Helguleikur – saga Helgu Ingólfsdóttur og Sumartónleika í Skálholtskirkju. Útgáfuhóf í sal FÍH fimmtudaginn 28. júní

 

Út er komin bókin Helguleikur eftir Kolbein Bjarnason. Af því tilefni efna Sumartónleikarnir í Skálholti og Bókaútgáfan Sæmundur til útgáfuhófs í sal FÍH í Rauðagerði 27 í Reykjavík fimmtudaginn 28. júní klukkan 17-19. Auk bókarinnar verður þar kynnt starf Sumartónleikanna en dagskrá þeirra ár hefst 7. júlí næstkomandi. Kaffi og konfekt, allir velkomnir.

Bókin verður seld á tilboðsverði í útgáfuhófi, með 20% afslætti frá leiðbeinandi verði eða á 13500 kr.

Í bókarkynningu verða leikin sýnishorn af diskum sem fylgja bókinni með semballeik Helgu Ingólfsdóttur.

Í bókinni Helguleikur segir frá semballeikaranum Helgu Ingólfsdóttur (1942-2009), Sumartónleikum í Skálholtskirkju og sögu barokktónlistar á Íslandi. En einnig er hér gerð grein fyrir alþjóðlegum straumum í tónlist frá 18. öld til okkar daga. Lesandinn er leiddur inn í heillandi sögu frumherja í tónlistarstarfi sem gerðu jafnvel Bach að Biskupstungnamanni.

Í bókinni er rakið hvernig semballeikarinn Helga Ingólfsdóttir breytti hugmyndum manna um barokktónlist en var jafnframt öflugur túlkandi nýrrar tónlistar enda heilluðust tónskáld af leik hennar og hljóðfæri og tileinkuðu henni verk sín.

Gerð er tilraun til að greina stefnur og strauma í nýrri íslenskri tónlist og fjallað um þá viðleitni íslenskra tónskálda að segja sögur í tónlist sinni. Getur einleiksverk fyrir sembal fjallað um hallarrústir í frumskógum Víetnams?

Bókinni fylgja sex hljómdiskar með leik Helgu.

Helguleikur eftir Kolbein Bjarnason. Harðspjaldabók í stóru broti, 450 síður. ISBN 978-9935-465-72-6. Leiðbeinandi verð er 16990 kr.

Borgarstjórnarkosningar í Reykjavík 2018 gerðar upp með ýmsum aðferðum

Nokkuð hefur verið spurt um það hvernig úthlutun sæta í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum hefði komið út ef beitt hefði verið öðrum aðferðum en þeirri lögbundnu, þeirri sem kennd er við d‘Hondt. Í ljós kemur að d‘Hondt sker sig úr frá þeim öðrum aðferðum sem koma við sögu á myndinni og gefa allar sömu niðurstöðu. Munurinn d‘Hondt á og hinum er sá að d‘Hondt gefur D og S einu sæti fleira, hvorum lista um sig, á kostnað B og J.

Um muninn á þessum aðferðum öllum má lesa á síðunni https://thorkellhelgason.is/?p=2144. Frekari lýsing verður að bíða rits sem ég vonast til að ljúka á komandi vetri!

Í töflunni hefur listum undir 1000 atkvæðum verið sleppt; þeir fengu engin sæti í neinni aðferðinnui.

Borgarstjórnarkosningar í Reykjavík 2018
B C D F J M P S V Alls
Atkv. 1.870 4.812 18.146 2.509 3.758 3.615 4.556 15.260 2.700 58.966
Úthlutuð sæti
B C D F J M P S V Alls
d’Hondt 2 8 1 1 1 2 7 1 23
Sainte-Laguë 1 2 7 1 2 1 2 6 1 23
Norrænn Laguë 1 2 7 1 2 1 2 6 1 23
Hare (stærsta leif) 1 2 7 1 2 1 2 6 1 23
Droop 1 2 7 1 2 1 2 6 1 23

 

(Um þennan smápistil er fjallað á http://eyjan.dv.is/eyjan/2018/06/11/dhondt-adferdin-reyndist-framsokn-og-sosialistum-othaegur-ljar-thufu/)

 

Umsögn vegna frumvarps um eftirgjöf á veiðigjöldum

[Eftirfarandi er umsögn sem ég sendi til atvinnuveganefndar Alþingis vegna frumvarps stjórnarmeirihlutans sem lagt var fram í skyndi um eftirgjöf á veiðigjöldum. Umsagnarfrestur var aðeins rúmur sólarhringur.]

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðigjald, nr. 74/2012, 631. mál á 148. löggjafarþingi 2017–2018.

Sú var tíðin að verð á helstu nauðþurftum var ákveðið af stjórnvöldum eða nefndum á þeirra vegum. Sama gilti um fiskverð. Gengi á krónunni var fest með lögum frá Alþingi og miðaðist nær alfarið við afkomu sjávarútvegsins. Þetta fyrirkomulag fól í sér veiðigjald þó með óbeinum hætti væri, en innheimta þess fór fram í gegnum tolla. Fullkomnun náði þetta kerfi á dögum vinstri stjórnarinnar undir lok sjötta áratugarins, þegar hver grein sjávarútvegsins bjó við sitt gengi.

Þegar þetta miðstýrða fyrirkomulag var aflagt undir lok síðustu aldar og verð á nær öllu (nema landbúnaðarvörum) látið ákvarðast á markaði, hefði strax átt að taka upp markaðstengt veiðigjald. Því miður varð það ekki og því sitjum við enn uppi með eftirhreytur af fyrirkomulagi miðstýrðra ákvarðana, veiðigjaldi sem nú á að fastsetja í krónum og aurum með lögum frá Alþingi.

Ef útgerðin fengi sjálf að ákveða veiðigjaldið á frjálsum markaði gæti hún ekki kvartað um seinagang stjórnvalda við að aðlaga gjaldið breytingu á afkomu útgerðarinnar, en það virðist vera tilefni framlagðs frumvarps. Veiðigjaldið tæki strax mið af stöðunni á hverjum tíma. Þjóðin, eigandi auðlindarinnar, ætti líka að verða sátt enda væri þá greitt markaðsgjald, „fullt gjald“ fyrir veiðiheimildirnar allt eins og tilgreint er í ákvæði um eignarrétt í stjórnarskránni, meira að segja þeirri núverandi.

Í téðu frv. endurspeglast sá reginmisskilningur að veiðigjald sé skattur sem eigi að leggja á eftir efnum og ástæðum, sbr. afsláttinn sem fær heitið „persónuafsláttur“ í greinargerð með frv. Gjaldið er greiðsla fyrir aðgang að hráefni, fyrir heimild til að nýta takmarkaða en sameiginlega auðlind, ekkert annað. Dytti einhverjum í hug að ríkið niðurgreiddi önnur mikilvæg aðföng við fiskveiðar, eins og olíu, og það færi eftir stöðu og stærð útgerðar? Vart nú, enda væri það afturhvarf til þess miðstýringarkerfis sem þjóðin bjó við á árum áður. Veiðigjald, sem síbreytilegur skattur allt eftir því hvernig pólitískir vindar blása, verður aldrei til friðs hvorki innan útvegarins né heldur hjá almenningi.

Byggðasjónarmið blandast ætíð inn í umræðuna um veiðigjöld. Í stað þess að vera með einhverjar byggðatengingar í veiðigjaldskerfinu sjálfu er mun markvissara að verja drjúgum hluta gjaldsins beint til byggðaaðgerða, jafnvel að eyrnamerkja sjávarútvegsbyggðum tekjupóst af gjaldinu.

Helsta gagnrýnin á markaðstengt veiðigjald er sú að það kunni að kollsigla útgerðinni. Við Jón Steinsson, hagfræðiprófessor tókum árið 2010 saman greinargerð um markaðstengingu veiðigjalds í áföngum fyrir Starfshóp um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða. Í endurskoðaðri gerð þessarar greinargerðar, sem finna má á vefsíðunni https://thorkellhelgason.is/?p=2555, eru leiddar líkur að því að það gæti verið útgerðinni fjárhagslega hagkvæmt að sætta sig við breytt fyrirkomulag, fyrningarleiðina svokölluðu, m.a. í ljósi þess að óvissu um síbreytilegt pólitískt veiðigjald væri eytt.

Sjálfsagt mun umrætt frumvarp ná fram að ganga, enda ekkert tóm til að grundaðrar gagntillögu nú í ljósi hins mikla óðagots í þessu máli. En tilefni er til að hvetja þingmenn til að kynna sér fordæmalaust almennt og nútímalegt fyrirkomulag: Hægfara aðlögun að markaðsbúskap í þessum málum sem öðrum.

 

Virðingarfyllst, München, 1. júní 2018,

Þorkell Helgason, fyrrv. prófessor (kt. 021142-4259)

Strönd, 225 Garðabæ