by Þorkell Helgason | nóv 27, 2011 | Á eigin vefsíðu
[Pistill þessi birtist í Fréttablaðinu 9. ágúst 2011]
Stjórnlagaráð hefur skilað þjóð og þingi heildartilllögum að nýrri stjórnarskrá. Nú þarf að hefjast upplýst og vönduð umræða um tillögurnar. Fjölmiðlar hafa þar ábyrgðarmiklu hlutverki að gegna. Úrtöluraddir mega ekki einar heyrast.
Haukur Arnþórsson, stjórnsýslufræðingur, hefur haft uppi hörð orð um fyrirkomulag um kosningar til Alþingis í tillögum Stjórnlagaráðs, m.a. í Fréttablaðinu. Hér verður þó málflutningur Hauks í fréttum á Stöð 2 hinn 6. ágúst undir fyrirsögninni „Persónukjör án kjördæma marklaust“ einkum gerður að umtalsefni.
Flokkar og fólkið
Möguleikar kjósenda til að velja sér þingmenn fóru síminnkandi alla síðustu öld. Kjósendur standa nú aðeins frammi fyrir pakkalausnum í formi fyrirskrifaðra lista. Í Stjórnlagaráði kom strax upp vilji til að leggja til persónukjör þar sem kjósendur réðu sem mestu um það hverjir veldust til þingsetu. Mörg okkar skynjuðum sterkan vilja meðal fólks í þessa veru, m.a. á Þjóðfundinum 2010, og velflestir fulltrúar í ráðinu höfðu persónukjör eitt meginmarkmiða sinna við framboð til stjórnlagþings.
Fullyrt er að með persónukjöri sé verið að grafa undan flokkunum. Ekki verður þó annað séð en að flokkar séu sprelllifandi í þeim grannlöndum okkar þar sem alfarið eru kosnir einstaklingar en ekki flokkar, en það er í Finnlandi og Írlandi. Flokkar njóta ekki vinsælda um þessar mundir. Gæti orsökin m.a. verið sú að fólki finnist það vanvirt með því að fá aðeins að kjósa fyrirskrifaða lista í heilu lagi en geti nær engu ráðið um hverjir veljast á þing?
Skipun þingmanna í samstæða hópa, flokka, er að flestra dómi gagnleg, jafnvel nauðsynleg. En þó tókst okkur í Stjórnlagaráði prýðilega að ná saman án þess að skipa okkur í fylkingar.
Óbærilegur stöðugleiki
Af fyrrgreindu sjónvarpsviðtali og blaðagreinum Hauks má ætla að það sé hættulegt að kjósendur geti valið sér þingmannsefni þvert á flokka. Fyrst er því til að svara að í tillögum Stjórnlagaráðs er þess ekki krafist að kjósendur hafi svo mikið valfrelsi. Alþingi er heimilað að takmarka val kjósenda við menn úr sama flokki.
En segjum svo að kosningalög leyfi val þvert á flokka og að kjósandi velji sér þrjá frambjóðendur, tvo úr flokki A en einn úr flokki B. Atkvæði hans skiptist þá í sama hlutfalli milli þessara tveggja flokka. Nú verður kjósandinn fyrir vonbrigðum með aðalflokk sinn, flokk A, og hefnir sín í næstu kosningum með því að hafa endaskipti á atkvæðinu, velur aðeins einn úr A-flokki en tvo úr B-flokki. Haukur segir þá illt í efni þar sem aðeins færist þriðjungur úr atkvæði kjósandans á milli flokka. Ef kjósandanum hefði ekki verið leyft að skipta atkvæðinu hefði hann í fyrri kosningunni kosið A-flokkinn alfarið og síðan orðið gramur og kosið B-flokkinn, aftur með heilu atkvæði. Þannig dragi persónukjör úr fylgissveiflum.
Rök finnast ekki, aðeins hugardæmi af þessu tagi. Það er auðvelt að búa til dæmi í öndverða átt svo og reiknidæmi sem sýna ýmist minni eða meiri sveiflur.
Er kosningaréttur kvenna ógn?
Kjósendum í þingkosningum stórfjölgaði árabilinu 1915-20 að mestu vegna þess að konur fengu kosningarrétt. Sérfræðihaukar þess tíma hefðu örugglega varað við og sagt það stórhættulegt. Með ríflega tvöföldun á tölu kjósenda væri viðbúið að drægi úr fylgissveiflum. Áður hefði húsbóndinn á heimilinu ýmist kosið A- eða B-flokk og þar með sveiflað fylgi flokkana tveggja til og frá. Nú gæti svo farið að eiginkonan væri ávallt annarrar skoðunar en hann og hringlið í vinnuhjúunum, sem fengju nú að kjósa í fyrsta sinn, bætti ekki úr skák. Stöðugleikinn yrði óbærilegur, aukinn kosningaréttur væri því hættulegur þingræðinu.
Er jafn kosningaréttur mannréttindabrot?
Haft er eftir Hauki í sjónvarpsviðtalinu að það sé mannréttindabrot að fella niður kjördæmin, sérstaklega ef um leið er viðhaft persónukjör. Vera má að spyrjandinn hafi klippt viðtalið sundur og saman eða misskilið orð Hauks, en það sem haft er eftir honum í beinum og óbeinum orðum verður vart á annan veg skilið en þann að það sé brot á rétti fólks að jafna kosningaréttinn hvort sem það er gert með því að gera landið að einu kjördæmi eða á annan veg.
Stjórnlagaráð krefst ekki afnáms kjördæma. Á hinn bóginn er það ótvíræð krafa Stjórnlagaráðs að „atkvæði kjósenda alls staðar á landinu veg[i] jafnt“ eins og segir í frumvarpi ráðsins. Kjósandi á ekki að fá helmingi meiri rétt við það eitt að bregða búi og flytja frá öðrum munna Hvalfjarðarganga til hins eins og nú er. Haukur virðist réttlæta slíka mismunun með því að laun á landsbyggðinni séu helmingi hærri en á höfuðborgarsvæðinu. Forsenduna um launamuninn verður að draga mjög í efa, en þó svo hún væri rétt eru rökin ótæk. Mannréttindi, eins og kosningaréttur, mega hvorki ráðast af launum né auði.
Þorkell Helgason, sat í stjórnlagaráði
by Þorkell Helgason | nóv 25, 2011 | Á eigin vefsíðu
[Birtist upphaflega í Fréttatímanum 25. nóvember 2011]
Þessi pistill er ritaður suður í Þýskalandi eins og sumir þeirra fyrri í þessari stjórnarskrársyrpu. Pistillinn ber keim að því. Oft er gott að horfa heim á hlað úr nokkurri fjarlægð.
Fáar þjóðir hafa orðið fyrir jafn miklum hremmingum og Þjóðverjar á næstliðinni öld öfganna. Þjóðverjar hafa tekið afleiðingunum og mikið lært. Mér er ekki kunnugt um aðra þjóð sem hefur jafn rækilega sagt skilið við fortíðina og Þjóðverjar og lagt sig í sama mæli fram við að skapa nýtt þjóðfélag lýðræðis og réttar. Ekki hafa Ítalir tekið sér sama tak eftir endalok fasismans. Nýfrjálsu ríkin í Austur-Evrópu hafa líka fæst farið í gegnum sömu naflaskoðun og Þjóðverjar eftir einræðið sem yfir þau dundi.
Varsla stjórnarskrárgilda
Til þess að takast á við fortíðina og byrgja brunna hafa Þjóðverjar komið á fót stofnunum sem eiga sér vart eða ekki hliðstæðu hjá öðrum þjóðum. Ég hef í fyrri pistlum drepið á eina þeirra, stjórnlagadómstól. Þýskir ráðamenn ganga svo langt að segja að stjórnarskrá sé haldlítið plagg án slíks dómstóls sem geti gefið afgerandi svör um það hvort lög og stjórnvaldsathafnir brjóti í bág við grundvallarlögin. Stjórnlagadómstóll hefur orðið þýsk „útflutningsvara“ handa nýjum lýðræðisríkjum. Því miður vannst okkur í stjórnlagaráði ekki tími til að ræða það mál til hlítar en við leggjum þó til góðan vísi að slíkri stjórnarskrárgæslu. Annað sem Þjóðverjar komu upp er stjórnarskrárvarsla („Verfassungsschutz“) sem eru sérstakar löggæslustofnanir sem eiga að hafa auga með þeim öfgaöflum sem kunna að ógna lýðræðissamfélaginu. Þessir vörslumenn hafa þó sætt mikilli gagnrýni undanfarið og ekki sagðar hafa staðið sig í stykkinu gagnvart hægri öfgahópum.
Stjórnmálamenntun
Þriðja stofnunin á þessu sviði á sér enga hliðstæðu, að minnsta kosti ekki í okkar heimshluta. Það er sérstök opinber miðstöð sem hefur það hlutverk að efla og auka stjórnmálavitund, ekki síst meðal ungs fólks; sjá http://www.bpb.de/ („Bundeszentrale für politische Bildung“, alríkisstofnun sem á sér að auki systurstofnanir í einstökum löndum þýska sambandslýðveldisins).
Tilgangur stofnunarinnar er „að auka skilning á pólítískum málefnum, styrkja lýðræðislega meðvitund, og efla vilja til pólitískrar þátttöku.“ Unnið er í þessa veru með ýmsu móti, ekki síst með útgáfustarfsemi og hvers kyns vefmiðlun.
Ég átti þess kost að ræða við næstæðsta mann þessarar stofnunar nýverið og kynnast starfseminni. Stórmerkilegt. Vitaskuld bar íslensku stjórnarskrármálin líka á góma. Ég fékk til dæmis ábendingar um hvernig miðla mætti fróðleik um stjórnarskrármálefnin til almennings. Sá þýski spurði sérstaklega hvort við legðum ekki til stjórnlagadómstól, en svör mín voru heldur loðin. Hann lagði eins og aðrir ríka áherslu á slíkan dómstól.
Erum við lýðræðislega þroskuð?
Stjórnarskráin sem stjórnlagaráð leggur til gerir umtalsverðar kröfur um lýðræðisþroska. Ákvæði um þingkosningar eru gjörbreytt. Kjósendur þurfa ekki aðeins að taka afstöðu til meginfylkinga, það er flokka, heldur líka til þess hvaða einstökum frambjóðendum þeir treysta best til að stýra þjóðfélaginu. Fyrirkomulag forsetaembættisins er breytt og enn frekar en fyrr þarf að vanda val til þess embættis, en nýtt kosningafyrirkomulag á að auðvelda valið. Síðan fær almenningur umtalsvert vald til að hafa bein afskipti af lagasetningu. Þjóðin verður í þeim efnum að ganga hægt um gleðinnar dyr og beita þessu nýja tæki að vel hugsuðu máli.
Erum við þroskuð til alls þessa? Stjórnmálaflokkar eru óvenju öflugir hjá okkur og gegna miklu hlutverki í þessum efnum. En það nægir ekki til. Fólk verður líka að taka afstöðu á eigin forsendum og ábyrgð.
Umfram allt verður að viðhalda – en helst auka – þann mikla áhuga sem þó er á þjóðfélagsmálum. Hvernig gerum við það? Hvernig verður samábyrgð fólks á lýðræðinu vakin? Ný stjórnarskrá hjálpar þar sjálf til. Fólk fær áhuga og vilja til þátttöku þegar það sér að því er treyst og því fengið viðeigandi vald.
Þorkell Helgason, sat í stjórnlagaráði
by Þorkell Helgason | nóv 23, 2011 | Á eigin vefsíðu
[Birtist í Fréttablaðinu 23. nóv. 2011, en án myndarinnar.]
Skálholt var höfuðstaður í þjóðlífinu um aldir, ekki aðeins í andlegum efnum heldur einnig veraldlegum. Alkunna er hver urðu örlög staðarins, niðurníðsla af náttúrunnar- og mannavöldum. Fyrir tilstilli mætra manna hefur staðurinn verið endurvakinn. Skálholtskirkja reis fyrir hálfri öld, fögur og tilkomumikil þar sem hún gnæfir yfir umhverfið. Jafnframt hafa verið reist í Skálholti húsakynni sem gert hafa ýmsa menningarstarfsemi mögulega. En hús, jafnvel kirkjur, þarf að glæða lífi. Það hefur vissulega verið gert. Auk kirkjuhaldsins sjálfs hefur tónlistarstarf ekki síst varpað ljóma á staðinn enda býður Skálholtskirkja upp á einna bestan hljómburð hér á landi fyrir þá tónlist sem hæfir guðshúsi. Sumartónleikar í Skálholtskirkju hafa verið haldnir í nær fjóra áratugi og er hátíðin ein elsta og umfangsmesta tónlistarstarfsemi á landinu, smiðja nýrrar tónlistar en líka miðstöð í túlkun á tónlist fyrri alda. Menningarsetrið Skálholtsskóli hefur einnig í sívaxandi mæli haslað sér völl sem vettvangur andlegra starfsemi jafnframt því að láta til sín taka í þjóðmálaumræðunni.
Hvert stefnir nú? Kirkjan sem og margar aðrar stofnanir þjóðfélagsins þurfa að draga saman seglin eftir óáran af mannavöldum. Öllum starfsmönnum Skálholtsskóla hefur verið sagt upp. Framtíð Sumartónleikanna er í óvissu. En á sama tíma er brambolt í gangi til að reisa hús utan í kirkjunni sjálfri og það sagt vera til að endurreisa rúst Þorláksbúðar, sem lítið er þó vitað um. Undirritaður skrifaði um þessa ósvinnu grein í Morgunblaðið 25. ágúst s.l. undir heitinu Búngaló að rísa hornskakkt á Skálholtskirkju og vitnaði þar í hliðstæða „höfuðósmíð fyrir vestan“ sem kemur við sögu í Kristnihaldi undir jökli. Síðan hafa margir tjáð sig um fyrirbærið og gripið hefur verið til skyndifriðunar til að stöðva verknaðinn. Henni þarf að fylgja eftir og tryggja að menningarslys verði ekki á staðnum. Kirkjuráð þarf að sjá sig um hönd og stöðva framkvæmdir endanlega.
Sumir telja það lausn á deilunni um Þorláksbúð að færa bygginguna. Hvað með stofn- og rekstarkostnað? Sagt er að fé komi úr vösum svokallaðra áhugamanna um verkefnið en trúlegra er að reikningurinn verði sendur á kirkjuna og ríkissjóð. Að mörgu leiti var rekið smiðshögg á hina veraldlegu uppbyggingu í Skálholti í tíð Sigurðar vígslubiskups Sigurðarsonar heitins. Skólahúsið var stækkað, reistur sýningarskáli og aðkoma að staðnum stórbætt. Nú er ekki brýnast að festa meira fé í byggingum, allra síst tilgangslítið tildurhús, á sama tíma og sjálft lífið á staðnum, helgihald, menningarstarfsemi og tónlist, á í vök að verjast. Þeir sem ráða yfir Skálholti eiga að beina kröftum sínum að vörslu þess sem er og hefur sannað gildi sitt.
Í Hinu ljósa mani Halldórs Laxnes segir: „Þennan haustdag var alt kyrt í Skálholti, og einginn vissi að neitt hefði gerst, en byrjað að frjósa, og þar með dregið úr fnykri þeim af sorpi og svaði sem einkendi staðinn.“ Betur væri að allt væri kyrrt í Skálholti og enginn fnykur af fjárskorti og smekklausum framkvæmdum.
Þorkell Helgason, stærðfræðingur er áhugamaður um málefni Skálholts.
[Vona að höfundur myndarinnar, sem ég veit ekki hver er, afsaki að ég hef tekið hana traustataki.]
by Þorkell Helgason | nóv 17, 2011 | Á eigin vefsíðu
[Birtist í Fréttatímanum 18. nóvember 2011; fyrri gerð hér á vefsíðunni hefur verið stytt lítillega vegna rýmistakmarkana blaðsins.]
Forseti kirkjuþings gerði frumvarp stjórnlagaráðs um kirkjuákvæði stjórnarskrár að umtalsefni í ræðu við setningu þingsins s.l. laugardag. Tónninn var sleginn með tilvitnun í hin fleygu orð Halldórs Laxness úr munni Jóns Hreggviðssonar „Vont er þeirra ránglæti, verra þeirra réttlæti”.
Þjóðkirkja og kirkjuskipan
Kirkjuþingsforsetinn segir að stjórnlagaráð hafi „hlaupist undan þeim vanda að kveða á um hvort hér á landi skuli vera þjóðkirkja eða ekki.“ Orðið þjóðkirkja kemur ekki fyrir í frumvarpi stjórnlagaráðs en meginbreytingin fellst í þeirri tillögu að brott falli ákvæði um „að ríkisvaldið skuli styðja og vernda þjóðkirkjuna“ svo vitnað sé í ræðuna og um leið í ákvæði 62. gr. núgildandi stjórnarskrár. Forseti kirkjuþings er sammála þessari einu raunverulegu efnisbreytingu um þjóðkirkjumálið sem stjórnlagaráð leggur til: „Þetta er arfur frá gamalli tíð og engin þörf er lengur á slíku verndarákvæði í stjórnarskrá.“
Þá segir forseti kirkjuráðs að „breytingar á kirkjuskipaninni – og þar með sú spurning hvort hér skuli vera þjóðkirkja eða ekki – [eru samkvæmt gildandi stjórnarskrá] háðar því að Alþingi taki skýra ákvörðun um afnám þjóðkirkju og þjóðin fái að greiða atkvæði um þá ákvörðun sérstaklega.“ Hér hefði forsetinn mátt vitna beint í ákvæði 2. mgr. 79. gr. stjórnarskrárinnar: „Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipun ríkisins samkvæmt 62. gr., og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar, og skal atkvæðagreiðslan vera leynileg.“
Forsetinn telur á hinn bóginn að stjórnlagaráð leggi til að „ákvörðunarvald“ um það „hvort hér á landi skuli vera þjóðkirkja eða ekki“ sé „fengið Alþingi með orðunum: „Í lögum má kveða á um kirkjuskipan ríkisins” og vitnar hann þá í 1. mgr. 19. gr. frumvarpsins. Kirkjuþingsforseti hefði mátt vitna í framhald frumvarpsgreinarinnar, en í 2. mgr. hennar segir „Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipan ríkisins og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar.“ Er þetta frábrugðið því sem er í gildandi stjórnarskrá?
„Með þessari tillögugerð stjórnlagaráðs [um kirkjuskipanina] er því sköpuð óviðundandi óvissa,“ segir forseti kirkjuþings. Hún er þó ekki meiri en í gildandi stjórnarskrá. Bæði samkvæmt henni svo og frumvarpi stjórnlagaráðs verður breyttri skipan ekki komið á nema þjóðin ákveði það í sjálfstæðri atkvæðagreiðslu að frumkvæði Alþingis. Hefði forseti kirkjuþings kosið að stjórnlagaráð hefði tekið fram fyrir hendurnar á þjóðinni og lagt til brottfall allra ákvæða um kirkjuskipanina?
Var stjórnlagaráð með sjónhverfingar?
Forseti kirkjuþings leggur út af ofangreindri tillögu stjórnlagaráðs um að Alþingi sé heimilt að kveða á um kirkjuskipanina með því að segja: „rétt eins og sérstaka heimild þurfi í stjórnarskrá til að Alþingi geti gegnt löggjafarhlutverki sínu!“ Vitaskuld er það ekki svo að Alþingi geti sett lög um hvað sem er. Stjórnarskrá er til þess að setja lagasetningu eðlileg mörk. Í ráðgerðri stjórnarskrá er kveðið á um jafnræði og trúfrelsi, allt eins og í hinni núgildandi. Án skýrrar heimildar í stjórnarskrá getur Alþingi því vart sett lög um sérstaka kirkjuskipan.
Þá segir forseti kirkjuþings: „Það er hins vegar stjórnarskrárvarinn réttur þjóðarinnar sjálfrar að ákveða hvort þjóðkirkja skuli vera hér í landi eða ekki. Framhjá þessum rétti þjóðarinnar verður ekki gengið með sjónhverfingum einum saman.“ Hér virðist forsetinn vera að segja að það eitt að orðalagi um kirkjumálin verði breytt í stjórnarskrá kalli á sérstaka þjóðaratkvæðagreiðslu samkvæmt núgildandi stjórnarskrá. Um þetta deila lögfræðingar eins og einatt er. Hinu verður að vísa á bug að stjórnlagaráð sé með „sjónhverfingar“.
Hvers vegna hin stóru orðin?
Vitaskuld er kirkjunnar mönnum rétt og skylt að tjá sig um trúar- og kirkjumálaákvæði ráðgerðrar stjórnarskrár. Í ljósi þess sem að ofan greinir eru þung orð forseta kirkjuþings, æðstu stofnunar þjóðkirkjunnar, um frumvarp stjórnlagaráðs þó illskiljanleg.
Þorkell Helgason, sat í stjórnlagaráði
by Þorkell Helgason | nóv 11, 2011 | Á eigin vefsíðu
[Pistill þessi birtist í Fréttatímanum 4. nóvember 2011]
Umræða um frumvarp stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá er komin á skrið. Alþingi reið á vaðið í októberbyrjun með sérstökum þingfundi um málið. Í kjölfarið fór málið til nýrrar þingnefndar, stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Hún er byrjuð að kalla inn viðmælendur, t.d. fulltrúa úr stjórnlagaráði. Jafnframt hefur nefndin auglýst eftir athugasemdum við frumvarpið. Vart verður meiri skrifa og umræðna um málið, lagdeildir háskólanna efna til málstofa o.s.frv.
Hlutverk almennings
Nú verður almenningur að fylgja málinu eftir. Því miður skortir aðgengileg gögn. Stjórnvöld ættu að sjá til þess að senda tillögur stjórnlagaráðs í hvert hús. Gildandi stjórnarskrá mætti gjarnan fylgja með, helst þannig að ákvæðin væru sett upp hlið við hlið til að auðvelda fólki samanburð. Nálgast má slík samanburðarskjöl á vefsíðu minni; sjá https://thorkellhelgason.is/?p=1175. Í meðf. úrklippu er dæmi um það sem lesa má úr þeim samanburði. Dæmið sýnir ákvæði um upplýsingaskyldu ráðherra.
Þá má benda á að einstaklingur hefur gefið út frumvarp ráðsins í snotru kveri sem fæst í helstu bókabúðum. Það er þakkarvert.
Hvetja verður fólk, leika sem lærða, til að senda þingnefndinni ábendingar. Þær geta bæði verið um einstök ákvæði sem menn telja að ættu að vera með öðrum hætti. En hví ekki að senda nefndinni líka jákvæða umsögn? Að einstök atriði, heilu kaflarnir, nú eða plaggið í heild sinni sé harla gott.
Skoðun þjóðarinnar
En það er ekki nóg að almenningur, einstaklingar, félög eða samtök láti þingnefndina í sér heyra. Kjósendur verða allir að koma að því að gefa stjórnarskránni endanlegt gildi. Þetta hefur verið áréttað í umræðunni, á þingi og utan þess. Hugmyndir um þetta eru þó nokkuð á reiki. Eins og ég hef reifað áður tel ég afarasælast að framgangsmátinn yrði í líkingu við þetta:
- Þingnefndin standi fyrir kynningu á frumvarpi stjórnlagaráðs, afli umsagna, fari ítarlega yfir frumvarpið og skili rökstuddu áliti.
- Stjórnlagaráð verði kallað saman, helst formlega, til að fara yfir umsagnir frá almenningi svo og álit þingnefndarinnar. Ráðið geri eftir atvikum breytingar á frumvarpi sínu horfi þær til bóta. Í samræmi við vinnubrögð sem kveðið er á um í 66. og 67. gr. frumvarps ráðsins verði leitast eftir að ná samhljómi með þingnefndinni.
- Ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram ef þörf krefur. Aftur skal vísað til fyrrgreindra frumvarpsákvæða. Verði ráðið og þingið ekki á eitt sátt verður þjóðin að taka af skarið í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem vitaskuld getur þó aðeins orðið ráðgefandi. Þingið á síðasta orðið.
- Bindandi þjóðaratkvæðagreiðsla verði um það frumvarp sem þingið samþykkir að lokum. Gjörbreytt stjórnarskrá verður að hafa hlotið blessun þjóðarinnar með formlegum hætti.
- Staðfesting Alþings að loknum þingkosningum eins og gildandi stjórnarskrá mælir fyrir um.
Kallar þetta á tvær þjóðaratkvæðagreiðslur með tilheyrandi kostnaði? Ekki endanlega. Í fyrsta lagi gæti orðið svo góður samhljómur með þinginu og ráðinu að ekki þyki ástæða til fyrri þjóðaratkvæðagreiðslunnar, aðeins hinnar seinni. Ég hef bent á leið til að endanlega atkvæðagreiðslan fari fram samtímis kosningum til þess seinna þings sem þarf að staðfesta stjórnarskrána.
Farsæl stjórnarskrá verður að komast í höfn!
Þorkell Helgason, sat í stjórnlagaráði
Stjórnarskrá
lýðveldisins Íslands
Frumvarp stjórnlagaráðs
54. gr. 93. gr.
Upplýsinga- og sannleiksskylda.
Ráðherra er skylt að veita Alþingi eða þingnefnd
allar upplýsingar, skjöl og skýrslur um málefni
sem undir hann heyra, nema leynt skuli fara
samkvæmt lögum.
Þingmenn eiga rétt á upplýsingum frá ráðherra
með því að bera fram fyrirspurn um mál eða óska
eftir skýrslu, samkvæmt nánari fyrirmælum í
lögum.
Upplýsingar sem ráðherra veitir Alþingi,
nefndum þess og þingmönnum skulu vera réttar,
viðeigandi og fullnægjandi.
Heimilt er alþingismönnum,
með leyfi Alþingis, að óska
upplýsinga ráðherra eða svars
um opinbert málefni með því að
bera fram fyrirspurn um málið
eða beiðast
um það skýrslu.
Skrá: ÞH Tafla 11 nov.xlsm Síða: Úrklippa Bls.: 1