hinu vonda. Þetta er á misskilningi byggt þar sem stjórnlagaráð tekur skýrt fram að þjóðareign nái aðeins til þeirra réttinda sem ekki eru þegar í einkaeigu. Hún nær einungis til þess sem enginn hefur með réttu getað eignað sér.
- Sumir hafa áhyggjur af því að ný eða breytt ákvæði um þjóðareign og afnotaskilmála setji allt á hvolf. Ég tel þetta óþarfa áhyggjur. Það er undir löggjafanum komið að tryggja að framkvæmd þjóðareignarákvæðisins eigi sér eðlilegan aðdraganda og aðlögunartíma.
Ályktun
Pistilhöfundur mælir með jáyrði við spurningunni. Þar með verði tryggt að sameiginlegur auður lands og sjávar haldist hjá þjóðinni en hverfi ekki til einstaklinga hvort sem er innan lands eða utan.