„Isländische Sagen“

[Eftirfarandi grein birtist sem lesendabréf eftir mig í einu af útbreiddasta dagblaði Þýskalands, Süddeutsche Zeitung, hinn 3. mars 2014.

Tilefnið var frétt blaðsins og e.k. leiðaragrein um áform ríkisstjórnar Íslands um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu, ESB. Í umfjöllun blaðsins gat þess misskilnings að deilan á Íslandi nú snerist um það hvort halda skildi þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildina sjálfa að ESB eða ekki. Þetta þótti mér nauðsynlegt að leiðrétta; nú snerist deilan um það hvort hætta ætti viðræðum eða ekki og um leið hvort leita ætti álits þjóðarinnar á þeirri fyrirætlan. Ég bendi á kosningaloforð stjórnarflokkanna sem ekki var hægt að skilja á annan veg en þann að þeir hygðust spyrja þjóðina um nákvæmlega þetta.

Þá læt ég ekki hjá líða í greininni að drepa á þær rangfærslur sem hafðar eru uppi um ESB af andstæðingum sambandsins, þ.m.t. forseta Íslands. Hann sagði eða gaf a.m.k. sterklega í skyn í þingsetningarræðu í fyrra að ráðamenn í ESB vildu ekkert með okkur hafa, án þess þó að nefna nein nöfn. Þess vegna vitna ég í tvær ræður þýskra forseta sem hafa sagt Ísland velkomið í ESB í borðræðum yfir sjálfum forseta Íslands. Þá tek ég sem annað dæmi hin fáranlegu ummæli einnar ráðandi þingkonu um „hungursneyð“ innan ESB-ríkja.

Suðurþýska dagblaðið birtir bréf mitt aðeins nokkrum dögum eftir að ég sendi það inn, en blað sem þetta birtir að jafnaði ekki nema lítið brot af innsendum lesendabréfum. (Kannski hjálpaði að ég titlaði mig doktor, titli sem ég flíka annars nær aldrei!) Hér er greinin eins og hún birtist í blaðinu, lítillega stytt frá hinu innsenda bréfi mínu. Titill lesendabréfsins er ekki eftir mig heldur er hann blaðsins.]

 

Die isländische Regierung will die Kandidatur Islands zur Europäischen Union zurückziehen (siehe „Aus Angst vor der EU“ und „Auf Eis gelegt“ in der SZ am 24. Februar 2014). Sowohl vor den Wahlen im vergangenen Jahr als auch in der Regierungserklärung hatten beide Regierungsparteien versprochen, eine Volksabstimmung über den weiteren Verlauf der Beitrittsverhandlungen durchzuführen. Die Debatte in Island, auch jetzt im Parlament, dreht sich um diese versprochene Abstimmung über die nächsten Schritte; nicht um den Beitritt per se.

Laut Meinungsumfragen will die Mehrheit des Volkes, dass die Verhandlungen zu Ende geführt werden und danach über ein Beitrittsabkommen abgestimmt wird. Eine noch größere Mehrheit (75%) möchte, dass die Volksabstimmung über die Weiterführung der Verhandlungen jetzt durchgeführt wird. Diese Umfrageergebnisse machen der voreingenommenen Regierung Angst. Darum bricht sie ihr Versprechen gegenüber den Wählern.

Die EU-Gegner in Island füttern die Inselbevölkerung mit Unwahrheiten. Eine leitende Abgeordnete der Regierungsparteien sagte z.B. vor einigen Tagen in einer Fernsehdebatte, es gäbe Hungersnot in der EU. Der Staatspräsident, Ólafur Ragnar Grímsson, der seit Jahren gegen die EU polemisiert, sagte bei der Eröffnung des neuen Parlaments im vergangenem Jahr, die EU sei an einer Mitgliedschaft Islands nicht interessiert. Dies hätte er aus Gesprächen mit vielen leitenden europäischen Staatsmännern erkannt. Namen konnte er jedoch nicht nennen.

Bundespräsident Gauck in einer Ansprache beim offiziellen Besuch des isländischen Präsidenten im vergangenen Sommer: „Wir würden uns sehr freuen, Island als Teil der Europäischen Union begrüßen zu dürfen.“ Bundespräsident Rau hatte sich zehn Jahre früher aus gleichem Anlass ähnlich geäußert, so wie auch mehrere europäische Staats- und Regierungsoberhäupter.

Meira um aðferðir við forsetakjör

[Birtist í Fréttablaðinu 31. júlí 2012]

Í Fréttablaðinu 25. júlí sl. er ágæt frásögn af góðu framtaki nokkurra fræðimanna sem spurðu í netkönnun hvaða aðferð fólki hugnaðist best við kjör í embætti forseta Íslands. Spurt var um fjórar aðferðir auk þeirrar núverandi þar sem einfaldur meirihluti ræður. Meðal annars var boðið upp á það sem fræðimennirnir kölluðu „varaatkvæðisaðferð“. Við þetta má bæta fróðleik sem hvorki kom fram hjá spyrlunum né heldur í fréttaskýringunni.

Fyrst er þess að geta að nafngiftin á því sem nefnt er „varaatkvæðisaðferð“ hefur verið á reiki. Hún hefur í opinberum skjölum verið kennd við „forgangsröðun“ en líka nefnd „aðferð færanlegra atkvæða“, sem er hrá þýðing á algengasta heitinu á ensku, Single transferable vote (STV).

Mikilvægt er að vita að þessi aðferð er sú sama og stjórnlagaráð hefur lagt til að beitt verði við forsetakjör framvegis. Til upprifjunar þá felst aðferðin í því að kjósendur eiga ekki að velja með krossi einum heldur að raða frambjóðendum í forgangsröð: „Þennan vil ég helst, en ef hann nær ekki kjöri þá er þessi næstbesti kostur minn“ o.s.frv. Þetta er einföld aðferð og hefur ýmsa kosti fram yfir þá að kjósa tvisvar. Kostnaður er minni bæði hjá hinu opinbera og ekki síður hjá frambjóðendunum sjálfum. En ekki er síðra að STV, sem er eins og „tveggja umferða kosning“ í einni, kemur í veg fyrir hrossakaup um stuðning þeirra sem falla út í fyrri umferðinni, eins og er t.d. sláandi í Frakklandi.

Að lokum má bæta við frásögn blaðsins að bæði var STV-aðferðin, „varaatkvæðisaðferðin“, notuð við kosninguna til stjórnlagaþings og jafnframt lögð til grundvallar í nýlegum stjórnarfrumvörpum um persónukjör, en dagaði uppi í málþófi eins og nú er tískan á Alþingi.

Meira má lesa um STV-aðferðina við forsetakjör í Fréttablaðinu 12. janúar sl.; sjá https://thorkellhelgason.is/?p=1324.

Hvernig á að kjósa forsetann?

[Birtist í Fréttablaðinu 12. jan. 2012. Hér lítillega aukið.]

Forsetakosningar verða snemmsumars og því er nú rætt um hvernig kjörið fari fram. Í 5. gr. gildandi stjórnarskrár segir að sá sé rétt kjörinn forseti „sem flest fær atkvæði“. Bent er á að frambjóðandi geti náð kjöri með litlu fylgi samkvæmt þessari reglu. Því hefur verið kastað fram að nær tugur frambjóðenda kunni að verða í boði og dreifist atkvæði mjög á milli þeirra geti svo farið að nýr forseti verði kjörinn með stuðningi svo sem fimmtungs kjósenda.
Aðeins einn af forsetum lýðveldisins hefur náð stuðningi meirihluta kjósenda við fyrstu kosningu í embættið. Það var í forsetakosningunni 1968 þegar Kristján Eldjárn var kjörinn með nær tveimur þriðjuhlutum atkvæða. Yfirlit yfir stuðning við kjörinn forseta er sýnt í 1. töflu hér á eftir.
Kjörnir forsetar hafa að jafnaði skjótt aflað sér stuðnings þjóðarinnar og það óháð kjörfylgi. Þannig varð Vigdís strax vinsæl enda þótt enginn af þjóðkjörnu forsetunum fjórum hafi hlotið minna fylgi við upphaflegt kjör en hún. Engu að síður er æskilegt að forseti njóti ótvíræðs stuðnings meirihluta kjósenda. Sums staðar tíðkast að endurtaka kjörið ef enginn frambjóðandi nær meirihluta í fyrstu atrennu. Er þá að jafnaði kosið á milli tveggja efstu manna á ný og nær þá annar þeirra hreinum meirihluta.
Stjórnlagaráð leggur til í frumvarpi sínu einfaldari aðferð að sama marki. Hún er sú að sameina fyrstu og aðra umferð með því að beita forgangsröðunaraðferð. Kjósendur raða þá frambjóðendum í forgangsröð: Þennan vil ég helst, en nái hann ekki kjöri þá þennan o.s.frv. Fái enginn frambjóðenda meirihluta að fyrsta vali kjósenda er sá þeirra sem fær minnst fylgi dæmdur úr leik og atkvæði hans færð til hinna í samræmi við annað val viðkomandi kjósenda, o.s.frv. allt þar til meirihluti liggur fyrir.
Írar hafa um langan aldur notað þessa aðferð í öllum almennum kosningum, þar á meðal í forsetakosningum. Einu sinni hefur reynt á það á Írlandi að sá forsetaframbjóðandi hafi ekki náð kjöri sem þó fékk flest atkvæði að fyrsta vali. Þetta dæmi er rakið í 2. töflu. Brian Lenihan hlaut vissulega flest atkvæði í fyrstu en þó ekki meirihluta. Kjósendur Austin Currie gerðu því útslagið. Eins og sjá má í töflunni tóku flestir þeirra Mary Robinson fram yfir Brian Lenihan svo að það var Mary sem náði kjöri en ekki Brian. Trúlega hefði það sama orðið upp á teningnum ef kosið hefði verið aftur á milli þeirra tveggja.
Nýr forseti var kjörinn á Írlandi á sl. ári. Óvenjumargir, eða sjö, voru í kjöri. Úrslitin og talningarhrinurnar eru sýndar í 3. töflu. Fram kemur í töflunni að enginn frambjóðenda náði í fyrstu hreinum meirihluta. Þá eru tveir þeir atkvæðarýrustu dæmdir úr leik og atkvæði þeirra færð að 2. vali kjósenda. (Írar spara sér talningar með því að slá tveimur hrinum saman eftir vissum reglum, sem er þó fræðilega ekki alveg kórrétt!) Fyrst við 4. talningu er orðið ljóst hver er sigurvegarinn. Það var Michael D. Higgins. Þótt hann hafi ekki hlotið meirihluta í upphafi sótti hann í sig veðrið við hverja talningarhrinu og var því með traust umboð í lokin. Í neðstu línu töflunnar kemur fram hve mörg atkvæði nýtast ekki („óflytjanleg atkvæði“). Það er vegna þess að kjósendur hafa ekki hirt um að raða nægilega mörgum. Mjög, fáir, innan við 1%, tilgreindu aðeins 1. val sitt, en í lokin, þ.e. í 4. hrinu, höfðu tæp 8% atkvæða dagað uppi. Þau eru þó það fá að þau hefðu engu getað breytt í lokaniðurstöðunni. Kjör Higgins var því yfir allan vafa hafið.
Í forsetakosningunni hér á landi árið 1996 féllu atkvæði eins og sýnt er í 4. töflu. Hefði valið á forseta orðið annað með forgangsröðunaraðferð, eða ef forsetakjörið hefði farið fram í tveimur umferðum þar sem kosið hefði verið á milli þeirra Ólafs Ragnars og Péturs Kr. í seinni umferð? Því verður ekki svarað eftir á.
Forgangsröðunaraðferðin tryggir að rétt kjörinn forseti njóti meirihluta stuðnings kjósenda en sneiðir hjá ókostunum við kjör í tveimur umferðum sem eru m.a. eftirfarandi:

  • Kostnaður við tvær kosningar.
  • Áhugaleysi almennings á þátttöku í báðum umferðunum. Sé t.d. talið ljóst að enginn muni ná kjöri í fyrri umferð og einsýnt hverjir nái að vera í kjöri í þeirri seinni, kunna kjósendur að bíða seinni umferðarinnar.
  • Flokkadrættir og hrossakaup frambjóðenda eftir fyrri kosninguna, þar sem hinir tveir efstu kunna að biðla með óviðeigandi hætti til stuðningsmanna þeirra sem eru úr leik.

Stjórnlagaráð leggur til skýrar valdheimildir handa forsetanum. Þær eru fáar en ótvíræðar. Það er því mikilvægt að kjósendur vandi valið. Því miður er næsta ólíklegt að búið verði að breyta stjórnarskránni fyrir næstu forsetakosningar. Forseti verður því kjörinn til næstu fjögurra ára með gamla laginu. Vonandi lukkast valið samt vel.

Ný stjórnarskrá: Samfélagssáttmáli í boði

[Birtist upphaflega í Fréttatímanum 30. desember 2011]

Allt frá því að stjórnlagaráð skilaði Alþingi frumvarpi sínu að nýrri stjórnarskrá hinn 29. júlí s.l. hef ég með nær vikulegum pistlum í Fréttatímanum leitast við að skýra út og rökstyðja tillögurnar. Pistlana má alla finna á vefsíðu minni: thorkellhelgason.is. Nú er mál að linni, a.m.k. að sinni.

Árið framundan skiptir sköpum um framvindu stjórnarskrármálsins. Þingið, en ekki síst þjóðin, verður að koma því í höfn að við eignumst nýjan samfélagssáttmála.

Hvað er í boði?

Frumvarp stjórnlagaráðs um nýja íslenska stjórnarskrá er afrakstur mikillar vinnu ráðsfulltrúa og sérfræðinga stjórnlagaráðs þar sem byggt er á ítarlegri skýrslu stjórnlaganefndar og starfi fyrri nefnda um málið. Þrátt fyrir vafasaman úrskurð Hæstaréttar um ógildingu á stjórnlagaþingskosningunni hafa fulltrúar ráðsins hlotið stuðning kjósenda og síðan Alþingis til verksins. Í frumvarpi stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá er m.a. boðið upp á eftirfarandi:

  • Ákvæði um mannréttindi eru stórefld, m.a. ný ákvæði um rétt til upplýsinga og um frelsi fjölmiðla.
  • Náttúruvernd er gert hærra undir höfði en áður. Tekið er af skarið um að auðlindir í þjóðareigu megi ekki selja, en einungis leigja og þá gegn fullu gjaldi.
  • Gjörbreytt ákvæði um kosningar til Alþingis þar sem kveðið er á um jafnan atkvæðisrétt óháðan búsetu svo og því að kjósendur geti valið sér þingmannsefni. Einnig ákvæði um að landskjörstjórn úrskurði um gildi kosninga, en ekki þingið sjálft eins og nú.
  • Staða Alþingis er styrkt andspænis framkvæmdarvaldinu, m.a. með því að öll frumvörp séu mótuð á Alþingi. Eftirlitsvald þingsins er eflt.
  • Ítarleg ný ákvæði eru um beint lýðræði, það að almenningur geti kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um lagafrumvörp og jafnvel lagt fram eigin þingmál.
  • Stjórnarskráin er vernduð með skipun Lögréttu sem gefi álit um stjórnarskrárgildi lagafrumvarpa að ósk Alþingis, og þarf ekki meirihluta þess til.
  • Ákvæði um forseta Íslands eru gerð skýr en felldar burt marklausar greinar um hlutverk hans. Honum er aftur á móti ætlað að veita öðrum valdhöfum traust aðhald.
  • Lögð eru til heilstæð ákvæði um ráðherra og ríkisstjórn en slík ákvæði hefur skort. Með því að Alþingi kjósi forsætisráðherra er tekinn er af allur vafi um þingræðið.
  • Ákvæði til að tryggja óháð val á dómurum og öðrum æðstu embættismönnum eru styrkt.
  • Sveitarfélögunum er lyft á stall í sérstökum kafla.
  • Í fyrsta sinn eru stjórnarskrárákvæði um utanríkismál, t.d. um að ekki megi afsala vald til alþjóðlegra samtaka, svo sem Evrópusambandsins, án skýrs vilja þjóðarinnar.
  • Og að lokum, að framvegis verður þjóðin að staðfesta stjórnarskrárbreytingar.

Við, sem sátum í stjórnlagaráði, erum sannfærð um að sú stjórnarskrá sem við gerum tillögu um sé til mikilla bóta, enda stóðum við saman að frumvarpinu í heild.

Árið 2012 verði stjórnarskránni til heilla

Nú er tækifærið til treysta lagalegan grundvöll samfélagsins. Eftir tækifærinu hefur verið beðið allan lýðveldistímann. Notum komandi ár, árið 2012, til að ljúka málsmeðferðinni. Ný stjórnarskrá ætti þá að sjá dagsins ljós eftir kosningar 2013 að fengnu samþykki þings – en ekki síst með beinni staðfestingu þjóðarinnar með einum eða öðrum hætti.

Ný stjórnarskrá: Forsetinn um forsetann

[Birtist upphaflega í Fréttatímanum 7. október 2011]

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, gerði frumvarp stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá að umræðuefni í þingsetningarræðu sinni. Það er vel og fengur að því að forseti lýðveldisins vekji þjóð og þing til umhugsunar um þetta stórmál, nýja stjórnarskrá handa landi og lýð. Ólafur Ragnar gerði einkum embætti forseta Íslands að umræðuefni. Um það fjallar þessi pistill.

Þrískipting valdins

Allt frá dögum Montesquieus hefur það verið leiðarljós við mótun allrar lýðræðisstjórnskipunar að ríkisvaldið skuli skiptast í þrjá aðgreinda þætti: Löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Mörgum hefur þótt sem hjá okkur væri þessi aðskilnaður ekki skýr, að ríkisstjórnin væri að jafnaði með þingið í vasanum og jafnvel dómarana líka þar sem þeir voru til skamms tíma skipaðir af dómsmálaráðherra að eigin hentisemi. Síðast en ekki síst hefur hlutverk og staða forsetans sem einhvers konar tengill löggjafarvalds og framkvæmdarvalds verið óskýr. Hefðum samkvæmt hefur þó forsetinn haldið sig til hlés, þótt núverandi forseti hafi haft sig meira í frammi en fyrirrennarar hans og beinlínis gripið í taumana.

Að margra mati er ekki nóg að þrískipta valdinu heldur þurfi eftirlitsvald að auki. Þar getur forsetinn haft hlutverki að gegna og endurspeglast það að nokkru í tillögum stjórnlagaráðs, þeim sem urðu Ólafi Ragnari umræðuefni.

Hvert yrði vald forsetans?

Meginatriðin í tillögum stjórnlagaráðs um hlutverk forseta eru fjögur:

  • Tillaga um forsætisráðherra: Í upphafi ráðgerðrar stjórnarskrárgreinar um stjórnarmyndun segir að „Alþingi kýs forsætisráðherra.“ Með þessu er tekinn af vafi um þingræðið, það að ríkisstjórn verður á hverjum tíma að hafa stuðning Alþingis. Forseti Íslands er falið að gera tillögu um forsætisráðherraefni. Honum ber fyrst að ráðfæra sig við þingheim enda verður hinn tilnefndi að njóta stuðnings þingsins. Forseti getur ekki skipað utanþingsstjórn að eigin frumkvæði eins og nú. Forsetinn fær tvívegis tækifæri til að leggja tillögu um forsætisráðherraefni fyrir þingið. Vilji þingið hvorugan þeirra sem hann tilnefnir er það í höndum þingsins að velja.
  • Málskotsréttur: Forsetinn getur, allt eins og nú, skotið nýsamþykktum lögum frá Alþingi til þjóðarinnar til samþykktar eða synjunar. En þjóðin fær líka beina leið til þess sama eins og rakið hefur verið í tveimur síðustu pistlum. Málskotsréttur forseta er því einungis hugsaður sem neyðarhemill, enda verður forseti að rökstyðja ákvörðun sína og getur hann þá vart vísað til vilja þjóðarinnar. Hún tjáir þann vilja sjálf. Slíkur öryggisventill þjóðhöfðingja tíðkast víða og er hugsaður til að stöðva gerræði meirihluta þings.
  • Aðild að skipun dómara og ríkissaksóknara: Hver og hvernig á að skipa dómara er vandaverk. Nýlega hafa verið samþykkt lög sem bæta fyrirkomulagið mjög. Stjórnlagaráð leggur til að andi þeirra laga verði festur í stjórnarskrá en hnykkt á. Lykilatriði er að hæfni og málefnaleg sjónarmið verða að ráða við skipun í öll embætti. Í samræmi við gæsluhlutverk forsetans fær hann heimild til að skjóta vali ráðherra á dómaraefni til Alþingis, þar sem þriðjungur atkvæða nægir til að hafna dómaraefni ráðherra. Fari svo þarf ráðherra að koma með nýja tillögu.
  • Aðild að skipun æðstu embætta: Forseti kemur við sögu um skipan þeirra æðstu embættismanna sem Alþingi kann að kveða á um. Hér er hlutverk forseta minna. Honum er einugis ætlað að skipa formann hæfnisnefndar, en að öðru leyti hefur hann ekki aðkomu að málinu. Hann væri t.d. að fara út fyrir valdsvið sitt ef hann segði nefndarformanninum fyrir verkum.

Aukin völd?

Ólafur Ragnar telur að með tillögum stjórnlagaráðs séu umsvif forsetembættisins efld og ábyrgð aukin. Um það má deila en skiptir þó ekki höfuðmáli. Að mínu mati fær forsetinn skýrara og markvissara hlutverk en nú. Í þremur síðustu liðunum fær hann vel skilgreind verkefni sem öll lúta að öryggiseftirliti. Í fyrsta liðnum heldur hann því óljósa hlutverki sem hann hefur haft við stjórnarmyndun, en settar eru reglur um hvernig hann skuli bera sig að. Kjarni málsins er þó sá að það er að lokum Alþingis að kjósa forsætisráðherra. Það er ein veigamesta nýmælið í tillögum ráðsins.

Vissulega er forsetaembættið mikilvægt, bæði nú og framvegis, verði tillögur ráðsins að stjórnarskrá. Því skiptir höfuðmáli hver á embættinu heldur. Þjóðin verður að vanda val sitt. Í því skyni er í svo um kjör forseta búið að tryggt sé að hann njóti stuðnings meirihluta kjósenda, en svo hefur ekki verið við fyrsta kjör forseta ef undan er skilin kosning Kristjáns Eldjárns. Mistakist þjóðinni valið situr hún þó ekki uppi með forseta lengur en í þrjú kjörtímabil samkvæmt tillögum stjórnlagaráðs. Þetta ákvæði var ekki rakið í samantekt forsetans.