Í kjölfar sveitarstjórnarkosninga 29. maí 2010 er spurt hver sé munurinn á mati á útstrikun (og öðrum breytingum á kjörseðlum) annars vegar samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis og hins vegar samkvæmt lögum um kosningar til sveitarstjórna. Um þetta er ítarlega fjallað í niðurlagi greinargerðar um þingkosningarnar 2003 annars staðar á þessum vef. Þú getur lesið greinina í pdf með því að smella hér.
Hér verður því ekki farið út í aðferðafræðina en útfærslurnar bornar saman í eftirfarandi töflu þar sem því er svarað sem oftast er spurt um í þessu sambandi: „Hve stór hluti kjósenda lista þarf að strika út sama manninn til að hann falli niður um sæti?“
Við sveitarstjórnarkosningar (þar sem fram fara hlutbundnar kosningar) er svarið einfalt: Meira en helmingur kjósenda lista verður að strika mann út svo að hann falli niður um sæti. Gerist það fellur hann raunar alveg út af listanum.
Eftir þeirri aðferð sem beitt er við þingkosningar (frá og með kosningunum 2003) er þetta flóknara og fer eftir fjölda sæta sem listinn fær og því sæti sem frambjóðandinn er boðinn fram í. Taka má sem dæmi um fjórða mann á lista sem fær fjóra menn kjörna. Þá þarf meira en 16,7% þátttöku í slíkri útstrikunaraðgerð til að frambjóðandinn falli út niður um sæti og nái ekki kjöri sem aðalmaður (en verði í staðinn fyrsti varamaður).
Allt er þetta byggt á þeirri forsendu að ekki sé hróflað við frambjóðendum á listanum að öðru leyti. Stuðningsmenn umrædds fjórða manns geta t.d. beitt þeim mótleik að strika út fimmta mann listans. Útstrikanir ofar á listanum geta líka gert það erfiðara að víxla röð tveggja frambjóðenda.
Til að finna hvað hátt hlutfall útstrikana verður að vera til að færa mann niður í um tvö sæti í þingskosningum þarf einfaldlega að tvöfalda töluna í töflunni, o.s. frv.