Ný stjórnarskrá: Samfélagssáttmáli í boði

[Birtist upphaflega í Fréttatímanum 30. desember 2011]

Allt frá því að stjórnlagaráð skilaði Alþingi frumvarpi sínu að nýrri stjórnarskrá hinn 29. júlí s.l. hef ég með nær vikulegum pistlum í Fréttatímanum leitast við að skýra út og rökstyðja tillögurnar. Pistlana má alla finna á vefsíðu minni: www.thorkellhelgason.is. Nú er mál að linni, a.m.k. að sinni.

Árið framundan skiptir sköpum um framvindu stjórnarskrármálsins. Þingið, en ekki síst þjóðin, verður að koma því í höfn að við eignumst nýjan samfélagssáttmála.

Hvað er í boði?

Frumvarp stjórnlagaráðs um nýja íslenska stjórnarskrá er afrakstur mikillar vinnu ráðsfulltrúa og sérfræðinga stjórnlagaráðs þar sem byggt er á ítarlegri skýrslu stjórnlaganefndar og starfi fyrri nefnda um málið. Þrátt fyrir vafasaman úrskurð Hæstaréttar um ógildingu á stjórnlagaþingskosningunni hafa fulltrúar ráðsins hlotið stuðning kjósenda og síðan Alþingis til verksins. Í frumvarpi stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá er m.a. boðið upp á eftirfarandi:

  • Ákvæði um mannréttindi eru stórefld, m.a. ný ákvæði um rétt til upplýsinga og um frelsi fjölmiðla.
  • Náttúruvernd er gert hærra undir höfði en áður. Tekið er af skarið um að auðlindir í þjóðareigu megi ekki selja, en einungis leigja og þá gegn fullu gjaldi.
  • Gjörbreytt ákvæði um kosningar til Alþingis þar sem kveðið er á um jafnan atkvæðisrétt óháðan búsetu svo og því að kjósendur geti valið sér þingmannsefni. Einnig ákvæði um að landskjörstjórn úrskurði um gildi kosninga, en ekki þingið sjálft eins og nú.
  • Staða Alþingis er styrkt andspænis framkvæmdarvaldinu, m.a. með því að öll frumvörp séu mótuð á Alþingi. Eftirlitsvald þingsins er eflt.
  • Ítarleg ný ákvæði eru um beint lýðræði, það að almenningur geti kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um lagafrumvörp og jafnvel lagt fram eigin þingmál.
  • Stjórnarskráin er vernduð með skipun Lögréttu sem gefi álit um stjórnarskrárgildi lagafrumvarpa að ósk Alþingis, og þarf ekki meirihluta þess til.
  • Ákvæði um forseta Íslands eru gerð skýr en felldar burt marklausar greinar um hlutverk hans. Honum er aftur á móti ætlað að veita öðrum valdhöfum traust aðhald.
  • Lögð eru til heilstæð ákvæði um ráðherra og ríkisstjórn en slík ákvæði hefur skort. Með því að Alþingi kjósi forsætisráðherra er tekinn er af allur vafi um þingræðið.
  • Ákvæði til að tryggja óháð val á dómurum og öðrum æðstu embættismönnum eru styrkt.
  • Sveitarfélögunum er lyft á stall í sérstökum kafla.
  • Í fyrsta sinn eru stjórnarskrárákvæði um utanríkismál, t.d. um að ekki megi afsala vald til alþjóðlegra samtaka, svo sem Evrópusambandsins, án skýrs vilja þjóðarinnar.
  • Og að lokum, að framvegis verður þjóðin að staðfesta stjórnarskrárbreytingar.

Við, sem sátum í stjórnlagaráði, erum sannfærð um að sú stjórnarskrá sem við gerum tillögu um sé til mikilla bóta, enda stóðum við saman að frumvarpinu í heild.

Árið 2012 verði stjórnarskránni til heilla

Nú er tækifærið til treysta lagalegan grundvöll samfélagsins. Eftir tækifærinu hefur verið beðið allan lýðveldistímann. Notum komandi ár, árið 2012, til að ljúka málsmeðferðinni. Ný stjórnarskrá ætti þá að sjá dagsins ljós eftir kosningar 2013 að fengnu samþykki þings – en ekki síst með beinni staðfestingu þjóðarinnar með einum eða öðrum hætti.

Ný stjórnarskrá: Bætum, en brjótum ekki niður!

[Birtist í upphaflega Fréttatímanum 23. desember 2011]

Umræðan um stjórnarskrármálið er komin á nokkurt skrið. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur fengið hundruð erinda um málið. Þau eru af ýmsum toga og lýsa mismunandi sýn á frumvarpið og stjórnarskrána, en langflest eru þó stuðningsyfirlýsingar við frumvarpið.

Forsendur stjórnarskrárgerðar

Við stjórnarskrárgerð verður að taka tillit til fjölmargs: Gildandi stjórnarskrár en líka laga, alþjóðasamninga, fyrirmynda úr erlendum stjórnarskrám, hefða hérlendis og erlendis, fræðilegra forsendna auk leiðbeininga frá alþjóðlegum stofnunum. Þar með er ekki öll sagan sögð. Stjórnarskrá er sáttmáli þjóðarinnar við sjálfa sig. Hún verður að hafa hljómgrunn hjá almenningi og vera til sátta en ýta ekki undir deilur. Víða verður að gæta jafnvægis milli sjónarmiða. Síðan verður að gæta viss raunsæis og aðgæta hvort og með hvaða hætti tillaga um stjórnarskrá kemst yfir þær hindranir sem á veginum verða.

Að mínu mati reyndum við í stjórnlagaráði að hafa allt þetta í huga. Ekki hvað síst var okkur kappsmál að hafa traustar stoðir undir nýmælum. Þannig eru ný ákvæði í mannréttindakaflanum ekki hvað síst sótt í alþjóðlega samninga sem Íslendingar hafa undirgengist. Ekki nægir að alþjóðasáttmálar séu sagðir vera stjórnarskrárígildi.  Almenningur á að geta lesið um grunnréttindi sín í einu skjali, innlendri stjórnarskrá.

Má engu breyta?

Ekkert mannanna verk er fullkomið, ekki heldur frumvarp stjórnlagaráðs. Ábendingar um lagfæringar á frumvarpi ráðsins, t.d. um orðalag eða skýrari ákvæði og fleira af sama toga, eru því af hinu góða. Að auki má huga að útfærslu einstakra ákvæða án þess að þeim grundvelli sem við teljum okkur hafa lagt sé raskað. Taka má sem dæmi talnastærðir sem koma við sögu, svo sem um það lágmark undirskrifta sem þarf til að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu eða þurfi til að leggja megi fram þingmál, eða það hvort eða hvenær þurfi aukinn meirihluta við atkvæðagreiðslur, hvort sem er á þingi eða meðal þjóðarinnar. Hér verður að þó að fara með gát. Stjórnlagaráð leggur til virkt beint lýðræði undir vissum kringumstæðum. Auðvelt er að gera slík ákvæði að sýndarmennsku einni séu reistar háar skorður af einhverjum toga. Í stjórnarskrá eiga ekki að vera hillingar heldur raunveruleg ákvæði, líka varðandi beint lýðræði.

Ábyrgð fylgir menntun

Nokkrir fræðimenn hafa verið í fararbroddi þeirra sem gagnrýnt hafa tillögur stjórnlagaráðs. Það er mikilvægt að sérfræðingar bendi á það sem kann að hafa farið aflögu hjá stjórnlagaráði. En orð fræðimanna hafa meiri vigt en annarra í umræðunni. Þeir verða því að hafa það á hreinu hvenær þeir eru með fræðilega rökstuddar athugasemdir og hvenær þeir eru að lýsa persónulegum eða pólitískum skoðunum. Til hins síðarnefnda hafa þeir að sjálfsögðu rétt en þá hafa skoðanir þeirra ekki meira vægi en annarra.

Ný stjórnarskrá: Hvernig er valdapíramídinn?

[Birtist upphaflega í Fréttatímanum 2. desember 2011]

Tillögur stjórnlagaráðs hafa sætt gagnrýni eins og við mátti búast. Sumt af því er ómaklegt, annað eru eðlilegar athugasemdir. Stjórnarráðsfulltrúarnir Katrín Oddsdóttir og Vilhjálmur Þorsteinsson fóru skilmerkilega yfir ýmsar þessar athugasemdir í Silfri Egils 27. nóvember s.l. Hér verður hnykkt á einu mikilvægi atriði: Hvernig valdið hríslast frá þjóðinni til Alþingis og þaðan til ríkisstjórnar; hvernig umboðsferlið er og hvernig það byrjar og endar hjá þjóðinni. Ferlið er hér kortlagt með einföldum hætti í upptalningarstíl. Innan sviga eru getið þeirra frumvarpsgreina sem vitnað er til, en lesendur geta fundið þær, t.d. á vefnum stjornlagarad.is.

Þjóðin kýs alþingismenn

  • Atkvæðakvæðavægi allra, óháð búsetu, skal vera jafnt (39. gr., 2. mgr.).
    • Þetta er grundvallarbreyting, en atkvæðavægið hefur ætíð verið misjafnt hérlendis. Í núgildandi stjórnarskrá er beinlínis kveðið á um viðvarandi ójöfnuð að þessu leyti. Hitt er önnur saga að náðst hefur jöfnuður milli flokka allt frá 1987.
  • Ríkt persónuval (5. mgr.).
    • Algert nýmæli hérlendis. Jafnvel hægt að velja þvert á lista. Stjórnmálaflokkar gegna þó áfram lykilhlutverki við val á frambjóðendum.

Alþingi kýs forsætisráðherra

  • Forseti Íslands gerir fyrstur tillögu (90. gr., 2. mgr.).
    • Skýrt og eðlilegt ákvæði. Kemur í stað óljósrar hefðar um að forseti „feli einhverjum stjórnarmyndun“.
  • Þingið getur sjálft stungið upp á manni (sama mgr.).
    • Þótt forsetinn eigi frumkvæðið getur Alþingi kosið hvern þann sem því hugnast.
  • Að lokum kýs þingið forsætisráðherra (sama mgr.).
    • Algerlega skýrt að forsætisráðherra situr í umboði Alþingis. Í núg. stjórnarskrá er allt á huldu um þetta, sagt felast í því að „stjórn sé þingbundin“.

Forsætisráðherra stýrir ríkisstjórninni

  • Forsætisráðherra skipar aðra ráðherra (90. gr., 5. mgr.).
    • Staðfestir ábyrgð forsætisráðherra á allri ríkisstjórninni og starfi hennar gagnvart Alþingi. Núg. stjórnarskrá segir forseta „skipa ráðherra“, en það er markleysa eins og margt annað um embætti forsetans.
  • Ríkisstjórn er samábyrg um helstu athafnir ráðherra (87. gr., 3. mgr.).
    • Ráðherrar geta ekki leikið lausum hala. Ábyrgðarskiptingin er afar grautarleg í gildandi stjórnarskrá og túlkun á henni.

Alþingi ekki undir hæl ríkisstjórnar

  •  Ráðherrar sitja ekki á Alþingi (89. gr., 3. mgr.).
    • Nýmæli til að skerpa skil löggjafar- og framkvæmdarvalds. Styrkir stöðu Alþingis. Ýtir undir val á ráðherrum á faglegum forsendum.
  • Valdatími ráðherra takmarkaður við tvö kjörtímabil (86. gr., 3. mgr.).
    • Ráðherrar geta ekki vera með þaulsetur í ráðherrastólum. Góð ráðherraefni geta þó á lengri tíma fikrað sig upp stigann og endað sem forsætisráðherrar.

Alþingi getur hvenær sem er sagt ríkisstjórninni upp

  • Þingið getur fyrirvaralaust skipt um forsætisráðherra (91. gr. 1. mgr.).
    • Það er varnagli gegn stjórnleysi að vantrausti á forsætisráðherra verður að fylgja val á eftirmanni. Nýmæli sem hefur reynst vel erlendis.
    • Með brotthvarfi forsætisráðherra fer öll ríkisstjórnin. Núg. stjórnarskrá er þögul um þetta eins og margt annað.
  • Þingið getur lýst vantrausti á einstaka ráðherra og verða þeir þá að hverfa úr starfi (91. gr., 2. mgr.).
    • Ekkert er um þetta í gildandi stjórnarskrá en talin hefð. Orðið „vantraust“ er ekki nefnt í þeirri grundvallarskrá þjóðfélagsins sem nú gildir.

Aftur til þjóðarinnar

  • Kjósendur geta haft beina aðkomu að lagasetningu (65.-67. gr.).
    • Þjóðin getur gripið inn í störf Alþingis þyki henni eitthvað fara úr skorðum.

Það er engum vafa undirorpið hvernig þetta valdaferli á að vera að mati stjórnlagaráðs. Alþingi, sem starfar í umboði þjóðarinnar, er þungamiðjan. Ríkisstjórn er verkfæri Alþingis til að framkvæma það sem gera skal.

 

Kosningar til landsþingsins í Bæjaralandi

[Ritað 2008 og þá birt á vef landskjörstjórnar.]

Hinn 28. september 2008 var kosið til landsþingsins í Bæjaralandi, en það er eitt af fylkjunum, eða „löndunum“ þýsku sem mynda Sambandslýðveldið Þýskaland. Kosningafyrirkomulag í þýsku löndunum 16 dregur dám af fyrirkomulagi kosninga til Sambandsþingsins, en þó er hvert þeirra með sínu lagi. Kjósendur í Bæjaralandi fara með tvö atkvæði, annað til að velja frambjóðanda í einmenningskjördeild, en hitt til að velja frambjóðanda á lista hver í sínu  kjördæmi. Þegar Þýskaland var reist af rústum seinni heimsstyrjaldarinnar var keppt að traustri undirbyggingu lýðræðis í ljósi dapurrar reynslu. Því er margt áhugavert og til eftirbreytni í kosningalögum í Þýskalandi, ekki síst í Bæjaralandi.

Pistill um þetta er hér: ÞHKosningar til landsþingsins í Bæjaralandi Leiðr okt2018 (pdf). Hann er lítillega leiðréttur (í október 2018) frá upphaflegri gerð, eins og lýst er í neðanmálsgreinum 1 og 7 í pistlinum sjálfum.