by Þorkell Helgason | okt 31, 2018 | Á eigin vefsíðu
Höfundur hefur á liðnum árum ritað skýrslur þar sem greind eru úrslit og úthlutun þingsæta í kosningum til Alþingis á þessar öld. Slíkar skýrslur um kosningarnar 2003, 2007, 2009 og 2013 voru unnar fyrir landskjörstjórn.
Nú hefur höfundur (á eigin ábyrgð) bætt við skýrslum um kosningarnar 2016 og 2017 en einnig stutt gerð með nokkrum lykilatriðum.
Greiningarskýrslurnar í heild er að finna hér:
Í skýrslunum eru dregnir fram ágallar á úthlutunaraðferðinni í gildandi kosningalögum:
- Jöfnuður milli þingflokka er engan veginn tryggður, enda náðist hann ekki í neinum af þrennum síðustu kosningum; hvorki 2013, 2016 né heldur 2017.
- Smávægilegar breyting á fylgi eins lista getur leitt til mikils hringlanda í skiptingu þingsæta milli annarra lista.
- Aðferðin getur leitt til nykurs, getur leitt til „nykurs“, þ.e.a.s. að atkvæðaaukning lista getur haft för með sér fækkun sæta eða öfugt minnki fylgið. Þetta fyrirbæri má finna bæði í niðurstöðum kosninganna 2009 og 2017.
Því þarf að taka upp betri aðferð við úthlutun jöfnunarsæta. Ein slík er „forgangsregla“ sem er nær oftast að finna þá úthlutun sem er fræðilega best í vissum, skilgreindum skilningi.
by Þorkell Helgason | okt 8, 2018 | Á eigin vefsíðu
Í þingkosningunum fer hluti atkvæða forgörðum vegna ákvæða um þröskuld, um lágmarksfylgi við úthlutun jöfnunarsæta, en flokkur á ekki rétt á slíkum sætum fái hann ekki a.m.k. 5% gildra atkvæða á landinu öllu. Sérstaklega voru áhrif þessa áberandi í kosningunum 2013. Við þessu má sjá með því að kjósendum verði gert kleift að tilgreina flokk til vara þannig að atkvæði þurfi ekki að daga uppi áhrifalaus nái sá flokkur er hann helst kýs ekki tilskildu lágmarksfylgi. Reifuð er útfærsla á slíku fyrirkomulagi í pistlinum „Þröskuldur með sveigjanleika“.
by Þorkell Helgason | jún 27, 2018 | Á eigin vefsíðu
Út er komin bókin Helguleikur eftir Kolbein Bjarnason. Af því tilefni efna Sumartónleikarnir í Skálholti og Bókaútgáfan Sæmundur til útgáfuhófs í sal FÍH í Rauðagerði 27 í Reykjavík fimmtudaginn 28. júní klukkan 17-19. Auk bókarinnar verður þar kynnt starf Sumartónleikanna en dagskrá þeirra ár hefst 7. júlí næstkomandi. Kaffi og konfekt, allir velkomnir.
Bókin verður seld á tilboðsverði í útgáfuhófi, með 20% afslætti frá leiðbeinandi verði eða á 13500 kr.
Í bókarkynningu verða leikin sýnishorn af diskum sem fylgja bókinni með semballeik Helgu Ingólfsdóttur.
Í bókinni Helguleikur segir frá semballeikaranum Helgu Ingólfsdóttur (1942-2009), Sumartónleikum í Skálholtskirkju og sögu barokktónlistar á Íslandi. En einnig er hér gerð grein fyrir alþjóðlegum straumum í tónlist frá 18. öld til okkar daga. Lesandinn er leiddur inn í heillandi sögu frumherja í tónlistarstarfi sem gerðu jafnvel Bach að Biskupstungnamanni.
Í bókinni er rakið hvernig semballeikarinn Helga Ingólfsdóttir breytti hugmyndum manna um barokktónlist en var jafnframt öflugur túlkandi nýrrar tónlistar enda heilluðust tónskáld af leik hennar og hljóðfæri og tileinkuðu henni verk sín.
Gerð er tilraun til að greina stefnur og strauma í nýrri íslenskri tónlist og fjallað um þá viðleitni íslenskra tónskálda að segja sögur í tónlist sinni. Getur einleiksverk fyrir sembal fjallað um hallarrústir í frumskógum Víetnams?
Bókinni fylgja sex hljómdiskar með leik Helgu.
Helguleikur eftir Kolbein Bjarnason. Harðspjaldabók í stóru broti, 450 síður. ISBN 978-9935-465-72-6. Leiðbeinandi verð er 16990 kr.
by Þorkell Helgason | jún 10, 2018 | Á eigin vefsíðu
Nokkuð hefur verið spurt um það hvernig úthlutun sæta í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum hefði komið út ef beitt hefði verið öðrum aðferðum en þeirri lögbundnu, þeirri sem kennd er við d‘Hondt. Í ljós kemur að d‘Hondt sker sig úr frá þeim öðrum aðferðum sem koma við sögu á myndinni og gefa allar sömu niðurstöðu. Munurinn d‘Hondt á og hinum er sá að d‘Hondt gefur D og S einu sæti fleira, hvorum lista um sig, á kostnað B og J.
Um muninn á þessum aðferðum öllum má lesa á síðunni https://thorkellhelgason.is/?p=2144. Frekari lýsing verður að bíða rits sem ég vonast til að ljúka á komandi vetri!
Í töflunni hefur listum undir 1000 atkvæðum verið sleppt; þeir fengu engin sæti í neinni aðferðinnui.
|
Borgarstjórnarkosningar í Reykjavík 2018 |
|
B |
C |
D |
F |
J |
M |
P |
S |
V |
Alls |
Atkv. |
1.870 |
4.812 |
18.146 |
2.509 |
3.758 |
3.615 |
4.556 |
15.260 |
2.700 |
58.966 |
|
Úthlutuð sæti |
|
B |
C |
D |
F |
J |
M |
P |
S |
V |
Alls |
d’Hondt |
|
2 |
8 |
1 |
1 |
1 |
2 |
7 |
1 |
23 |
Sainte-Laguë |
1 |
2 |
7 |
1 |
2 |
1 |
2 |
6 |
1 |
23 |
Norrænn Laguë |
1 |
2 |
7 |
1 |
2 |
1 |
2 |
6 |
1 |
23 |
Hare (stærsta leif) |
1 |
2 |
7 |
1 |
2 |
1 |
2 |
6 |
1 |
23 |
Droop |
1 |
2 |
7 |
1 |
2 |
1 |
2 |
6 |
1 |
23 |
(Um þennan smápistil er fjallað á http://eyjan.dv.is/eyjan/2018/06/11/dhondt-adferdin-reyndist-framsokn-og-sosialistum-othaegur-ljar-thufu/)
by Þorkell Helgason | jún 1, 2018 | Á eigin vefsíðu
[Eftirfarandi er umsögn sem ég sendi til atvinnuveganefndar Alþingis vegna frumvarps stjórnarmeirihlutans sem lagt var fram í skyndi um eftirgjöf á veiðigjöldum. Umsagnarfrestur var aðeins rúmur sólarhringur.]
Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðigjald, nr. 74/2012, 631. mál á 148. löggjafarþingi 2017–2018.
Sú var tíðin að verð á helstu nauðþurftum var ákveðið af stjórnvöldum eða nefndum á þeirra vegum. Sama gilti um fiskverð. Gengi á krónunni var fest með lögum frá Alþingi og miðaðist nær alfarið við afkomu sjávarútvegsins. Þetta fyrirkomulag fól í sér veiðigjald þó með óbeinum hætti væri, en innheimta þess fór fram í gegnum tolla. Fullkomnun náði þetta kerfi á dögum vinstri stjórnarinnar undir lok sjötta áratugarins, þegar hver grein sjávarútvegsins bjó við sitt gengi.
Þegar þetta miðstýrða fyrirkomulag var aflagt undir lok síðustu aldar og verð á nær öllu (nema landbúnaðarvörum) látið ákvarðast á markaði, hefði strax átt að taka upp markaðstengt veiðigjald. Því miður varð það ekki og því sitjum við enn uppi með eftirhreytur af fyrirkomulagi miðstýrðra ákvarðana, veiðigjaldi sem nú á að fastsetja í krónum og aurum með lögum frá Alþingi.
Ef útgerðin fengi sjálf að ákveða veiðigjaldið á frjálsum markaði gæti hún ekki kvartað um seinagang stjórnvalda við að aðlaga gjaldið breytingu á afkomu útgerðarinnar, en það virðist vera tilefni framlagðs frumvarps. Veiðigjaldið tæki strax mið af stöðunni á hverjum tíma. Þjóðin, eigandi auðlindarinnar, ætti líka að verða sátt enda væri þá greitt markaðsgjald, „fullt gjald“ fyrir veiðiheimildirnar allt eins og tilgreint er í ákvæði um eignarrétt í stjórnarskránni, meira að segja þeirri núverandi.
Í téðu frv. endurspeglast sá reginmisskilningur að veiðigjald sé skattur sem eigi að leggja á eftir efnum og ástæðum, sbr. afsláttinn sem fær heitið „persónuafsláttur“ í greinargerð með frv. Gjaldið er greiðsla fyrir aðgang að hráefni, fyrir heimild til að nýta takmarkaða en sameiginlega auðlind, ekkert annað. Dytti einhverjum í hug að ríkið niðurgreiddi önnur mikilvæg aðföng við fiskveiðar, eins og olíu, og það færi eftir stöðu og stærð útgerðar? Vart nú, enda væri það afturhvarf til þess miðstýringarkerfis sem þjóðin bjó við á árum áður. Veiðigjald, sem síbreytilegur skattur allt eftir því hvernig pólitískir vindar blása, verður aldrei til friðs hvorki innan útvegarins né heldur hjá almenningi.
Byggðasjónarmið blandast ætíð inn í umræðuna um veiðigjöld. Í stað þess að vera með einhverjar byggðatengingar í veiðigjaldskerfinu sjálfu er mun markvissara að verja drjúgum hluta gjaldsins beint til byggðaaðgerða, jafnvel að eyrnamerkja sjávarútvegsbyggðum tekjupóst af gjaldinu.
Helsta gagnrýnin á markaðstengt veiðigjald er sú að það kunni að kollsigla útgerðinni. Við Jón Steinsson, hagfræðiprófessor tókum árið 2010 saman greinargerð um markaðstengingu veiðigjalds í áföngum fyrir Starfshóp um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða. Í endurskoðaðri gerð þessarar greinargerðar, sem finna má á vefsíðunni https://thorkellhelgason.is/?p=2555, eru leiddar líkur að því að það gæti verið útgerðinni fjárhagslega hagkvæmt að sætta sig við breytt fyrirkomulag, fyrningarleiðina svokölluðu, m.a. í ljósi þess að óvissu um síbreytilegt pólitískt veiðigjald væri eytt.
Sjálfsagt mun umrætt frumvarp ná fram að ganga, enda ekkert tóm til að grundaðrar gagntillögu nú í ljósi hins mikla óðagots í þessu máli. En tilefni er til að hvetja þingmenn til að kynna sér fordæmalaust almennt og nútímalegt fyrirkomulag: Hægfara aðlögun að markaðsbúskap í þessum málum sem öðrum.
Virðingarfyllst, München, 1. júní 2018,
Þorkell Helgason, fyrrv. prófessor (kt. 021142-4259)
Strönd, 225 Garðabæ
by Þorkell Helgason | maí 8, 2018 | Á eigin vefsíðu
[Eftirfarandi pistill birtist í Fréttablaðinu 8. maí 2018 og samdægurs á visir.is; sjá http://www.visir.is/g/2018180509166/fyrirkomulag-kosninga-er-forneskjulegt-]
Skammt er til sveitarstjórnarkosninga en framboðsfrestur ekki útrunninn, þegar þetta er skrifað. Engu að síður er löngu byrjað að kjósa í atkvæðagreiðslu utan kjörfundar og er þá kjörseðillinn autt blað. Þess munu vart dæmi um víða veröld að unnt sé að kjósa þannig út í bláinn, enda hefur lýðræðis- og mannréttindaskrifstofa Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) margsinnis gert athugasemdir við þetta fyrirkomulag. Þetta er aðeins eitt dæma um hvað kosningalög okkar eru um margt forneskjuleg, bæði lögin um kosningar til Alþingis svo og þau um kjör sveitarstjórna. Aldrei hefur verið gert hreint í þessum lagabálkum og ákvæðin færð til nútímahorfs. Þannig má t.d. ætla að enn sé kosið á opnum fundum, sbr. hugtakið „utankjörfundaratkvæðagreiðsla“.
Þó liggja hjá Alþingi hugmyndir um verulegar endurbætur á ákvæðum um framkvæmd þingkosninga. En það sama á við um þessi grundvallarlög og sjálfa stjórnarskrána: Alþingi virðist aldrei hafa dugnað til að taka á málinu. Eða skortir pólitískan vilja?
Af nógu er að taka eigi að benda á ákvæði sem laga þarf í kosningalögum. Þegar hefur verið nefndur sá afkáraleiki að framboð liggi ekki fyrir þegar kosning hefst. Þá erum við langt á eftir flestum grönnum okkar í því að auðvelda kjósendum að neyta kosningaréttar síns. Bréfkosningar þekkjast hér ekki, en sums staðar nýtir stór hluti kjósenda sér þá leið. Um rafrænar kosningar er nánast ekkert rætt, hvorki um kosti þeirra né galla.
Ofangreind dæmi lúta að framkvæmd kosninga en lýðræðisþáttur málsins er þó mikilvægastur.
Vita kjósendur að þeir geta nánast engin áhrif haft á röð frambjóðenda á listum við sveitarstjórnarkosningar? Útstrikanir eða umraðanir eru tilgangslausar. Þetta er þó ekki alveg markleysa í þingkosningum, enda var vægi slíkra breytinga aukið talsvert með lögum frá aldamótaárinu. En það hefur „gleymst“ í 18 ár að gera hliðstæðar breytingar á lögum um sveitarstjórnarkosningar. Þar gilda enn ákvæði frá 1987 sem gerðu kjósendur nær valdalausa um listabreytingar. Víðast hvar í grannlöndunum er þó kjósendum veitt meira vald til að velja sér frambjóðendur í kosningum til sveitarstjórna en til þjóðþinga. Á Íslandi er þessu öfugt farið! Að mati margra kjósenda skiptir þó meira máli hvaða einstaklingar veljast til sveitarstjórna en hvaða flokk þeir skipa.
Nefna má annað sem hefur dagað uppi í meðferð kosningalaga. Í þingkosningum geta framboð spyrt sig saman í vísi að kosningabandalögum. Ákvæðin eru þó ófullkomin og hafa því ekki verið nýtt. Með slíkum bandalögum væri þó unnt að gefa kjósendum vísbendingu um það hvaða fylkingar gætu staðið saman að myndum ríkisstjórnar eftir kosningar í stað þess að þeim sé haldið í óvissu með tuggunni „að ganga óbundin til kosninga“. Í lögum um sveitarstjórnarkosningar er ekki gefinn kostur á neinum slíkum listasamsteypum. Í þeim fjölda framboða, sem nú stefnir í, a.m.k. í Reykjavík, væri fengur að því fyrir kjósendur að framboðin sýndu lit með því að hópa sig eitthvað saman.
Hér er lítt tóm til að fjalla um brýnar lýðræðisumbætur í lögum um þingkosningar. Nefna má virkt persónukjör, eins og nær 80% kjósenda tjáðu sig fylgjandi í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012. Eða þá það ranglæti að vægi kjósenda er enn misjafnt. Vildu þó um 2/3 fyrrgreindra kjósenda fullan jöfnuð. ÖSE hefur þrívegis gert alvarlegar athugasemdir við þessi ójöfnu mannréttindi íslenskra kjósenda.
Þá er það ámælisvert að það skuli geta gerst að flokkar fái fleiri þingsæti en landsfylgi þeirra veitir þeim rétt til. Að ekki sé komið í veg fyrir þetta kann að vera stjórnarskrárbrot. En því miður höfum við engan dómstól sem tekur á stjórnlagabrotum með almennum hætti. Þó hefur þessi ójöfnuður milli flokka haft pólitískar afleiðingar. Síðasta ríkisstjórn, sú sem sat lungann úr árinu 2017, hafði eins sætis meirihluta á Alþingi með hjálp þessa lýðræðishalla.
Stjórnlagaráð gerði margvíslegar og útfærðar tillögur um bætt fyrirkomulag kosninga. En þeim, eins og öðrum tillögum ráðsins, hefur verið stungið undir stól. Þó hafa 2/3 hlutar kjósenda í almennri atkvæðagreiðslu kallað eftir nýrri stjórnarskrá á grundvelli tillagna ráðsins.
Höfundur sat í stjórnlagaráði