Atkvæði fólks eða fjalla?
[Birtist í Fréttatímanum 11. mars 2011]
Eitt af mikilvægustu verkefnum stjórnlagaráðs, ef það kemst á laggirnar, verður að fjalla um kjördæmaskipan og kosningar til Alþingis. Það hefur verið hefð fyrir því að hafa slík ákvæði mjög ítarleg í stjórnarskrá Íslands. Svo er einnig hjá hinum norrænu ríkjunum. Allur gangur er þó á þessu. Í sumum grannríkjum okkar, t.d. Þýskalandi eða Hollandi, kveður stjórnarskrá aðeins á um að kosningar skuli vera leynilegar og lýðræðislegar. Hvort sem sagt verður meira eða minna um þetta í stjórnarskrá okkar er einsýnt að stjórnlagaráðið verður að hugsa málið til enda, þ.e. að kveða ekki aðeins á um stjórnarskrárákvæðin heldur gera líka drög að frv. til kosningalaga sem falli að nýjum stjórnarskrárákvæðum. Svo hefur verið gert þegar þessum ákvæðum hefur verið breytt í stjórnarskránni áður.
Grunnspurningarnar sem taka þarf afstöðu til eru þessar:
- Á vægi atkvæða að vera jafnt, óháð búsetu?
- Á landið að vera eitt kjördæmi?
- Á að velja þingmenn að einhverju leyti með persónukjöri?
Þátttakendur í þjóðfundinum sem haldinn var s.l. haust svöruðu þessu almennt játandi. Fjallað mun um spurningarnar í þessum pistli og öðrum sem koma síðar. Byrjum á þeirri fyrstu.
Hvert er misvægið?
Þegar talað er um atkvæðamisvægi er oftast horft til tölu kjósenda að baki hverju þingsæti. Síðan er fundið hlutfall þessarar kjósendatölu í því kjördæmi sem talan er hæst og þess þar sem hún er lægst. Við getum nefnt þetta hlutfall misvægishlutfall. Því aðeins að hlutfallið sé nálægt einum er hægt að tala um jafnt vægi atkvæða. Í síðustu kosningum til Alþingis var þetta hlutfall rétt rúmlega tveir. Samkvæmt ákvæðum gildandi stjórnarskrár mun eitt þingsæti færast við næstu kosningar og draga úr misvæginu. Misvægishlutfallið verður þá 1,8-1,9. Það er minna misvægi en elstu menn muna. Fyrir kjördæmabreytinguna 1987 var misvægishlutfallið iðulega 4-5. Misvægið minnkaði nokkuð við breytinguna þá en síðan seig aftur á ógæfuhliðina þar til bætt var úr skák á ný með stjórnarskrárbreytingu 1999. Að óbreyttu mun hlutfallið haldast áfram um eða rétt undir tveimur.
Á hitt er að líta að það hefur verið fullur pólitískur jöfnuður allt síðan 1987 í þeim skilningi að þingflokkarnir hafa hlotið rétta tölu þingmanna miðað við landsfylgi. Misvægi atkvæða hefur því fyrst og fremst birst í því að flokkarnir þurfa að taka við þingmannsefnum úr fámennum kjördæmum á kostnað þess að fá þá þaðan sem fylgið er meira. Verst hefur þetta bitnað á Framsóknarflokknum. Nefna má sem dæmi að hann fékk aðeins einn af 34 þingmönnum höfuðborgarkjördæmanna þriggja í kosningunum 2007 á sama tíma og hann fékk 3 þingmenn af 10 í Norðausturkjördæmi.
Hvers vegna að hafa misvægi?
Meginrökin sem færð eru fyrir misvægi atkvæða eru þau að landsbyggðarfólk hafi lakari aðgang að stjórnkerfinu en þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu. Þetta eigi að bæta upp með fleiri þingmönnum. Mannréttindi, þ.m.t. kosningaréttur, eiga að vera jöfn fyrir alla. Á aðstöðumun verður að taka með öðrum hætti. Ef réttlæta á misjafnan atkvæðarétt með ójafnri aðstöðu hlýtur að vakna sú spurning hvort þá eigi ekki að taka tillit til annarra þátta líka. Hvað með að fatlaðir hefðu sérstakt atkvæðavægi eða að foreldrar fái aukið atkvæðavægi í umboði barna sinna? Þessa hugsun má leiða ad absurdum, á henni verður enginn endir.
Rökin um að aðkoma að valdinu fari þverrandi eftir fjarlægð frá höfuðborginni eru líka hæpin. Hvað skyldu íbúar í jaðarbyggðum höfuðborgarsvæðisins oft verða varir við þingmenn sína? Ef fjarlægðarrökin eiga að gilda þyrfti að útfæra þau í þaula. Eru einhver rök fyrir því að atkvæðavægi tvöfaldist við eitt að flytjast fimm kílómetra eða svo í gegnum Hvalfjarðargöngin? Þeir sem búa rétt norðan þeirra, örskammt frá höfuðborginni, hafa meira atkvæðavægi en aðrir, líka þeir sem búa fjærst henni, svo sem á Langanesi.
Sagt er að misvægi atkvæða sé ekki séríslenskt fyrirbæri. Það er rétt að hluta þótt á því sé allur gangur. Af grannríkjunum er Noregur það land sem líkist okkur helst í þessum efnum. Noregur er langur og mjór og höfuðstaðurinn því sem næst í jaðri annars endans. Ætla mætti að þá lægi beint við að mismuna eftir fjarlægð frá Osló. Svo er ekki gert heldur er miðað við fólk og fjöll sem mælikvarða. Þingsætum í Stórþinginu er skipt á milli kjördæma, fylkjanna, þannig að flatarmál mælt í ferkílómetrum er margfaldað með 1,8 og íbúatölunni bætt við. Sú vístala sem þannig fæst er notuð til að útdeila þingsætunum 169. Hvernig stuðullinn 1,8 er fenginn er hulinn ráðgáta. Þessar reiknikúnstir Norðmanna leiða til nokkurs misvægis en ekki í sama heildarmæli og hjá okkur. Til gamans má geta þess að væri Ísland eitt fylkja Noregs (sem sumum þætti ekki amalegt nú á þessum síðustu og verstu tímum!) og þingsætum bætt við handa okkur í Stórþinginu fengjum við 16 sæti af alls 185 eftir formúlunni, en ekki nema 11 af 180 ef íbúatalan ein yrði látin ráða.
Tíminn er kominn
Kosningaeftirlitsstofnun Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu kom með þá ábendingu eftir þingkosningarnar 2009 að „tími sé kominn til að íhuga lagaákvæði um skiptingu þingsæta í því skyni að tryggja jöfnuð milli kjósenda.“ Skýrar verður það ekki sagt.
Fræg er ummæli hins reynda bandaríska hæstaréttardómara Earl Warren um atkvæðajöfnuð: „Þingmenn eru fulltrúar fyrir fólk, ekki tré eða ekrur. Þingmenn eru valdir af kjósendum, hvorki af býlum né borgum né heldur af atvinnuhagsmunum.“
Í næsta pistli fjalla ég um skipan kjördæmamála.