Vilt þú að náttúruauðlindir verði þjóðareign?

[Birtist í Fréttablaðinu 5. september 2012.]

Hinn 20. október n.k. verður haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá. Auk almennrar spurningar um grundvöllinn verður spurt um afstöðu til nokkurra lykilatriða í tillögum ráðsins. Önnur spurningin, sem lýtur að einu þessara atriða, felst í fyrirsögn þessa pistils en er í heild sinni þannig: „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign?“

Ekki virðist mikill ágreiningur meðal þjóðarinnar eða stjórnmálaflokkanna um svarið. Flestir virðast vilja stjórnarskrárvarið ákvæði um þjóðareign á náttúruauðlindum og eru þá einkum fiskimiðin og orkulindirnar hafðar í huga. En ágreiningur hefur verið um merkingu hugtaksins þjóðareign, einkum meðal lögfræðinga. Til eru þeir sem líta á þetta sem hátíðlega en merkingarlitla yfirlýsingu. Aðrir gefa minna fyrir orðið en vilja gæða hugtakið innihaldi og þá einkum því hvernig beri að nýta auðlindirnar auk skýrra ákvæða um endurgjald fyrir afnot af þjóðareignum.

Málið er eitt þeirra sem Alþingi fól stjórnlagaráði að taka sérstaklega til skoðunar. Það var gert eins og sést í ýtarlegum ákvæðum, einkum í 34. gr. í frumvarpi ráðsins. Að beiðni Alþingis var málið aftur yfirfarið á fundum þorra ráðsmanna 8.-11. mars s.l. Meginákvæðin í frumvarpsgreininni (eftir yfirferðina) eru þessi:

  •  A1: Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar.
  • A2: Enginn getur fengið auðlindirnar, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja.
  • A3: Til auðlinda í þjóðareign teljast náttúrugæði … sem ekki eru í einkaeigu.
  • A4: Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn.
  • A5: Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.

Fyrsti málsliðurinn, A1, er yfirlýsing um þjóðareign. Með A3 er skýrt tekið fram að ekki er verið að sölsa einkaeigur undir ríkisvaldið. Um innihaldið, meðferð þjóðareigna, er fjallað í liðum A3, A4 og A5. Vegur þar einna þyngst að fyrir hagnýtinguna eigi að greiða „fullt gjald“, sem er orðalag sótt í ákvæði núgildandi stjórnarskrár um eignarnám, og að nýtingarrétturinn skuli veittur á „jafnræðisgrundvelli“.

Spurningin um þjóðareignina í atkvæðagreiðslunni 20. október snýst að formi til aðeins um yfirlýsinguna, ígildi A1, en ætla verður að Alþingi muni skoða jáyrði við henni sem efnislegan stuðning við alla 34. gr. í frumvarpi ráðsins.

Rök fyrir JÁ við spurningunni

Ekki er tóm til að rekja þau fjölmörgu rök sem fram hafa komið um þjóðareign á auðlindum og verður aðeins tæpt á nokkrum:

  • Á þjóðfundinum 2011 var áberandi sú skoðun að mæla bæri fyrir um eign þjóðarinnar á auðlindum í stjórnarskrá og að arður af nýtingu þeirra rynni að meginhluta til eigandans, þjóðarinnar.
  • Með yfirlýsingu um þjóðareign á auðlindum og öðrum takmörkuðum gæðum sem ekki eru í einkaeigu er verið að taka af skarið um mál sem hefur velkst lengi fyrir þingi og þjóð. Nú er tækifæri að taka af skarið þannig að ekki verði um villst.
  • Ekki síst er mikilvægt við hvers kyns samninga við erlend ríki eða ríkjasamtök að það sé á hreinu að auðlindir lands og sjávar eru í eigu íslensku þjóðarinnar.
  • Verið er að vinna að afmörkun landareigna í einkaeigu. Afgangurinn á ekki að verða einskis manns land heldur ótvíræð sameign þjóðarinnar.
  • Nýting þjóðareigna, fiskimiða eða orkulinda, á áfram að vera í höndum einstaklinga og fyrirtækja. Því er ekki verið að breyta með yfirlýsingu um þjóðareign.
  • Stjórnarskrárákvæðin nýju setja því siðferðilegar skorður hvernig með skal fara við úthlutun nýtingarleyfa. En það verður áfram hlutverk Alþingis að setja leikreglurnar. Ákvæðin mæla t.d. hvorki fyrir um tiltekið kvótakerfi né einhverja aðra fiskveiðistjórnunaraðferð.

Rök fyrir NEI við spurningunni

Andstæðingar þjóðareignar hafa ekki tjáð sig mikið með beinum hætti heldur fremur þannig að gera eigi hlutina einhvern veginn öðru vísi:

  • Sumir lögfræðingar segja hugtakið þjóðareign vera loðið og skapa ýmsan skilgreiningarvanda.   Því er til að svara að í  stjórnarskrárákvæðinu  og í  umræddri 34. gr. í frumvarpi ráðsins er kveðið skýrt á um merkingu orðsins.
  • Sagt hefur verið að þjóðareign feli í sér þjóðnýtingu sem sé af hinu vonda. Þetta er á misskilningi byggt  þar sem stjórnlagaráð tekur skýrt fram að þjóðareign nái aðeins til þeirra réttinda sem ekki eru þegar í einkaeigu. Hún nær einungis til þess sem enginn hefur með réttu getað eignað sér.
  • Sumir hafa áhyggjur af því að ný eða breytt ákvæði um þjóðareign og afnotaskilmála setji allt á hvolf. Ég tel þetta óþarfa áhyggjur.   Það er undir löggjafanum komið að tryggja að framkvæmd þjóðareignarákvæðisins eigi sér eðlilegan aðdraganda og aðlögunartíma.

 

Ályktun

Pistilhöfundur mælir með jáyrði við spurningunni. Þar með verði tryggt að sameiginlegur auður lands og sjávar haldist hjá þjóðinni en hverfi ekki til einstaklinga hvort sem er innan lands eða utan.

Hvernig kynni skipan Alþingis að breytast við jafnt vægi atkvæða?

Þessari spurningu hefur verið kastað fram. Spurt er nánar hvað gerst hefði 2009 ef þá hefði verið jafnt vægi atkvæða. Það er alltaf varhugavert að nota úrslit úr liðnum kosningum til að spá um hvað gerst hefði ef kosningalög hefðu verið einhvern veginn öðru vísi. Kjósendur haga sér ávallt að nokkru með tilliti til þess fyrirkomulags sem gildir hverju sinni.

Engu að síður er hér sýndar töflur um skiptingu þingsæta ef sætum er skipt eins jafnt og unnt er milli kjördæma á grundvelli kosningaúrslitanna frá 2009.

Tafla I sýnir hvernig sætaskipanin hefði orðið 2009 ef sætum væri skipt á milli kjördæma í hlutfalli tölur kjósenda á kjörskrá 2009, þ.e.a.s. jafnt vægi óháð búsetu.

image

Tafla II sýnir tilfærslu á úthlutun sæta við þá breytingu á úthlutun sæta sem orðið hefði við jöfnun atkvæaðvægis, en að engu öðru breyttu í kosningalögum.

image

Nú liggur fyrir eitt að þingsæti mun færast frá Norðvesturkjördæmi til Suðvesturkjördæmis skv. gildandi lögum fyrir næstu kosningar vorið 2013. Við það eitt færast sæti út og suður eins og sjá má í töflu III.

image

Því má segja að hluti þeirrar breytingar sem yrði við jöfnun atkvæðavægis muni þegar koma að hluta fram 2013. Þetta má lesa út úr töflum II og III og samandregið í töflu IV.

image

Að lokum verður að endurtaka fyrirvara um svona talnaleik aftur í tímann.

Meira um aðferðir við forsetakjör

[Birtist í Fréttablaðinu 31. júlí 2012]

Í Fréttablaðinu 25. júlí sl. er ágæt frásögn af góðu framtaki nokkurra fræðimanna sem spurðu í netkönnun hvaða aðferð fólki hugnaðist best við kjör í embætti forseta Íslands. Spurt var um fjórar aðferðir auk þeirrar núverandi þar sem einfaldur meirihluti ræður. Meðal annars var boðið upp á það sem fræðimennirnir kölluðu „varaatkvæðisaðferð“. Við þetta má bæta fróðleik sem hvorki kom fram hjá spyrlunum né heldur í fréttaskýringunni.

Fyrst er þess að geta að nafngiftin á því sem nefnt er „varaatkvæðisaðferð“ hefur verið á reiki. Hún hefur í opinberum skjölum verið kennd við „forgangsröðun“ en líka nefnd „aðferð færanlegra atkvæða“, sem er hrá þýðing á algengasta heitinu á ensku, Single transferable vote (STV).

Mikilvægt er að vita að þessi aðferð er sú sama og stjórnlagaráð hefur lagt til að beitt verði við forsetakjör framvegis. Til upprifjunar þá felst aðferðin í því að kjósendur eiga ekki að velja með krossi einum heldur að raða frambjóðendum í forgangsröð: „Þennan vil ég helst, en ef hann nær ekki kjöri þá er þessi næstbesti kostur minn“ o.s.frv. Þetta er einföld aðferð og hefur ýmsa kosti fram yfir þá að kjósa tvisvar. Kostnaður er minni bæði hjá hinu opinbera og ekki síður hjá frambjóðendunum sjálfum. En ekki er síðra að STV, sem er eins og „tveggja umferða kosning“ í einni, kemur í veg fyrir hrossakaup um stuðning þeirra sem falla út í fyrri umferðinni, eins og er t.d. sláandi í Frakklandi.

Að lokum má bæta við frásögn blaðsins að bæði var STV-aðferðin, „varaatkvæðisaðferðin“, notuð við kosninguna til stjórnlagaþings og jafnframt lögð til grundvallar í nýlegum stjórnarfrumvörpum um persónukjör, en dagaði uppi í málþófi eins og nú er tískan á Alþingi.

Meira má lesa um STV-aðferðina við forsetakjör í Fréttablaðinu 12. janúar sl.; sjá https://thorkellhelgason.is/?p=1324.

Vega tillögur stjórnlagaráðs að hagkvæmni í útgerð?

[Birtist í Fréttablaðinu 14. júní 2012]

Að mati flestra hefur ekki fundist betra fyrirkomulag við fiskveiðistjórnun en aflamarkskerfi þar sem aflaheimild hvers skips er á hreinu en ríkið skiptir sér að öðru leyti sem minnst af veiðunum svo sem því hvort heimildirnar skipti um hendur eða ekki. Frjálst framsal aflaheimilda er lykilatriði í því að ná sem mestri hagkvæmni í sjávarútveginum. En einn hængur er á þessu fyrirkomulagi sem hefði átt að taka á strax í upphafi. Það er hin upphaflega útdeiling á kvótunum og að auðlindarentan skuli ekki nema að óverulegu leyti skila sér til eigenda auðlindarinnar, sem að mati flestra er þjóðin öll. Þetta er það atriði sem er meginorsök úlfúðar um fiskveiðistjórnunina.

Ganga þarf beint til verks

Í stað þess að taka beint á þessum vanda hefur regluverkið um veiðarnar orðið æ flóknara og er uppfullt af sérákvæðum, takmörkunum og hindrunum. Nú eru uppi á borðinu stjórnarfrumvörp sem virðast vera af þessu tagi. Það getur ekki verið leiðin til að sætta þjóðina að auðlindaarðurinn hverfi í óhagkvæmum útgerðarháttum.
Undirritaður hefur tekið þátt í vinnu og umræðu um þessi mál allt frá upphafi kvótakerfisins 1983 og hefur verið í hópi þeirra sem hafa um áratugaskeið mælt
með markaðsleið til lausnar úr þessari úlfakreppu. Leiðin felst í því að útgerðin taki kvótana á leigu á því verði sem hún er fús til að greiða; við því markaðsverði sem fengist með uppboðum, ekki einhverju verði sem stjórnmálamenn ákvarða. En sérhver breyting verður að hafa sanngjarna aðlögun sem best felst í því að núgildandi réttur fyrnist smám saman. Það undarlega er að ætlaðir talsmenn frjálsra viðskipta og markaðslausna eru helstu andstæðingar þessarar hugmyndar, með undantekningum þó. Pétur H. Blöndal alþm. hefur nú sem og fyrr lagt fram frv. í þessa veru.

Hvað vill stjórnlagaráð?
Stjórnlagaráð tók á þessum útdeilingar- og arðsvanda, eins og því bar að gera. Ráðið fjallar um nýtingu takmarkaðra auðlinda í þjóðareigu í 34. gr. frv. síns. Þar segir að fyrir hagnýtinguna eigi að greiða „fullt gjald“, sem er orðalag sótt í ákvæði núgildandi stjórnarskrár um eignarnám. Jafnframt er tilskilið að nýtingarrétturinn skuli veittur á „jafnræðisgrundvelli“. Fyrirkomulag uppboða með fyrningaraðlögun fellur vel að þessum ákvæðum. Aðlögun er að vísu ekki beinlínis tilgreind í tillögugreininni en liggur í hlutarins eðli. Sé hún ekki strax viðhöfð í löggjöf til fyllingar stjórnarskrárákvæðinu, sem væri hið skynsamlega, er viðbúið að dómstólar myndu kveða upp úr um hana. Sé byggt á fyrningu þarf í þessu skyni að ákveða fyrningarhlutfall sem er t.d. 2,5% í frv. Péturs H. Blöndals. Það merkir að með aðlöguninni fá núverandi kvótahafar að halda um helmingi
af núvirði auðlindaarðsins um alla framtíð. Í útfærslu sem við Jón Steinsson unnum fyrir sáttanefndina svokölluðu var hlutfallið jafngildi 5% sem svarar til þess að um þrír fjórðuhlutar arðsins renni til þjóðarinnar. Að auki ber að hafa í huga að ýmsar leiðir geta rúmast innan ráðgerðs stjórnarskrárákvæðis aðrar en uppboðs- og fyrningarleiðin.

Stjórnlagaráð leggur ekki á ráðin um fiskveiðistjórnun

Tilefni þessara skrifa eru orð hins virta pistlahöfundar Þorsteins Pálssonar laugardaginn 9. júní hér í blaðinu þar sem hann segir „[A]fleiðingin [af nýju stjórnarskránni] er þá sú að útilokað verður um alla framtíð að reka sjávarútveg á Íslandi með hagkvæmasta hætti.“ Þessari sterku fullyrðingu verður að andmæla. Tillögur stjórnlagaráðs fjalla einvörðungu um útdeilinguna og skiptingu arðsins. Þær segja ekkert um fyrirkomulag fiskveiðistjórnunar að öðru leyti. Það hefur margoft komið fram hjá hagfræðingum að markaðsákvarðað veiðigjald ásamt vissri opnun fyrir nýliða með fyrningarákvæðinu myndi fremur en ekki auka heildararðsemi greinarinnar þegar til lengdar er litið. Þá býður fyrirkomulagið ekki þeirri hættu heim, sem pólitískt ákvarðað veiðigjald gerir, að veiðar verði ekki stundaðar í fullum mæli. Löggjöf um skipulag fiskveiða sem leitt getur til óskilvirkrar útgerðar verður ekki réttlætt með tillögum stjórnlagaráðs. Slíkt væri engan veginn á ábyrgð ráðsins. Tillögur stjórnlagaráðs vega ekki að hagkvæmni í útgerð, heldur þvert á móti.

Hvernig á að spyrja um stjórnarskrá?

Nú er sagt að meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis hyggist leggja til að ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs fari fram í lok september og um leið verði spurt sérstaklega um tiltekin álitamál. Eins og ég hef þegar sagt í tveimur blaðagreinum og nokkrum pistlum á þessari vefsíðu minni er ég efins um þessa leið til að fá fram vilja þjóðarinnar og fremur bent á atkvæðagreiðslu á e.k. þjóðfundi.

En verði af umræddri þjóðaratkvæðagreiðslu er áríðandi að vandað sé til spurninganna. Þegar málið var síðast í umræðunni í marslok s.l. sendi ég þingnefndinni erindi sem hér fylgir sem pdf-skjal:  UmÞjóðaratkvæðiÞHGerð28mars. Þar lagði ég til annað upplegg á spurningunum. Nefndarmeirihlutinn breytti spurningunum og liggja þær nú fyrir sembreytingartillaga á þingskjali 1098. Mér finnast þær enn loðnar og villandi og nefni ég sérstaklega þessar:

3.  Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?

4.  Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er?

Þriðja spurningin sker sig úr hvað það varðar að hún er sú eina sem svara verður með „nei“ sé kjósandinn sammála tillögum stjórnlagaráðs, en í þeim eru ekki sérstök ákvæði um þjóðkirkju utan að sagt er að kveða megi á um kirkjuskipanina í almennum lögum. Því er þó haldið óbreyttu að breyting á skipaninni kalli á samþykki í þjóðarinnar.

Fjórða spurningin er veikt orðuð og tekur ekki mið af tillögu stjórnlagaráðs. Í spurningunni er kveðið á um „heimild“ í stjórnarskrá til að setja megi í lög ákvæði um persónukjör „í meira mæli en nú er“. Það þarf enga stjórnarskrárheimild til þessa, sbr. t.d. stjórnarfrumvarp um víðtækt persónukjör sem legið hefur fyrir Alþingi, en dagað uppi – eins og margt annað. Tillaga stjórnlagaráðs gengur mun lengra og kveður á um „skyldu“ til að setja markvisst persónukjör í kosningalög.

Af þessum sökum tel ég að gera þurfi að lágmarki eftirfarandi breytingar á ofangreindum spurningum:

3.    Vilt þú að staða þjóðkirkjunnar verði ákveðin í almennum lögum en ekki í stjórnarskrá?

4.    Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði mælt fyrir um persónukjör í kosningum til Alþingis?