by Þorkell Helgason | nóv 26, 2010 | Á eigin vefsíðu
Í Reykjavík og reyndar víða um land ætla frambjóðendur að hittast í kvöld kl. 20, kveikja á kertum og sýna þannig á táknrænan hátt samhug sinn og þakklæti fyrir að „kosningabaráttan“ hefur verið bæði málefnaleg og hófstilt. Í Reykjavík hittast frambjóðendur við Þjóðmenningarhúsið á Hverfisgötu og ganga svo fylktu liði að Lýðveldistorginu fyrir ofan Þjóðleikhúsið.
by Þorkell Helgason | nóv 25, 2010 | Á eigin vefsíðu
Ekki gleyma að kjósa. Þeir sem missa af lestinni verða þá að reyna að mæta á kjörstað á laugardag. Góð kjörsókn er grunnforsenda þess að stjórnlagaþingið verði farsælt þjóðinni. Kjósum öll. Samkvæmt tölum er staða utankjörstaðaatkvæðagreiðslu svipuð og við síðustu sveitarstjórnarkosningar. Er þjóðin að taka við sér? Góðar fréttir fyrir stjórnlagaþingið? Vonandi.
by Þorkell Helgason | nóv 25, 2010 | Á eigin vefsíðu
Mikill misskilningur og rangfærslur eru á ferðinni um kosningaraðferðina, enda þótt meginhugsunin sé sáraeinföld:
- Sá sem er í efstu vallínu er sá sem hefur forgang að atkvæðinu. Hann situr í aðalvallínunni.
- Sé hann úr leik – hefur náð kjöri – eða fallið út sakir lítils fylgis færist atkvæðið til þess sem er næstur á óskalista kjósandans og færist í aðalvallínuna
- Og svo koll af kolli.
Það er því höfuðatriði að raða, og það sem flestum. En það er efsta línan sem er aðallínan. Þessu má lýsa með mynd:
by Þorkell Helgason | nóv 25, 2010 | Á eigin vefsíðu
Nokkrir vinir hafa sent mér framboðsvísur. Þessi er frá sr. Hjálmari Jónsyni:
Hvatningu sífellt ég syng,
síst má því gleyma
að senda Þorkel á þing,
þar á hann heima.
Meðframbjóðandinn sr. Þórir Jökull Þorsteinsson sparar ekki dönskuna á mig auk blessunar:
Besta ósk með blessun sé,
borin fram af heilu þeli.
Otte og tyve, fem og tre,
telst þú heita núna Keli.
Leikfimisfélagi minn í Menningarfélagi Háskólans, Þórður Jóhannesson, orti auðkennisnúmeravísur um alla þrjá frambjóðendurna sem eri í þessu merka félagi, þ.e. auk mín þá Gísla Má Gíslason og Júlíus Sólnes. Á mig pundar hann svona:
Tvisturinn er tala góð
teymir með sér áttu.
Fimman þar næst fetar slóð
fylgja þristinn láttu.
Ef þú vilt, kjósandi, Þorkel á þing
þér númer hans rétt er að tjá.
Ég tuttugu‘ og átta‘ að þér tölunni sting
sem tengist við fimmtíu og þrjá.
Að lokum orti granni minn hér á Álftanesinu, Sigtryggur Jónsson, orti limru:
Enginn um fróðleik og vit honum frýr,
í framsetning allri með eindæmum skýr.
Þorkell að nafni
mun standa í stafni,
stimplirðu tveir – átta , fimm, þrír.
by Þorkell Helgason | nóv 25, 2010 | Á eigin vefsíðu
Allmargir kjósendur hafa spurt mig um afstöðu mína til þjóðkirkjuákvæðis stjórnarskrárinnar.
Í grundvallaratriðum tel ég óeðlilegt að fjallað sé um einstök trúfélög í stjórnarskránni. Eðlilegt er að trúfrelsi borgaranna og jafnræði trúfélaga sé tryggt í mannréttindakafla hennar. Að mínu mati eiga trúmálin fyrst og fremst heima á þeim vettvangi.
Á hinn bóginn er þjóðkirkjan svo samofin íslensku samfélagi og menningarlífi að taka verður tillit til þess við alla ákvarðanatöku í málinu. Ekki má heldur gleyma því að grunngildin sem stjórnarkrá okkar byggist á og grunngildi kristinnar trúar fara saman. Þessi gildi eru ekki tilgreind í stjórnarskránni. Væntanlega hafa þeir sem mótað hafa stjórnarskrána ekki talið þörf á því m.a. með vísan til kristinnar undirstöðu hennar. Ég er aftur á móti þeirrar skoðunar að slík grunngildi eigi að festa í stjórnarskránni sjálfri.
Í 2. mgr. 79. gr. gildandi stjórnarskrár er kveðið á um að sérhverja breytingu á „kirkjuskipun ríkisins“, þ.e. 62. gr., skuli bera undir þjóðaratkvæði. Mér finnst því við hæfi að leita beint til þjóðarinnar um þetta mál, annað hvort um leið og ný eða endurbætt stjórnarskrá yrði borin undir þjóðaratkvæði, sem verður að gerast, eða síðar. Ég sé fyrir mér að þjóðin veldi um þrjá kosti:
- Óbreytta skipan þjóðkirkjunnar, þ.e. 62. gr. efnislega óbreytt.
- Sérákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá sé alfarið fellt brott, þ.e. afnám 62. gr.
- Millileið, og mætti þá leita í smiðju annarra Norðurlanda einkum Svía um fyrirmynd, en þar hefur ríkið gert eins konar þjónustusamning við kirkjuna.
Allt kallar þetta á rækilega umfjöllun á stjórnlagaþingi og nái ég kjöri mun ég leita eftir sátt í þessu máli sem og öðrum.
Ég vil taka það fram að málið er mér skylt. En mjög er kallað eftir því að frambjóðendur upplýsi um „hagsmunatengsl“ sín eins og það er gjarnan nefnt. Málvextir eru þeir að kona mín sáluga, Helga Ingólfsdóttir, stóð að Sumartónleikum í Skálholtskirkju í 30 sumur og þar var ég henni ávallt til aðstoðar. Í Skálholti var okkar annað heimili og staðurinn er mér mjög kær.