by Þorkell Helgason | okt 31, 2016 | Á eigin vefsíðu
Vitaskuld þarf ríkisstjórn. Þörf er á framkvæmdavaldi og er þá orðið vald ekki viðeigandi. Nær væri að tala um framkvæmdastjórn sem hefði það hlutverk að fylgja því eftir því sem Alþingi ákveður. Þingið er kosið af þjóðinni, ríkisstjórnin er ekki kosin. Samt hefur það verið svo – og ekki aðeins á Íslandi – að valdið virðist vera hjá ríkisstjórn. Við í Stjórnlagaráði vildum snúa þessu við og tryggja Alþingi raunverulegt vald og virðingu. Við sáum fyrir okkur að það þætti meira um vert að vera þingflokksformaður en ráðherra, enda væru ráðherrar ekki jafnframt þingmenn.
„Hugsað út fyrir hefðina“ er fyrirsögn leiðara Magnúsar Guðmundssonar í Fréttablaðinu, sl. mánudag. Nú að loknum kosningum, sem skiluðu okkur nýjum og ferskum þingheimi, er einmitt tilefni og tækifæri til að velta upp hugmyndum um breytta stjórnarhætti. Hér verður reifað fyrirkomulag þar sem vilji fólksins birtist í afstöðu meirihluta þings í einstökum málum, en ekki í fyrirmælum „að ofan“. Er þá lausnin minnihlutastjórn eða utanþingsstjórn? Eiginlega hvorugt. Má ekki hugsa sér að sterkur meirihluti á Alþingi, helst allur þingheimur, komi sér saman um ríkisstjórn sem einbera framkvæmdastjórn? Það er þá hvorki minnihlutastjórn, eins eða fleiri flokka, né heldur embættismannastjórn sem forseti Íslands tilnefnir. Síðan sé það hlutverk þingsins að segja þessari stjórn fyrir verkum með lagasetningu og þingsályktunum. Vistaskuld þyrfti um leið að tryggja fagleg og virk vinnubrögð á þinginu, svo sem með því að afnema hið séríslenska málþófsþvaður.
Hvað gæti áunnist? Breiðari sátt, ma. vegna þess að meirihluti þings í einstökum málum endurspegli fremur þjóðarviljann en þingmeirihluti bundinn af stjórnarsáttmála. Sáttin gæti líka orðið meiri þar sem leita þyrfti málamiðlana í auknum mæli. Helsti ávinningurinn gæti þó orðið aukið traust milli þings og þjóðar.
Sagt kann að vera að ríkisstjórn, sem eigi allt sitt undir þinginu, geti ekki tekið nauðsynlegar og aðkallandi ákvarðanir. Í flestum tilfellum ynnist þó tími til að kalla eftir fyrirmælum frá Alþingi. Stjórnin gæti líka gert það sem gera þarf, en er þá ofurseld hugsanlegu vantrausti þingsins. Þá kynni það að vera áhyggjuefni að einstakar ákvarðanir þingsins stangist á. Ætla verður að þingið myndi haga sér á skynsamlegan hátt með auknu valdi og ábyrgð og þar með fyrirbyggja slíkt. Auk þess kynni að myndast samstaða á þingi um ákveðna málaflokka, án þess að um hefðbundið stjórnarsamstarf væri að ræða.
Vitaskuld þyrftu hugmyndir, sem þessi, að þróast og slípast til. Stíga mætti fyrsta skref í þessa veru með því að nýtt þing settist yfir fjárlagagerð og freistaði þess að búa til samstæð sáttafjárlög. Það eru fá önnur mál sem mega ekki bíða um hríð. Það bráðliggur ekki á að mynda ríkisstjórn að hefðbundinni gerð. Hugsum út fyrir hefðina!
by Þorkell Helgason | okt 26, 2016 | Á eigin vefsíðu
[Við Jóns Steinsson, hagfræðingur höfum tekið saman eftirfarandi yfirlit yfir fyrirætlanir Færeyinga um kvótauppboð og komið efninu á framfæri við nokkra fjölmiðla.]
Nefnd skipuð af sjávarútvegsráðherra Færeyja skilaði 3. október s.l. ítarlegri skýrslu um skipan fiskveiðistjórnunar sem taki gildi í ársbyrjun 2018 en þá falla núverandi fiskveiðistjórnunarlög úr gildi. Skýrsluna má finna á vef ráðuneytisins færeyska; sjá http://www.fisk.fo/kunning/tidindi/neydugar-tillagingar-i-foroysku-fiskivinnuni/.
Skýrsla nefndarinnar ber heitið „Ný og varanleg skipan fiskveiðimála fyrir Færeyjar“. Hún er afar ítarleg, nær 250 síður að lengd, og áhugaverð fyrir alla þá sem er umhugað um að finna góða málamiðlun í kvótamálunum hér á landi.
Nefndinni var með erindisbréfi ráðherra falið að fjalla um öll lykilatriði í skipan færeysks sjávarútvegs. Í þessu yfirliti verður þó einblínt á þann þátt í erindisbréfinu sem felur nefndinni að útfæra skipan á stjórnun veiðanna sem byggir á markaðslausnum. Nefndin leggur til að þetta verði útfært með uppboðum á veiðiheimildum. Nánar tiltekið leggur hún til að árlega verði allstór hluti fiskveiðiheimilda boðinn upp en rétturinn að afganginum framlengdur til árs í senn. Þó skal það þannig gert að þegar frá upphafi renni auðlindarentan að fullu í landssjóð. Lagt er til val á milli tveggja leiða sem þó eru náskyldar. Hér verður þó aðeins horft til þeirrar leiðarinnar sem er einfaldari í framsetningu, leiðar 2.
Þessa meginleið færeysku nefndarinnar má bera saman við hugmyndir hér á landi um varfærna fyrningu veiðiheimilda og uppboð á þeim heimildum sem þannig losna. Má þar vísa til skýrslu sem við undirritaðir unnum fyrir stjórnskipaða nefnd um endurskoðun á stjórn fiskveiða sumarið 2010, nánar tiltekið til þeirrar gerðar þar sem hluti aflaheimilda er boðinn upp til árs í senn en með skertum forleigurétti um framhaldið. Skýrsla okkar er aðgengileg hér: http://www.columbia.edu/~js3204/greinar/tilbodsleidin.pdf
Bæði í færeysku hugmyndunum og hugmyndum okkar er gengið út frá aflamarkskerfi til ráðstöfunar á leyfðum heildarafla. Jafnframt hafa hugmyndirnar það sammerkt að í upphafi er gengið er út frá þeim heimildum sem útgerðirnar hafa þá og þeim endurúthlutað með vissri skerðingu eða fyrningu. Þessi skerðing haldi síðan áfram hlutfallslega á hverju ári. Það sem þannig losnar verði boðið upp til árs í senn með fyrirheiti um endurúthlutun en með fyrrgreindum skerðingarákvæðum. Í báðum hugmyndunum má setja tilbjóðendum skilyrði eins og að þeir verði að vera innlendir og að setja megi því skorður hvað safnast megi á sömu útgerð.
Hugmyndirnar eru þó gjörólíkar að því leiti að Færeyingar vilja bæði bjóða stærri hluta heimildanna upp á hverju ári en við lögum til í okkar hugmyndunum. Ennfremur fá núverandi handhafar veiðiréttindanna enga fjárhagslega aðlögun í tillögum Færeyinganna, en í okkar hugmyndunum er núverandi kvótahöfum veitt drjúg aðlögun. Draga má þennan afgerandi mun saman þannig:
- Færeyingar vilja bjóða upp 20% heimildanna á hverju ári en endurúthluta 80%. Í okkar hugmyndum er gengið út frá mun hægari innkomu uppboða, eða 8% á ári. Endurúthlutunarhlutfallið er að sama skapi hærra í okkar tillögum, eða 92%.
- Færeyingar veita þeim útgerðum, sem fyrir eru, engin grið. Enda þótt þeim sé gefin kostur á að fá 80% af fyrri heimildum endurúthlutuðum – fram hjá uppboðunum – þurfa þeir að greiða fyrir þær heimildir fullt verð, það verð sem verður til á uppboðunum. Í okkar hugmyndum fá núverandi kvótahafar 92% réttinda sinna framlengd og það án nokkurs endurgjalds, en með árlegri skerðingu.
- Auðlindaarðurinn – sá umframarður sem verður til við nýtingu takmarkaðra en eftirsóttra gæða – er strax í upphafi innheimtur að fullu í landssjóðinn í tillögum Færeyinga. Í okkar hugmyndum er aðeins 8% arðsins innheimtur á fyrsta ári og eftir að nýtt kerfi væri búið að vera í gildi í 9 ár skiptist þessi aukaarður enn að jöfnu milli samfélagssjóða og gömlu útgerðanna.
Aðferðafræðin í hugmyndum færeysku nefndarinnar og í uppboðs- og fyrningarleiðinni eins og við höfum útfært hana er að grunni til eins. Það sem á milli skilur er hvað Færeyingar vilja fara greitt af stað. Okkar tillögur eru varfærnari og veita núverandi útgerðum mjög drjúgan aðlögunartíma.
Meginatriðin í færeysku hugmyndunum og okkar hugmyndum koma fram í eftirfarandi viðauka, þar sem tillögurnar eru um leið bornar saman.
Þorkell Helgason, thorkellhelga@gmail.com, + 354 499 3349 og + 354 893 0744
Jón Steinsson, jsteinsson@columbia.edu, +1 857 919 3675
Viðauki: Samanburður á tillögum nefndar Færeyinga og okkar hugmyndum um fyrningar- og uppboðsleið. Þau atriði þar sem verulegu munar eru með rauðu letri. |
Atriði |
Færeyingar |
Þorkell og Jón |
|
|
|
Stjórn fiskveiðanna |
Aflamarkskerfi, þar sem skilgreindur er leyfilegur afli hvers fiskiskips af hverri tegund á viðkomandi ári. |
Aflamarkskerfi, eins og verið hefur og tillaga Færeyinga gengur út frá. |
Uppboð |
20% aflaheimilda hvers árs verði boðin upp með fyrirheiti um endurúthlutun. |
5-15% (t.d. 8%) aflaheimilda hvers árs verði boðin upp með fyrirheiti um endurúthlutun. |
Fyrirkomulag uppboða |
Ýmsar hugmyndir reifaðar en lagt til að leitað verði til alþjóðlegra sérfræðinga um endanlega útfærslu. Setja megi ýmis skilyrði, svo tilboð aðeins frá innlendum útgerðum og takmörkun á samansöfnun. |
Fyrirkomulagið er reifað, en einkum bent á jaðarverðsuppboð þar sem enginn greiði meira en felst í því lægsta tilboði sem tekið er. Sömu skilyrði nefnd og hjá Færeyingum. |
Endurúthlutun |
Útgerðum standi til boða að fá 80% aflaheimilda fyrra árs endurúthlutað en gegn fullu markaðsgjaldi. |
Útgerðum standi til boða að fá 85-95% (sem dæmi 92%) aflaheimilda fyrra árs endurúthlutað, en án endurgjalds. |
Viðmið fyrningar og forkaupsréttar |
Afli fyrra árs. |
Aflahlutdeild fyrra árs. |
Eru hlutföll endurúthlutana og fyrninga föst? |
Nei, þeim má breyta vegna breytinga á leyfðum heildarafla. |
Já, en þó eru reifaðar hugmyndir um breytileika. |
Greiðsla fyrir endurúthlutun uppboðinna aflaheimilda |
Allir greiði að fullu fyrir endurúthlutaðar heimildir, það sama verð og fram kemur í uppboðunum. |
Greitt verði uppboðsverð hvers tíma fyrir framlengingu þeirra aflaheimilda sem fegnar hafa verið til ársleigu á uppboðunum. |
Greiðsla fyrir endurúthlutun gamalla aflaheimilda |
Reglan um greiðslu fyrir framlengingu leyfa gildir jafnt um þá sem stunduðu veiðar fyrir upptöku nýs kerfis sem og hinna sem afla sér nýrra heimilda á uppboðunum. Allir greiða fullt auðlindagjald. |
Þeir sem eru handhafar kvóta þegar kerfið tekur gildi þurfa EKKI að greiða neitt fyrir hinn endurúthlutaða hluta leyfa sinna. |
Greiðslufyrirkomulag |
Nefndur er sá möguleiki að ekki þurfi að greiða fyrr en fiskinum er landað. Jafnframt bent á að greiðsla fyrir endurúthlutuð leyfi geti tekið mið af almennu fiskverði. |
Allt þetta kemur og til greina í hugmyndum undirritaðs, en viðmiðið við fiskverð virðist bæði flókið og óþarft, þar sem breyting á fiskveði mun strax endurspeglast í uppboðsverðinu. |
Aðlögun núv. útgerða |
Engin aðlögun. Allir greiða markaðsverð fyrir allar veiðiheimildir. Eina aðlögunin er forkaupsréttur m.v. fyrri afla (kvóta). |
Mikið forskot. Núverandi kvótahafar fá endurúthlutað, með vægri skerðingu, endurgjaldslausa kvóta. |
Auðlindarentan |
Skilar sér strax að fullu í landssjóðinn. |
Núv. kvótahafar halda eftir um helmingi auðlindarentunnar, þegar allt framtíðarvirðið er dregið saman á núvirði. |
by Þorkell Helgason | okt 21, 2016 | Á eigin vefsíðu
[Eftirfarandi pistill eftir Þorkel Helgason og Bolla Héðinsson birtist í Fréttablaðinu 20. október 2016 og samdægurs á visir.is; sjá http://www.visir.is/kvotakerfid–kjosendur-eiga-valid/article/2016161029996]
Fyrir skömmu rituðum við grein í Fréttablaðið þar sem við lýstum fyrningar- og útboðsleið. Málið snýst um það hvernig ráðstafa skuli aflahlutdeildunum og innheimta eðlilegan auðlindaarð í gegnum varfærin útboð. Við teljum það raunhæfa málamiðlun. Af þeim flokkum sem bjóða fram í komandi kosningum verður að ætla að hið minnsta Björt framtíð, Dögun, Píratar, Samfylkingin, Viðreisn og Vinstri grænir, vilji að farin verði leið í anda þeirrar sem þar er reifuð.
Núverandi stjórnarflokkar, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur, hafa hingað til viljað halda sig fast við óbreytt kerfi sem mun smám saman færa útgerðinni eignarhald á þjóðareigninni, fiskimiðunum, gegn óverulegu afgjaldi. Veiðigjöld hafa verið lækkuð á kjörtímabilinu að tilstuðlan þessara flokka. Á hinn bóginn er augljóst að þrýstingur frá kjósendum fer sívaxandi um að horfið verði frá þessu gjafakvótakerfi eins og það er einatt nefnt. Þessi vilji kjósenda kom fram í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012 á þann hátt að meira en 80% þeirra vilja að ákvæði um þjóðareign á auðlindunum sé fest í stjórnarskrá.
Hvað vilja ríkisstjórnarflokkarnir?
Stefnuskrár stjórnarflokkanna eru afar rýrar um kvótamálin, sé horft til þess sem er að finna á vefsíðum þeirra. Það eina bitastæða, sem fram hefur komið um breytta stefnu úr herbúðum þeirra er frá Jóni Gunnarssyni alþingismanni og formanni atvinnuveganefndar Alþingis. Hann hlýtur því að teljast helsti talsmaður þessara flokka í kvótamálunum enda heyra þau undir nefnd hans. Jón hefur lýst hugmyndum sínum í grein í Morgunblaðinu 4. júlí sl. svo og í viðtali á morgunvakt á RÁS 1 hinn 19. september sl. Hann telur leið sína vera sáttaleið í þessu lykilmáli þjóðarinnar. Þessi leið verður hér eftir nefnd „ríkisstjórnarleiðin“.
Ríkisstjórnarleiðin er í vissulega einföld: Núverandi kvótahafar fái fiskimiðin afhent til langs tíma, væntanlega til eilífðarnóns, gegn því að skila ríkinu broti af þessum verðmætum. Lagt er til að útgerðin skili 5-7% kvótanna til eigendanna, þjóðarinnar, en haldi eftir 93-95% og þá endurgjaldslaust. Þetta gerist í eitt skipti, aðeins í upphafi þurfa útgerðirnar að láta 5-7% aflaheimilda sinna af hendi og síðan ekki söguna meir. Fyrirkomulagið er að vísu fært í flóknari búning; þann að útgerðin haldi kvótunum að fullu en láni ríkinu 5-7% af aflamarki hvers árs sem það geti síðan leigt út til smáútgerðanna. Leigugjaldið, sem ríkið kunni að fá, komi þá í stað veiðigjalds sem útgerðirnar greiða nú. Þar með séu kvótahafarnir kvitt við þjóðina.
Fyrning eða smáskil í eitt skipti
Hver er munurinn á ríkisstjórnarleiðinni og þeirri hugmynd um fyrningu og uppboð sem hefur lengi legið fyrir? Á þessu tvennu er reginmunur eins dregið er fram í meðfylgjandi töflu.
|
Fyrningar- og uppboðsleið |
Ríkisstjórnarleiðin |
Hvar enda kvótarnir? |
Færast smám saman til baka til eigandans, þjóðarinnar. |
Verða að langmestu leyti (amk. 93%) að ævarandi eign núverandi kvótahafa. |
Hvert skilar auðlindaarðurinn sér? |
Þegar upp er staðið til þjóðarinnar í þeim mæli sem útgerðin sjálf telur sig ráða við. |
Aðeins 5-7% af arðinum skilar sér til baka. Útgerðin heldur eftir afganginum. |
Markaðslausn? |
Já, þær aflahlutdeildir sem losna á hverju ári eru boðnar upp. |
Leigukvótarnir, sem útgerðin skilar, ættu að geta farið á markað. En þetta er aðeins brot af verðmætunum. |
Eru allir jafnréttsettir? |
Já; þegar í byrjun verður enginn greinarmunur á þeim sem kaupa kvóta á uppboðum og hinum sem hafa þá frá fyrri tíð. |
Nei; annars vegar verða það núverandi kvótaeigendur, sem halda amk. 93% kvótanna, en hinir verða leiguliðar. |
Pólitísk inngrip? |
Það er pólitísk ákvörðun að ákveða fyrningarhlutfallið í upphafi, en eftir það er þarf engin inngrip. |
Viðbúið að skilahlutfallið á aflamarki verði að árlegu pólitísku bitbeini. Sömuleiðis ráðstöfunin á ríkisleigukvótunum. |
Er leiðin þegar útfærð? |
Fyrningarfyrirkomulagið sjálft er sáraeinfalt. Útfærsla á uppboðunum kallar á vandaðan undirbúning. |
Það er einfalt að afhenda núv. kvótahöfum 93% kvótanna til eilífðarnóns. En eftir situr útfærsla á kvótaleigu ríkisins. |
Verður kollsteypa? |
Nei; það verður engin kollsteypa. Með hóflegri fyrningu fær útgerðin ríflegan aðlögunartíma. Útgerðarmenn, núverandi og nýir, munu hafa megnið af sínum réttindum tryggð frá einu ári til þess næsta. |
Það ekkert stórmál fyrir útgerðina að skila lítilræðinu 5-7% af kvótunum. Ríkisstjórnarleiðin felur hins vegar í sér kollsteypu eigi hún að vera jafngild fyrningarleiðinni. |
Er þetta sáttaleið? |
Núvirði alls auðlindaarðsins skiptist nokkuð jafnt á milli þjóðarinnar og útgerðarinnar. Er það ekki ekta málamiðlun, sáttleið? |
Kjósendur verða að dæma um það hvort það felist sátt í því að afhenda einkaaðilum 93% þjóðareignarinnar endurgjaldslaust. |
Varanleg lausn |
Eftir að kerfið er komið á heldur það sér sjálft við og er því til frambúðar. |
Aðeins varanleg lausn ef þjóðin getur sætt sig hina miklu eftirgjöf. |
Í þingkosningunum 29. október nk. verða kjósendur m.a. að taka afstöðu til hugmynda um farsæla lausn á áratuga deilumáli, um skiptingu þeirra miklu gæða sem felast í nýtingu fiskimiðanna. Fyrningarleiðin er leið til að hafa opna gegnsæja tilhögun á úthlutun veiðiheimilda þar sem allir standa jafnir og þjóðin sér og veit að tímabundin úthlutun fiskveiðiheimildanna er á valdi þjóðarinnar en ekki forréttindi fárra.
Valkostirnir eru vald stjórnmálamanna í bakherbergjum með þeirri óvissu sem því hefur fylgt eða markaðsákvarðanir sem teknar yrðu með útboði fyrir opnum tjöldum með tilboðum frá fyrirtækjum sem gerst þekkja eigin rekstur og vita hvaða upphæðir þeir treysta sér til að bjóða.
Vilja kjósendur þá flokka sem hyggjast festa óbreytt ástand í sessi með varanlegri afhendingu nánast allra aflaheimilda til núverandi útgerðarmanna? Eða vilja þeir að farin sé varfærin málamiðlunarleið sem færi auðæfin til baka til samfélagsins? Þessu verður að svara við kjörborðið.
by Þorkell Helgason | okt 7, 2016 | Á eigin vefsíðu
Þorkell Helgason og Þórður Höskuldsson
Kjör formanns Samfylkingarinnar fór fram dagana 28. maí til 3. júní 2016. Í framboði voru þau Guðmundur Ari Sigurjónsson, Helgi Hjörvar, Magnús Orri Schram og Oddný Harðardóttir.
Við kjörið var beitt aðferð færanlegs atkvæðis (e. STV eða Single Transferable Vote) og var það í fyrsta sinn sem aðferðin var notuð í vali á einstaklingi í opinberu kjöri hér á landi – eftir því sem best er vitað. Samkvæmt aðferðinni var kjósendum gert að velja einn frambjóðanda að aðalvali en síðan gefinn kostur á að raða öðrum, einum eða fleiri, í forgangsröð sem varaval.
Talningin
Ljósi er varpað á uppgjörsaðferðina í meðfylgjandi súluriti. Þar hefur hver frambjóðandi sinn lit.
Fyrsta hrina, sýnir hvernig atkvæði að aðalvali kjósenda skiptist á milli frambjóðenda. Oddný Harðardóttir hlaut 42,1% aðalvalsatkvæða. Þar sem það er ekki hreinn meirihluti mælir talningarreglan fyrir um að sá sem fæst fékk atkvæði, Guðmundur Ari, skuli dæmdur úr leik og atkvæði greidd honum færð til hinna í samræmi við óskir kjósenda að fyrsta varavali. Í annarri hrinu hefur hlutur þeirra þriggja sem eftir eru aukist nokkuð, þó ekki nóg til að neinn þeirra nái hreinum meirihluta. Því verður enn að færa til atkvæði og þá frá þeim frambjóðanda sem nú hefur fæst atkvæði, en það er Helgi Hjörvar. Að því loknu hafa atkvæðin safnast saman á tvo frambjóðendur og úrslitin orðin skýr: Oddný Harðardóttir fær tæp 60% atkvæða en Magnús Orri rúm 40%.
Athyglisvert er hve fá atkvæði fara forgörðum vegna þess að kjósendur hafi ekki tilgreint neitt varaval. Yfir 95% atkvæða skila sér að lokum til tveggja efstu frambjóðendanna.
Niðurstöður
Röð frambjóðendanna breytist ekki við tilfærslu atkvæðanna. Var þessi röðunaraðferð þá óþörf? Svo er ekki. Oddný fékk fékk að vísu flest atkvæði þegar í fyrstu hrinu, að aðalvali kjósenda, en hún náði ekki hreinum meirihluta. Með því að taka tillit til annars (og í örfáum tilvikum þriðja) vals kjósenda má á hinn bóginn með sanni segja að Oddný hafi notið stuðnings 60% kjósenda.
Það er athyglisvert, upp á frekari not þessarar aðferðar, að ekki bar nauðsyn til að krefja kjósendur um að raða öllum frambjóðendum. Í þessu tilviki, þegar þeir voru fjórir, nægir að raða tveimur, að velja annan að aðalvali og hinn til vara.
Prófað var að beita uppgjörsaðferð af öðrum toga, aðferð sem kennd er við Condorcet nokkurn. Þá er röðun kjósenda á frambjóðendum nýtt til samanburðar á sérhverjum tveimur þeirra, og þess freistað að finna þann sem sigrar alla hina í slíkri tvenndarkeppni. Niðurstöðu, sem fæst með því móti, telja margir vera þá mest afgerandi í þessum fræðum. Geta má þess að aðferð af þessu tagi var notuð nýlega í prófkjörum Pírata fyrir komandi þingkosningar. Enn og aftur ber Oddný sigur úr býtum í þvílíku uppgjöri.
Kjör á forseti Íslands fer fram með einföldu meirihlutakjöri; kjósendur fá aðeins einn kross til að tjá val sitt. Æskilegt er að breyta stjórnarskrárákvæðum um forsetakjör þannig að staðfesta megi að kjörinn forseti njóti stuðnings hreins meirihluta. Merking að aðalvali og einu varavali væri einföld og skilvirk aðferð í því skyni.
Ítarlegri greiningu á kjöri formanns Samfylkingarinnar 2016 má finna hér: greining-a-kjori-formanns-samfylkingarinnar-2016.
by Þorkell Helgason | okt 5, 2016 | Á eigin vefsíðu
[Þessi pistill okkar Bolla Héðinssonar birtirst í Fréttablaðinu 28. september 2016.]
Tilhögun á veiðigjaldi því sem útgerðinni ber að greiða til samfélagsins fyrir afnot af fiskistofnunum, sameign þjóðarinnar, er eitt þeirra meginmála sem kosið verður um í komandi þingkosningum. Stjórnkerfið sjálft, aflamarkskerfið, hefur reynst vel til að ná þeim markmiðum að tryggja sjálfbæra nýtingu fiskistofnanna og ná fram rekstrarlegri hagkvæmni. Samt er enn deilt. Ástæðan er sú að það eru a.m.k. tvö önnur meginmarkmið sem ekki hafa verið virt: Að allir hafi sem jöfnust tækifæri til þátttöku í fiskveiðunum og – umfram allt – að auðlindaarðurinn af nýtingu fiskimiðanna, þjóðareignarinnar, skili sér beint til samfélagsins.
Sú breyting sem kallað er eftir þarf ekki og á ekki að valda kollsteypum eins og sumir óttast og aðrir hræða með. Farsæl leið þarf að uppfylla eftirtalin skilyrði:
- Breytingar hafi eðlilegan aðdraganda.
- Nýtt fyrirkomulag feli í sér vissa festu bæði fyrir sjávarútveginn og þjóðina.
- Með breyttu kerfi sé stuðlað að auknu aðgengi fyrir nýliða.
- Fullt gegnsæi í ráðstöfun aflaheimilda.
- Auðlindaarðurinn skili sér til þjóðarinnar.
Útboð stuðla að sátt
Lengi, en þó ekki síst nú undanfarið, hafa margir bent á leið sem nær þessum markmiðum ef vel er að verki staðið. Hér skal þess freistað að draga saman meginatriði slíkrar málamiðlunarleiðar:
- Hægfara innköllun á núverandi aflahlutdeildum með hlutfallslegri skerðingu þeirra ár hvert. Skerðingarhlutfallið yrði pólitísk málamiðlun, en gæti t.d. verið á bilinu 10% til 20%. Það merkir að 80-90% eru kvaðalaust til ráðstöfunar frá fyrra ári til þess næsta. Núverandi handhafar kvótanna fá því rúma aðlögun. Sýna má fram á að þeir halda stórum hluta af núvirði alls auðlindaarðsins. Sú eftirgjöf er hluti málmiðlunarinnar.
- Uppboð á þeim kvótum sem þannig losna á hverju ári. Uppboðin þjóna tvíþættum tilgangi: Þeim að veita nýliðum aðgengi og að skila eðlilegum arði til eigandans, þjóðarinnar. Einfaldast er að hinar uppboðnu aflahlutdeildir lúti sömu skilyrðum og þær innkölluðu, þær skerðist með sama hætti. Við það skapast einsleitni í kerfinu, sem leiðir til festu og stöðugleika.
- Komið í veg fyrir samþjöppun kvóta og byggðaröskun. Þetta má gera með ýmsu móti, jafnvel að skerpa á þeim ákvæðum sem nú gilda og hafa ekki reynst sem skyldi.
Útfærslan sjálf getur verið með ýmsu móti. Sem dæmi má nefna:
- Jaðarverð í uppboðunum. Gagnrýnt hefur verið að smáútgerðir kynnu að fara sér að voða með of háum tilboðum. Við þessu má sjá með því að verðið fyrir alla kvóta sem seldir eru á hverju uppboði sé jafnt því lægsta verði sem tekið er. (Færeyingar kalla þetta „lokuð“ uppboð sem hefur illu heilli verið misskilið hér því það er alls ekki lokað og allar færeyskar útgerðir hafa fengið að taka þátt í þeim útboðum sem þær kjósa.)
- Kvótar utan uppboða handa trilluköllum. Sagt er að þeir geti ekki staðið í því að taka þátt í uppboðum (enda þótt þeir séu seigir á fiskmörkuðum). Við þessu má sjá með því að taka frá vissan hluta sem þeir gætu keypt utan uppboða á markaðsverði.
- Festa með samningum. Allt fyrirkomulagið má, ef þurfa þykir, njörva niður í formi samninga milli stjórnvalda og þeirra sem hafa kvótana nú svo og þeirra sem kunna að afla þeirra á uppboðum.
Sú leið málamiðlunar, sem hér er reifuð, uppfyllir fyrrgreind markmið um aðgengi nýliða og skil á arði til þjóðarinnar. Allir sitja við sama borð og fullt gagnsæi er tryggt. Hún felur ekki í sér neina kollsteypu heldur hægfara umskipti. Þá tekur hún þann kaleik frá stjórnmálamönnum að þurfa árlega að karpa um upphæð veiðigjalda. Útgerðin ákveður auðlindagreiðslurnar í reynd sjálf þegar hún tekur þátt í útboði veiðiheimildanna.
Kjósendur krefjist skýrra svara
Vitaskuld er aðferðin ekki gallalaus fremur en önnur mannanna verk. Verra er að hún hefur verið misskilin – viljandi eða óviljandi. Nefna má að gefið hefur verið í skyn að með fyrningum á kvótum sé verið að leggja sjávarútveginn niður skref fyrir skref, um 10-20% á ári þar til allt er í rúst. Svo er vitaskuld ekki. Allir kvótar munu ganga út og veiðar halda áfram ótrauðar þótt breytingar kunni að verða á því hverjir stunda atvinnuveginn, allt eins og gerist í öðrum atvinnugreinum.
Meira en 80% þjóðarinnar vill að ákvæði um þjóðareign á auðlindunum sé fest í stjórnarskrá, eins og fram kom í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012. Vitaskuld er þá ekki aðeins verið að tala um fagurgala til nota í hátíðarræðum heldur bitastæð ákvæði sem veiti þjóðinni í reynd eigendavald og þar með eðlilegt endurgjald. Í orði kveðnu virðast stjórnmálaflokkarnir allir þessa sama sinnis, en segjast sumir hverjir efast um leiðirnar. Af þeim flokkum sem munu bjóða fram í komandi kosningum verður að ætla að hið minnsta Björt framtíð, Píratar, Samfylkingin, Viðreisn og Vinstri-grænir, vilji að farin verði leið í anda þeirrar sem hér er reifuð. Vonandi bætast fleiri flokkar í hópinn. Krefjast verður skýrra svara svo að kjósendur kaupi ekki köttinn í sekknum við kjörborðið 29. október 2016.