Umsögn um hugmyndir flokksformanna um stjórnarskrárákvæði um forsetann

Klúbbur formanna stjórnmálaflokka á Alþingi heldur áfram bútasaum á stjórnarskránni gömlu og lúnu. Nú hafa þeir birt á Samráðsgáttinni hugmyndir um breytingar stjórnarskrárákvæðum um forseta Íslands, ríkisstjórn, verkefni framkvæmdarvalds o.fl.  Gefinn var afar stuttur tími til að senda inn umsagnir.

Ég hef þó sent inn allítarlega umsögn sem hér má rekja í heild sinni (eftir leiðréttingu á par ritvillum!): ÞorkellHelgasonUmsognForsetamal.

Einnig má finna þessa umsögn mína (þá nr. #1o8) og aðrar á Samráðgáttinni: https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=2713#advices

Ég spyr þar hvort það samræmist yfirlýstu markmiði um „gagnsæi“ við þetta viðfangsefni að fela tveimur lögfræðingum, þótt mætir séu, að ganga frá þessum hugmyndum og það í frumvarpsformi án þess að fram komi hvað er hvurs, formannanna og lögfræðinganna.

Þá lýsi ég vonbrigðum yfir því að hvergi er hægt að sjá hvort eða hvaða áhrif umsagnir um fyrri hugmyndir formannaklúbbsins hafa haft.

Ég tel að með frumvarpsdrögunum horfi margt til bóta, enda er víða byggt á sjónarmiðum Stjórnlagaráðs. Á hinn bóginn þarf meira til þess að úr verði heilsteypt og samræmd endurskoðun á stjórnarskránni. Því bendi ég enn og aftur á að tillögur Stjórnlagaráðs frá sumrinu 2011 eru eini grundvöllur að stjórnarskrárbótum sem hefur hlotið beina lýðræðislega umfjöllun og þjóðarstuðning.

Nokkrir punktar úr umsögn minni:

  • Hnykkja ætti á því að allt vald komi frá þjóðinni en kjörnir fulltrúar fari með það í hennar umboði.
  • Þess er saknað að ekki skuli tekin upp tillaga Stjórnlagaráðs um raðval til að tryggja að kjörinn forseti njóti á endanum stuðnings meirihluta kjósenda.
  • Spurt er um það ákvæði sem á að takmarka setu forseta við tólf ár. Óljóst er hvort sami maður geti gegnt embættinu enn lengur sé seta hans í stóli ekki samfelld.
  • Tillögur um aðkomu forseta að stjórnarmyndun eru athyglisverðar en verða ekki gagnrýndar innan þess stutta tímafrests sem gefinn er.
  • Dregið er í efa að ríkisráð hafi einhvern tilgang.
  • Því miður eru „þykjustuhlutverk“ forseta ekki afnumin, jafnvel nýjum bætt við.
  • Orðlag um gildistöku nýs ákvæðis um hámark á embættistíð forseta þykir óskýrt.
  • Brýnt er að stjórnarskrá sé öllum læsileg og aðgengileg og verði þjóðinni hjartfólgin. Bútasaumuð stjórnarskrá er ekki til þess fallin.

Kosningahermir kynntur

Þróaður hefur verið hugbúnaður, kosningahermir, til prófunar á eiginleikum og gæðum kosningakerfa. Þetta er verkfæri til að kanna mismunandi skipan kjördæma og með hinum ýmsu úthlutunaraðferðum.

Hægt er að fræðast nánar um herminn með því að renna yfir þessar glærur: Kosningakerfishermir kynning oktober 2019

 

Með herminum má prófa hugmyndir um fyrirkomulag kosninga á grundvelli raunverulegra kosningaúrslita en ekki síður með tilbúnum hendingakenndum úrslitum sem fengnar eru með  tölfræðilegum hætti.

Kostir og gallar hvers kerfis eru mældir á ýmsan hátt, t.d. því hve hlutfallsleg úrslitin eru eða hvort jöfnunarsæti riðla um of úthlutun innan hvers kjördæmis.

Hugbúnaðurinn er ekki sérsniðinn að Íslandi. Alþingkosningar eru hafðar í huga en búnaðurinn fellur að kosningakerfum flestra grannríkja.

Kosningahermirinn verður gerður aðgengilegur öllum, fræðimönnum, stjórnmálamönnum og öðrum áhugamönnum um grunnstoð lýðræðisins: Fyrirkomulag kosninga.

Ennfremur er á glærunum sagt lauslega frá bók sem er í smíðum um viðfangsefnið (en ekki þó herminn sérstaklega). Bókin gengur undir vinnuheitinu „Kosningafræðarinn“.

[Glærurnar lítillega endurbættar 16. okt. 2019.]

Umsögn um tillögur flokksformanna um stjórnarskrárákvæði um auðlindir

Formenn þeirra flokka sem sæti eiga á Alþingi munu hafa orðið sammála um að birta og óska eftir athugasemdum við drög að frv. til stjórnskipunarlaga um stjórnarskrárákvæði um auðlindir náttúru Íslands.

Ég hef sent inn umsögn (ásamt fylgibréfi) um tillögur flokksformannanna, en í samantekt segi ég:

Samantekt

  • Fagnað er því inngangsákvæði að „auðlindir náttúru Íslands [skuli] tilheyra íslensku þjóðinni“.
  • Lýst er áhyggjum af því hvað „einkaeignarréttur“ nákvæmlega þýðir; hvort tryggt sé að þjóðareignir geti ekki orðið að einkaeignum með hjálp þessa hugtaks.
  • Bagalegt er að þjóðareignir skuli ekki skilgreindar í frumvarpstextanum.
  • Treysta verður því að með ákvæðum frumvarpsins séu tekin af öll tvímæli um að enginn getur fengið varanleg yfirráð yfir þjóðareignum. Sum atriði í greinargerð vekja upp efasemdir.
  • Það veldur verulegum áhyggjum að ákvæði um gjaldtöku fyrir afnotaheimildir gefur engar vísbendingar um hvers eðlis gjaldtakan skuli vera. Þá er spurt hvaða afleiðingar það kunni að hafa að krafa um gjaldtöku þurfi aðeins að taka til nýtingar í svokölluðu ábataskyni.
  • Þess er saknað að hið ráðgerða stjórnarskrárákvæði nái ekki til annarra almannagæða en aðeins náttúrurauðlinda.
  • Sérstaklega er krafist svara við því hvort stjórnarskrárbreytingin festi hið umdeilda kvótakerfi í sessi og það ásamt með rýrum veiðigjöldum. Minnt er á undirskriftir gegn makrílkvótafrumvarpinu vorið 2015.
  • Í heild hljómar hið ráðgerða ákvæði sem snotur viljayfirlýsing en með rýru efnislegu innihaldi. Því leyfir undirritaður sér að stinga upp á lágmarks skerpingu ákvæðisins þannig að eitthvað verði hönd á festandi.

Stjórnarskrárafmæli, þýsk og íslensk

[Eftirfarandi pistill birtist nokkuð styttur í Fréttablaðinu 7. júní 2019 og jafnframt á vefsíðunni https://www.frettabladid.is/skodun/stjornarskrarafmaeli-thysk-og-islensk/.  Hér er pistillinn í upphaflegri lengd.]

 

Mannleg reisn er friðhelg

Þannig hefst fyrsta grein stjórnarskrár eða grundvallarlaga Sambandslýðveldisins Þýskalands; „Die Würde des Menschen ist unantastbar.“ Þetta var skráð fjórum árum eftir að lokið hafði hörmungartímabili í þýskri sögu þar sem mannhelgin var fótum troðin af valdhöfum.

Við setningu grundvallarlaganna var lagt kapp á að fyrirbyggja að sagan endurtæki sig. Var þá tekið mið af því hvað þótti hafa brugðist í þeirri stjórnarskrá sem á undan hafði gilt, Weimar-stjórnarskránni, en í ár er liðin rétt öld frá því að hún tók gildi. Það var líka eftir tímabil eymdar og niðurlægingar upp úr endalokum fyrra stríðs. Sú stjórnarskrá var um margt framsækin, ekki síst hvað mannréttindi varðar. En á henni þóttu gallar og sá einna helstur að forsetinn hafði of mikil völd. Hann gat sett lög og vikið grundvallarákvæðum stjórnarskrárinnar til hliðar á meintum neyðartímum. Það var ógæfa þýsku þjóðarinnar að þurfa að kjósa lýðræðisandstæðing, hershöfðingjann Paul von Hindenburg, á forsætisstól árið 1932 en þá stóð valið um hann eða annan verri. Sá vélaði skömmu síðar forsetann til að veita sér alræðisvald. Afleiðingin var mesti hildarleikur sögunnar.

Hinn 23. maí sl. minntust Þjóðverjar þess að liðin voru 70 ár frá því að grundvallarlög þeirra tóku gildi. Þjóðverjum er annt um þessa stjórnarskrá, enda hefur hún tryggt að mannhelgi hefur verið virt, frelsi og friður ríkt og lýðræði og réttarríki í heiðri haft; allt lengur en nokkurn tímann áður í þýskri sögu. Vonir eru bundnar við að svo verði um ókomna tíð. Raunar eru ákvæðin um breytingar á grundvallarlögunum þýsku þannig að undirstöðunni svo sem um reisn mannsins verður ekki haggað svo lengi sem lýðskrumurum tekst ekki að hrifsa völdin. Í Þýskalandi sem og annars staðar þarf almenningur að sjá í gegnum blekkingar þeirra. Þar þurfa Íslendingar einnig að vera á varðbergi.

Ein mikilvægasta trygging þess að stjórnarskráin þýska standist tímans tönn er það nýmæli hennar er að starfa skuli sérstakur stjórnlagadómstóll þar sem hver og einn getur borið upp mál þyki lög eða stjórnvaldsaðgerðir brjóta í bág við stjórnarskrána. Dómstóllinn er virkur og vakandi. Úrskurða hans, sem eru nánast vikulegir, er beðið af eftirvæntingu og hefur dómstóllinn einatt sett Sambandsþinginu og stjórnvöldum stólinn fyrir dyrnar, svo sem með því að krefjast tvívegis lagfæringa á kosningalögum til aukins jafnræðis milli flokka og til að auka rétt kjósenda. Það er því viðeigandi að aðalhátíðin á þessum afmælisdegi stjórnarskrárinnar var haldin í Karlsruhe þar sem stjórnlagadómstóllinn hefur aðsetur sitt. Forseti stjórnlagadómstólsins, Andreas Voßkuhle, hefur í leit að því sem sameinar þýsku þjóðina eftir hörmungar nasistaríkisins staldrað við þýska orðið Verfassungspatriotismus sem e.t.v. má snara sem stjórnlagastolt. Það er vel við hæfi hjá þjóð sem hafnar þjóðrembu fyrri tíma, kvilla sem hefur leitt þá og margar aðrar þjóðir á villigötur.

Fyrirmynd handa öðrum

Þýska stjórnarskráin hefur orðið fyrirmynd margra þjóða sem hafa losnað undan alræði svo sem á Grikklandi, Spáni, í Portúgal eða Suður-Afríku en ekki síður í ríkjum Austur-Evrópu sem brutust undan einræði í nafni kommúnisma. Það er sorgarsaga að þar er nú óðum verið að hverfa til baka, svo sem með því að grafa undan hinum þýskættuðu stjórnlagadómstólum.

Stjórnlagaráð hafði hliðsjón af þýsku stjórnarskránni þegar það vann að tillögum sínum sumarið 2011. Nefna má ákvæði um afmörkun á valdi forseta lýðveldisins. Annað dæmi er að forsætisráðherra skuli kosinn af Alþingi og að honum verði ekki vikið frá nema með kjöri eftirmanns. (Þetta nefnist „konstrúktíft“ vantraust á erlendum málum.) Ákvæðið byggir á dapurri reynslu Þjóðverja frá Weimar-lýðveldinu þar sem stjórnarkreppur voru tíðar. Margir hafa farið að þessari fyrirmynd Þjóðverja.

Í þýsku stjórnarskránni er vissulega kveðið á um að eignarrétturinn skuli tryggður, en því bætt við að eignum fylgi skyldur í almannaþágu. Þessa viðbót tók Stjórnlagaráð upp nær orðrétta. Reyndar er orðlagið um eignarréttinn í íslensku stjórnarskránni með helgiblæ. Þar er notað orðið „friðhelgur“ sem kemur hvergi annars staðar fyrir í því skjali. Þjóðverjum finnst slíkur hátíðleiki eiga betur við þegar rætt er um reisn mannsins en um jarðneska hluti. Við í Stjórnlagaráði hreyfðum samt ekki við þessu helgikennda orði.

Fleira mætti nefna sem sótt var í þýsku stjórnarskrána svo sem ákvæði um frelsi menningar og mennta. Stjórnlagaráð hikaði við að stinga upp á fullgildum stjórnlagadómstóli en lagði á hinn bóginn til ráðgefandi fastanefnd, Lögréttu, í svipuðu skyni.

Þýska stjórnarskráin er ekki gallalaus fremur en önnur mannanna verk. Áður hefur verið nefnt að stjórnlagadómstóllinn þýski hefur dæmt lagaákvæði um kosningar til Sambandsþingið stjórnarskrárbrot. Það ræðst m.a. af því að fyrrimælin um kosningar í stjórnarskránni sjálfri eru afar fátækleg. Í tilefni af stjórnarskrárafmælinu hefur einn fremsti stjórnlagafræðingur Þýskalands, Dieter Grimm, bent á þetta. Hann kallar eftir skarpari ákvæðum til að koma í veg fyrir að þingmeirihluti geti hlaðið undir sig þingsætum með kosningalagabrellum. Einmitt það er að gerast í Austur-Evrópu. Grimm tekur dæmi af ríkjandi flokkum í Póllandi og Ungverjalandi. Þannig hafi hinn pólski flokkur PiS náð hreinum meirihluta út á 36% atkvæða og Fidesz-flokkurinn í Ungverjalandi hafi meira en tvo þriðju hluta þingmanna út á aðeins 53% atkvæðafylgi og hafi þar með getað breytt stjórnarskrá að sínu skapi. Hér var Stjórnlagaráð á undan þeim þýsku með tillögu sinni um ítarleg stjórnarskrárákvæði um fyrirkomulag þingkosninga, ekki hvað síst til að fyrirbyggja yfirgang meirihlutans.

Allt til bráðabirgða?

Í ár eru líka merkisafmæli íslenskra stjórnarskráa. Sú frá 1874, konungsgjöfin verður 145 ára og lýðveldisstjórnarskráin frá 1944, sú sem sögð var til bráðabirgða, heldur upp á 75 ára afmæli. Þýsku grundvallarlögin voru reyndar einnig sögð tímabundin. Þau náðu í fyrstu aðeins til Vestur-Þýskalands, til hernámssvæða vesturveldanna. Þetta var ástæða þess að stjórnarskráin frá 1949 hlaut nafnið grundvallarlög. Því skyldi breytt í stjórnarskrá þegar náðst hefði að sameina landið af fúsum og frjálsum vilja þýsku þjóðarinnar. Það varð árið 1990, en þar sem grundvallarlögin höfðu sannað gildi sitt og fest sig í sessi þótti hvorki ástæða til að taka þau til endurskoðunar né hrófla við nafninu. Þó hafði hvoru tveggja verið lofað í upphafi.

Að lokum má benda á að aðeins eru tvö ár til nýs íslensks stjórnarskrárstórafmælis. Þá verða liðin 10 ár frá því að Stjórnlagaráð skilaði tillögum sínum til Alþingis um endurbætta stjórnarskrá með aukinni tryggingu lýðréttinda, allt í anda þess að slá skjaldborg um hina mannlegu reisn. Í því sambandi er gaman að geta sagt frá því að nokkrum dögum fyrir hið nýliðna þýska stjórnarskrárafmæli kom stór sendinefnd frá þýska stjórnlagadómstólnum til Íslands til að kynna sér íslensk stjórnarskrármál, ekki síst tillögur Stjórnlagaráðs. Vonandi verður á 10 ára afmælinu hægt að segja þeim og öðrum að grundvöllur hinnar „nýju stjórnarskrár“ hafi tekið gildi, eins og tveir þriðju hlutar kjósenda lýstu sig fylgjandi í þjóðaratkvæðagreiðslunni 22. október 2012.

Þorkell Helgason, sat í Stjórnlagaráði


 

Athugasemdir handa starfshópi um endurskoðun kosningalaga

Forseti Alþingis hefur skipað starfshóp um endurskoðun kosningalaga til að fara yfir tillögur vinnuhóps um endurskoðun kosningalaga ásamt frumvarpi sem lagt var fram á Alþingi 5. september 2016. Óskað er eftir athugasemdum við þessi gögn o.fl.  fyrir 22. janúar 2019.

Þar sem ég hef sýslað við allmargt á þessu sviði hef ég sent nefndinni athugasemdir mínar, sem ég enda þannig:

Ég vil ljúka ábendingum með því að hvetja starfshópinn til dáða, nú þegar lýðræði á í vök að verjast víða um heim. Hvatningu minni til stuðnings vitna ég í hinn spænska hugsuð José Ortega y Gasset (1883-1955):

 „Heill lýðræðisríkja, hverrar gerðar eða máttar sem þau eru,

hvílir á lítilfjörlegu tæknilegu atriði: Fyrirkomulagi kosninga.

Allt annað er aukaatriði.“