by Þorkell Helgason | okt 19, 2012 | Á eigin vefsíðu
Umræða á Alþingi í gær um þjóðaratkvæðagreiðsluna um stjórnarskrármálið var afar mikilvæg og tímabær. Þar kom skýrt fram hjá forsætisráðherra svo og formanni þeirrar þingnefndar, sem fer með stjórnarskrármálið, að Alþingi mun taka tillögur stjórnlagaráðs til efnislegrar meðferðar eins og vera ber.
Tillögur stjórnlagaráðs eru afrakstur mikillar vinnu, ekki aðeins ráðsins sjálfs heldur í öllu því sem á undan er gengið, stjórnarskrárnefndar en ekki síst þjóðfundar. Engu að síður má bæta tillögurnar með nokkurri yfirlegu. Það á Alþingi að gera. Því var lýst yfir í gær.
Stóra spurningin í atkvæðagreiðslunni á morgunn er sú fyrsta; hún er um það hvort tillögur stjórnlagaráðs eigi að vera grundvöllur handa Alþingi til að byggja á og ljúka málinu. Forsætisráðherra sagði jafnframt að kjósendur ættu síðan að fá að leggja blessun sína yfir endanlega gerð endurbættrar stjórnarskrár í atkvæðagreiðslu samhliða næstu þingkosningum.
JÁ við fyrstu spurningunni er hvatning til Alþingis að halda málinu áfram á þessum grundvelli.
NEI mun því miður leiða til kyrrstöðu, til þess að stjórnarskrármálið fari aftur á byrjunarreit þar sem það hefur verið í nær sjö áratugi.
Hver svo sem úrslitin verða er þess óskandi að málið komist upp úr skotgröfum flokkanna og þingmenn leggi sig sameiginlega fram um að ljúka málinu fyrir næstu þingkosningar.
by Þorkell Helgason | okt 19, 2012 | Á eigin vefsíðu
Í umræðu gætir einatt misskilnings um tillögur stjórnlagaráðs um það hvernig kjósa skuli til Alþingis. Kjarni tillagnanna er einfaldur:
- Flokkar velja frambjóðendur á lista, allt eins og verið hefur.
- Listar eru ýmist kjördæmislistar eða landslistar. Sami frambjóðandi má vera á báðum stöðum.
- Hver kjósandi fer með eitt atkvæði sem hefur sama vægi alls staðar á landinu. Hann getur varið því til að merkja við listabókstaf eða valið frambjóðendur með persónukjöri.
- Þannig getur kjósandinn krossað annað hvort við einn kjördæmis- eða einn landlista, eins og nú, og leggur þá alla frambjóðendur á listanum að jöfnu.
- Eða hann getur tekið þátt í persónukjöri og merkt við einn eða fleiri frambjóðendur á kjördæmis- eða landslista þess flokks sem hann vill styðja. Hann má tína til frambjóðendum ýmist af kjördæmis- eða landslistanum eða af báðum. Alþingi getur gengið lengra og heimilað kjósendum að velja frambjóðendur þvert á flokka.
- Flokkarnir fá sín sæti og engar refjar á grundvelli allra atkvæða á landinu, hvort sem þau eru greidd listum hans beint eða skipt upp á milli einstakra frambjóðenda hans. Það mun því ríkja fullur jöfnuður á milli flokkanna, sem er engan veginn tryggt í núverandi kerfi.
- Þeir frambjóðendur ná kjöri í sæti síns flokks sem njóta mest stuðnings í persónukjörinu hvort sem það er vegna merkinga á kjördæmis- eða landslistum.
Gagnrýni á þetta fyrirkomulag byggir í meginatriðum á því að kjósendum er vantreyst; að þeir kunni ekki að verja atkvæði sínu. Einhvern veginn á allt fara í vaskinn ef kjósandi skyldi sjá atkvæði sínu vel varið með því að víkja frá kjördæmislistum og styðja landslista síns flokks eða merkja við einhverja þá frambjóðendur sem þar er að finna. Er það þá ekki frjáls ákvörðun kjósandans sjálfs? Er löggjafinn þess umkominn að hafa vit fyrir kjósandanum?
Á síðustu öld voru einatt skörungar í framboði á Vestfjörðum, svo að dæmi sé tekið. Margir þeirra hefðu efalaust líka boðið sig fram á landslistum ef þess hefði verið kostur og hiklaust fengið mikinn stuðning „að sunnan“.
Flokksforingjar verða efalaust í boði á landslistum undir nýju kerfi. Dettur þá einhverjum í hug að kjósendur á landsbyggðinni sem merkja við þá séu að „svíkja“ kjördæmi sitt? Þvert á móti eru þeir að leggja áherslu á að foringjarnir hugsi nú um þá ekki síður en höfuðborgarbúana.
Stjórnlagaráð bíður engu að síður upp á svokallaða „kjördæmavörn“ í tillögum sínum. Alþingi má í kosningalögum tryggja að viss lágmarksfjöldi þingmanna verðin að koma af kjördæmislistum. Þannig mætti tryggja landsbyggðarkjördæmunum allt að 23 þingsæti beint af kjördæmislistum þótt það kunni að ganga að nokkru á svig við persónukjörið. Vonandi þarf ekki að beita þessu ákvæði þegar í ljós er komið að kjósendur vita fullvel hvað þeir eru að gera í kjörklefanum.
Kosningakerfið í tillögum stjórnlagaráðs er ekki að fullu útfært. Það á að sjálfsögðu að gera í kosningalögum, en kerfinu er settur rammi í tillögum ráðsins.
Meginsjónarmiðið er að hverjum kjósanda er treyst fyrir atkvæði sínu.
by Þorkell Helgason | okt 18, 2012 | Á eigin vefsíðu
[Birtist í Fréttablaðinu 18. október 2012.]
Þjóðaratkvæðagreiðslan laugardaginn 20. október snýst um sjálfa stjórnarskrána, grunnlög landsins. Með góðri þátttöku veita kjósendur Alþingi trausta leiðsögn um hvert stefna skuli í stjórnarskrármálinu.
Atkvæðagreiðslan snýst um tillögur stjórnlagaráðs um gagngerar endurbætur á stjórnarskrá lýðveldisins, EKKI um neitt annað:
- Hún snýst EKKI um það hvort ríkisstjórnin sé góð eða slæm.
- Hún er HVORKI til að þóknast Jóhönnu NÉ til að storka forsetanum, eða öfugt.
- Hún er EKKI tæki til að mæla fylgi stjórnmálaflokkanna, til þess gefst tækifæri í vor.
- Hún snýst EKKI um það hvort Evrópusambandið sé friðarbandalag eða ekki.
- Hún er EKKI tilefni til að ergja sig yfir því sem er á undan gengið, hvort sem er ógilding stjórnlagaþingskosningarinnar eða málsmeðferðin á Alþingi.
- Hún snýst EKKI um persónur þeirra sem sátu í stjórnlagaráði; þeim hvorki til lofs né lasts.
Viðfangsefnið er einungis og alfarið efni tillagna stjórnlagaráðs auk fimm álitamála í því sambandi.
Mörgu er ranglega haldið fram um hvað felst í tillögum ráðsins:
Í tillögunum er ekki kveðið á um inngöngu í Evrópusambandið. Þvert á móti eru þar ákvæði sem tryggja að slík ákvörðun verður aðeins tekin af þjóðinni sjálfri í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu.
- Það er EKKI verið að vega að landsbyggðinni með því mannréttindaákvæði að allir hafi jafnan atkvæðisrétt. Þvert á móti eru settir varnaglar í kosningakerfið til að tryggja landsbyggðinni eðlilega tölu fulltrúa á þingi. Um leið er í fyrsta sinn kveðið á um að ákvarðanir skuli eftir föngum teknar í heimabyggð.
- Það er EKKI verið að gera atlögu að flokkunum með persónukjörstillögum ráðsins. Flokkarnir eiga og munu eftir sem áður vera máttarstólpar lýðræðisins m.a. með því að tilnefna þá frambjóðendur sem kjósendum bjóðast.
- Það er EKKI verið að rýra þingræðið enda þótt þjóðin sjálf fái aukin tækifæri til að grípa inn í lagasetninguna. Þvert á móti eru ákvæði sem efla Alþingi til mótvægis við framkvæmdarvaldið.
- Það er EKKI verið að bylta uppbyggingu samfélagsins. Þvert á móti eru stoðir þess styrktar með skýrari skiptingu valdþáttanna.
- Það er EKKI verið að koma á forsetaræði að franskri eða amerískri mynd. Þvert á móti er vald forsetans og verksvið hans afmarkað með skýrum hætti og honum falið eftirlits- og aðhaldshlutverk, að vera öryggisventill ef í óefni stefnir. En vissulega veldur hver á heldur.
- Það er EKKI verið að koma á ríkisrekstri í sjávarútvegi, eins og heyrst hefur. Þvert á móti er frelsi til athafna óskert að virtum sanngjörnum reglum.
- Það er EKKI verið að leggja þjóðkirkjuna niður, hvað þá að víkja frá kristnum grunngildum. Þvert á móti eru sjónarmið miskunnsama Samverjans leiðarljós í bættum ákvæðum um félagsleg mannréttindi.
Fyrsta og um leið meginspurningin á atkvæðaseðlinum á laugardaginn er sú hvort leggja skuli tillögur ráðsins til „grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá“.
Já við þessari grunnspurningu felur ekki í sér samþykkt á endanlegri gerð nýrrar stjórnarkrár. En jáyrði vísar Alþingi veginn um framhaldið. Þingið verður í kjölfarið að bregðast við niðurstöðunum um álitamálin fimm, við áliti lögfræðingahóps um nauðsynlegar lagfæringar en líka við þeim ábendingum öðrum sem fram hafa komið og til bóta horfa.
Jáyrði við meginspurningunni felur ekki í sér kröfu um að Alþingi breyti engu í tillögum stjórnlagaráðs heldur þvert á móti áskorun um að vinna málið áfram á uppbyggjandi hátt, en á „grundvelli“ tillagnanna.
Að þessu sögðu mæli ég með eftirfarandi hrinu svara við spurningunum sex:
Já – Já – Nei – Já – Já – Já.
En umfram allt, tökum þátt í mótun samfélagssáttmálans og skundum á kjörstað 20. október.
by Þorkell Helgason | okt 12, 2012 | Á eigin vefsíðu
[Birtist í Fréttablaðinu 11. október 2012.]
Í pistlum undanfarnar vikur hafa verið reifaðar þær fimm spurningar sem lagðar verða fyrir þjóðina 20. október n.k. og fjalla um einstök lykilatriði í nýrri stjórnarskrá. Eftir situr fyrsta, og um leið aðalspurningin, um það hvort tillögur stjórnlagaráðs skuli lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.
Spurningin er í heild þannig: „Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?“
Spurningin er nokkuð opin, væntanlega vísvitandi. Fyrir liggur að þingnefnd sú sem fjallar um málið er að láta hóp lögfræðinga yfirfara tillögur stjórnlagaráðs. Ekki til að breyta þeim efnislega, heldur til að lagfæra hugsanlega fræðilega hnökra. Jafnframt verður að ætla að þingnefndin muni bregðast við svörum þjóðarinnar við sundurgreindu spurningunum fimm. Komi ótvírætt í ljós að þjóðin vilji hafa einhver af þeim atriðum sem um er spurt á annan veg en stjórnlagaráð leggur til, hlýtur þingnefndin að breyta frumvarpinu eins og það kom frá ráðinu til samræmis.
Grundvallarspurningin er því hvort leggja skuli tillögur stjórnlagaráðs fyrir þingið sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá eftir lagatæknilegar lagfæringar og breytingar í samræmi við úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar.
Þjóðaratkvæðagreiðslan er einungis ráðgefandi fyrir þá nefnd þingsins sem mun að lokum leggja frumvarpið fyrir þingið. Síðan tekur við umræða og afgreiðsla á þinginu sjálfu. Þingið gæti átt til að breyta frumvarpinu enn frekar – en vonandi aðeins til bóta! Þjóðin er því ekki að taka afstöðu til endanlegrar gerðar stjórnarskrár á þessu stigi. Vonandi gefst henni tækifæri til þess á lokastigi. Þjóðaratkvæðagreiðslan 20. október er engu að síður afar mikilvægur áfangi að því marki að fá lýðveldinu endurbætta og heilstæða stjórnarskrá.
Rök fyrir JÁ við spurningunni
Þjóðin hefur búið við bráðabirgðastjórnarskrá allan lýðveldistímann. Nú er tækifæri til að setja okkur tryggan, íslenskan samfélagssáttmála. Það er allsendis óvíst hvort annað tækifæri gefst næstu áratugina.
Í stjórnarskrárfrumvarpi stjórnlagaráðs eru m.a. eftirfarandi nýmæli:
- Ákvæði um mannréttindi efld.
- Náttúruvernd gert hærra undir höfði en áður.
- Auðlindir skilgreindar sem þjóðareign og kveðið á um afnotagreiðslur.
- Jafn atkvæðisréttur allra og persónukjör.
- Staða Alþingis styrkt andspænis framkvæmdarvaldinu.
- Ítarleg ný ákvæði um beint lýðræði.
- Stjórnarskráin vernduð með skipun eftirlitsnefndar, Lögréttu.
- Ákvæði um forseta Íslands gerð skýr og honum falið aðhaldshlutverk.
- Þingræðið treyst, m.a. með því að Alþingi kjósi forsætisráðherra.
- Ákvæði til að tryggja óháð val á dómurum.
- Sveitarfélögunum lyft á stall í sérstökum kafla.
- Tryggt að ekki verði af inngöngu í Evrópusambandið nema þjóðin ákveði það sjálf.
- Þjóðin staðfesti framvegis stjórnarskrárbreytingar.
Rök fyrir NEI við spurningunni
Úrtöluraddir heyrast:
- „Ekki núna heldur seinna“ segja sumir. Svo hefur verið talað í nær sjötíu ár. Tilraunir hafa verið gerðar til semja nýja stjórnarskrá – en án árangurs. Einmitt nú gefst kjósendum kostur á að tjá hug sinn og stuðla að gagngerum umbótum á stjórnarskránni.
- „Það er verið að bylta stjórnarskránni“ er sagt. Þetta eru ýkjur. Það eru tiltölulega fá atriði sem breytast umtalsvert, en lykilatriði að vísu. En einmitt um flest þeirra verður spurt í þjóðaratkvæðagreiðslunni.
- „Gamla stjórnarskráin olli ekki kreppunni“ er líka sagt. Hún var e.t.v. ekki bein orsök en með því herta aðhaldi að valdinu sem lagt er til í stjórnarskrárfrumvarpinu er það gert ólíklegra að þvílík ósköp af mannavöldum hendi okkur aftur.
- Heyrist hefur að það hafi ekki verið „rétta“ fólkið sem sat í stjórnlagaráði. Hverjir völdust til verksins má ekki skipta máli heldur innihaldið í því sem lagt er til. Kjósendur dæmi af verkunum, ekki höfundunum. Aukin heldur kom fjöldi annarra en stjórnlagaráðsmanna að málinu, svo sem stjórnlaganefnd, sérfræðingar stjórnlagaráðs og fyrri stjórnarskrárnefndir, en ekki síst þúsundmannafundur þjóðarinnar haustið 2010.
- „Frumvarp stjórnlagaráðs er gallað“ segja einstaka fræðingar, en nefna þó sjaldnast bitastæð dæmi. Vitaskuld getur gott lengi batnað. Verið er að yfirfara lögfræðina í frumvarpinu og þjóðin mun kveða upp úr um nokkur álitamál í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Síðan geta þingmenn, velviljaðir málinu, bætt um betur þegar frumvarpið hefur verið lagt fram. Fullyrða má að aldrei hafi jafn vel verið staðið að endurbótum á stjórnarskránni og nú.
Ályktun
Valið stendur aðeins um tvennt: Stjórnarskrá sem byggð er á frumvarpi stjórnlagaráðs eða núgildandi bráðabirgðastjórnarskrá frá 1944. Vilji kjósendur koma í veg fyrir að málinu verði drepið á dreif og að stjórnarskrárumbætur verði að engu eiga þeir að flykkjast á kjörstað og gjalda stjórnarskrárfrumvarpinu jáyrði sitt.
Verði þátttaka 20. október góð og afstaða kjósenda afgerandi hlýtur þingið að taka mark á niðurstöðunum og greiða götu nýrrar stjórnarskrár sem getur tekið gildi 17. júní 2013.
Höfundur þessa pistils bendir á að nú gefst einstætt tækifæri til að stuðla að bættum stjórnarháttum og mælir því eindregið með jáyrði við grundvallarspurningunni um stjórnarskrárfrumvarpið.
by Þorkell Helgason | okt 3, 2012 | Á eigin vefsíðu
[Birtist í Fréttablaðinu 3. október 2012.]
Þetta er innihaldið í spurningu sem lögð verður fyrir þjóðina 20. október n.k. Orðrétt hljóðar hún svo: „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu?“
Þjóðaratkvæðagreiðslur hafa ekki verið algengar á Íslandi, enda þótt forsetinn hafi frá lýðveldisstofnun haft vald til að fela þjóðinni að staðfesta eða fella lög frá Alþingi. Núverandi forseti varð fyrstur til að nýta þetta ákvæði eins og kunnugt er. Á hinn bóginn hefur lengi verið um það rætt að kjósendur sjálfir ættu að geta kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu. Jafnframt hefur komið til álita að minnihluti þings gæti gripið til þessa úrræðis.
Alþingi fól stjórnlagaráði sérstaklega að gera tillögu í þeim efnum. Allir þrír möguleikarnir voru ræddir, þ.e.a.s. að frumkvæði að þjóðaratkvæði gæti komið frá forseta Íslands, frá skilgreindum minnihluta Alþingis eða beint frá kjósendum sjálfum. Niðurstaðan varð sú að horfa einkum til síðasta möguleikans, frumkvæðis þjóðarinnar sjálfrar, en halda þó málsskotsrétti forsetans sem algerum neyðarhemli.
Í 65. gr. frumvarps ráðsins er lagt til að 10% kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um gildi laga frá Alþingi jafnframt því sem málskotsrétti forsetans er haldið (60. gr.). En þjóðaratkvæðagreiðsla er vandmeðfarið úrræði sem ekki má leggja við hégóma. Í 67. gr. frumvarps síns leggur stjórnlagaráð til að kjósendur geti ekki krafist atkvæðagreiðslu um viss fjárhags- og þjóðréttarmál. Jafnframt er mælt fyrir um setningu laga um alla málsmeðferð svo sem um vandvirkni og formfestu við undirskriftasafnanir.
Í stjórnlagaráði var rætt um hvort hafa ætti skilyrði um þátttöku til að þjóðaratkvæðagreiðsla teldist gild. Gallinn við slík ákvæði er sá að þá getur það verið beittara vopn að sitja heima en mæta á kjörstað og taka afstöðu. Markmiðið um að fá fram berorða skoðun þjóðarinnar næðist þá ekki. Af þessum sökum hvarf stjórnlagaráð frá þáttökuskilyrðum enda eru engin slík ákvæði í gildandi stjórnarskrá. Benda má á lýðræðislegri leið. Hún gæti falist í því að þingmenn teldust taka ákvörðun fyrir þann hluta þjóðarinnar sem tekur ekki þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni.
Rök fyrir JÁ við spurningunni
Spurningin í þjóðaratkvæðagreiðslunni er almennt orðuð; hún snýst um markmiðið sjálft, ekki um útfærslu stjórnlagaráðs. Henni má hnika til, ef þarf.
Rökin fyrir því að svara með jáyrði eru m.a. þessi:
- Allt vald í lýðræðisríkjum er komið frá fólkinu sjálfu. Það felur að jafnaði kjörnum fulltrúum að fara með vald sitt eftir umboði. En að sama skapi á þjóðin að geta kallað valdið aftur til sín, m.a. með því að vefengja lagasetningu fulltrúaþingsins.
- Eindregin krafa kom fram á Þjóðfundinum 2010 um aukna aðkomu þjóðarinnar að ákvörðunum í mikilvægum málum.
- Þróunin nær hvarvetna í kringum okkur er í áttina að hæfilegu blandi af fulltrúalýðræði og beinu lýðræði. Við höfum verið eftirbátar annarra.
- Vilji þjóðarinnar til að geta úrskurðað í mikilvægum málum kom fram í góðri þátttöku í báðum þjóðaratkvæðagreiðslunum um Icesave-málið.
- Beint lýðræði kallar á ábyrgð fólksins og vekur þannig áhuga þess á lýðræðinu. Ekki veitir af þegar traust á stjórnvöldum öllum er í lágmarki.
Rök fyrir NEI við spurningunni
Vissulega eru líka rök fyrir því að stíga varlega til jarðar í beinu lýðræði:
- Sumir vitna til Kaliforníu þar sem atbeini kjósenda er sagður hafa stefnt ríkisfjármálunum í óefni (sem er reyndar þjóðsaga). Við þessu má sjá með því að leyfa ekki atkvæðagreiðslu um fjárhagsleg málefni og nokkur önnur viðkvæm mál. Þessi varnagli er í tillögum stjórnlagaráðs um frumkvæði almennings eins og fyrr segir.
- Sagt er að auðvelt sé að æsa 10% þjóðarinnar upp gegn óvinsælli en óhjákvæmilegri lagasetningu þingsins. Spurningin sem lögð verður fyrir þjóðina í haust snýst ekki um þetta hlutfall. Þyki mönnum það of lágt er hægur vandi að hækka það í meðförum þingsins.
- Sumir telja unnt að fá undirskriftir undir hvað sem er á Íslandi. Ekki er víst að þessi fullyrðing sé rétt. Alla vega hefur sumum reynst örðugt að safna meðmælendum í kosningum, t.d. við forsetakjör. Stjórnlagaráð velti vöngum yfir þessu atriði og leggur til að sett verði ströng ákvæði um undirskriftarsafnanir.
Ályktun
Allir valdhafar, líka þingmenn, starfa í umboði þjóðarinnar. Þegar hún telur þörf á kallar hún valdið til baka. Þannig eiga fulltrúaræðið og beina lýðræðið að geta styrkt hvort annað.
Pistilhöfundur mælir því með jáyrði við spurningunni um það hvort kjósendur geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu.