About Þorkell Helgason

Stærðfræðingur, ráðgjafi, fv. prófessor, ráðuneytisstjóri og orkumálastjóri, frambjóðandi til stjórnlagaþings, fv. fulltrúi í stjórnlagaráði

Umbætur á kosningakerfinu: IV. Útdeiling jöfnunarsæta

Pistill þessi, Umbætur á kosningakerfinu: IV Útdeiling jöfnunarsæta, er fjórði og síðasti efnispistla um umbætur á kosningakerfinu sem koma í framhaldi af yfirlitsgrein um viðfangsefnið. Greinarnar er að finna í einni heild í hausthefti 2014 af ritinu Stjórnmál og stjórnsýsla.

Í inngangi pistilsins segir m.a.:

Með kosningalögum þeim sem komu til framkvæmda 1934 var þingsætum skipt í tvo hópa, kjördæmissæti og jöfnunarsæti (þá nefnd uppbótarsæti). Kjördæmissætunum var og er alfarið úthlutað á grundvelli úrslita innan hvers kjördæmis en jöfnunarsætum er úthlutað innan hvers kjördæmis með tilliti til úrslita á landinu öllu. Allt til kosninganna 1987 gat tala sæta hvers kjördæmis sveiflast talsvert allt eftir úrslitunum í heild. Frá og með kosningunum 1987 er það á hinn bóginn lögbundið og ljóst fyrir hverjar kosningar hve mörg sæti hvert kjördæmi skal frá.

Útdeiling jöfnunarsæta til einstakra lista er flókið viðfangsefni og var eitt örðugasta úrlausnarefnið við breytingarnar sem stóðu yfir árin 1983-1987. 17 Þegar hér er komið sögu í úthlutun þingsæta er vitað hvernig jöfnunarsætin eiga að skiptast á milli flokkanna og hve mörg jöfnunarsæti (eitt eða tvö samkvæmt núgildandi lögum) eiga heima í hverju kjördæmi. Jafnframt er það sjálfgefið markmið að jöfnunarsæti hvers kjördæmis séu eftir föngum í samræmi við atkvæðastyrk, séu sem sagt sem líkust því að vera framhald af úthlutun kjördæmissæta. Þetta markmið stangast einatt á við hinar gefnu forsendur um sæti hvers flokks og hvers kjördæmis.

Í grundvallaratriðum er útdeiling jöfnunarsæta viðfangsefni kosningalaga á öllum Norðurlöndunum, nema í Finnlandi þar sem ekki eru nein jöfnunarsæti. Fyrirkomulagið í Skandinavíu, en þó einkum Noregi, svipar mjög til þess sem er hér á landi.

Þetta viðfangsefni … hefur í vaxandi mæli verið til umræðu meðal fræðimanna síðustu áratugi. Brautryðjendur voru þeir Balinski og Demange (1989a og 1989b). Þeir stilla upp gæðakröfum sem sérhver útdeilingaraðferð jöfnunarsæta ætti að uppfylla.

Umbætur á kosningakerfinu: III. Úthlutunarreglur

Pistill þessi, Umbætur á kosningakerfinu: III. Úthlutunarreglur, er sá þriðji fjögurra efnispistla um umbætur á kosningakerfinu sem koma í framhaldi af yfirlitsgrein um viðfangsefnið. Greinarnar er að finna í einni heild í hausthefti 2014 af ritinu Stjórnmál og stjórnsýsla.

Upphaf pistilsins er þannig:

Í þessum kafla er fjallað um grundvallaratriði, þ.e.a.s. reiknireglur við úthlutun sæta, ekki endilega vegna þess að lagt sé til að skipt verði um aðferðir í íslenska kosningakerfinu, heldur hins að fróðleikur um þær skiptir máli í allri umfjöllun um kosningar.

Úthlutun sæta til framboðslista á grundvelli atkvæðatalna kemur víða við sögu. Hérlendis þekkjum við viðfangsefnið þegar kosið er til Alþingis og sveitarstjórna en líka við kosningar í stjórnir félaga (t.d. á hluthafafundum). Flóknast er viðfangsefnið við úthlutun þingsæta. Þar kemur slík grunnúthlutun við sögu með tvennum hætti. Annars vegar þegar kjördæmissætum er úthlutað en hins vegar þegar jöfnunarsætum er skipt á milli þingflokka.

Viðfangsefnið er hvernig umbreyta megi atkvæðum greiddum listum í sæti handa sömu listum þannig að úthlutunin sé í sem bestu hlutfalli við atkvæðaskiptinguna. Fullkomið samræmi næst aldrei – nema þá að sætin séu jafnmörg og kjósendurnir! Sérhver úthlutunaraðferð byggir því á málamiðlun. Til er mýgrútur aðferða og allmargar eru í notkun. Umfjölluninni hér er ekki ætlað að gera þessu sérstaka viðfangsefni nein fullnægjandi skil, enda hefur margt og mikið hefur verið ritað um slíkar reiknireglur. Tilgangurinn með undirkaflanum er einvörðungu að miðla grundvallarupplýsingum um efnið, enda er val á reiknireglu við úthlutun sæta hvarvetna talið stór þáttur í gerð kosningakerfa. Sjá t.d. yfirlitsrit IDEA-stofnunarinnar, IDEA 2005.

Umbætur á kosningakerfinu: II. Jöfnuður milli flokka

Pistill þessi, Umbætur á kosningakerfinu: II. Jöfnuður milli flokka, er annar fjögurra efnispistla um umbætur á kosningakerfinu sem koma í framhaldi af yfirlitsgrein um viðfangsefnið. Greinarnar er að finna í einni heild í hausthefti 2014 af ritinu Stjórnmál og stjórnsýsla.

Upphaf pistilsins er þannig:

Ekki náðist fullur jöfnuður milli þingflokka í kosningunum 2013 og er þá einungis miðað við jöfnuð milli þingflokka, en atkvæði þeirra samtaka sem ekki náðu manni á þing eru látin liggja á milli hluta. Slíkur jöfnuður hefur á hinn bóginn náðst í öllum öðrum þingkosningum frá og með kosningunum 1987, þ.e. eftir hina miklu kerfisbreytingu á kosningalögum á níunda áratugnum og svo aftur þeirri um síðastliðin aldamót. Fullyrða má að eitt meginmarkmið þessara breytinga beggja hafi einmitt verið að nálgast, og helst tryggja, slíkan jöfnuð milli flokka, eins og fram kemur fyrr í þessari ritgerð. Til áréttingar þessa var bætt inn í stjórnarskrána árið 1984 skýru ákvæði, sem nú er 1. málsl., 4. mgr. 31. gr.: „Öðrum þingsætum en kjördæmissætum skal ráðstafa í kjördæmi og úthluta þeim til jöfnunar milli stjórnmálasamtaka þannig að hver samtök fái þingmannatölu í sem fyllstu samræmi við heildaratkvæðatölu sína.“

Kosningalög, hvort sem það eru þau frá 1987 eða 2000, tryggja þó engan veginn jöfnuð á milli flokka. Því má segja að það hafi verið slembilukka að jöfnuður hafi náðst í öllum kosningum frá því að stjórnarskrárákvæðið varð virkt 1987 og allt þar til nú. Spyrja má hvort fyrrgreint ákvæði stjórnarskrár um jöfnuð milli flokka geri ekki þá kröfu til kosningalaga að jöfnunarsæti séu ávallt nægilega mörg til að tryggja þennan jöfnuð.

Megintækið til að nálgast jöfnuð milli flokka hefur falist í jöfnunarsætum en þau voru fyrst tekin upp í kosningalög þau sem komu til framkvæmda í kosningunum 1934, en þá kölluð uppbótarsæti. Til og með kosningunum 1983 voru sætin ellefu að tölu. Að vísu voru ákvæði fram til vorkosninganna 1959 þess efnis að ekki skyldi nýta fleiri uppbótarsæti en svo að jöfnuður næðist. Því fór á hinn bóginn víðs fjarri að ekki þyrfti að grípa til allra sætanna, og það gott betur ef heimilt væri. Í kosningum á árabilinu 1987 til 1999 voru jöfnunarsætin 13, en frá og með kosningunum 2003 aðeins níu.

Ef markmiðið um fullan jöfnuð milli flokka er talið svo mikilvægt, hví hefur löggjafinn þá skorið tölu þeirra við nögl? Ástæðan er trúlega sú að jafnframt virðist það lykilmarkmið að kjósendur í hverju kjördæmi fái sem mestu ráðið um það hverjir veljist á þing fyrir þeirra hönd. Þessi tvö markmið kunna að stangast á, en þurfa ekki að gera það svo mjög.

Hér verða reifaðar tvær hugmyndir í því skyni að tryggja jöfnuð milli flokka en á þeim er þó einungis blæbrigðamunur. Gengið er út frá óbreyttum kosningalögum um allt annað en skiptingu þingsæta í kjördæmis- og jöfnunarsæti. Jafnframt er þó virt það ákvæði í núgildandi stjórnarskrá að kjördæmissæti megi ekki vera færri en sex í hverju kjördæmi. Hugmyndirnar verða reifaðar með vísun til kosningaúrslitanna 2013, en hafa verður í huga að úrslit kosninga kunna að mótast af því kosningakerfi sem er í gildi á hverjum tíma.

Umbætur á kosningakerfinu: I. Jöfnun atkvæðavægis

Pistill þessi, Umbætur á kosningakerfinu: I. Jöfnun atkvæðavægis, er sá fyrsti fjögurra efnispistla um umbætur á kosningakerfinu sem koma í kjölfar yfirlitsgreinar um viðfangsefnið. Greinarnar er að finna í einni heild í hausthefti 2014 af ritinu Stjórnmál og stjórnsýsla.

Ég vek sérstaklega athygli á því í pistlinum að það er ekkert því til fyrirstöðu að jafna atkvæðavægið að fullu með lagabreytingu einni. Til þess þarf ekki breytingu á stjórnarkrá. Hitt er annað mál að Stjórnlagaráð taldi það tryggara að ekki sé aðeins heimilt að gera öllum kjósendum jafnt undir höfði, heldur skuli það vera stjórnarskrárbundin skylda.

Upphaf pistilsins er þannig:

Alkunna er að kjósendur hafa mismikið atkvæðavægi eftir því í hvaða kjördæmi þeir búa. Eins og vikið er að í inngangi hefur svo verið alla tíð, a.m.k. frá því að fyrst var kosið til löggjafarþings 1874. Ekki er þó einhlítt hvernig slíkt misvægi skal mælt. Á að mæla það sem tölu kjósenda að baki hverju kjördæmissæti eða að baki hverju þingsæti sama kjördæmis hvort sem sætin teljast kjördæmis- eða jöfnunarsæti? Hængurinn við seinni mælikvarðann er sá að þá er sögulegur samanburður örðugur. Auk hinna kjördæmiskjörnu voru framan af líka konungskjörnir þingmenn sem síðan urðu að landskjörnum, en hvorir tveggja voru óháðir kjördæmum. Frá og með kosningunum 1934 hafa að vísu allir þingmenn verið tengdir kjördæmum, en með óbundnum hætti allt til og með kosningunum 1983. Fyrst frá kosningunum 1987 má segja að þingmenn séu allir fastbundnir kjördæmum. Sögulegt yfirlit er því vart mögulegt með öðrum hætti en þeim að bera aðeins saman kjördæmissætin.

Umbætur á kosningakerfinu: Yfirlit

Í yfirlitsgrein þessari og í fjórum pistlum sem koma í kjölfarið verður farið yfir þrjú grunnatriði í fyrirkomulagi kosninga til Alþingis og bent á æskilegar lagfæringar sem allar rúmast innan ramma núgildandi stjórnarskrár. Greinarnar er að finna í einni heild í hausthefti 2014 af ritinu Stjórnmál og stjórnsýsla.

Yfirlitsgrein þessa má lesa í heild sinni hér: Umbætur á kosningakerfinu: Yfirlit

Byrjun greinarinnar er þannig:

Fyrirkomulag kosninga … hefur verið miklum breytingum háð allt frá upphafi kosninga til Alþingis 1844. Markmiðin hafa verið af ýmsum toga eins og jöfnun kosningaréttar eftir kyni, aðstöðu og aldri fyrst framan af. Búsetuflutningar á landinu hafa verið eitt megintilefni breytinganna. Í kjölfar þeirra hefur sífellt risið krafa um jöfnun vægis atkvæða eftir búsetu og tengd því krafa um hlutfallslega rétta skiptingu þingsæta á milli flokka. Þessar tvær kröfur eru nátengdar enda undirrótin um margt hin sama; flutningur fólks frá dreifbýli til þéttbýlis og einkum þó til höfuðborgarsvæðisins.

Strax við þá grundvallarbreytingu sem gerð var á kosningalögum 1915 kemur skýrt fram markmiðið um jöfnun atkvæðavægis. Hannes Hafstein mælti fyrir stjórnarfrumvarpi um málið 1914 og hnykkir á því sem segir í athugasemdum með frumvarpinu: „Þegar kosningarrétturinn er rýmkaður, eins og gert er í stjórnarskrárfrumv., í því skyni að koma á jafnrétti til áhrifa á löggjöf og landsstjórn, þá væri það augljós mótsögn, ef ekki væri jafnframt bætt eitthvað úr því mikla misrétti, sem verið hefir í því, hvert gildi atkvæði kjósenda hafa, þannig að kjósendur fái sem jafnastan rétt einnig í því tilliti. Þessu hefir verið mjög ábótavant, svo að t.d. í einu kjördæmi, Reykjavík, gildir atkvæði 7 kjósenda ekki meira en atkvæði 1 kjósanda í öðru kjördæmi landsins, o. s. frv.“ . Þetta markmið dagaði þó á endanum uppi og í lögunum sem endanlega voru samþykkt var ekki tekið á þessum vanda. Jöfnuður milli flokka var vart til umræðu á þessum tíma, enda flokkaskipanin enn í mótun.

Með breytingum á kosningakerfinu 1933 þróaðist kosningakerfið að núverandi mynd með hlutfallskosningum að hluta og jöfnunarákvæðum milli flokka. Enn eimdi þó eftir af fyrra fyrirkomulagi, svo sem einmenningskjördæmum. Meginmarkmiðið um jöfnun atkvæðavægis kemur fram í framsöguræðu Ásgeirs Ásgeirssonar forsætisráðherra þegar hann mælti fyrir frumvarpi um stjórnarskrárbreytinguna 1933 og sagði m.a.: „Trúa mín er… sú, að ástandið… heimti tvennskonar jöfnun af því þingi, sem nú situr. Annað er jöfnun um atkvæðisrétt og áhrif í þjóðfélaginu, en hitt er jöfnun á aðstöðu í lífinu.“ Ekki verður þó sagt að tekið hafi verið á jöfnun atkvæðavægis eftir búsetu með þessum breytingum en á hinn bóginn stigið stórt skref í jöfnuði milli flokka með ellefu uppbótarþingsætum en í greinargerð með frumvarpinu sagði að þau sæti væru „til jöfnunar milli þingflokka, svo að hver þeirra hafi þingsæti sem næst samræmi við atkvæðatölu þá, sem greidd er þingmannaefnum flokksins samtals við almennar kosningar.“

Miklir búferlaflutningar í og eftir seinni heimsstyrjöldina kölluðu enn á breytingar sem varð til þess að kjördæmaskipaninni var gjörbreytt og alfarið tekin upp fjölsætakjördæmi með hlutfallslegri úthlutun sæta. Þetta var gert með stjórnarskrárbreytingu 1959 og nýjum kosningalögum en í greinargerð með frumvarpi með stjórnarskrárbreytingunni sagði: „Aðalatriði þessarar stjórnarskrárbreytingar er, að Alþingi verði skipað í sem fyllstu samræmi við þjóðarviljann.“ Hér má glöggt sjá að meginmarkmiðið er jöfnuður milli flokka.

Næst var breyting gerð á kosningakerfinu 1984 (stjórnarskipunarlög nr. 65/1984). Í greinargerð með frumvarpinu um breytinguna segir strax í upphafi: „Frá því að breyting var síðast gerð á kjördæmaskipan og kosningareglum árið 1959 hefur misvægi atkvæða eftir búsetu kjósenda aukist allmikið. Jafnframt hefur skort á að jöfnuður milli stjórnmálaflokka hafi náðst. Þykir nú nauðsynlegt að gera breytingar sem bæta úr annmörkum þessum.“ Annarra markmiða er ekki getið.

Meginákvæðum stjórnarskrárinnar um kosningar til Alþingis var síðast breytt 1999 (stjórnarskipunarlög nr. 77/1999). Í greinargerð með frumvarpi að þeirri breytingu eru talin upp fjögur markmið (auk eins sem er forsenda fremur en markmið). Tvö þessara markmiða lúta að því sem hér er til umræðu: „Að draga úr misvægi atkvæða þannig að hlutfall kjósenda að baki hverju þingsæti þar sem munurinn er mestur milli kjördæma verði sem næst 1:1,5 til 1:1,8.“ Og ennfremur „[a]ð áfram verði jöfnuður á milli stjórnmálasamtaka á landsvísu til að fjöldi þingsæta hvers flokks sé í sem bestu hlutfalli við kjósendatöluna.“ Í framsöguræðu sagði fyrsti flutningsmaður, Davíð Oddson, m.a. „að undirrót þeirra breytinga sem frv. þetta leggur grunninn að sé að rekja til þess að í þjóðfélaginu ríkir ekki lengur sú sátt sem vera þarf um kosningakerfið til að við það megi una vegna þeirrar búsetuþróunar sem verið hefur undanfarin ár.“

Í greinunum þremur sem koma í kjölfar þessarar yfirlitsgreinar verður farið yfir þrjú grunnatriði í fyrirkomulagi kosninga til Alþingis og bent á æskilegar lagfæringar á þeim. Ábendingarnar snúast um fyrrgreind meginatriði í fyrirkomulagi kosninga, vægi atkvæða eftir búsetu og jöfnuði milli flokka með tilliti til atkvæða þeirra á landinu öllu. Hugmyndirnar eru óháðar innbyrðis; innleiðing einnar kallar ekki endilega á hinar.

Um útreikning á atkvæðahlutföllum í þjóðaratkvæðagreiðslum

Ég hef sent stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis minnisblað um réttan og rangan útreikning á úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október 2012 þegar þjóðin var spurð um tillögur stjórnlagaráðs. Sjá pdf-skjalið Minnisblað um útreikninga þjóðaratkvæðagreiðslna.

Í inngangi minnisblaðsins segir eftirfarandi:

„Í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október 2012 var þjóðin spurð ráða um sex aðskilin atriði um gerð og efni nýrrar stjórnarskrár.

Úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar hafa verið birt á vefsíðum landskjörstjórnar og innanríkisráðuneytisins. Ennfremur hefur Hagstofan gert þeim skil í sérhefti svo og á vefsíðu sinni. Það er álit undirritaðs að hlutfallstölur um úrslit þessarar atkvæðagreiðslu eins og þær hafa verið birtar í annarri af tveimur tilkynningum landskjörstjórnar, hjá innanríkisráðuneytinu svo og sem aðalniðurstaða í riti Hagstofunnar séu villandi.

Rangfærslan byggist á því að atkvæði þar sem tiltekinni spurningu er ekki svarað eru engu að síður talin til gildra en ekki auðra atkvæða varðandi viðkomandi spurningu og hlutfallstölur reiknaðar í samræmi við það. Samtala hlutfalla já-svara og nei-svara er því ekki 100%. Þannig getur það gerst, samkvæmt þessari túlkun, að tillaga sem borin væri undir þjóðaratkvæðagreiðslu teljist hvorki hafa verið samþykkt né að henni hafi verið hafnað. Hlutfallstölurnar sem hafa verið birtar gefa því ekki þá mynd sem löggjafinn hlýtur að hafa verið að leita eftir, þar sem fram eigi að koma vilji þeirra sem tóku afstöðu til hverrar spurningar fyrir sig, og þeirra einna.

Birting úrslita í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 með ofangreindum hætti er nýlunda í íslenskri kosningasögu, enda eru fylgishlutföll lista í kosningum til Alþingis eða sveitarstjórna ætíð reiknuð þannig að þau safnast saman í 100%. Sama á við um forsetakosningar. Í öllum öðrum skýrslum Hagstofunnar um þjóðaratkvæðagreiðslur er ennfremur hið sama uppi á teningnum. Fyrst með þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 eru niðurstöður kynntar með hinum nýja hætti.

Úrslitin með umræddum hlutfallstölum hafa verið tekin sem viðtekinn sannleikur og t.d. ratað í fyrstu áfangaskýrslu starfandi stjórnarskrárnefndar. Aðferðafræðin getur haft fordæmisgildi og boðið heim hættu á misnotkun þjóðaratkvæðagreiðslna.

Því ber viðkomandi stjórnvöldum að leiðrétta þessa rangfærslu, en löggjafinn taki af allan vafa með lagabreytingu sé þess talin þörf.

 

Umsögn sexmenninga um 1. áfangaskýrslu stjórnarskrárnefndar hinnar nýju

[Við, sex félagar úr stjórnlagaráðinu sáluga, Ari Teitsson, Illugi Jökulsson, Katrín Fjeldsted, Guðmundur Gunnarsson, Þorkell Helgason og Vilhjálmur Þorsteinsson sendum hinn 30. sept. 2014 stjórnarskránefndinni nýjustu umsögn um fyrstu áfangaskýrslu hennar. Hér á eftir sést inngangsbréf okkar til nefndarinnar en umsögnin í heild er í skjalinu Umsögn sexmenninga um fyrstu áfangaskýrslu stjórnarskrárnefndar]

Við undirrituð, sem öll sátum í stjórnlagaráði, viljum með erindi þessu bregðast við ósk stjórnarskrárnefndar um athugasemdir við 1. áfangaskýrslu nefndarinnar og svara að nokkru spurningum þeim og álitamálum sem nefndin setur fram í undirköflum skýrslunnar merktum x.6.

Við fögnum því að viðfangsefnið — endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands — sé á dagskrá og væntum þess og vonum að hin nýja nefnd sinni því af alúð, enda er okkur málið hjartfólgið.

Eins og öllum er kunnugt fór fram umfangsmikil og lýðræðisleg vinna að nýrri stjórnarskrá í stjórnlagaráði 2011 og í aðdraganda þess með þjóðfundinum 2010, svo og með gagnaöflun og fræðivinnu stjórnlaganefndar sem undirbjó starf ráðsins. Þá unnu starfsmenn stjórnlagaráðs og ráðgjafar, sem leitað var til, mikið starf, og sama gildir um stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis á síðasta kjörtímabili og sérfræðinga á hennar snærum. Fullyrða má að ekki hafi verið jafn mikið í lagt í neinni af hinum mörgu fyrri tilraunum til að setja lýðveldinu heilsteypta stjórnarskrá.

Þjóðaratkvæðagreiðslan 2012 skapar þessari stjórnarskrárlotu sögulega sérstöðu. Niðurstöður atkvæðagreiðslunnar voru mjög afgerandi um helstu lykilatriði í tillögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Þar kom líka fram ósk tveggja þriðju hluta kjósenda sem afstöðu tóku um að tillögur ráðsins skyldu lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.[1]

Að öllu þessu virtu verður að telja að hinni nýju stjórnarskrárnefnd beri lýðræðisleg skylda til að leggja niðurstöður hins mikla starfs í undanfarinni lotu til grundvallar verki sínu og tillögugerð, í stað þess að hefja að nýju umræðu á breiðum grundvelli um efnisatriði stór og smá. Rökrétt er, og vænlegast til árangurs og sátta, að nefndin einbeiti sér að því að halda áfram umbótum og útfærslum á „grundvelli“ tillagna stjórnlagaráðs, eins og tveir þriðju kjósenda hafa kallað eftir.

Í samræmi við það sem þegar hefur verið sagt tjáum við undirrituð okkur í viðaukum 1-4 um einstakar spurningar á áfangaskýrslunni í ljósi þess sem stjórnlagaráð lagði til. Einnig höfum við hliðsjón af frumvarpi meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og breytingartillögum hans. Við víkjum þó frá þessum meginviðmiðum þegar við metum það svo, í ljósi umræðu og upplýsinga sem fram hafa komið, að rétt sé að kveða öðru vísu að. Árétta ber að svör þessi og athugasemdir eru sett fram í okkar nafni sem einstaklinga en ekki í nafni annarra fyrrum félaga okkar í stjórnlagaráði.

 



[1] Hér verður að skjóta því inn að atkvæðahlutföll þau úr þjóðaratkvæðagreiðslunni sem fram koma í áfangaskýrslunni eru villandi þar sem auð svör við einstökum spurningum eru talin til gildra atkvæða. Hlutföll já- og nei-svara leggjast því ekki saman í 100%. Þetta er öndvert við vilja löggjafans eins og hann birtist í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 91/2010 um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna, svo og hefðir um birtingu niðurstaðna úr þjóðaratkvæðagreiðslum og kosningum, sbr. t.d. töflu 10 í Hagtíðindum 2013:1.

Skálholtshátíð

[Birtist í Morgunblaðinu 19. júlí 2014.]

Eftir Eið Svanberg Guðnason, Hörð H. Bjarnason, Jón Hákon Magnússon, Ormar Þór Guðmundsson, Þorkel Helgason og Vilhjálm Bjarnason

clip_image002

Skálholtskirkja, — Morgunblaðið/Brynjar Gauti

“Kirkjan er klettur sem skal verða manninum leiðarljós. Á hana skal ekkert skyggja.”

Ísland er líklega eina landið í veröldinni þar sem kristni hefur verið frá upphafi byggðar. Ef til vill voru hér í landi írskir einsetumenn sem iðkuðu trú sína hér fyrir landnám og einnig voru nokkrir landnámsmenn kristnir. Svo var það árið 999 að leiðtogi heiðinna, Þorgeir lögsögumaður, úrskurðaði að einn siður skyldi vera lögtekinn, í þágu þjóðareiningar.

Fyrir kristnum mönnum á þessari örlagastundu fóru Gissur hvíti og Síðu-Hallur. Ísleifur sonur Gissurar hvíta varð biskup og settist að á ættararfleifð sinni í Skálholt. Skálholt varð strax menningarsetur og þar hófst skólahald. Meðal nemenda Ísleifs var Jón helgi Ögmundsson, Hólabiskup. Ávallt síðan hefur Skálholt verið athvarf kristni, menningar og lista.

Þó varð Skálholt um skeið fórnarlamb niðurlægingar vegna þeirra hallæra, sem urðu í kjölfar móðuharðinda. Biskupsstóll og skólahald lögðust af í Skálholti árið 1801 en biskupsstóll lagðist af á Hólum árið 1798. Þá var risin steinkirkja sú er enn stendur á Hólum en allt var hrunið í Skálholti.

Skálholt var ekki gleymt í huga þjóðarinnar. Árið 1948 var Skálholtsfélagið stofnað. Félagið hafði það að markmiði að endurreisa virðingu Skálholts í minningu guðskristni í landinu. 15 árum síðar var dómkirkjan sem nú stendur vígð. Kirkjan er sú tólfta á staðnum.

Vígsla kirkjunnar var ekki aðeins kirkjuvígsla, hún var tákn þess að Ísland var risið úr öskustó Móðuharðinda.

Kirkjan er nú friðuð sem eitt höfuðdjásn byggingalistar á tuttugustu öld. Um friðunina segir: „Í útfærslu sinni á Skálholtskirkju hafði Hörður [Bjarnason] hliðsjón af Brynjólfskirkju sem stóð í Skálholti frá 1650 til 1807, krosslöguð, með þverskipi og hliðarskipum. Hún er einstaklega glæsileg í sínum einfaldleika og látleysi.“

Til hliðar við kirkjuna stendur Skálholtsskóli sem einnig er friðaður. Um skólann segir í friðuninni: „Við hönnun Skálholtsskóla höfðu arkitektarnir [Manfreð Vilhjálmsson og Þorvaldur S. Þorvaldsson] fyrri tíða þorpsmynd í Skálholti í huga. Byggingunni er skipt upp í minni hús með tengigangi og til að árétta mikilvægi samræmis í byggingum í Skálholti var skólinn hafður í sömu litum og kirkjan.“

Í táknhyggju Skálholts er einfaldleikinn í fyrirrúmi. Vissulega verður sólarljósið margbreytilegt þegar það skín um glugga Gerðar Helgadóttur. Þannig er einnig um kristmynd Nínu Tryggvadóttur fyrir altari kirkjunnar. Myndin vekur hugrenningar hjá þeim er hennar njóta.

Í friðuninni segir um verk þeirra: „Að innan er kirkjan einnig látlaus og einföld og því njóta steindir gluggar Gerðar Helgadóttur sín afar vel. Í kirkjunni er mikið af listaverkum en ein helsta prýði hennar verður þó að teljast mósaíkmynd Nínu Tryggvadóttur sem er í kórnum.“

Þegar kirkjan var risin af grunni fóru þeir heiðursmenn sem höfðu veg og vanda af verkefninu, herra Sigurbjörn Einarsson biskup og Hörður Bjarnason húsameistari, til Skálholts. Biskup ámálgaði það við húsameistara að reistur skyldi garður umhverfis kirkjuna. Húsameistari taldi það af og frá, kirkjan stendur á hæð og umhverfis hana skal ekkert standa sem skyggir á hana. Kirkjan er klettur sem skal verða manninum leiðarljós. Á hana skal ekkert skyggja. Á þetta féllst biskup strax. Því hefur ekkert verið gróðursett umhverfis kirkjuna og allir legsteinar í kirkjugarðinum liggja við moldu.

Þannig hefur Skálholtskirkja öðlast virðingarsess í huga þjóðarinnar í einfaldleika sínum. Skálholtskirkja og Skálholtsskóli eru menningarsetur þar sem kristni, fræðimennska og tónlist eru í öndvegi.

En svo gerast ósköpin í einkaframkvæmd. Það er reist hús hornskakkt á kirkjuna. Húsið er án tilgangs, kallað tilgátuhús en án tilgátu. Kennt Þorláki án nokkurra tengsla við heilagan Þorlák. Um friðun bygginga í Skálholti segir: „Friðunin nær til innra og ytra byrðis Skálholtskirkju, ytra byrðis Skálholtsskóla auk nánasta umhverfis að undanskilinni yfirbyggingu yfir friðlýstar fornleifar Þorláksbúðar.“

Þorláksbúð hin nýja nýtur því ekki friðunar. Auk þess er hún illilega á skjön við byggingarstíl og yfirbragð þeirra bygginga sem eru friðaðar. Því er nauðsynlegt að húsið verði flutt og fundinn staður þar sem það spillir ekki heilsteyptu yfirbragði Skálholtsstaðar.

Gleðilega Skálholtshátíð.

Eiður er fv. stjórnmálamaður, Hörður er fv. sendiherra, Jón Hákon var framkvæmdastjóri, Ormar Þór er arkitekt, Þorkell er próf. emeritus, Vilhjálmur er alþingismaður.

[Jón Hákon andaðist deginum fyrir birtingu þessarar greinar.]

Forsmánin við Skálholtskirkju og fjóspúkarnir á bitanum

[Birtist í visir.is og í styttri gerð í Fréttablaðinu 15. júlí 2014.]

 

 

clip_image002

VINIR SKÁLHOLTS SKRIFA:

Í Fréttablaðinu 8. júlí sl. er hálfkveðin „frétt“ um svokallað Þorláksbúðarmál. Skýrt er frá því að kirkjuráð hafi ákveðið að „lána“ Þorláksbúðarfélaginu 10,3 milljónir kr. og gefa eina milljón að auki til að félagið geti gert upp skuld við smið byggingar þeirrar sem hefur verið reist yfir rúst svokallaðrar Þorláksbúðar. Smiðurinn er verður launa sinna eftir að hafa verið vélaður til verksins á sínum tíma.

Árni Johnsen, sem er eins konar forystusauður svonefnds Þorláksbúðarfélags, segir að félagið hafi verið í fjárþröng vegna þess að „fjóspúkar á bitanum“ hafi haldið uppi harðri gagnrýni á verkefnið. Ragnhildur Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri kirkjuráðs, tekur í sama streng og kennir gagnrýnendum um fjárskort félagsins. Þess vegna hafi kirkjuráð lánað félaginu og vonast hún nú til að þeir finnist sem leggja vilja fé af mörkum, en bætir við að seinna meir verði hægt að „leita til ríkisins“. Hve oft hefur ekki hið opinbera þurft að greiða óreiðuskuldir ævintýramanna. Nú á að bæta þar við.

Það er rétt að við undirritaðir, og margir aðrir, höfum barist gegn því að umrædd smíð rísi þétt upp við Skálholtskirkju og tökum því það til okkar að vera fjóspúkar í augum Árna. Hvað höfum við á móti framkvæmdinni?

  • Sögulegt gildi nýrrar Þorláksbúðar er ekkert. Engar heimildir eru fyrir því að tóftin tengist Þorláki biskupi. Nafngiftina Þorláksbúð er fyrst að finna á 16. öld, mörgum öldum eftir daga Þorláks og tilgátuhúsið, sem risið er ofan á tóftina, á sér enga sögulega fyrirmynd.
  • Með þeirri yfirbyggingu tóftarinnar er friðuðum fornleifum spillt, sem er óheimilt. Væri tóftin í raun nátengd heilögum Þorláki, eins og forkólfurinn Árni hefur einatt haldið fram, væri þetta enn alvarlegra mál.
  • Með smíðinni er grafarró raskað í gamla kirkjugarðinum, sem varðar við lög.
  • En ekki síst er yfirbygging Þorláksbúðar fádæm smekkleysa, þar sem hún er trónir þétt upp við kirkjuna, hornskakkt á hana. Hún er vanvirðing við þá sem stóðu að gerð Skálholtskirkju hinnar nýju og þyrnir í augum allra þeirra sem vilja reisn staðarins sem mesta.

Allt verklagið við þennan gerning er með ólíkindum. Göslast var áfram þvert á gildandi skipulag og áður en tilskilin leyfi voru fengin, svo sem byggingarleyfi. Margir þeir sem hefðu þurft að veita slík leyfi voru ekki spurðir, eða þá fyrst spurðir þegar þeir stóðu frammi fyrir orðnum hlut. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur líka lýst furðu sinni á verklaginu.

Allt á huldu

Allt er á huldu um hvað Þorláksbúðarfélagið er, hverjir að því standa, hvernig fjárreiður þess eru o.s.frv. Eitt er þó víst að það er rangt sem framkvæmdastjóri kirkjuráðs segir í umræddri frétt „að kirkjan hafi ekki áður lagt fé til Þorláksbúðar“. Í bréfi Ríkisendurskoðunar sem vitnað er til í skýrslu stjórnskipunar og eftirlitsnefndar Alþingis á 141. löggjafarþingi segir: „Í bréfi Ríkisendurskoðunar kom fram að Félag áhugafólks um uppbyggingu Þorláksbúðar fékk á árunum 2008–2011 úthlutað samtals 9,4 millj. kr. úr ríkissjóði og að auki 3 millj. kr. frá kirkjuráði“. Síðan kann meira að hafa komið til. Það er því ósatt að kirkjan hafi ekki þegar lagt fé í þessa framkvæmd Árna Johnsens í Skálholti. Þá er það deginum ljósara að það mun lenda á kirkjunni að standa undir viðhaldi og rekstrarkostnaði byggingarinnar. Það getur orðið dágóð upphæð.

Árni Johnsen „segist vona að málið sé allt komið í góðan farveg nú þegar kirkjan sé „með í dæminu“. Framkvæmdastjóri kirkjuráðs er sama sinnis og vonast til að „neikvæð umræða um verkefnið dofni“. Við, vinir Skálholts, getum lofað henni því að við munum halda áfram að gagnrýna óskundann í Skálholti og ekki linna látum fyrr en Þorláksbúðarbyggingin hefur verið fjarlægð. Vissulega verður róðurinn erfiðari nú þegar kirkjan er orðin samsek og hefur hagsmuna að gæta með tóftarfélaginu. Það sem haft er eftir framkvæmdastjóranum um þetta bendir frekar til að hún sé orðin fjölmiðlatengill Árna Johnsens fremur en þeirrar kirkju sem á að gæta að sóma Skálholts. Talar hún fyrir munn biskups Íslands?

Framkvæmdastjóri kirkjuráðs segir að flestir útlendingar sem koma í Skálholt skoði Þorláksbúð. Við undirritaðir erum oft í Skálholti og það er rétt að margir horfa á tóftarbygginguna, jafnvel líta þar inn. En er það til að dást að hinum „algjöra gullmola“, eins og Árni kallar smíðina, eða er það til furða sig á smekkleysu og molbúahætti Íslendinga? Við höfum ekki enn hitt þann útlending sem hefur dásamað fyrirbærið, en viðmælendur okkar hafa lýst mikilli undrun og spurt hvernig annað eins geti gerst á þessum sögulega og helga stað.

Það eitt er til ráða að fjarlægja bygginguna úr kirkjugarðinum og reyna að koma tóftinni í fyrra horf, hafi hún ekki þegar verið eyðilögð. Taka má undir með framkvæmdastjóranum títtnefnda að tréverkið er á sinn hátt „listasmíð“. Húsið mætti því endurreisa á Skálholtsstað þar sem það spillir ekki staðarmyndinni og gæti jafnvel nýst til einhverrar þjónustu við gesti og gangandi. Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Minjastofnunar Íslands, hefur sagt að það sé „ekki vilji Minjastofnunar Íslands að húsið verði áfram þar sem það er nú“. Þetta verður ekki skilið öðru vísi en að stofnunin vilji húsið burt. Í viðbótarfrétt í Fréttablaðinu 9. júlí eru orð hennar þá og nú túlkuð á þennan veg. Aðspurð segir forstöðumaðurinn að vel sé hægt að flytja húsið. Árni Johnsen og framkvæmdastjóri kirkjuráðs segja, eins og við var búist, bæði tvö, að það sé „útilokað að færa Þorláksbúð“. Kristín Huld segir á hinn bóginn að húsið hafi einmitt verið reist þannig að flytja mætti það burt. Væntanlega hefur Árni kríað út leyfi með því lofa þessu, en nú heldur hann öðru fram.

Það kostar fé að færa bygginguna. Kirkjuráð hefur nú fundið rúmar tíu milljónir króna handa tóftarfélaginu, mitt í miklum harðindum Þjóðkirkjunnar. Þau lýsa sér m.a. í því að kirkjan hefur hætt öllum beinum fjárstuðningi við Sumartónleikana, það starf í Skálholti sem er staðnum einna mest til sóma, en þeir halda nú upp á fertugasta hátíðarsumarið. Milljónir kirkjuráðs verða afskrifaðar, hvað sem öllu líður. Væntanlega stendur það í kirkjunni að fórna meiru. Hverjir vilja ljá málinu lið og leggja fram þá tugi milljóna kr. sem þarf til að gera gott úr smíðinni og afmá þá hneisu sem Þorláksbúðarbyggingin er á núverandi stað?

Allt ferli Þorláksbúðarmálsins á að verða rannsóknarefni fyrir þar til bær yfirvöld, þó ekki væri nema til að koma í veg fyrir að hægt sé með frekju og yfirgangi að þjösnast áfram á kostnað almennings. Fyrir félagsvísindamenn getur málið líka verið áhugavert, hvort það sé einkenni kunningjasamfélagsins að menn komist upp með að brjóta lög og reglur.

Eiður Svanberg Guðnason, fv. stjórnmálamaður
Hörður H. Bjarnason, fv. sendiherra
Jón Hákon Magnússon, framkvæmdastjóri
Ormar Þór Guðmundsson, arkitekt
Þorkell Helgason, prófessor emeritus
Vilhjálmur Bjarnason, alþingismaður

Stóryrtar yfirlýsingar um stjórnlagaráð

[Birtist í Fréttablaðinu 2. júlí 2014]

Í ritstjórnargrein Fréttablaðsins 26. júní s.l. er fjallað um áfangaskýrslu hinnar nýju stjórnarskrárnefndar sem birt var á dögunum. Undirritaður sat í stjórnlagaráði og telur sér því málið skylt.
Eins og ritstjórinn fagna ég sérhverju skrefi í stjórnarskrármálinu; líka reifun málsins í áfangaskýrslu hinnar nýju stjórnarskrárnefndar, þótt beinar tillögur séu þar næsta fáar. Stjórnarskrármálið er þó aftur komið í umræðuna. Á hinn bóginn finnst mér ritstjórinn tala ómaklega um störf stjórnlagaráðs. Það hafi „skellt… fram illa ígrunduðum tillögum“ segir hann. Ráðið fékk afmarkaðan tíma til sinna starfa, rúma þrjá mánuði. Tíminn hafði verið verulega skorinn niður frá því sem upphaflega var ráðgert. Hinu má þó ekki gleyma að mikið starf hafði farið fram áður en stjórnlagaráðið tók til starfa, og það þurfti því ekki að hefja störf á byrjunarreit. Engu var „skellt fram“, enda störfuðu 25 einstaklingar ásamt sérfræðingum að verkefninu nótt sem nýtan dag sumarið 2011. Unnið var fyrir opnum tjöldum með samfelldu aðgengi almennings.
Dundar sér út kjörtímabilið
Nýja nefndin fær að dunda sér við málið út kjörtímabilið og er ekki einu sinni skuldbundin til að skila neinu frá sér, en stjórnlagaráði var uppálagt að skila drögum að frumvarpi. Að tillögur okkar hafi verið „illa ígrundaðar“ er órökstudd fullyrðing. Í lok ritstjórnargreinarinnar er talað um „hrærigraut[inn] sem hin misheppnaða tilraun um stjórnlagaþingið gat af sér.“ Það virðist í tísku að taka stórt upp í sig um störf stjórnlagaráðs, án þess að láta nokkuð í ljós sem stutt geti stóryrðin.
Ritstjóranum er tíðrætt um skoðanir stjórnlagaráðs. Ráðið samanstóð af einstaklingum sem sameiginlega hafa engar aðrar skoðanir en þær sem komu fram í skriflegum skilum ráðsins 29. júlí 2011. Ritstjórinn segir að „[r]áðið … virtist halda að … með [tillögum þess] væri komin ný stjórnarskrá, sem ekki mætti breyta eða ræða frekar.“ Það kann að vera að einstaka félagar í ráðinu hafi talað þannig, en flestir, ef ekki allir sögðu að vissulega bæri að gera þær breytingar sem til bóta mættu vera, eins og gert var í umfjöllun meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.
Sjötíu ára bið
Þá segir ritstjórinn að „[s]tóryrtar yfirlýsingar fyrrverandi stjórnlagaráðsmanna um „valdarán“ og „aðför að lýðræðinu“ í tilefni af áfangaskýrslunni eru fáránlegar.“ Hér er aftur verið að ýja að því að stjórnlagaráðsmenn fyrrverandi tali allir á sömu nótum. Sum okkar mundu nota önnur orð um þetta nýja plagg og tilurð þess.
Ritstjórinn segir að flest bendi „til að málið sé nú … lagt þannig upp að það geti fengið vandlega umræðu og skoðun, Alþingi fjallað um það á vandaðan hátt og þjóðin verði síðan spurð álits – með lýðræðislegum hætti.“ Vonandi hefur hann rétt fyrir sér, en reynslan segir því miður annað. Það var ekkert því til fyrirstöðu að frumvarp stjórnlagaráðs fengi „vandlega umræðu og skoðun“ og aldrei stóð annað til en „að þjóðin [yrði] .. spurð álits – með lýðræðislegum hætti“ um endanlegt stjórnarskrárfrumvarp, sem byggt væri á tillögum stjórnlagaráðs eins og 2/3-hlutar þeirra kjósenda, sem afstöðu tóku, óskuðu eftir í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012. En af öllu þessu varð ekki þar sem málið þvældist fyrir Alþingi í tvo vetur og endaði síðan í allsherjar málþófi eins og einatt áður.
Í sjötíu ár hefur verið beðið eftir raunhæfum stjórnarskrárbótum. Það á eftir að koma í ljós hvort nú sé „góð byrjun“ í þessa veru, eins og felst í yfirskrift ritstjórnargreinarinnar, það hvort útkoman verður yfirklór eða raunverulegar réttarbætur til eflingar almannahag gegn sérhagsmunum.