Hugleiðingar um stöðu stjórnarskrármálsins í kjölfar fundar Stjórnarskrárfélagsins á Sólon 21. feb. 2018

Ég sé ekki til lands í stjórnarskrármálinu í þeim skilningi að ný stjórnarskrá byggð á tillögu Stjórnlagaráðs nái fram að ganga á mínum ævidögum. Vera má að þetta sé svartsýni mín (gamals manns!). Á fundinum var bent á að þjóðin, eða amk. stór meirihluti hennar, lýsi sig nú sem fyrr fýsandi þess að fá nýja stjórnarskrá. Þetta fer eftir því hvernig spurt er, en ég vil þó eins og jásystkin mín trúa því að þjóðin meini þetta. Á sama tíma kýs þjóðin nú sem fyrr flokka sem annað hvort eru berlega á móti breytingum eða segjast vilja breytingar, en meina samt ekkert með því, eins og Jón Ólafsson sagði skilmerkilega á fundinum.

Hvernig er málið statt nú?

Allir áhugamenn um stjórnarskrármálið vita í hvaða farveg málið er komið hjá núverandi ríkisstjórn. Enn ein nefndaskipunin og langt ferli með alls kyns farartálmum. Því fáum við ekki breytt og verðum þá að gera það upp við samvisku okkar hvort við eigum að fara í fýlu og agnúast út í þá sem nú fara með völdin. Það hefur lítinn tilgang annan en að styrkja okkur í trúnni, en mun ekki hafa nein afgerandi áhrif á framvinduna. Eins og Birgitta Jónsdóttir nefndi réttilega á umræddum fundi er það líka andstætt markmiðum okkar og starfsháttum að úthúða þingmönnum og stjórnmálamönnum og setja þá alla undir sama hatt sem svikula þjóðníðinga, svo ég spari nú ekki orðin.

Með sama hætti var það ekki uppbyggilegt þegar stjórnlagaráð hafði skilað tillögum sínum að heimta af Alþingi, eins og sum okkar gerðu, að frumvarp ráðsins yrði afgreitt skilmálalaust, að ekki mætti stafkrók breyta, nema bara til að leiðrétta ritvillur. Það hleypti illu blóði í marga sem voru okkur þó vinveittir. Sem betur fer ber nú minna á þessum sjónarmiðum. Allir vitna nú í það að þjóðin samþykkti 2012 að leggja skuli tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar nýrri stjórnarskrá, en ekki skjalið óbreytt.

Það er mikið vatn runnið til sjávar frá sumrinu 2011 þegar ráðið skilaði af sér og nokkur óbein prófun komin á tillögur ráðsins. Ég hygg að flest okkar sem sátu í ráðinu gætu bent á atriði, sem þau studdu eða unnu að, sem mætti eftir á að hyggja orða betur, án þess þó hróflað sé við „grundvellinum“. Þannig skal ég játa að ákvæðin um kosningar til Alþingis, sem ég átti stóran þátt í að móta, mætti einfalda en halda samt í kjarna þeirra: Jafnan kosningarétt allra og persónukjör að grunni til.

En hver hefur umboð til að breyta tillögum stjórnlagaráðs? Stjórnskipulega séð enginn nema Alþingi. Hvort sem okkur líkar það betur eða ver, þá liggur valdið þar, ekki hjá þjóðinni – nema með leyfi Alþingis. Í þessu ljósi verðum við að meta stöðu málsins nú. Forsætisráðherra ætlar að setja á laggirnar fimm manna sérfræðinganefnd sem starfi undir yfirstjórn formanna flokkanna sem sæti eiga á þingi. Við skulum virða það til málsbóta að þetta eru þó allir flokksformenn, ekki aðeins formenn stjórnarflokkanna. En vitaskuld mun það verða svo að stjórnarflokkarnir munu ráða ferðinni.

Á margnefndum fundi Stjórnarskrárfélagsins var mönnum tíðrætt um skipun forsætisráðherra í starf verkefnisstjóra. Ég  fagna því að sett skuli slík verkstjórn. Hana skorti í öllu stjórnarskrárferlinu 2009-2013. Slík stjórnun hefði átt að vera á vegum forsætisráðuneytisins en ekki í höndum þingsins sem hafði málið ekki í sínum höndum fyrr en síðar. Vitaskuld hefðum við helst viljað sjá í þessu mikilvæga starfi einhvern fagmann sem allir gætu treyst. Nú, en kona var valin úr röðum stjórnmálamanna, eða fyrrverandi slíkra. Þótt ég vilji forðast að persónugera þessi mál, vil ég þó láta í ljós væntingar til þeirrar konu sem valin var, Unnar Brár Konráðsdóttur. Þótt hún hafi í þingræðum gegnt meintum flokkskyldum sínum og fett fingur út í tillögur stjórnlagaráðs hefur hún líka sýnt sjálfstæði í þingstörfum sínum sem og í stól forseta Alþingis. Hvernig væri að hvetja hana til dáða, en jafnframt veita henni öflugt aðhald?

Hvað er til ráða?

Mörg áhugasamtök, eins og Stjórnarskrárfélagið, hafa tilhneigingu til að leggjast í naflaskoðun, að boða trúboð meðal hinna trúuðu. Það þokar málinu lítt áfram að berja okkur á brjóst og tala um hvað tillögur stjórnlagaráðs séu góður grundvöllur að traustri stjórnarskrá – sem þær eru – en það sem standi vegi séu ill öfl á Alþingi – sem er mikil einföldun. Við verðum að reyna að breiða fagnaðarerindi okkar út meðal almennings, skapa raunhæfan þrýsting en veita þeim á þingi og annars staðar, sem vinna að framgangi málstaðarins, stuðning en líka aðhald. Vandinn er hvernig við náum að gera þetta.

Hér og nú liggur fyrir að þjarma þarf að forsætisráðherra og verkefnisstjóranum en á uppbyggilegan hátt, svo sem með því að greina minnisblað forsætisráðherra, gagnrýna það sem þar er ámælisvert, nú eða bara flausturslegt. Og koma með uppbyggilegar tillögur. Ein slík var nefnd á fundinum, af Katrínu Oddsdóttir formanni Stjórnarskrárfélagsins. Hún lagði til að fyrsta verkefnið í endurskoðun stjórnarskrárinnar yrði að endurskoða ákvæði 79. gr. núgildandi stjórnarkrá um hvernig henni megi breyta. Breytt eigi ákveðið að kveða á um að þjóðaratkvæðagreiðsla skuli ávallt fara fram um breytingar á stjórnarskrá. Rök Katrínar eru góð og gild. Með því að ganga fyrst frá þessu ákvæði sé stjórnarmeirihlutinn neyddur til að viðurkenna lokavald þjóðarinnar.

En það er alls ekki sama hvernig nýtt breytingarákvæði er. Það sem batt enda á stjórnarskrárferlið vorið 2013 var samþykkt þingsins á bráðabirgðaákvæði við stjórnarskrána einmitt um þetta atriði. Þar var kveðið á um ákvæði til bráðabirgða þess efnis að stjórnarskránni mætti breyta þannig að fyrst þyrfti breytingin að vera samþykkt með 2/3 hlutum atkvæða á Alþingi en síðan að hljóta samþykki meiri hluta gildra atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu, þó með atkvæðum minnst 40 af hundraði allra kosningarbærra manna. Ef þetta ákvæði hefði verið samþykkt sem ótímabundið og eina ákvæðið um gildistöku stjórnarskrárbreytinga hefði minni hluti Alþingis eða þjóðar fengið neitunarvald. Þá væri trúlega tómt mál að tala um nú um heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar, nema þá í einhverju bitlausu og útþynntu formi. Sem sagt: „Aðgát skal höfð í nærveru afturhaldsaflanna“ svo að lagt sé út af orðum langafa Katrínar formanns.

(Þetta er ritað 25. febrúar 2018)

 „Helguleikur“

Væntanleg er bók um tónlistarstarf Helgu Ingólfsdóttur semballeikara (f. 1942, d. 2009) og um leið sögu Sumartónleika í Skálholtskirkju sem Helga stofnaði og stýrði í þrjátíu sumur.

Nánari upplýsingar um bókina og geisladiska sem fylgja henni er að finna hér:

Helguleikur efni og diskaskrá

Hægt er að skrá áskrift með ýmsu móti (þó helst í þessari forgangsröð):

  1. Á síðunni: Skráningarsíða.
  2. Með tölvupósti á thorkellhelga@gmail.com og fá þá sent eyðublað til baka.
  3. Með bréfi til Þorkels Helgasonar, Strönd, 225 Álftanesi þar sem fram komi fullt nafn, kennitala, heimilisfang auk nafns maka sé því að skipta.
  4. Eða með því að hringja í mig í síma 893 0744.

Þeir sem ná að tilkynna áskrift fyrir 10. febrúar n.k.  fá nafn sitt (og maka) skráð í bókarlok, í Tabula honorum, nema þess sé ekki óskað.

Höfundur bókarinnar er Kolbeinn Bjarnason, flautuleikari, tónskáld og tónlistarfræðingur. Bókin kemur út með vorinu og verður talsvert á fjórða hundrað síðna. Henni fylgja sex hljómdiskar með einleik Helgu, en Bjarni Rúnar Bjarnason, fyrrv. tónmeistari Ríkisútvarpsins, annast vinnslu diskanna. Bókaútgáfan Sæmundur gefur út.

Áætlað er að smásöluverð bókarinnar ásamt geisladiskunum nemi um 15 þúsund krónum en þeir sem skrá sig í þessari forsölu greiða 8.900 kr. Útgáfa bókarinnar er styrkt af Minningarsjóði um Helgu Ingólfsdóttur en þeir sem gerast áskrifendur að bókinni ljá með því sjóðnum lið.

Aðstandendum Minningarsjóðsins væri mikil fengur í áskrift þinni að bókinni og heiður af skráningu í Tabula honorum.

F.h. hönd Minningarsjóðs um Helgu Ingólfsdóttur, Þorkell Helgason, form. stjórnar sjóðsins.

Veiðigjald er ekki skattur heldur afnotagjald

 

[Birtist á Fréttablaðinu og á visir.is 11. janúar 2018; sjá http://www.visir.is/g/2018180119868/veidigjald-er-ekki-skattur-heldur-afnotagjald-]

Skattar eru lagðir á „eftir efnum og ástæðum“ eins sagt var í gömlum lögum um álagningu útsvars. [i] Þeir sem betur eru settir greiða hlutfallslega meira en hinir. Þetta er gert af félagslegum ástæðum, til tekjujöfnunar. En þetta á aðeins við um skatta á tekjur einstaklinga. Fyrirtæki greiða aftur á móti öll sama hlutfall af hreinum tekjum sínum, óháð efnahag að öðru leyti. Það er hvorki skynsamlegt né framkvæmanlegt að vera þar með einhverjar tekjujöfnunarkúnstir.

Í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar segir: „Við endurskoðun laga um veiðigjöld þarf að hafa það meginmarkmið að tryggja þjóðinni réttlátan hlut af arðsemi auðlindarinnar og að þau taki tillit til afkomu.“ [ii] Í túlkun ráðherra og stjórnarþingmanna undanfarið á þessu ákvæði hefur þetta verið lagt út sem lækkun veiðigjalda með tilliti til „afkomu“; jafnvel afkomu hverrar útgerðar eða a.m.k. útgerðarhópa.

Varhugaverð braut

Hér er farið út á varhugaverða braut af mörgum ástæðum. Slík afkomutenging verður ávallt umdeilanleg, upphaf ágreinings sem mun grafa undan veiðigjaldskerfinu í sífellu þar til fátt verður eftir. Brugðist verður við kveinstöfum með því að slá af gjaldinu, fyrst hjá Jóni en svo líka fyrir séra Jón. Leiðir til að koma útgerðum undir lægri gjöldin munu blasa við, svo sem uppskipting fyrirtækja í misarðbærar einingar. Útgerðir munu fá „framsóknarlag“ svo vísað sé til fyrirbæris fyrr á árum þegar sagað var framan af stefni fiskiskipa til að koma þeim í hentugra hólf réttinda. Hvað gerist við leiguframsal kvóta frá útgerð með lægra veiðigjald til annarrar í hærri gjaldflokki?

Kjarni málsins er sá að veiðigjald er ekki og á ekki að vera skattur, allra síst slíkur sem lagður er á samkvæmt efnum og ástæðum. Veiðigjald er enginn tekjuskattsauki. Það er greiðsla fyrir aðgang að hráefni, fyrir heimild til að nýta takmarkaða sameignarauðlind, ekkert annað. Dytti einhverjum í hug að ríkið niðurgreiddi önnur mikilvæg aðföng við fiskveiðar, eins og olíu, og það eftir afkomu hverrar útgerðar? Vart nú, enda væri það afturhvarf til þess miðstýringarkerfis sem þjóðin bjó við á árum áður. Veiðigjald sem er skilgreint sem síbreytilegur skattur verður aldrei til friðs hvorki innan útvegarins né heldur hjá almenningi sem grunar að þjóðin sé hlunnfarin, hlustandi á fréttir um drjúgar arðgreiðslur til eigenda útgerðanna.

Eðlilegir viðskiptahættir

Innan þess þjóðskipulags sem við búum við er eðlilegast að útgerðin ákvarði veiðigjaldið sjálf með því að kaupa eða leigja aflaheimildirnar af eigandanum, þjóðinni, á frjálsum samkeppnismarkaði. Þá aðlagast gjaldið sjálfkrafa því hvernig árar í sjávarútvegi hverju sinni og tekur þannig mið af „efnum og ástæðum“ útvegarins í heild, en án pólitískra inngripa. Breytingu í þessa veru má koma á í áföngum með fyrningarleiðinni svokölluðu. [iii] En er ekki hætta á að hinir stóru og sterku hrifsi til sín allar aflaheimildir séu þær seldar á almennum markaði? Við því er hægt að setja ýmsar skorður og beita mótvægisaðgerðum. Þannig mætti t.d. láta tekjur af sölu aflaheimilda renna að drjúgum hluta til þeirra byggða sem eiga mest undir fiskafla svo og til uppbyggingar innviða í dreifðum byggðum landsins.

Vinstri-hægri

Hvers vegna skýtur slík hugmynd um ríkisstýrð og afkomutengd veiðigjöld upp kollinum nú hjá vinstri-hægri stjórn? Það er ein af furðum íslenskra stjórnmála að markaðsleiðir eiga nokkuð jafnt undir högg að sækja hjá þeim sem eru lengst til hægri svo og þeim sem eru á hinum kantinum. Látinn stjórnmálaforingi skýrði þetta þannig að vinstri-hægri ásinn væri í raun skeifulaga; stutt væri á milli endanna. Erum við að upplifa það nú?

Í lokin má minna á að 83% þeirra sem afstöðu tóku voru fylgjandi því að náttúruauðlindir yrðu lýstar þjóðareign í stjórnarskrá. Stjórnlaga­ráð gerði til tillögu í þeim efnum sem öðrum. Enn situr þó við sama.

_________________________________________________________

[i] Í 4. gr. laga nr. 66 1945 hefst á þessari setningu: „Útsvar skal leggja á eftir efnum og ástæðum.“

[ii] Sjá https://www.stjornarradid.is/rikisstjorn/stefnuyfirlysing/

[iii] Sjá t.d. https://thorkellhelgason.is/?p=2555.

Höfundur sat í stjórnlagaráði.

 

 

Fullt gjald fyrir afnot fiskimiðanna

[Birtist í Fréttablaðinu og visir.is 12. október 2017]
Forseti Íslands tók í júlí 2015 við undirskriftum 53.571 kosningabærs Íslendings þar sem skorað var á hann að „…vísa í þjóðaratkvæðagreiðslu hverjum þeim lögum sem Alþingi samþykkir og úthlutar fiskveiðiauðlindinni til lengri tíma en eins árs á meðan ekkert ákvæði um þjóðareign á auðlindum hefur verið sett í stjórnar­skrá og þjóðinni hefur ekki verið tryggt fullt gjald fyrir afnot þeirra“.

Frá því að þessi áskorun var afhent hefur Alþingi hvorki sett ákvæði um þjóðareign á auðlindinni í stjórnarskrá (sem 80% kjósenda kröfðust í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. okt. 2012) né tryggt með öðru móti að þjóðin fái fullt gjald fyrir afnot fiskimiðanna við landið. Í komandi kosningunum gefst kjósendum enn eitt tækifærið til að krefja stjórnmálaflokkana svara um hvernig þeir hyggjast halda á hagsmunum þjóðarinnar í þessu máli.

Stjórnmálaflokkarnir hafa allir í orði kveðnu sagst vilja tryggja þjóðareign auðlindanna, en mestu skiptir að ákvæðið sem fer í stjórnar­skrá kveði skýrt á um eign þjóðarinnar, þannig að allur afnotaréttur auðlinda sé í umboði hennar og honum verði einungis ráðstafað tímabundið og þá gegn fullu gjaldi.

Útboð tryggir sátt um sjávarútveginn
Gjald fyrir afnot af auðlindum er ekki skattur sem er lagður á eftir efnum og aðstæðum. Þvert á móti er auðlindagjald eins og hvert það gjald sem þarf að inna af hendi fyrir önnur aðföng. Engum dytti í hug að kalla greiðslu fyrir olíu á skipin skatt, jafnvel þótt þjóðin ætti olíuna, eins og tilfellið er hjá Norðmönnum.

Um mikilvægi þess að sátt ríki um sjávarútveginn þarf ekki að fjölyrða. Hlutverk sjávarútvegs í íslensku samfélagi er óumdeilt og mikið til vinnandi að friður ríki um atvinnugreinina. Útboð aflaheimilda er eina færa leiðin til að komast að raun um hvað telst fullt gjald. Aðrar leiðir til gjaldtöku munu ávallt valda deilum og ósætti, sem er afar óheppilegt fyrir þessa mikilvægu atvinnugrein. Með útboðum greiðir útgerðin það sem henni þykir sjálfri viðráðanlegt gjald, og væntanlega réttlátt, fyrir afnot af auðlindinni. Slíkt stuðlar að sátt um sjávarútveginn.


Agnar K. Þorsteinsson
Bolli Héðinsson
Guðrún Pétursdóttir
Jón Sigurðsson
Jón Steinsson
Þorkell Helgason
Aðstandendur undirskriftasöfnunarinnar Þjóðareign.