Vilt þú ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá?

[Birtist í Fréttablaðinu 13. september 2012.]

Í þjóðaratkvæðagreiðslunni um tillögur stjórnlagráðs 20. október n.k. verður spurt um stjórnskipunarlega stöðu þjóðkirkjunnar. Ekki um tilvist hennar heldur um það hvort kirkjunnar skuli getið sérstaklega í sjálfri stjórnarskránni. Orðrétt er spurningin þannig: „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?“

Málið er hitamál og eðlilegt að þjóðin sé spurð. Frambjóðendur til stjórnlagaþings – og síðar fulltrúar í stjórnlagaráði – fengu kröftug tilmæli annars vegar frá þeim sem vilja algeran aðskilnað ríkis og kirkju og þar með öll ákvæði um þjóðkirkju burt úr stjórnarskrá og hins vegar frá þeim sem vilja óbreytt fyrirkomulag.

Á Þjóðfundinum 2010, sem var aðdragandi að öllu starfi stjórnlagaþings og síðar stjórnlagaráðs, voru skoðanir skiptar um þetta mál. Stjórnlaganefnd – sem var fagnefnd til undirbúnings starfinu – reifaði því báða kosti og lagði fram textadæmi um hvort tveggja.

Skulu nú færð helstu rök fyrir hvoru tveggja svarinu, já eða nei.

Rök fyrir JÁ við spurningunni

Þeir sem svara umræddri spurningu með jái eru væntanlega að greiða því atkvæði að ákvæði um þjóðkirkjuna verði óbreytt frá því sem er í gildandi stjórnarskrá, en þau eru einkum þessi:

S1: Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Breyta má þessu með lögum. (62. gr.)

S2: Allir eiga rétt á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins. Þó má ekki kenna eða fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði eða allsherjarreglu. (63. gr.)

S3: Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipun ríkisins samkvæmt 62. gr. og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar, og skal atkvæðagreiðslan vera leynileg. (79. gr., 2. mgr.)

Rök fyrir því að halda þessum ákvæðum efnislega óbreyttum eru m.a. sögð þessi:

  • Mikill meirihluti þjóðarinnar er í þjóðkirkjunni. Ekki er ástæða eða tilefni nú til að losa um tengsl þjóðkirkjunnar og ríkisins.
  • Mannréttindadómstóll Evrópu telur ríkiskirkju ekki stangast á við önnur mannréttinda- eða trúfrelsisákvæði.
  • Þjóðkirkja er í Danmörku og Noregi, en þangað sækjum við margt, ef ekki flest, í stjórnskipun okkar.
  • Sérhver breyting á stjórnarskrárákvæðunum um kirkjuna (S1-S3) kallar á sérstakt samþykki þjóðarinnar (S3) að mati sumra lögspekinga. Þessu er andmælt af öðrum með þeim rökum að einungis þurfi að leita til þjóðarinnar ef kirkjuskipaninni er breytt með almennum lögum. Þetta geti ekki átt við um stjórnarskrárbreytingar.
  • Hví ekki að fara að eins og nú er ráðgert í Noregi um að ríkið skuli áfram styðja þjóðkirkjuna en jafnframt önnur trúfélög svo að jafnræðis sé gætt? Ámóta lausn var rædd í stjórnlagaráði en talið varhugavert að gefa illa skilgreinanlegum félögum vilyrði um ríkisstuðning.

Rök fyrir NEI við spurningunni

Ekki er fulljóst hvað taki við verði neiið ofan á. En væntanlega eru þeir sem segja nei að lýsa yfir stuðningi við tillögur stjórnlagaráðs um kirkjuskipanina en þær eru einkum þessar:

R1: Öllum skal tryggður réttur til trúar og lífsskoðunar, þar með talinn rétturinn til að breyta um trú eða sannfæringu og standa utan trúfélaga. (18. gr., 1. mgr.)

R2: Í lögum má kveða á um kirkjuskipan ríkisins. (19. gr., 1. mgr.)

R3: Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipan ríkisins og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar. (19. mgr., 2. mgr.)

Eftir miklar vangaveltur í stjórnlagaráði fannst þessi gerð sem þótti vænleg málamiðlun og sáttatillaga milli beggja hugmynda stjórnlaganefndar. Rökin eru t.d. þessi:

  • Sé þjóðkirkjuákvæðið (S1) fellt út úr stjórnarskránni er trúfrelsið (R1) formlega að fullu virt. Þetta á að gera nú, þegar stjórnarskráin er í heildarendurskoðun, en ekki gera það að sérstöku ágreiningsefni síðar.
  • Málamiðlun ráðsins felst í því að heimila áfram sérstök lög um samband ríkis og kirkju (R2) og halda því óbreyttu að lagabreytingar um kirkjuskipanina þurfi að bera undir þjóðina (R3).
  • Stjórnarskrárákvæði um sérstaka þjóð- eða ríkiskirkju eru á undanhaldi í grannlöndunum. Þannig hurfu þau út úr sænsku og finnsku stjórnarskránum um síðustu aldamót.
  • Finna má nýtt fyrirkomulag um samskipti ríkis og kirkju við hentugleika, t.d. að sænskri fyrirmynd þar sem ríkið og þjóðkirkjan hafa gert með sér sérstakan þjónustusamning. Þar yrði m.a. kveðið á um hið mikilvæga menningarhlutverk kirkjunnar.

Ályktun

Stjórnlagaráð fór að dæmi Þorgeirs ljósvetningagoða um bil beggja. Ráðið leggur til nýja skipan þar sem engin trú nýtur sérstakrar stjórnarskrárbundinnar verndar ríkisins, en að samband ríkis og þjóðkirkju megi haldast óbreytt þar til þjóðin kann að kjósa annað.

Þeir sem vilja svara þessari spurningu í anda frumvarps stjórnlagaráðs gera það með neii. Það er öndvert við allar hinar spurningarnar í þjóðaratkvæðagreiðslunni þar sem stuðningur við sjónarmið ráðsins felst í jáyrði.

Pistilhöfundur mælir með neii við spurningunni um sérstakt þjóðkirkjuákvæði en telur þó að slíkt ákvæði stangist ekki á við aðra þætti í stjórnarskrárdrögunum vilji þjóðin halda formlegri stöðu þjóðkirkjunnar óbreyttri. Hvort sem verður ofan á breytir það því ekki að stjórnarskrá okkar, sú núverandi og sú komandi, er og verður byggð á kristnum gildum.

Vilt þú að náttúruauðlindir verði þjóðareign?

[Birtist í Fréttablaðinu 5. september 2012.]

Hinn 20. október n.k. verður haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá. Auk almennrar spurningar um grundvöllinn verður spurt um afstöðu til nokkurra lykilatriða í tillögum ráðsins. Önnur spurningin, sem lýtur að einu þessara atriða, felst í fyrirsögn þessa pistils en er í heild sinni þannig: „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign?“

Ekki virðist mikill ágreiningur meðal þjóðarinnar eða stjórnmálaflokkanna um svarið. Flestir virðast vilja stjórnarskrárvarið ákvæði um þjóðareign á náttúruauðlindum og eru þá einkum fiskimiðin og orkulindirnar hafðar í huga. En ágreiningur hefur verið um merkingu hugtaksins þjóðareign, einkum meðal lögfræðinga. Til eru þeir sem líta á þetta sem hátíðlega en merkingarlitla yfirlýsingu. Aðrir gefa minna fyrir orðið en vilja gæða hugtakið innihaldi og þá einkum því hvernig beri að nýta auðlindirnar auk skýrra ákvæða um endurgjald fyrir afnot af þjóðareignum.

Málið er eitt þeirra sem Alþingi fól stjórnlagaráði að taka sérstaklega til skoðunar. Það var gert eins og sést í ýtarlegum ákvæðum, einkum í 34. gr. í frumvarpi ráðsins. Að beiðni Alþingis var málið aftur yfirfarið á fundum þorra ráðsmanna 8.-11. mars s.l. Meginákvæðin í frumvarpsgreininni (eftir yfirferðina) eru þessi:

  •  A1: Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar.
  • A2: Enginn getur fengið auðlindirnar, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja.
  • A3: Til auðlinda í þjóðareign teljast náttúrugæði … sem ekki eru í einkaeigu.
  • A4: Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn.
  • A5: Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.

Fyrsti málsliðurinn, A1, er yfirlýsing um þjóðareign. Með A3 er skýrt tekið fram að ekki er verið að sölsa einkaeigur undir ríkisvaldið. Um innihaldið, meðferð þjóðareigna, er fjallað í liðum A3, A4 og A5. Vegur þar einna þyngst að fyrir hagnýtinguna eigi að greiða „fullt gjald“, sem er orðalag sótt í ákvæði núgildandi stjórnarskrár um eignarnám, og að nýtingarrétturinn skuli veittur á „jafnræðisgrundvelli“.

Spurningin um þjóðareignina í atkvæðagreiðslunni 20. október snýst að formi til aðeins um yfirlýsinguna, ígildi A1, en ætla verður að Alþingi muni skoða jáyrði við henni sem efnislegan stuðning við alla 34. gr. í frumvarpi ráðsins.

Rök fyrir JÁ við spurningunni

Ekki er tóm til að rekja þau fjölmörgu rök sem fram hafa komið um þjóðareign á auðlindum og verður aðeins tæpt á nokkrum:

  • Á þjóðfundinum 2011 var áberandi sú skoðun að mæla bæri fyrir um eign þjóðarinnar á auðlindum í stjórnarskrá og að arður af nýtingu þeirra rynni að meginhluta til eigandans, þjóðarinnar.
  • Með yfirlýsingu um þjóðareign á auðlindum og öðrum takmörkuðum gæðum sem ekki eru í einkaeigu er verið að taka af skarið um mál sem hefur velkst lengi fyrir þingi og þjóð. Nú er tækifæri að taka af skarið þannig að ekki verði um villst.
  • Ekki síst er mikilvægt við hvers kyns samninga við erlend ríki eða ríkjasamtök að það sé á hreinu að auðlindir lands og sjávar eru í eigu íslensku þjóðarinnar.
  • Verið er að vinna að afmörkun landareigna í einkaeigu. Afgangurinn á ekki að verða einskis manns land heldur ótvíræð sameign þjóðarinnar.
  • Nýting þjóðareigna, fiskimiða eða orkulinda, á áfram að vera í höndum einstaklinga og fyrirtækja. Því er ekki verið að breyta með yfirlýsingu um þjóðareign.
  • Stjórnarskrárákvæðin nýju setja því siðferðilegar skorður hvernig með skal fara við úthlutun nýtingarleyfa. En það verður áfram hlutverk Alþingis að setja leikreglurnar. Ákvæðin mæla t.d. hvorki fyrir um tiltekið kvótakerfi né einhverja aðra fiskveiðistjórnunaraðferð.

Rök fyrir NEI við spurningunni

Andstæðingar þjóðareignar hafa ekki tjáð sig mikið með beinum hætti heldur fremur þannig að gera eigi hlutina einhvern veginn öðru vísi:

  • Sumir lögfræðingar segja hugtakið þjóðareign vera loðið og skapa ýmsan skilgreiningarvanda.   Því er til að svara að í  stjórnarskrárákvæðinu  og í  umræddri 34. gr. í frumvarpi ráðsins er kveðið skýrt á um merkingu orðsins.
  • Sagt hefur verið að þjóðareign feli í sér þjóðnýtingu sem sé af hinu vonda. Þetta er á misskilningi byggt  þar sem stjórnlagaráð tekur skýrt fram að þjóðareign nái aðeins til þeirra réttinda sem ekki eru þegar í einkaeigu. Hún nær einungis til þess sem enginn hefur með réttu getað eignað sér.
  • Sumir hafa áhyggjur af því að ný eða breytt ákvæði um þjóðareign og afnotaskilmála setji allt á hvolf. Ég tel þetta óþarfa áhyggjur.   Það er undir löggjafanum komið að tryggja að framkvæmd þjóðareignarákvæðisins eigi sér eðlilegan aðdraganda og aðlögunartíma.

 

Ályktun

Pistilhöfundur mælir með jáyrði við spurningunni. Þar með verði tryggt að sameiginlegur auður lands og sjávar haldist hjá þjóðinni en hverfi ekki til einstaklinga hvort sem er innan lands eða utan.

Eiga fjöll og firnindi að hafa kosningarétt?

Misvægi atkvæða eftir búsetu hefur verið landlægt á Íslandi frá upphafi kosninga til Alþingis. Mynd I sýnir hvernig þetta misvægi hefur verið, mælt með tvennum hætti.

image

Misvægið er þannig mælt að fundið er hlutfallið milli tölu kjósenda að baki hverju þingsæti í því kjördæmi þar sem sú tala er hæst og þess þar sem hún er lægst. Ef atkvæðavægi er jafnt er þetta hlutfall nálægt einum. Þ.e.a.s það lægi á lárétta ásnum. Rauði ferillinn sýnir misvægið eins og það var í raun miðað við kjördæmaskipanina á hverjum tíma. Hæst fór þannig mælt misvægi í vorkosningunum 1959 upp í nær 20; þ.e.a.s. það var um tvítugfaldur mismunur á atkvæðavæginu.

Rauði ferillinn hefur aldrei verið lægri en nú eftir kjördæmabreytinguna 1999. Á hinn bóginn er þetta ekki með öllu sanngjarn samanburður þar sem stóru kjördæmin nú jafna út atkvæðavægið með vissum hætti. Því er líka sýndur blár ferill þar sem búið er að steypa saman kjördæmum á hverjum tíma í þau landfræðilegu hólf sem núverandi kjördæmaskipan markar. Þá sést að misvægið er og hefur lengst af frá næstsíðustu aldamótum verið í kringum þrefallt, þar til það lækkaði í tvöfallt misvægi 1999 eins og fyrr segir. Í þessum samanburði er einungis tekið tillit til kjördæmissæta þar sem önnur sæti (konungskjörnir, landskjörnir, uppbótarmenn eða jöfnunarmenn) voru með ýmsum illsambærilegum hætti á þessu langa tímabili.

Ekki verður séð að kerfisbundin pólitísk stefna hafi legið að baki misvæginu. Þingsætum hefur bara verið skipt upp á milli kjördæma si svona, að mestu með beinum fyrirmælum í stjórnarskrá. Síðan hefur fólk flust á mölina og misvægið orðið óbærilegt. Þá hefur stjórnarskrárgjafinnn, Alþingi, af og til gripið inn í og leiðrétt misvægið, en aldrei til fulls. Og, sem fyrr segir, leiðréttingin hefur aldrei byggst á neinu meðvituðu kerfi. Þó grillir í það í stjórnarskrárbreytingunni frá 1999 en þar segir að misvægið megi þó aldrei vera meira en tvöfallt. (Útfærslan er samt sú að það hefur farið yfir tvo í kosningunum síðan breytingin var gerð.)

Nú vill stjórnlagaráð að tekið verði af skarið og sett skýrt ákvæði í stjórnarskrá um að misvægið verði að hverfa:
„Atkvæði kjósenda alls staðar á landinu vega jafnt.“ Um þetta atriði verður m.a. kosið 20. október n.k.

Gagnrýnisraddir á þessa tillögu stjórnlagaráðs hafa vissulega komið fram og er þá gjarnan vísað til annarra ríkja. Samanburður við senatið í Bandaríkjunum, sambandsráðið í Þýskalandi, Evrópuþingið, Sameinuðu þjóðirnar eða annað yfirþjóðlegt eða yfirríkjalegt þinghald finnst mér alls ekki eiga við. Til fulltrúadeildarinnar í Bandaríkjunum eða sambandsþingsins í Berlín hafa allir jafnan kosningarétt.

Í frægum dómi Hæstaréttar Bandaríkjanna er spurningunni í titli þessa pistils raunar svarað. Þáverandi forseti réttarins Earl Warren lét fleyg orð falla: „Legislators represent people, not trees or acres. Legislators are elected by voters, not farms or cities or economic interests.“

En lítum okkur nær. Hvernig er fyrirkomulagið á Norðurlöndum í kosningum til löggjafarþinga?

Í Svíþjóð, Finnlandi og á Færeyjum er skýrt kveðið á um jafnt vægi atkvæða. Færeyjum var til skamms tíma skipt upp í kjördæmi með miklu misvægi atkvæða en nú er landið eitt kjördæmi og þar með allir kjósendur með sama atkvæðavægi.

Danir hafa lengi átt flóknustu kosningalög Norðurlanda og þótt víðar væri leitað. Með nokkurri einföldun má segja að þrír þættir ráði þingmannatölu hvers kjördæmis. Þetta er íbúatala, tala kjósenda og flatarmál kjördæmisins mælt í ferkílómetrum. Þingsætum er skipt í hlutfalli við summu þessara talna, en þó er flatarmálið fyrst margfaldað með tölunni 20. Þar sem hver kjósandi er bæði íbúi og þegn á kjörskrá má segja að hver ferkílómetri lands hafi þar sama vægi og tíu kjósendur. Væri þessari fáránlegu reglu beitt á Íslandi væru „fjöll og firnindi“ með um 50-55 þingmenn fjalla og firninda en hinir, stór minnihluti, væru fulltrúar fólksins. Þetta er ekki alveg svona slæmt í Danmörku, einfaldlega vegna þess að þar eru hvorki „fjöll né firnindi“. Það sem bugter sig i bakke, dal“ eins og segir í þjóðsöng Dana, hefur álíka marga fulltrúa á Folketinget og íbúarnir sjálfir.

Eitt er þó eftirbreytnivert í útfærslu Dana. Þeir nota íbúafjölda sem eitt viðmiðanna þriggja þegar þingsætum er útdeilt. Það væri athyglisvert að hafa það sem eina viðmiðið fremur en kjósendatöluna eins og stjórnlagaráð leggur til. Hver er munurinn á því að skipta þingsætum eftir íbúatölu í stað kjósendatölu? Hann er sá að þá fá börn óbeint fulltrúa á þingi, fulltrúa sem aðrir kjósendur velja að vísu fyrir þá. Barnmörg kjördæmi fá þá fleiri fulltrúa en hinn sem eru barnrýr. Þýskur vinur minn, tölfræðingur, vill ganga enn lengra og láta foreldra beinlínis fá kjörseðla fyrir hönd barna sinna!

Í Noregi er fyrirkomulagið svipað og það danska en þó einfaldara. Sætum á Stórþinginu, sem eru 169, er skipt á milli norsku kjördæmanna, þe.a.a.s. fylkjanna 19, í hlutfalli við summu af tölu kjósenda á kjörskrá og flatarmáli hvers fylkis margfölduðu með 1,8. Margfaldarinn er því mun lægri en sá danski en á móti kemur að Noregur er áttfalt stærri en Danmörk og þar sem íbúafjöldinn er álíka lætur nærri að landsvæði hafa sama vægi í báðum löndum.

Lítum nánar á norska dæmið.

Mynd II sýnir annars vegar hvernig sætum var í raun skipt við síðustu stórþingskosningar, árið 2009, og hins vegar hvernig þeim hefði mátt skipta jafnt eftir kjósendafjölda. Það eru alls 11 [áður var hér ritvillan 7] sæti sem hefði þurft að færa til, eða 6,5% allra stórþingssæta, sem er þó næsta lítið.

image

Eins og fyrr segir þarf á Íslandi að færa til 6 sæti til að ná jöfnuði milli kjördæma m.v. tölurnar frá 2009, eða 9,5% sætanna 63. Mynd III sýnir með sama hætti og sú númer II hvernig þessi tilfærsla yrði hér.

image

Segjum nú – til gamans – að Ísland væri eitt fylkja í Noregi. Það væri flatarmesta fylkið, helmingi stærra en það næsta, Finnmörk. En kjósendafjöldinn væri í meðallagi. Beitum nú formúlunni norsku til að reikna þessu Íslandsfylki sæti á Stórþinginu. Vitaskuld yrðu reglum þannig breytt að þingsætin íslensku kæmu til viðbótar þeim sem fyrir eru. Þá fengjum við 17 sæti af 169+17=186 eða nær tíund Stórþingsins. Nytum við ekki flatarmálsins ættum við ekki skilið nema 11 sæti. (Einhvers staðar hef ég skrifað að við fengjum 16 sæti en ekki 17; nú hef ég nákvæmari upplýsingar og leiðréttist þetta hér með.)

En hvernig kæmi norska formúlan út fyrir skiptingu sæta á Alþingi Íslendinga. Höfðborgarsvæðið, Reykjavík og Suðvesturland, fengju samtals 23 þingmenn en landsbyggðarkjördæmin 40! Svo má leika sér að því að finna þann margföldunarstuðul flatarmálsins sem gæfi svipað misvægi atkvæða og nú er í raun. Sá stuðull sem kemst næst því að kalla fram núverandi misvægi er lægri en sá norski eða 0,4. Þetta merkir samt að fjöllin og firnindin hér á landi hefðu ígildi 41 þúsumd kjósenda að baki sér.

Allur þessi talnaleikur ætti að sannfæra menn um það hve varhugavert og tækifærissinnað það getur orðið að víkja frá því sem meginreglu að atkvæði allra, hvar sem þeir búa og hver svo sem þjóðfélagsstaða þeirra er, skuli vera jöfn. Þar með er ég engan veginn að gera lítið úr því að það kunni að vera aðstöðumunur og að landsins gæðum sé misskipt á milli fólks. En fyrir það má ekki bæta með mismunun í mannréttindum.

Hvernig kynni skipan Alþingis að breytast við jafnt vægi atkvæða?

Þessari spurningu hefur verið kastað fram. Spurt er nánar hvað gerst hefði 2009 ef þá hefði verið jafnt vægi atkvæða. Það er alltaf varhugavert að nota úrslit úr liðnum kosningum til að spá um hvað gerst hefði ef kosningalög hefðu verið einhvern veginn öðru vísi. Kjósendur haga sér ávallt að nokkru með tilliti til þess fyrirkomulags sem gildir hverju sinni.

Engu að síður er hér sýndar töflur um skiptingu þingsæta ef sætum er skipt eins jafnt og unnt er milli kjördæma á grundvelli kosningaúrslitanna frá 2009.

Tafla I sýnir hvernig sætaskipanin hefði orðið 2009 ef sætum væri skipt á milli kjördæma í hlutfalli tölur kjósenda á kjörskrá 2009, þ.e.a.s. jafnt vægi óháð búsetu.

image

Tafla II sýnir tilfærslu á úthlutun sæta við þá breytingu á úthlutun sæta sem orðið hefði við jöfnun atkvæaðvægis, en að engu öðru breyttu í kosningalögum.

image

Nú liggur fyrir eitt að þingsæti mun færast frá Norðvesturkjördæmi til Suðvesturkjördæmis skv. gildandi lögum fyrir næstu kosningar vorið 2013. Við það eitt færast sæti út og suður eins og sjá má í töflu III.

image

Því má segja að hluti þeirrar breytingar sem yrði við jöfnun atkvæðavægis muni þegar koma að hluta fram 2013. Þetta má lesa út úr töflum II og III og samandregið í töflu IV.

image

Að lokum verður að endurtaka fyrirvara um svona talnaleik aftur í tímann.

Þjóðin verður að leggja línurnar

[Birtist í Fréttablaðinu 29. ágúst 2012.]

Alþingi hefur ákveðið að efnt skuli til þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá 20. október nk. Annars vegar verða kjósendur spurðir hvort þeir vilji leggja tillögur ráðsins til grundvallar nýrri stjórnarskrá en hins vegar um afstöðu þeirra til nokkurra lykilatriða í tillögum ráðsins. Aðdragandi málsins er langur en verður ekki rakinn hér. Aðalatriðið er að nú liggur fyrir heildartillaga í frumvarpsformi um nýja stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland og að þjóðinni gefst með atkvæðagreiðslunni einstakt tækifæri til að stuðla að því að nýr og traustur grundvöllur verði lagður að þjóðfélagi okkar.

Um hvað verður spurt?

Eftirfarandi spurningar verða lagðar fyrir kjósendur:

  1. Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?
  2. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign?
  3. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?
  4. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er?
  5. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt?
  6. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu?

Þeir sem eru í einu og öllu sammála tillögum stjórnlagaráðs svara öllum spurningum með jái nema þeirri þriðju með neii. Komi í ljós skýr vilji kjósenda um að einhverjum af spurningum beri að svara með öðrum hætti, verður að ætla að þingið breyti tillögum ráðsins í samræmi við það. Í skoðanakönnun sem gerð var í lok mars sl. um spurningarnar tjáðu fjórir fimmtu hlutar kjósenda sig þó sammála ráðinu í þessum atriðum. Þó voru þeir álíka margir sem vilja þjóðkirkjuákvæðið inni og hinir sem vilja að það hverfi úr stjórnarskránni eins og ráðið leggur til.

Málið verður kynnt

Greinarhöfundur mun fjalla um spurningarnar vikulega fram að kjördeginum hér í Fréttablaðinu. Í kjölfar þessa inngangs verða teknar fyrir þær þeirra sem lúta að einstökum álitamálum en í lokin fjallað um málið í heild, þ.e. meginspurninguna, þá fyrstu. Ætlunin er að upplýsa og færa rök fyrir þeim svörum sem samrýmast tillögum stjórnlagaráðs. Gagnraka verður einnig getið og þeim svarað. Höfundur sat í stjórnlagaráði og stóð að tillögum þess í heild. Málsmeðferðin tekur vitaskuld mið af því.

Um þjóðaratkvæðagreiðslur gilda sérstök lög (nr. 91/2010) en þar er m.a. mælt fyrir um að Alþingi skuli standa fyrir víðtækri kynningu á málefninu. Þess er að vænta að myndarlega verði að því verki staðið. Á okkur sem sátum í stjórnlagaráði hvílir á hinn bóginn einnig sú siðferðislega skylda að upplýsa og mæla fyrir tillögum okkar. Því eru þessir pistlar ritaðir.

Til frekari upplýsingar skal bent á vefsíðu stjórnlagaráðs, Stjornlagarad.is, þar sem bæði má sjá tillögur ráðsins í heild sinni ásamt ítarlegri greinargerð, auk þess sem rekja má umræður og atkvæðagreiðslur í ráðinu. Þá er gagnlegt að bera frumvarp ráðsins að nýrri stjórnarskrá saman við gildandi stjórnarskrá, grein fyrir grein. Slíkan samanburð er að finna á vefsíðunni thorkellhelgason.is/?p=1175. Að lokum má benda á lítið kver, Ný stjórnarskrá Íslands, með frumvarpi ráðsins í heild sem fæst við vægu verði í heldri bókabúðum.

Stjórnarskrármálinu lyktar ekki með þjóðaratkvæðagreiðslunni í haust þar sem niðurstöður hennar eru ekki bindandi fyrir Alþingi. Engu að síður er þetta mikilvægt skref sem mun þoka málinu vel áfram. Því er brýnt að allir kynni sér viðfangsefnið vandlega og taki afstöðu og mæti á kjörstað. Það er von undirritaðs að lokaniðurstaðan verði góð stjórnarskrá, þar sem öll helstu markmiðin í tillögum stjórnlaga ráðs nái fram að ganga.

Þorkell Helgason, sat í stjórnlagaráði