Raforkunotkun á uppleið
Grein fengin af Mbl.is, skrifuð Þriðjudaginn 19. mars, 2002
Mikla aukningu í raforkunotkun, segir Þorkell Helgason, má að stærstum hluta rekja til uppbyggingar stóriðju sl. fimm ár.
RAFORKUNOTKUN hér á landi hefur aukist mikið síðustu árin, aðallega vegna aukinna umsvifa orkufreks iðnaðar. Almenn notkun hefur einnig aukist nokkuð og nú er svo komið að við Íslendingar eigum orðið heimsmet í raforkunotkun á hvern íbúa, eða 28,2 MWh á ári.
Þetta er meðal þeirra niðurstaðna sem fram koma í samantekt Orkuspárnefndar, en það er samstarfsvettvangur Fasteignamats ríkisins, Hagstofunnar, Hitaveitu Suðurnesja, Landsvirkjunar, Orkustofnunar, Orkuveitu Reykjavíkur, Rafmagnsveitna ríkisins, Samorku og Þjóðhagsstofnunar. Starfsmaður nefndarinnar er Jón Vilhjálmsson hjá verkfræðistofunni Afli ehf. Orkuspárnefnd gefur á hverju ári út endurreiknaða spá um raforkunotkun landsmanna, og á um fimm ára fresti endurskoðar hún þessa spá frá grunni og birtir í ítarlegu riti. Einnig birtir nefndin spár um aðra orkugjafa. Spár þessar eru mikið notaðar af stofnunum og fyrirtækjum á ýmsum sviðum. Nefndin hefur á undanförnum árum orðið vör við aukinn áhuga á spánum og einnig ýmsum mikilvægum hagrænum forsendum sem þær byggjast á.
Aukning í raforkuvinnslu
Árið 2001 nam raforkuvinnsla á landinu samtals 8.028 GWh og hafði þá aukist um 4,5% frá árinu áður. Stórnotkun (raforkunotkun stórnotenda) nam 4.955 GWh og almenn notkun 2.825 GWh. Aukningu í raforkunotkun hér á landi síðustu árin má að stærstum hluta rekja til þeirrar uppbyggingar stóriðju sem átt hefur sér stað síðustu fimm ár. Þar kemur til stækkun álvers Ísals og járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga auk álvers Norðuráls sem byggt var í tveimur áföngum. Raforkunotkun stóriðju hefur þannig tvöfaldast undanfarin fimm ár. Fyrir 1997 höfðu hins vegar litlar breytingar orðið á stórnotkun síðan rekstur Íslenska járnblendifélagsins hófst á Grundartanga 1979. Aukningin í raforkuvinnslunni undanfarin fimm ár samsvarar nær allri almennri raforkunotkun á síðasta ári.
Aukning á höfuð- borgarsvæðinu
Á höfuðborgarsvæðinu hefur aukning almennrar raforkunotkunar verið tvöfalt meiri en á landinu í heild síðustu fimm árin eða 4,7% aukning að meðaltali á ári, en til samanburðar var aukningin á landinu í heild 2,4% á ári að meðaltali. Á þessum árum hefur nánast öll fjölgun landsmanna komið fram á höfuðborgarsvæðinu sem kemur greinilega fram í notkuninni en þrátt fyrir það hefur verið aukning í raforkunotkun í flestum landshlutum. Einungis á Vestfjörðum hefur notkunin minnkað á tímabilinu.
Raforkunotkun háð efnahagssveiflum
Raforkunotkun er oft greind niður í tvo meginþætti, þ.e. í forgangsorku og ótryggða orku. Meginhluti notkunarinnar er forgangsorka en með ótryggðri orku er átt við notkun þar sem samið hefur verið um að skerða megi notkunina, t.d. þegar erfiðleikar eru í vatnsbúskap virkjana.
Sveiflur í efnahagslífi Íslendinga koma vel fram í árlegri notkun forgangsorku. Á árunum 1989-94, þegar hagvöxtur var lítill hér á landi, var árleg aukning almennrar forgangsorku einungis um 1% en eftir að hagvöxtur jókst að nýju hefur aukningin verið 2,6% að meðaltali en landsframleiðsla hefur á sama tímabili aukist um 3,7% á ári að meðaltali. Raforkunotkunin sveiflast að jafnaði með landsframleiðslunni en sveiflurnar eru þó minni í raforkunotkuninni. Hagvaxtarbreytingar skila sér þó ekki strax í raforkunotkun. Þannig hófst núverandi hagvaxtarskeið árið 1994 en kom ekki fram í raforkunotkun fyrr en 1995.
Orkuspárnefnd forspá
Síðustu þrjár raforkuspár Orkuspárnefndar hafa staðist mjög vel. Þegar litið er á eldri spár og þær bornar saman við rauntölur síðustu ára sést að spá frá 1985 um almenna notkun 2001 er einungis um 5% yfir raunnotkuninni, spá frá 1992 er um 7% undir raunnotkuninni og spáin frá 1997 er nánast sú sama og raunnotkunin 2001.
Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Orkuspárnefndar, www.orkuspa.is.
Höfundur er orkumálastjóri og formaður Orkuspárnefndar.