Skip to content

Stjórnarskráin sem vörn gegn græðgi og afglöpum

Höfundur: Þorkell Helgason, October 17th, 2010

Kosið verður til stjórnlagaþings 27. nóvember. Þinginu er ætlað að hefja störf um miðjan febrúar á næsta ári. Alþingi hefur glímt við það í 66 ár að móta lýðveldinu heilsteypta stjórnarskrá en án umtalsverðs árangurs. Stjórnlagaþing er því mikilvægt nýmæli til að koma málinu í höfn. Brýnt er að þjóðin grípi tækifærið og láti sig það sem framundan er miklu varða, þjóðfundinn, kosninguna til stjórnlagaþings og síðan þinghaldið sjálft.

Er þörf á endurbættri stjórnarskrá? Svo er vissulega þótt núverandi stjórnarskrá sé að grunni til gott skjal enda mótað af frelsisanda nítjándu aldar. En hún hefur hvorki verið vörn gegn græðgi sérhagsmunaseggja né heldur hefur hún spornað við afglöpum í stjórnarháttum. Það náðist ekki að hemja þá sem kollsigldu bankakerfinu að stjórnvöldum áhorfandi. Hugsanlega hefði mátt stemma stigu við óförunum með stjórnarskrárbundnu aðhaldi þar sem valdaþættirnir vaka hver yfir öðrum, ekki síst með auknu sjálfstæði Alþingis. Einkavæðing bankanna hefði þá farið fram með siðaðri hætti en raunin var og Alþingi geta gripið í taumana þegar vöxtur þeirra fór úr böndunum.

Stjórnarskrá er þó ekki fyrir fortíðina heldur framtíðina. Hana þarf að styrkja sem sáttmála um lýðræði, mannréttindi og jafnrétti. Þetta eiga að vera grunngildi í samfélagi þar sem manninum sé sýnd virðing og allir fái meira að vita og hafa áhrif. Til þess að mistök fortíðarinnar endurtaki sig ekki þarf að gera hlutverk Alþingis og ríkisstjórnar skýrara. Á að skilja alfarið milli löggjafarvalds – Alþingis – og framkvæmdarvalds – ríkisstjórnar – með því að forsætisráðherra sé kosinn af almenningi? Eða á að fara þveröfuga leið og auka vald og virðingu Alþingis með því að það stjórni framkvæmdarvaldinu beint og ráði jafnvel fagmenn til að stýra ráðuneytunum? Ætti ekki að fela Hæstarétti hlutverk stjórnlagadómstóls? Hlutverk forseta Íslands þarf að yfirfara gaumgæfilega. Til álita kemur að forsetinn geti skotið lögum frá Alþingi til Hæstaréttar leiki vafi á því að lögin samrýmist stjórnarskrá. Þetta og margt fleira þarf að gaumgæfa á stjórnlagaþingi.

Við endurgerð stjórnarskrárinnar verður að engu að síður gæta hófs. Efalaust munu koma fram óskir um mörg nýmæli sem kunna að leiða til umfangsmeiri stjórnsýslu en nú er. Við því verður að gjalda varhug. Við verðum að skapa okkur stjórnkerfi sem hentar lítilli þjóð. Til dæmis hafa komið fram hugmyndir um þriðja stjórnsýslustigið, landshlutastjórnir á milli ríkisvaldsins og sveitarfélaganna. Mikilvægara er að fá þjóðarsáttamála sem dregur úr hrepparíg og þjappar þessari litlu þjóð saman.

Smæð þjóðarinnar veitir okkur á hinn bóginn tækifæri til beinnar þátttöku almennings í vali á fulltrúum sínum og aukinnar aðildar að ákvarðanatöku með almennum atkvæðagreiðslum. Meðal þess sem hyggja þarf að er hvernig kosið er til þings og sveitarstjórna. Persónukjör í stað listakjörs er tvímælalaust kall tímans. Kosningin framundan til stjórnlagaþings er stórmerkur áfangi á þeirri leið. Þar eru einstaklingar í framboði og kosningarkerfið þannig útfært að kjósendur fá miklu ráðið með atkvæði sínu. Því er brýnt að kosningarþátttaka verði góð og kjósendur nýtti sé valrétt sinn til fullnustu.

Ég býð mig fram til setu á stjórnlagaþingi. Nái ég kjöri mun ég m.a. halda fram ofangreindum sjónarmiðum en ég mun hlusta á viðhorf annarra og taka rökum. Samfélagssátt fæst aðeins með samræðu á stjórnlagaþingi og samráði við þjóðina. Ég mun hafa almannaheill að leiðarljós. Ég þigg engin fjárframlög til framboðs míns og dreg ekki taum neinna sérhagsmuna.
Þorkell Helgason, stærðfræðingur – frambjóðandi til stjórnlagaþings

Comments are closed.