Um frumkvæðisrétt kjósenda; hjá Stjórnlagaráði og í Hessen

Sambandslýðveldið Þýskaland skiptist upp í 16 fylki („lönd“ á þýsku), mjög mismunandi fjölmenn, eða frá 700 þús. íbúum til 18 milljóna. Fylkin fara með mörg mál, sem ekki eru beinlínis á könnu Sambandsþingsins eða sambandsstjórnarinnar í Berlín. Því hefur hvert fylkjanna eigið þing (landsþing) og ríkisstjórn með grundvöll í eigin stjórnarskrá. Þessar stjórnarskrár voru flestar settar strax eftir seinni heimstyrjöld og eru því eldri en grunnlög (stjórnarskrá) sjálfs sambandsríkisins sem eru frá 1949.

Hessen er fimmta fjölmennasta fylkið í Þýskalandi með rúmlega sex milljónir íbúa og er þar með fjölmennari en hvert Norðurlandanna utan Svíþjóðar. Hinn 28. október 2018 fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla um 15 breytingar eða viðbætur við stjórnarskrá fylkisins. Ein þessara stjórnarskrárbreytinga laut að ákvæðum um frumkvæðisrétt kjósenda. Meginbreytingin er sú að lækka það lágmarkshlutfall kjósenda sem þarf til að þeir geti lagt fram lagafrumvarp og krafist þjóðaratkvæðagreiðslu þar um.  Lágmarkið var 20% en lækkar í 5%.

Ákvæðunum um lagafrumvæði kjósenda, hvort sem er breyttum eða óbreyttum, svipar mjög til samsvarandi ákvæða í tillögum Stjórnlagaráðs frá 2011 og því áhugaverð fyrir Íslendinga.

Þá má benda á til fróðleiks að stjórnarskráin í Hessen telur 161 grein en í tillögum Stjórnlagaráðs eru þær 116 sem sumum þótti drjúgt!

Stjórnarskrárbreytingarnar voru allar samþykktar í þjóðaratkvæðagreiðslunni með 70-90% stuðningi þeirra sem afstöðu tóku, þ.m.t. sú sem hér er fjallað um, en 86,3% kjósenda guldu henni jáyrði sitt. Kosningaþátttaka var nokkuð góð, en 67,1% kjósenda tóku þátt atkvæðagreiðslu um umrædda spurningu.

Í opinberum gögnum frá Hessen er aðeins gerð grein fyrir innbyrðis skiptingu jáa og neia. Auð eða ógild atkvæði koma þar að sjálfsögðu ekki við sögu. Þetta er öndvert við það sem landskjörstjórn og Hagstofan gáfu upp um þjóðaratkvæðagreiðsluna 20. október 2012 um stjórnarskrármálið. Þar var – í fyrstu a.m.k. – tekið upp það nýmæli að telja auð og ógild atkvæði til gildra atkvæða!; sjá https://thorkellhelgason.is/?p=2065.

Í þessu samhengi má rifja upp þá gagnrýni, sem fram kom frá fræðimönnum við íslensku háskólana á tillögur Stjórnlagaráðs, ekki síst á þau ákvæði sem lúta að umræddu beinu lýðræði, þ.e.a.s. 65.-67. gr. í frumvarpstexta ráðsins. Í íslenskum sið var fullyrt að „svona þekktist hvergi“; ja, kannski í Sviss. En ákvæðin í stjórnarskrá Hessen eru nauðalík þeim í tillögum Stjórnlagaráðs.

Í samanburðartöflu er gerð grein fyrir ákvæðunum um lagafrumkvæði kjósenda í stjórnarskrá Hessen í samanburði við hliðstæð ákvæði í tillögum Stjórnlagaráðs. Þá fylgir í síðasta dálki eigin umsögn og er þá ítrekað hversu lík ákvæðin eru hjá Stjórnlagaráði og þau í Hessen.

Jafnframt er neðar í töflunni farið yfir ákvæðin í Hessen og í tillögum Stjórnlagaráðs um það hvernig stjórnarskrá verði breytt.

Fyrirkomulag kosninga er forneskjulegt

[Eftirfarandi pistill birtist í Fréttablaðinu 8. maí 2018 og samdægurs á visir.is; sjá http://www.visir.is/g/2018180509166/fyrirkomulag-kosninga-er-forneskjulegt-]

Skammt er til sveitarstjórnarkosninga en framboðsfrestur ekki útrunninn, þegar þetta er skrifað. Engu að síður er löngu byrjað að kjósa í atkvæðagreiðslu utan kjörfundar og er þá kjörseðillinn autt blað. Þess munu vart dæmi um víða veröld að unnt sé að kjósa þannig út í bláinn, enda hefur lýðræðis- og mannréttindaskrifstofa Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) margsinnis gert athugasemdir við þetta fyrirkomulag. Þetta er aðeins eitt dæma um hvað kosningalög okkar eru um margt forneskjuleg, bæði lögin um kosningar til Alþingis svo og þau um kjör sveitarstjórna. Aldrei hefur verið gert hreint í þessum lagabálkum og ákvæðin færð til nútímahorfs. Þannig má t.d. ætla að enn sé kosið á opnum fundum, sbr. hugtakið „utankjörfundaratkvæðagreiðsla“.

Þó liggja hjá Alþingi hugmyndir um verulegar endurbætur á ákvæðum um framkvæmd þingkosninga. En það sama á við um þessi grundvallarlög og sjálfa stjórnarskrána: Alþingi virðist aldrei hafa dugnað til að taka á málinu. Eða skortir pólitískan vilja?

Af nógu er að taka eigi að benda á ákvæði sem laga þarf í kosningalögum. Þegar hefur verið nefndur sá afkáraleiki að framboð liggi ekki fyrir þegar kosning hefst. Þá erum við langt á eftir flestum grönnum okkar í því að auðvelda kjósendum að neyta kosningaréttar síns. Bréfkosningar þekkjast hér ekki, en sums staðar nýtir stór hluti kjósenda sér þá leið. Um rafrænar kosningar er nánast ekkert rætt, hvorki um kosti þeirra né galla.

Ofangreind dæmi lúta að framkvæmd kosninga en lýðræðisþáttur málsins er þó mikilvægastur.

Vita kjósendur að þeir geta nánast engin áhrif haft á röð frambjóðenda á listum við sveitarstjórnarkosningar? Útstrikanir eða umraðanir eru tilgangslausar. Þetta er þó ekki alveg markleysa í þingkosningum, enda var vægi slíkra breytinga aukið talsvert með lögum frá aldamótaárinu. En það hefur „gleymst“ í 18 ár að gera hliðstæðar breytingar á lögum um sveitarstjórnarkosningar. Þar gilda enn ákvæði frá 1987 sem gerðu kjósendur nær valdalausa um listabreytingar. Víðast hvar í grannlöndunum er þó kjósendum veitt meira vald til að velja sér frambjóðendur í kosningum til sveitarstjórna en til þjóðþinga. Á Íslandi er þessu öfugt farið! Að mati margra kjósenda skiptir þó meira máli hvaða einstaklingar veljast til sveitarstjórna en hvaða flokk þeir skipa.

Nefna má annað sem hefur dagað uppi í meðferð kosningalaga. Í þingkosningum geta framboð spyrt sig saman í vísi að kosningabandalögum. Ákvæðin eru þó ófullkomin og hafa því ekki verið nýtt. Með slíkum bandalögum væri þó unnt að gefa kjósendum vísbendingu um það hvaða fylkingar gætu staðið saman að myndum ríkisstjórnar eftir kosningar í stað þess að þeim sé haldið í óvissu með tuggunni „að ganga óbundin til kosninga“. Í lögum um sveitarstjórnarkosningar er ekki gefinn kostur á neinum slíkum listasamsteypum. Í þeim fjölda framboða, sem nú stefnir í, a.m.k. í Reykjavík, væri fengur að því fyrir kjósendur að framboðin sýndu lit með því að hópa sig eitthvað saman.

Hér er lítt tóm til að fjalla um brýnar lýðræðisumbætur í lögum um þingkosningar. Nefna má virkt persónukjör, eins og nær 80% kjósenda tjáðu sig fylgjandi í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012. Eða þá það ranglæti að vægi kjósenda er enn misjafnt. Vildu þó um 2/3 fyrrgreindra kjósenda fullan jöfnuð. ÖSE hefur þrívegis gert alvarlegar athugasemdir við þessi ójöfnu mannréttindi íslenskra kjósenda.

Þá er það ámælisvert að það skuli geta gerst að flokkar fái fleiri þingsæti en landsfylgi þeirra veitir þeim rétt til. Að ekki sé komið í veg fyrir þetta kann að vera stjórnarskrárbrot. En því miður höfum við engan dómstól sem tekur á stjórnlagabrotum með almennum hætti. Þó hefur þessi ójöfnuður milli flokka haft pólitískar afleiðingar. Síðasta ríkisstjórn, sú sem sat lungann úr árinu 2017, hafði eins sætis meirihluta á Alþingi með hjálp þessa lýðræðishalla.

Stjórnlagaráð gerði margvíslegar og útfærðar tillögur um bætt fyrirkomulag kosninga. En þeim, eins og öðrum tillögum ráðsins, hefur verið stungið undir stól. Þó hafa 2/3 hlutar kjósenda í almennri atkvæðagreiðslu kallað eftir nýrri stjórnarskrá á grundvelli tillagna ráðsins.

Höfundur sat í stjórnlagaráði

Aukum rétt kjósenda strax

[Grein þessi birtist í Fréttablaðinu 26. september 2017]

Traust á stjórnmálunum hefur verið lítið og er nú í lágmarki. Fólki finnst það vera haft að fífli, haldið utan við upplýsingar og ákvörðunartöku. Allur þorri kjósenda vill til dæmis að náttúruauðlindir verði lýstar þjóðareign, en í þjóðaratkvæðagreiðslunni fyrir nær fimm árum játtu þessu fjórir af hverjum fimm þeirra sem afstöðu tóku. Svipað var uppi á teningnum þegar spurt var hvort menn vildu aukið persónukjör, jafnt vægi atkvæða eða möguleika á þjóðaratkvæðagreiðslum um mikilvæg mál. Um allt þetta þegir gildandi stjórnarskrá eða er alls ófullnægjandi. Ekki bætir úr skák að stjórnarskráin er ruglingsleg, ef ekki beinlínis villandi, t.d. um valdsvið forseta Íslands eins og núverandi forseti benti réttilega á við setningu Alþingis.

Stjórnlagaráð tók á þessum málum öllum og mörgum fleirum á þann veg að 2/3-hluti þeirra sem tóku afstöðu lýstu því yfir að þeir vildu sjá nýja stjórnarskrá á grundvelli tillagna ráðsins. En síðan hefur fátt gerst. Stjórnarskránni verður ekki breytt fyrir komandi kosningar, en Alþingi það sem enn situr getur þó sýnt viðleitni í að auka rétt kjósenda í kjörklefanum.

Breytingar á röð frambjóðenda
Eins og fyrr segir var yfirgnæfandi stuðningur við aukið vægi persónukjörs í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012, enda er það mörgum lítt að skapi að þurfa að kjósa frambjóðendur í kippum á listum flokkanna, enda leynist oft misjafn sauður í mörgu fé. Vald kjósenda til að hafa áhrif á það hverjir ná kjöri af listunum var þó talsvert aukið með kosningalögum sem tóku gildi um síðustu aldamót. Kjósendur geta umraðað frambjóðendum á þeim flokkslistum sem þeir merkja við, nú eða strikað út nöfn. En það er eins og þessu sé haldið leyndu og kjósendum gert erfitt um vik að nýta þennan rétt sinn. Kjörseðillinn sjálfur býður þessum merkingum kjósenda ekki heim og yfirvöld gefa engar leiðbeiningar fyrir utan gagnslítil upplýsingaspjöld sem hanga einhvers staðar á kjörstöðunum.

Viðbúið er að margir viti ekki af möguleikunum sem þó eru í boði eða séu hræddir við að ógilda kjörseðilinn með merkingum við frambjóðendur. Það væri strax til bóta að ferningur til merkinga væri framan við nöfn frambjóðenda auk þess sem yfirvöldum kosningamála væri gert skylt að upplýsa með afgerandi hætti hvað kjósendur mega gera og hvað ekki. Úr þessu tvennu væri hægt að bæta með einföldum fyrirmælum í lögum sem hægt væri að samþykkja fyrir komandi kosningar.

Kosningabandalög
Ein ástæða þess að áhugi á kosningum fer dvínandi er sú að kjósendum finnst þeir oft kjósa köttinn í sekknum. Þeir kjósi flokk, sem lofar ýmsu en fer síðan í stjórnarsamstarf með öðrum flokkum öndverðrar skoðunar og flokkur kjósandans étur loforðin ofan í sig. Flokkarnir ættu að sýna meira á spilin fyrir kosningar um það með hverjum þeim hugnist að starfa. Ein leið til þess er að flokkar geti spyrt sig saman í kosningabandalög.

Gildandi kosningalög heimila stjórnmálasamtökum að bjóða fram fleiri en einn lista í sama kjördæmi. Hængurinn er sá að listunum er ekki gert jafn hátt undir höfði. Þetta kemur strax í ljós í listamerkingunum sem verða að vera A, AA, AAA o.s.frv., sem túlka má þannig að sá fyrst nefndi sé aðallistinn og hinir ómerkilegri. Við úthlutun þingsæta eru þó allir listarnir jafn réttháir. Þá heimila lögin ekki að einstakir listar kosningabandalags séu skráðir með nöfnum þeirra flokka sem að þeim standa. Aftur er það lítið mál fyrir Alþingi að bæta úr þessu. Ávinningurinn gæti orðið sá að línur yrðu eitthvað ljósari fyrir kosningar um það hvaða stjórnarmynstur kæmi til greina. Hugsanlega yrðu ekki fleiri en t.d. þrenn til fern stjórnmálasamtök (einstakir flokkar eða bandalög þeirra) í framboði. Eru ekki sumir að kalla eftir stórum fylkingum? Hví ekki að bjóða nú þegar upp á þennan möguleika?

Hér hafa verið nefnd tvö dæmi um það hvernig veita mætti kjósendum aukna valmöguleika og hugsanlega betri yfirsýn yfir hvað kunni að vera í vændum að kosningum loknum. Þessu getur sitjandi þing breytt og þarf ekki til þess aukinn meirihluta eins og skylt er við breytingar á kjördæmamörkum eða tilhögun á úthlutun þingsæta. Hitt er annað mál að kosningalög þarf að endurskoða í heild sinni, og það ekki seinna en með nýrri stjórnarskrá. En það má stíga fyrstu skref strax.

Þorkell Helgason, sat í stjórnlagaráði


 

Þurfum við ríkisstjórn?

Vitaskuld þarf ríkisstjórn. Þörf er á framkvæmdavaldi og er þá orðið vald ekki viðeigandi. Nær væri að tala um framkvæmdastjórn sem hefði það hlutverk að fylgja því eftir því sem Alþingi ákveður. Þingið er kosið af þjóðinni, ríkisstjórnin er ekki kosin. Samt hefur það verið svo – og ekki aðeins á Íslandi –  að valdið virðist vera hjá ríkisstjórn. Við í Stjórnlagaráði vildum snúa þessu við og tryggja Alþingi raunverulegt vald og virðingu. Við sáum fyrir okkur að það þætti meira um vert að vera þingflokksformaður en ráðherra, enda væru ráðherrar ekki jafnframt þingmenn.

„Hugsað út fyrir hefðina“ er fyrirsögn leiðara Magnúsar Guðmundssonar í Fréttablaðinu, sl. mánudag. Nú að loknum kosningum, sem skiluðu okkur nýjum og ferskum þingheimi, er einmitt tilefni og tækifæri til að velta upp hugmyndum um breytta stjórnarhætti. Hér verður reifað fyrirkomulag þar sem vilji fólksins birtist í afstöðu meirihluta þings í einstökum málum, en ekki í fyrirmælum „að ofan“. Er þá lausnin minnihlutastjórn eða utanþingsstjórn? Eiginlega hvorugt. Má ekki hugsa sér að sterkur meirihluti á Alþingi, helst allur þingheimur, komi sér saman um ríkisstjórn sem einbera framkvæmdastjórn? Það er þá hvorki minnihlutastjórn, eins eða fleiri flokka, né heldur embættismannastjórn sem forseti Íslands tilnefnir. Síðan sé það hlutverk þingsins að segja þessari stjórn fyrir verkum með lagasetningu og þingsályktunum. Vistaskuld þyrfti um leið að tryggja fagleg og virk vinnubrögð á þinginu, svo sem með því að afnema hið séríslenska málþófsþvaður.

Hvað gæti áunnist? Breiðari sátt, ma. vegna þess að meirihluti þings í einstökum málum endurspegli fremur þjóðarviljann en þingmeirihluti bundinn af stjórnarsáttmála. Sáttin gæti líka orðið meiri þar sem leita þyrfti málamiðlana í auknum mæli. Helsti ávinningurinn gæti þó orðið aukið traust milli þings og þjóðar.

Sagt kann að vera að ríkisstjórn, sem eigi allt sitt undir þinginu, geti ekki tekið nauðsynlegar og aðkallandi ákvarðanir. Í flestum tilfellum ynnist þó tími til að kalla eftir fyrirmælum frá Alþingi. Stjórnin gæti líka gert það sem gera þarf, en er þá ofurseld hugsanlegu vantrausti þingsins. Þá kynni það að vera áhyggjuefni að einstakar ákvarðanir þingsins stangist á. Ætla verður að þingið myndi haga sér á skynsamlegan hátt með auknu valdi og ábyrgð og þar með fyrirbyggja slíkt. Auk þess kynni að myndast samstaða á þingi um ákveðna málaflokka, án þess að um hefðbundið stjórnarsamstarf væri að ræða.

Vitaskuld þyrftu hugmyndir, sem þessi, að þróast og slípast til. Stíga mætti fyrsta skref í þessa veru með því að nýtt þing settist yfir fjárlagagerð og freistaði  þess að búa til samstæð sáttafjárlög. Það eru fá önnur mál sem mega ekki bíða um hríð. Það bráðliggur ekki á að mynda ríkisstjórn að hefðbundinni gerð. Hugsum út fyrir hefðina!

 

Valfrelsi kjósenda

[Eftirfarandi grein birtist á vefmiðlinum visir.is  2. júní 2016.]

Segjum að þrír bjóði sig fram til forsetakjörs. Nefnum þá A, B og C. Kjósandi nokkur er hrifnastur af C, en tekur þó mark á skoðanakönnunum sem segja að slagurinn standi á milli A og B. Hvað á hann að gera? Velja C og kasta atkvæði sínu hugsanlega á glæ? Eða velja annan hinna tveggja, þótt þeir séu honum ekki efstir í huga?

Ef farið hefði verið að tillögum Stjórnlagaráðs um fyrirkomulag forsetakjörs væri valið auðvelt fyrir vesalings kjósandann. Hann merkti við sinn mann, C, sem aðalval og við B til vara enda sé hann þó mun skárri kostur en A. Rætist spáin og fái C minnst fylgi flyst atkvæði kjósandans yfir á B, allt að hans ósk. Atkvæði hans fer ekki í glatkistuna.

Stjórnlagaráð lagði líka til að kjósendur fengju stóraukið vald til að velja sér frambjóðendur af lista (jafnvel fleiri en einum) og þyrftu ekki að láta sér nægja að krossa við pakkalausnir flokkanna.

Steypa Fréttablaðsins

Í dálki Fréttablaðsins þann 26. maí s.l., þeim sem ber heitið „Frá degi til dags“, er það talin undarleg barátta „í þágu lýðræðisins“ að vilja báðar ofangreindar breytingar á fyrirkomulagi kosninga. (Að vísu miðar þá blaðið við tvær kosningahrinur í forsetakjöri en ekki þá forgangsaðferð að sama marki, sem reifuð er að ofan og er af mörgum talin betri.) Blaðið segir það „áhugavert sniðmengi fólks“ sem beri þessar tvær umbætur fyrir brjósti. [Sjá https://timarit.is/files/41369329 ]

Nú vill svo til að nær 80% þeirra, sem afstöðu tóku í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 um nýmæli í stjórnarskrá, lýstu stuðningi við aukið vægi persónukjörs. Jafnframt vildu tveir þriðjuhlutar kjósenda byggja nýja stjórnarskrá á tillögum Stjórnlagaráðs þar sem m.a. er lögð til sú breyting á fyrirkomulagi forsetakjörs sem lýst er að ofan. Þetta „sniðmengi fólks“ sem virðist vera með vafasamar skoðanir á lýðræðinu er þá býsna stórt.

Í leiðaragrein blaðsins hinn 19. maí s.l. segir undir fyrirsögninni „Steypa leiðrétt“ að „stundum er borin á borð slík vitleysa í opinberri umræðu að manni fallast hreinlega hendur“. Er ekki umfjöllunin í dálkinum umrædda um meinta mótsögn þess að auka valfrelsi kjósenda í forsetakjöri sem og í þingkosningum „steypa“ af þessu tagi? Eða á þetta að vera (aula)fyndni?