by Þorkell Helgason | nóv 22, 2012 | Á eigin vefsíðu
Í eftirfarandi pdf-skjali er að finna samanburð á tillögum stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá og því frumvarpi til stjórnarskipunarlaga um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands sem hefur verið lagt fram af meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis sem þingskjal 510, 415. mál á 141. löggjafarþingi 2012–2013. Þingmannafrumvarpið er samhljóða frumvarpsdrögum lögfræðingahóps sem þingnefndin fékk til að yfirfara tillögur stjórnlagaráðs.
Tínd eru til rök lögfræðinganna fyrir hverri breytingu. Ennfremur er sagt frá þeim ábendingum sem hópurinn gerði í skilabréfi um frekari breytingar á tillögum ráðsins.
Samanburður á frv. stjl.ráðs og lögfræðihóps II
(Ein afritunarvilla hefur verið leiðrétt á fyrri gerð skjalsins hér á síðunni. Hnjóti lesendur um frekari mistök láti þeir vinsamlega vita með tölvupósti á netfangið thorkellhelga@gmail.com.)
by Þorkell Helgason | nóv 19, 2012 | Á eigin vefsíðu
Stjórnlagaráð leggur til gagngera breytingu á öllu fyrirkomulagi kosninga til Alþingis sem mælt verði fyrir um í stjórnarskrá. Tillagan birtist í 39. gr. frumvarps þess auk þess sem 43. gr. skiptir og máli í þessu samhengi.
Þessar tillögugreinar eru tíundaðar málsgrein fyrir málsgrein í meðfylgjandi skjali. Er þá stuðst við það orðalag sem fundur stjórnlagaráðsfulltrúa í mars 2012 bauð upp á sem valkost en efnisbreytingar eru engar frá fyrri gerð.
Undir hverri málsgrein er færðar fram spurningar sem fram hafa komið ím umræðunni um málið og síðan brugðist við þeim með svörum. Sjá III ítarefni SpurtOgSvaradKosningakerfiRadsins 31 okt 2012
Pistill þessi og meðfylgjandi skjal hefur birst áður á þessari vefsíðu (sjáhttps://thorkellhelgason.is/?p=1629 ) en er hér lítillega aukið og endurbætt.
by Þorkell Helgason | nóv 19, 2012 | Á eigin vefsíðu
Í eftirfarandi skjali er að finna kosningaákvæði í stjórnarskrám Norðurlanda í samanburði við frv. stjórnlagaráðs og dæmi stjórnlaganefndar. Athyglisvert er hve mismunadi ítarleg ákvæðin eru. Sjá II ítarefni Kosningakerfi Norðurlanda (augljós afritunarskekkja leiðrétt 3. des. 2012).
by Þorkell Helgason | nóv 19, 2012 | Á eigin vefsíðu
Í þýsku borgríkjunum Bremen og Hamborg var lögum um kosningar til borgarþinga gjörbreytt fyrir kosningar á árinu 2011. Tekið upp mjög virkt persónukjör þar sem hver kjósandi fer með 5 krossa í hverri einstakri kosningu (í kjördæmi eða í landskjöri). Áhrifin urðu umtalsverð, þannig að fjarri fór að allir þeir hafi náð kjöri sem skipuðu vinningssæti flokkanna. Ýmsir gallar eru þó á kerfunum sem væri auðvelt að laga.
Þessu öllu er nánar lýst í þessu skjali: I ítarefni BremenHamburg 31 okt 2012
by Þorkell Helgason | okt 22, 2012 | Á eigin vefsíðu
[Birtist í Fréttablaðinu 23. október 2012.]
Þjóðaratkvæðagreiðslan um stjórnarskrármálið er afstaðin. Þá hefst illu heilli hið íslenska karp um hver sigraði og hver tapaði. Sumir berja sér á brjóst og segja sinn málstað hafa sigrað, jafnvel sinn flokk, eða eru tapsárir og vilja ekki una þeim skilaboðum sem felast í úrslitum kosninganna. Mál er að slíku linni.
Þjóðaratkvæðagreiðslan sýnir ótrúlega mikla samstöðu þjóðarinnar ekki síst ef úrslitin eru borin saman við þá einu skoðanakönnun sem gerð var á undan atkvæðagreiðslunni. Það gerði MMR sl. vor og niðurstöðurnar voru nánast þær sömu og fengust á laugardaginn. T.d. voru 66,9% þeirra sem afstöðu tóku í þjóðaratkvæðagreiðslunni sammála því að leggja tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar frumvarpi að breyttri stjórnarskrá en hjá MMR var hlutfallið 66,1%. Munurinn er langt innan skekkjumarka. Í öðrum spurningum voru jáyrðin í skoðanakönnuninni nokkru eindregnari en þau voru í þjóðaratkvæðagreiðslunni (þó var ekki marktækur munur í kirkjuspurningunni). Ekkert verður hér fullyrt en þó bendir þetta vart til annars en að þeir sem heima sátu hafi verið hinum sem greiddu atkvæði næsta sammála. Þetta má allt lesa úr meðfylgjandi súluriti.
Súlurit [Myndtexti gerður skýrari 24. okt. 2012.]
Að mati undirritaðs voru skilaboð þjóðarinnar nógu skýr til að Alþingi getur nú lokið málinu „á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs“ eins og 2/3 kjósenda vilja. En það þarf að halda vel á spöðunum. Breyta þarf kirkjuskipunarákvæðinu í tillögum stjórnlagaráðs, herða á lögfræðingahópnum sem er að yfirfara tillögurnar í heild, yfirfara hvað er réttmætt í umsögn lögmannafélagsins og kanna aðrar ábendingar um lagfæringar sem fram hafa komið og byggja á rökum en ekki skætingi. Það ætti líka að gaumgæfa hvað veldur því að í tveimur kjördæmum fékk spurningin um jafnt vægi atkvæða ekki meirihlutafylgi. Var það vegna þess að viðkomandi ákvæði í tillögum stjórnlagaráðs eru óljós eða þeim ábótavant? Eða var það vegna þess að nokkrir þeir sem taldir eru sérfræðingar í lýðræðismálum misskildu ákvæðin á opinberum vettvangi? Þá þarf að upplýsa betur. Það er því mikið verkefni fram undan. Þar reynir á Alþingi og sérnefnd þess sem fjallar um stjórnarskrármál.
Bera verður fullbúna endurskoðaða stjórnarskrá undir þjóðina undir lokin, helst samtímis þingkosningum að vori. Þá verður þátttaka meiri en var nú og keppikefli allra hlýtur að verða að þá náist ekki minni stuðningur við breytta stjórnarskrá en sl. laugardag. Við erum fámenn þjóð og verðum að ná sem mestri samstöðu um öll meginmál.