Kosningar geta verið margslungnar!

Eins og sést hér neðar flutti ég erindi um fyrirkomulag kosninga til Alþingis 1. mars. 2012. Um 20 mann hlýddu á og komu með gáfulegar spurningar og athugasemdir og var þetta hin skemmtilegasta uppákoma sem stóð á aðra klukkustund. Erindið er hér að finna á slæðuformi: ARFÍ1.mars2012Kosningar

Fréttatilkynning frá Aðgerðarannsóknarfélagi Íslands:

Þorkell Helgason flytur erindi hjá Aðgerðarannsóknarfélagi Íslands (ARFÍ) fimmtudaginn 1. mars 2012, kl. 16:30 í stofu M105 í Háskólanum í Reykjavík

Fyrirkomulag kosninga er af mörgu taginu og ekki jafn einfalt og sjálfgefið mál og virðast kann við fyrstu sýn. Varla eru nokkur tvö kosningakerfi eins, enda ekkert einleikið í þeim efnum! Í erindinu verður fjallað um nokkur stærð- og reiknifræðileg viðfangsefni í þessum málaflokki. Hvernig er atkvæðafylgi umreiknað hlutfallslega í fulltrúatölu? Hvers vegna er ekki til nein gallalaus aðferð við úthlutun jöfnunarsæta? Væri það hættulegt lýðræðinu að hver kjósandi færi með tvö atkvæði? Fjallað verður um viðfangsefni og tækifæri fyrir reiknimeistara og líkanasmiði – en líka um víti til að varast. Í fyrirlestrinum verður einkum tekið mið af tillögum stjórnlagaráðs um stjórnarskrárramma um kosningar til Alþingis. Farið verður allítarlega í gegnum tillögurnar og kostir þeirra og gallar ræddir í stærðfræðilegu – en jafnframt í stjórnmálalegu og sögulegu ljósi.

Erindið á að vera auðskilið að langmestu leyti, en þeim sem hafa gaman að smávægilegri stærðfræði á líka að vera skemmt.

Þorkell Helgason hefur starfað sem prófessor við Háskóla Íslands, ráðuneytistjóri og orkumálastjóri. Jafnhliða hefur hann verið ráðgjafi stjórnvalda um kosningamálefni í þrjá áratugi. Hann var kosinn til stjórnlagaþings og var síðan fulltrúi í stjórnlagaráði sem skilaði frumvarpi að stjórnarskrá á s.l. sumri og hefur nú verið kallað saman á ný. Þorkell sat í þeirri nefnd ráðsins sem fjallaði um fyrirkomulag kosninga.

Þýski stjórnlagadómstóllinn dæmir kosningakerfið ótækt

[Ritað 2008 og þá birt á vef landskjörstjórnar.]

Flokkur getur undir vissum kringumstæðum aukið þingstyrk sinn á þýska Sambandsþinginu við það að tapa atkvæðum. Hið öndverða er einnig mögulegt; að flokkur geti tapað sætum á auknu atkvæðafylgi – að öllu öðru óbreyttu. Við kosningar 2005 varð dæmi um þetta bersýnilegt. Þýski Stjórnlagadómstóllinn hefur nú kveðið upp úr með það að þetta gangi ekki lengur og mælir fyrir um að Sambandsþingið verði að betrumbæta kosningalögin. Pistill þessi fjallar um þetta stórmerka mál, sem sagt er að sé eitt athyglisverðasta grundvallarmál sem upp hefur komið í lýðræðissögu Sambandslýðveldisins Þýskalands. Jafnframt er vikið að lærdómi sem draga má af málinu – jafnvel fyrir okkur á Íslandi.

Meira um þetta í skjalinu Þýskur stjórnlagadómur.

——————————————————————————–

Fyrirkomulag kosninga til Sambandsþingsins í Austurríki

[Ritað 2008 og þá birt á vef landskjörstjórnar. Endurskoðað í ársbyrjun 2020.]

Austurríki telst ekki lengur stórt ríki. Engu að síður er því skipað sem sambandsríki níu allsjálfstæðra fylkja. Þingsæti á austurríska þjóðþinginu, Sambandsþinginu, eru 183 að tölu. Þeim er skipt upp á milli fylkjanna í beinu hlutfalli við íbúatölu þeirra og síðan aftur innan fylkjanna á milli 39 kjördæma með sama hætti. Frambjóðendur eru ýmist á kjördæmislistum, fylkislistum eð á sambandsríkislistum. Úthlutun þingsæta er því í þremur þrepum og allflókin. Kjósendur fá talsverðu ráðið um val einstakra frambjóðenda. Farið er yfir austurríska kosningakerfið og prófað að yfirfæra það á kosningar til Alþingis Íslendinga.

Meira um þetta allt er að finna í skránni: Fyrirkomulag kosninga til Þjóðþingsins í Austurríki