Kominn er tími á umbætur á kosningakerfinu

[Birtist í Kjarnanum 3. ágúst 2021. ]

Fyrirkomulag kosninga til Alþingis hefur verið stokkað upp nokkuð reglulega á minna en tveggja áratuga fresti; á árunum 1933-34, 1942, 1959, 1983-1987 og 1999-2000.

Tilefnið hefur að jafnaði verið aðlögun að búsetubreytingum. Upptalningin hefst 1933 þegar gerð varð sú mikla kerfisbreyting að tekin voru upp jöfnunarsæti (þá kölluð uppbótarsæti) til þess að stuðla að jöfnuði á milli flokka, þ.e. hlutfallslegu samræmi milli landsfylgis flokkanna og þingmannatölu þeirra.

Fullyrða má að jöfnuður af þessi tagi hafi verið meginmarkmið löggjafans í öllum breytingum kosningaákvæða á umræddu tímabili. Fullum jöfnuði var þó ekki náð fyrr en með þeirri breytingu sem tók gildi 1987. Uppstokkunin um síðustu aldamót hafði sama markmið. Fullur jöfnuður hélst í öllum sjö þingkosningum frá 1987 til og með þeim 2009. Síðan hefur hallað undan fæti. Í síðustu þrennum kosningum, 2013, 2016 og 2017, hefur eitt sæti lent hjá óverðskulduðum flokki og þá auðvitað á kostnað annars flokks. Þetta er svo sem minni ójöfnuður, en var allan tímann fram til 1987. Engu að síður byggðist þingmeirihluti þeirrar ríkisstjórnar sem tók við eftir kosningarnar 2016 á slíku umframsæti.

Nú eru enn blikur á lofti. Skoðanakannanir og hermdar kosningar á grundvelli þeirra (með svokölluðum Kosningahermi, tæki sem er í lokaþróun) benda til þess að ójöfnuður kunni að verða á milli þingflokka í kjölfar komandi kosninga; að eitt – jafnvel tvö – sæti kunni að lenda hjá flokki eða flokkum sem eigi þau ekki skilið miðað við landsfylgi.  

Það er pólitískt matsatriði hvort það sé keppikefli að þingstyrkur flokka endurspegli heildarúrslit kosninga. Þó verður ekki annað séð en að flokkarnir séu einhuga um að svo skuli vera. Sá flokkur, Framsóknarflokkurinn, sem þurfti að fórna þingsætum með breytingunum á níunda áratugnum, studdi breytingarnar þá og um leið markmiðsetningu sem þá var fest í stjórnarskrá að „[v]ið úthlutun þingsæta samkvæmt kosningaúrslitum skal gæta þess svo sem kostur er að hver þingflokkur fái þingmannatölu í sem fyllstu samræmi við heildaratkvæðatölu sína.“

Hver er orsök misvægis milli flokka og hvað er til ráða?

Ein ástæðna flokkamisvægisins er hlutfallslega misjafnt vægi kjördæmanna, sem er hér meira en þekkist í löndunum í kringum okkur. Þó er meginástæða misvægis milli flokka sú að jöfnunarsætin eru of fá, en þau hafa þann beina tilgang að ná umræddum jöfnuði. Þetta má líka orða þannig að of stór hluti þingsæta eru kjördæmissæti. Vandinn er sá að löggjafinn hefur alltaf skorið jöfnunarákvæðin við nögl. Því hefur þurft, og þarf nú, að stokka upp kerfið.

Eina trygga lausnin felst í því er að afmá skilin milli kjördæmis- og jöfnunarsæta, og það helst með öllu. Í þess stað verði kveðið á um að fyrst sé öllum þingsætunum, sem nú eru 63, skipt á milli flokkanna í hlutfallslegu samræmi við landsfylgi þeirra. Ef vill, verði þetta þó einskorðað við þá flokka sem ná 5% landsfylgi, sbr. þröskuldinn núverandi.  Að þessu gefnu sé sætunum útdeilt til kjördæmislistanna eftir úrslitum í hverju þeirra eins og frekast er kostur. M.ö.o. að jöfnunin milli flokkanna brengli sem minnst hreina hlutfallsúthlutun í hverju kjördæmi.

Reiknitilraunir með fyrrnefndum kosingahermi sýna að vel má útfæra þetta á þann veg að bæði sjónarmiðin – virðing við vilja kjósenda hvers kjördæmis og um leið við vilja kjósenda í heild sinni – séu í heiðri höfð. Fyrra markmiðið næst ekki síður en með núverandi órökréttu skiptingu sæta í kjördæmis- og jöfnunarsæti. Og seinna markmiðið næst alfarið. Um þetta má t.d. lesa í umsögn höfundar þessa pistils um þingmál á nýliðnu þingi; sjá https://www.althingi.is/altext/erindi/151/151-465.pdf. Ítarlega grein höfundar um umbætur á kosningakerfinu er auk þess að finna í hausthefti tímaritsins Stjórnmál og stjórnsýsla frá 1984; sjá http://www.irpa.is/article/view/1622/pdf_356.

Höfundur Þorkell Helgason, fyrrv. prófessor

Skiptir vilji þjóðarinnar máli í komandi kosningum?

[Birtist í Kjarnanum 31. ágúst 2021.]

Ný könnun Gallups sýnir að yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem spurðir voru er hlynntur því „að útgerðin greiði markaðsgjald fyrir afnot af fiskimiðunum“. Spurningunni svipar til ákvæðisins í stjórnarskrártillögum Stjórnlagaráðs um að greiða skuli „fullt gjald“ fyrir afnot af auðlindum í þjóðareigu.

Meginniðurstaðan úr könnuninni er sú að 77% þeirra sem svöruðu eru hlynntir því að krafist sé markaðsgjalds en einungis 7% eru því andvígir. Afgangurinn, 16%, tók ekki afstöðu. Sé þessum óákveðnu sleppt eru tæplega 92% hlynntir en rúm 8% andvígir. Og þetta er næsta óháð kyni, menntun og tekjum þeirra spurðu. Landsbyggðarfólk er meira hikandi en höfuðborgarbúar, en sé horft fram hjá óákveðnum er munurinn eftir búsetu vart marktækur. Nokkur munur er á afstöðu fólks eftir því hvaða flokk það hyggst kjósa. Þó er meirihluti fólks í öllum flokkum hlynntur markaðsgjaldi, eða frá 54% upp í meira en 90% hjá þremur flokkanna. Sé aftur horft fram hjá hinum óákveðnu er stuðningurinn hjá kjósendum einskis flokks minni en 76%.

Þessi afgerandi niðurstaða kemur svo sem ekki á óvart enda í samræmi við margar kannanir af svipuðum toga og raunar líka við svör kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012 um það hvort lýsa eigi náttúruauðlindir sem þjóðareign í stjórnarskrá. Af þeim sem þá tóku afstöðu voru 83% þeirrar skoðunar.

En ekkert gerist

Málið er þæft fram og til baka og út úr því snúið. Sama má segja um ýmis mál önnur þar sem þjóðin virðist mjög á annarri skoðun en þingmeirihlutinn á hverjum tíma. Vissulega kjósum við fulltrúa til að ráða málum okkar. Samt er eitthvað við það bogið þegar þing og þjóð eru gjörsamlega ósammála um mikilvæg grundvallarmál árum og áratugum saman. Hví kjósum við þá ekki þá flokka sem eru sömu skoðunar og við? Hængurinn er sá að flokkar bjóða aðeins upp á einn matseðil hver. Þótt aðalrétturinn kunni að vera girnilegur kjósandanum hefur hann kannski litla lyst á eftirréttinum. Kjósendur ganga ekki að hlaðborði þar sem þeir geta valið sér matseðilinn.

Hví ekki spyrja þjóðina?

Samkvæmt stjórnskipan okkar er nánast aldrei leyft að leita til kjósenda um einstök mál. Hví ekki að leyfa það í einhverjum mæli? Sagt er að þjóðin geti haft rangt fyrir sér? En hver er dómbær í þeim efnum aðrir en þjóðin sjálf? Væri það goðgá að spyrja þjóðina skýrt og skorinort hvort hún vilji að greitt sé fullt gjald, markaðsgjald, fyrir afnot af auðlindum í almannaeigu? Reynist það fá tiltekinn lágmarksstuðning væri stjórnvöldum gert skylt að útfæra ákvæðið og bera lög þar að lútandi aftur undir þjóðina. Þetta gerist þó ekki án stjórnarskrárbreytingar. Stjórnlagaráð var með tillögu í þessum dúr, en það fór á sama veg og annað: Enda þótt tveir þriðju hlutar þeirra sem afstöðu tóku í fyrrgreindri þjóðaratkvæðagreiðslu lýstu sig því fylgjandi að tillögur ráðsins yrði grundvöllur að nýrri stjórnarskrá og enn fleiri, eða nær þrír fjórðu hlutar, vildu að mál gætu farið í þjóðaratkvæðagreiðslu, hefur tillögunum öllum verið stungið undir stól.

Á meðan þjóðin fær ekki að tjá sig beint verða þeir sem vilja fá fullt afnotagjald fyrir eigur sínar að herja á flokkana í komandi kosningum. Flokkarnir hljóta að taka mark á meirihluta kjósenda sinna.

Höfundur Þorkell Helgason, sat í Stjórnlagaráði og er félagi í Þjóðareign