Meira um aðferðir við forsetakjör

[Birtist í Fréttablaðinu 31. júlí 2012]

Í Fréttablaðinu 25. júlí sl. er ágæt frásögn af góðu framtaki nokkurra fræðimanna sem spurðu í netkönnun hvaða aðferð fólki hugnaðist best við kjör í embætti forseta Íslands. Spurt var um fjórar aðferðir auk þeirrar núverandi þar sem einfaldur meirihluti ræður. Meðal annars var boðið upp á það sem fræðimennirnir kölluðu „varaatkvæðisaðferð“. Við þetta má bæta fróðleik sem hvorki kom fram hjá spyrlunum né heldur í fréttaskýringunni.

Fyrst er þess að geta að nafngiftin á því sem nefnt er „varaatkvæðisaðferð“ hefur verið á reiki. Hún hefur í opinberum skjölum verið kennd við „forgangsröðun“ en líka nefnd „aðferð færanlegra atkvæða“, sem er hrá þýðing á algengasta heitinu á ensku, Single transferable vote (STV).

Mikilvægt er að vita að þessi aðferð er sú sama og stjórnlagaráð hefur lagt til að beitt verði við forsetakjör framvegis. Til upprifjunar þá felst aðferðin í því að kjósendur eiga ekki að velja með krossi einum heldur að raða frambjóðendum í forgangsröð: „Þennan vil ég helst, en ef hann nær ekki kjöri þá er þessi næstbesti kostur minn“ o.s.frv. Þetta er einföld aðferð og hefur ýmsa kosti fram yfir þá að kjósa tvisvar. Kostnaður er minni bæði hjá hinu opinbera og ekki síður hjá frambjóðendunum sjálfum. En ekki er síðra að STV, sem er eins og „tveggja umferða kosning“ í einni, kemur í veg fyrir hrossakaup um stuðning þeirra sem falla út í fyrri umferðinni, eins og er t.d. sláandi í Frakklandi.

Að lokum má bæta við frásögn blaðsins að bæði var STV-aðferðin, „varaatkvæðisaðferðin“, notuð við kosninguna til stjórnlagaþings og jafnframt lögð til grundvallar í nýlegum stjórnarfrumvörpum um persónukjör, en dagaði uppi í málþófi eins og nú er tískan á Alþingi.

Meira má lesa um STV-aðferðina við forsetakjör í Fréttablaðinu 12. janúar sl.; sjá https://thorkellhelgason.is/?p=1324.

Veiðigjald: Hvers vegna að rífast?

[Birtist í Fréttablaðinu 27. júní 2012]

Í leiðara Fréttablaðsins 21. júní sl. dregur ritstjóri blaðsins saman stöðuna í kvótamálinu nú að þingi loknu. Hann fagnar því réttilega að „þverpólitísk samstaða [hafi orðið] um að fiskveiðiauðlindin væri sameign þjóðarinnar, að kvótinn væri aðeins afnotaréttur og að innheimta ætti auðlindagjald fyrir þau afnot. Landssamband íslenzkra útvegsmanna væri meira að segja búið að fallast á þessar grundvallarkröfur, en að ágreiningurinn væri fyrst og fremst um upphæð gjaldsins“. Síðan bætir hann við þeirri skoðun sinni að „[v]eiðigjaldið [sé] að líkindum of hátt, þrátt fyrir málamiðlunina. … Það er engum í hag að kyrkja gullgæsina, sem stendur undir svo mikilli verðmætasköpun í landinu“.

Það á ekki að þurfa að deila um það hvert sé hið „rétta“ pólitískt ákvarðaða veiðigjald. Við því mun aldrei finnast neitt algilt svar. Segjum að þjóðin ætti olíuna sem þarf á skipin og að þingmönnum væri falið að verðleggja þessa mikilvægu rekstrarvöru útgerðarinnar. Er líklegt að sátt yrði um verðið? Sem betur fer er það liðin tíð að stjórnvöld, hvað
þá þingmenn, séu að véla um verð á einstökum vörum. Það er löngu búið að finna upp almenna og hagkvæma aðferð til verðlagningar sem er verðmyndun á frjálsum markaði.

Hví er nær aldrei fjallað um markaðsleiðir til ákvörðunar á veiðigjaldi, hvorki af stjórnmálamönnum né af virtum ritstjórum, núverandi eða fyrrverandi? Í þess stað er karpað um of lágt eða of hátt veiðigjald. Um markaðsleiðir hefur þó margt verið skrafað og skrifað, t.d. í ítarlegri skýrslu handa svokallaðri sáttanefnd í sjávarútvegsmálum; sjá 8. fylgiskjal á vefsíðunni www.sjavarutvegsraduneyti.is/frettir/frettatilkynningar/nr/10194 en þar er útfærð markaðsleið með fyrningu og uppboðum á kvótum. Undirritaður rifjaði málið upp í Fréttablaðinu 14. júní sl.

„Gullgæsin“, svo að notuð sé samlíking Fréttablaðsritstjórans, á sjálf að ákvarða hvað hún er fús að greiða fyrir mikilvægustu aðföng sín, fiskinn í sjónum. En hver einstök gæs verður að taka þá ákvörðun, ekki landssamband gæsanna og heldur ekki gæsahirðarnir við stjórnvölinn.

Vega tillögur stjórnlagaráðs að hagkvæmni í útgerð?

[Birtist í Fréttablaðinu 14. júní 2012]

Að mati flestra hefur ekki fundist betra fyrirkomulag við fiskveiðistjórnun en aflamarkskerfi þar sem aflaheimild hvers skips er á hreinu en ríkið skiptir sér að öðru leyti sem minnst af veiðunum svo sem því hvort heimildirnar skipti um hendur eða ekki. Frjálst framsal aflaheimilda er lykilatriði í því að ná sem mestri hagkvæmni í sjávarútveginum. En einn hængur er á þessu fyrirkomulagi sem hefði átt að taka á strax í upphafi. Það er hin upphaflega útdeiling á kvótunum og að auðlindarentan skuli ekki nema að óverulegu leyti skila sér til eigenda auðlindarinnar, sem að mati flestra er þjóðin öll. Þetta er það atriði sem er meginorsök úlfúðar um fiskveiðistjórnunina.

Ganga þarf beint til verks

Í stað þess að taka beint á þessum vanda hefur regluverkið um veiðarnar orðið æ flóknara og er uppfullt af sérákvæðum, takmörkunum og hindrunum. Nú eru uppi á borðinu stjórnarfrumvörp sem virðast vera af þessu tagi. Það getur ekki verið leiðin til að sætta þjóðina að auðlindaarðurinn hverfi í óhagkvæmum útgerðarháttum.
Undirritaður hefur tekið þátt í vinnu og umræðu um þessi mál allt frá upphafi kvótakerfisins 1983 og hefur verið í hópi þeirra sem hafa um áratugaskeið mælt
með markaðsleið til lausnar úr þessari úlfakreppu. Leiðin felst í því að útgerðin taki kvótana á leigu á því verði sem hún er fús til að greiða; við því markaðsverði sem fengist með uppboðum, ekki einhverju verði sem stjórnmálamenn ákvarða. En sérhver breyting verður að hafa sanngjarna aðlögun sem best felst í því að núgildandi réttur fyrnist smám saman. Það undarlega er að ætlaðir talsmenn frjálsra viðskipta og markaðslausna eru helstu andstæðingar þessarar hugmyndar, með undantekningum þó. Pétur H. Blöndal alþm. hefur nú sem og fyrr lagt fram frv. í þessa veru.

Hvað vill stjórnlagaráð?
Stjórnlagaráð tók á þessum útdeilingar- og arðsvanda, eins og því bar að gera. Ráðið fjallar um nýtingu takmarkaðra auðlinda í þjóðareigu í 34. gr. frv. síns. Þar segir að fyrir hagnýtinguna eigi að greiða „fullt gjald“, sem er orðalag sótt í ákvæði núgildandi stjórnarskrár um eignarnám. Jafnframt er tilskilið að nýtingarrétturinn skuli veittur á „jafnræðisgrundvelli“. Fyrirkomulag uppboða með fyrningaraðlögun fellur vel að þessum ákvæðum. Aðlögun er að vísu ekki beinlínis tilgreind í tillögugreininni en liggur í hlutarins eðli. Sé hún ekki strax viðhöfð í löggjöf til fyllingar stjórnarskrárákvæðinu, sem væri hið skynsamlega, er viðbúið að dómstólar myndu kveða upp úr um hana. Sé byggt á fyrningu þarf í þessu skyni að ákveða fyrningarhlutfall sem er t.d. 2,5% í frv. Péturs H. Blöndals. Það merkir að með aðlöguninni fá núverandi kvótahafar að halda um helmingi
af núvirði auðlindaarðsins um alla framtíð. Í útfærslu sem við Jón Steinsson unnum fyrir sáttanefndina svokölluðu var hlutfallið jafngildi 5% sem svarar til þess að um þrír fjórðuhlutar arðsins renni til þjóðarinnar. Að auki ber að hafa í huga að ýmsar leiðir geta rúmast innan ráðgerðs stjórnarskrárákvæðis aðrar en uppboðs- og fyrningarleiðin.

Stjórnlagaráð leggur ekki á ráðin um fiskveiðistjórnun

Tilefni þessara skrifa eru orð hins virta pistlahöfundar Þorsteins Pálssonar laugardaginn 9. júní hér í blaðinu þar sem hann segir „[A]fleiðingin [af nýju stjórnarskránni] er þá sú að útilokað verður um alla framtíð að reka sjávarútveg á Íslandi með hagkvæmasta hætti.“ Þessari sterku fullyrðingu verður að andmæla. Tillögur stjórnlagaráðs fjalla einvörðungu um útdeilinguna og skiptingu arðsins. Þær segja ekkert um fyrirkomulag fiskveiðistjórnunar að öðru leyti. Það hefur margoft komið fram hjá hagfræðingum að markaðsákvarðað veiðigjald ásamt vissri opnun fyrir nýliða með fyrningarákvæðinu myndi fremur en ekki auka heildararðsemi greinarinnar þegar til lengdar er litið. Þá býður fyrirkomulagið ekki þeirri hættu heim, sem pólitískt ákvarðað veiðigjald gerir, að veiðar verði ekki stundaðar í fullum mæli. Löggjöf um skipulag fiskveiða sem leitt getur til óskilvirkrar útgerðar verður ekki réttlætt með tillögum stjórnlagaráðs. Slíkt væri engan veginn á ábyrgð ráðsins. Tillögur stjórnlagaráðs vega ekki að hagkvæmni í útgerð, heldur þvert á móti.

Framhald stjórnarskrármálsins II

[Grein þessi birtist í Fréttablaðinu 17. apríl 2012.]

Í fyrri pistli hef ég fjallað um hvernig þoka mætti stjórnarskrármálinu áfram með því að kalla saman þjóðfund til að tjá sig með afgerandi hætti um álitamálin.

Í fyrri pistli hef ég fjallað um hvernig þoka mætti stjórnarskrármálinu áfram með því að kalla saman þjóðfund til að tjá sig með afgerandi hætti um álitamálin.

Hér verður þráðurinn tekinn upp þar sem þessum þjóðfundi er lokið.

Úrvinnsla

Að fengnu áliti þjóðarinnar með einum eða öðrum hætti, verður Alþingi, og einkum stjórnsýslu- og eftirlitsnefnd þess, að bretta upp ermarnar og ganga frá frumvarpi að nýrri stjórnarskrá byggðu á tillögum stjórnlagaráðs en að teknu tilliti til þeirra valkosta sem þjóðin – eða staðgenglar hennar – hafa ótvírætt valið. Tímin er naumur, ekki síst í ljósi þess að á síðasta misseri fyrir þingkosningar vill hugur þingmanna snúast um margt annað en uppbyggilega málavinnu.

Í ljósi upphaflegra áforma um að stjórnlagaþing starfaði í hrinum með samráði við Alþingi á milli, tel ég viturlegt að stjórnlagaráð vinni með þingnefndinni að lokafrágangi stjórnarskrárfrumvarpsins. Þetta er ekki sagt af vanvirðu við þingið, heldur af umhyggju fyrir málefninu. Það yrði að sjálfsögðu þingnefndin sem bæri lokaábyrgð á frumvarpinu og legði það fram fyrir þingheim allan, sem síðan fer einn með málið.

Staðfesting þjóðarinnar

Í frumvarpi stjórnlagaráðs er gert ráð fyrir því að framvegis verði stjórnarskrárbreytingar að hljóta staðfestingu þjóðarinnar. Sama hafa fyrri stjórnlaganefndir lagt til. Flestir, ef ekki allir, vilja að eins verði farið með stjórnarskrárumbætur nú, að þær hljóti bindandi staðfestingu kjósenda.

Ákvæðin í gildandi stjórnarskrá eru þannig að fyrst samþykkir Alþingi tillögu um hina nýju stjórnarskrá. Þá skal þing rofið og efnt til kosninga. Fyrsta mál nýs þings er síðan að staðfesta hina fyrri samþykkt – nú eða hafna stjórnarskránni sé sá gállinn á þinginu.

En hvernig má láta þjóðina fá völdin nú? Fyrirmynd má sækja í lýðveldisstjórnarskrána 1944. Hún fór í þjóðaratkvæði, enda var svo fyrir mælt í fyrri stjórnarskrárbreytingu. Aðstæður eru því ekki eins. Engu að síður mætti nýta sömu hugsun og bæta við skilyrði í viðkomandi ákvæði í frumvarp stjórnlagaráðs. Viðbótin, sem hér er feitletruð, er sótt nær orðrétt í lýðveldisstjórnarskrána:

Stjórnarskipunarlög þessi öðlast gildi þegar Alþingi hefur samþykkt þau í samræmi við ákvæði stjórnarskipunarlaga nr. 33 frá 17. júní 1944 með áorðnum breytingum enda hafi meiri hluti allra kosningabærra manna í landinu með leynilegri atkvæðagreiðslu samþykkt ályktun Alþingis þar að lútandi.

Sú þjóðaratkvæðagreiðsla sem hér um ræðir gæti farið fram strax eftir að þingið hefur samþykkt það í fyrra sinnið, enda má engu breyta eftir það.

Þrátt fyrir efasemdir um að blanda megi saman kosningum tel ég hafa mætti slíka þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða þingkosningunum vorið 2013. Við það vinnst margt:

  1. Trygging fyrir góðri þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslunni sjálfri.
  2. Kjósendur geta valið flokka og frambjóðendur til þings óháð afstöðu til stjórnarskrárbreytingarinnar.
  3. Minni tilkostnaður þar sem tvennum kosningum er slegið saman.

Stjórnarskrármálið má ekki daga uppi einu sinni enn

Stjórnarskrá er í senn sáttmáli þjóðar við sjálfa sig en um leið erindisbréf hennar til stjórnvalda, þar með til Alþingis, um réttar lýðræðislegar leikreglur. Stjórnarskrá á því að vera sprottin frá þjóðinni.

Hér hefur verið reifað ferli þess að þjóðin eignist vandaða stjórnarskrá í sátt við sem flesta. Stiklað hefur verið á stóru en nánar má lesa um málið á vefsíðu höfundar; sjá thorkellhelgason.is.

Hvernig á að kjósa forsetann?

[Birtist í Fréttablaðinu 12. jan. 2012. Hér lítillega aukið.]

Forsetakosningar verða snemmsumars og því er nú rætt um hvernig kjörið fari fram. Í 5. gr. gildandi stjórnarskrár segir að sá sé rétt kjörinn forseti „sem flest fær atkvæði“. Bent er á að frambjóðandi geti náð kjöri með litlu fylgi samkvæmt þessari reglu. Því hefur verið kastað fram að nær tugur frambjóðenda kunni að verða í boði og dreifist atkvæði mjög á milli þeirra geti svo farið að nýr forseti verði kjörinn með stuðningi svo sem fimmtungs kjósenda.
Aðeins einn af forsetum lýðveldisins hefur náð stuðningi meirihluta kjósenda við fyrstu kosningu í embættið. Það var í forsetakosningunni 1968 þegar Kristján Eldjárn var kjörinn með nær tveimur þriðjuhlutum atkvæða. Yfirlit yfir stuðning við kjörinn forseta er sýnt í 1. töflu hér á eftir.
Kjörnir forsetar hafa að jafnaði skjótt aflað sér stuðnings þjóðarinnar og það óháð kjörfylgi. Þannig varð Vigdís strax vinsæl enda þótt enginn af þjóðkjörnu forsetunum fjórum hafi hlotið minna fylgi við upphaflegt kjör en hún. Engu að síður er æskilegt að forseti njóti ótvíræðs stuðnings meirihluta kjósenda. Sums staðar tíðkast að endurtaka kjörið ef enginn frambjóðandi nær meirihluta í fyrstu atrennu. Er þá að jafnaði kosið á milli tveggja efstu manna á ný og nær þá annar þeirra hreinum meirihluta.
Stjórnlagaráð leggur til í frumvarpi sínu einfaldari aðferð að sama marki. Hún er sú að sameina fyrstu og aðra umferð með því að beita forgangsröðunaraðferð. Kjósendur raða þá frambjóðendum í forgangsröð: Þennan vil ég helst, en nái hann ekki kjöri þá þennan o.s.frv. Fái enginn frambjóðenda meirihluta að fyrsta vali kjósenda er sá þeirra sem fær minnst fylgi dæmdur úr leik og atkvæði hans færð til hinna í samræmi við annað val viðkomandi kjósenda, o.s.frv. allt þar til meirihluti liggur fyrir.
Írar hafa um langan aldur notað þessa aðferð í öllum almennum kosningum, þar á meðal í forsetakosningum. Einu sinni hefur reynt á það á Írlandi að sá forsetaframbjóðandi hafi ekki náð kjöri sem þó fékk flest atkvæði að fyrsta vali. Þetta dæmi er rakið í 2. töflu. Brian Lenihan hlaut vissulega flest atkvæði í fyrstu en þó ekki meirihluta. Kjósendur Austin Currie gerðu því útslagið. Eins og sjá má í töflunni tóku flestir þeirra Mary Robinson fram yfir Brian Lenihan svo að það var Mary sem náði kjöri en ekki Brian. Trúlega hefði það sama orðið upp á teningnum ef kosið hefði verið aftur á milli þeirra tveggja.
Nýr forseti var kjörinn á Írlandi á sl. ári. Óvenjumargir, eða sjö, voru í kjöri. Úrslitin og talningarhrinurnar eru sýndar í 3. töflu. Fram kemur í töflunni að enginn frambjóðenda náði í fyrstu hreinum meirihluta. Þá eru tveir þeir atkvæðarýrustu dæmdir úr leik og atkvæði þeirra færð að 2. vali kjósenda. (Írar spara sér talningar með því að slá tveimur hrinum saman eftir vissum reglum, sem er þó fræðilega ekki alveg kórrétt!) Fyrst við 4. talningu er orðið ljóst hver er sigurvegarinn. Það var Michael D. Higgins. Þótt hann hafi ekki hlotið meirihluta í upphafi sótti hann í sig veðrið við hverja talningarhrinu og var því með traust umboð í lokin. Í neðstu línu töflunnar kemur fram hve mörg atkvæði nýtast ekki („óflytjanleg atkvæði“). Það er vegna þess að kjósendur hafa ekki hirt um að raða nægilega mörgum. Mjög, fáir, innan við 1%, tilgreindu aðeins 1. val sitt, en í lokin, þ.e. í 4. hrinu, höfðu tæp 8% atkvæða dagað uppi. Þau eru þó það fá að þau hefðu engu getað breytt í lokaniðurstöðunni. Kjör Higgins var því yfir allan vafa hafið.
Í forsetakosningunni hér á landi árið 1996 féllu atkvæði eins og sýnt er í 4. töflu. Hefði valið á forseta orðið annað með forgangsröðunaraðferð, eða ef forsetakjörið hefði farið fram í tveimur umferðum þar sem kosið hefði verið á milli þeirra Ólafs Ragnars og Péturs Kr. í seinni umferð? Því verður ekki svarað eftir á.
Forgangsröðunaraðferðin tryggir að rétt kjörinn forseti njóti meirihluta stuðnings kjósenda en sneiðir hjá ókostunum við kjör í tveimur umferðum sem eru m.a. eftirfarandi:

  • Kostnaður við tvær kosningar.
  • Áhugaleysi almennings á þátttöku í báðum umferðunum. Sé t.d. talið ljóst að enginn muni ná kjöri í fyrri umferð og einsýnt hverjir nái að vera í kjöri í þeirri seinni, kunna kjósendur að bíða seinni umferðarinnar.
  • Flokkadrættir og hrossakaup frambjóðenda eftir fyrri kosninguna, þar sem hinir tveir efstu kunna að biðla með óviðeigandi hætti til stuðningsmanna þeirra sem eru úr leik.

Stjórnlagaráð leggur til skýrar valdheimildir handa forsetanum. Þær eru fáar en ótvíræðar. Það er því mikilvægt að kjósendur vandi valið. Því miður er næsta ólíklegt að búið verði að breyta stjórnarskránni fyrir næstu forsetakosningar. Forseti verður því kjörinn til næstu fjögurra ára með gamla laginu. Vonandi lukkast valið samt vel.