by Þorkell Helgason | nóv 17, 2010 | Á eigin vefsíðu
Ég verð á Akureyri síðdegis fimmtudaginn 18. nóv. í hópi góðra meðframbjóðenda að norðan og sunnan. Byrjum í Háskólanum á Akureyri kl. 12:30 og svo á Glerártorgi kl. 15-18.
Síðan verður hópurinn á Selfossi í Kjarnanum á föstudaginn 19. nóv. kl. 16-19.
Þar næst á Sólon Íslandus í Bankastrætinu í Reykjavík á laugardag kl. 13-18.
Vonumst til að hitta sem flesta.
Lýk máli mínu eins og venjulega: Flykkist á kjörstað laugardaginn 27. nóvember og gerið kosninguna til stjórnlagaþings sigur fyri lýðræðið
by Þorkell Helgason | nóv 14, 2010 | Á eigin vefsíðu
Í fyrri pistlum hef ég varpað fram spurningum um valið á milli þingræðis og forsetaræðis og hallast að þingræðinu. Ein af meginforsendum svarsins er hvernig við lítum á stöðu okkar sem smáþjóð úti í miðju Atlantshafi. Við verðum, hvort sem okkur líkar það betur eða verr að horfast í augu við það að við landsmenn erum innan við þriðjungur milljónar. Oft segja menn máli sínu til stuðnings: „Svona gera aðrar þjóðir og við getum ekki verið minni menn.“ Það er nú meinið að við verðum stundum að sætta okkur við smæðina, án þess þó að vera „minni menn“. Við höfum ekki nægilegan mannafla til að gera allt með sama hætti og stórþjóðir, ekki einu sinni það sama og smáþjóðirnar sem byggja hin Norðurlöndin.
Hvað kemur þetta stjórnskipaninni við, þingræðinu og öllu því? Svarið er að þetta er ef til vill kjarni málsins: Við verðum að smíða okkur stjórnkerfi sem hentar okkur, fámennri þjóð á stóru eylandi. Þetta kann að hljóma eins og einangrunarstefna. Það er mér víðsfjarri. Við eigum að ástunda nána samvinnu við grannþjóðirnar og læra af þeim í hvívetna. Lýðræði, mannúð og velferð þegnanna er hvergi meiri en hjá þeim, á Norðurlöndunum og hjá öðrum grönnum okkar meðal Evrópuþjóða. Við þurfum bæta okkur upp smæð okkar með tengslum og samvinnu.
Engu að síður viljum við búa í sjálfstæðu og fullvalda ríki um allt það sem skiptir okkur höfuðmáli: Tunguna, náttúruna okkar fagra lands, auðlindir þess til lands og sjávar og umfram allt mannréttindi og velferð okkar, sérhvers Íslendings. Stjórnkerfið verður að taka á þessu með þeim hætti sem við ráðum við og hentar okkur.
En hvernig? Meira um það í næstu pistlum.
by Þorkell Helgason | nóv 13, 2010 | Á eigin vefsíðu
DV.is á allt gott skilið fyrir að sinna kosningunni til stjórnlagaþings, einn fárra fjölmiðla. Á hinn bóginn hef ég miklar efasemdir um þá aðferð að setja frambjóðendur í krosspróf þar sem þeim er ætlað að taka með afar einföldum og yfirborðskenndum hætti afstöðu til meginþátta í gerð stjórnarskrár. Góð stjórnarskrá verður aldrei til með þeim hætti. Ef svo væri þá þyrfti ekkert stjórnlagaþing heldur dygði að leggja krossaprófið fyrir almenning og láta svo ritnefnd sjá um afganginn. Úr því yrði álíka afurð og þegar nefnd samdi píanókonsert á dögum menningarbyltingarinnar í Kína.
Ég hef sem frambjóðandi engu að síður svarað spurningum DV eftir mikið hik. Hvað gerir ekki frambjóðandi til að falla ekki utangarðs? En ég vara við að afstaða mín til grundvallarmála er margbrotnari en svo að henni verði lýst með hætti þessa spurningaleiks. Nægir að nefna þingræðið og samspil þess við forseta og ríkisstjórn. Fyrirkomulag kjördæma og kosninga er annað mál sem verður með engu móti svarað með jáum og neium. Enn annað dæmi eru samskipti ríkis og kirkju. Segi menn að þeir vilji aðskilnað er sagan ekki öll sögð.
Megingallinn við þessa aðferð til að finna frambjóðanda við hæfi er að svörin segja ekkert um persónuna. Er frambjóðandinn trausts verður? Býr hann yfri þekkingu, reynslu, innsæi eða öðru því sem að gagni má koma? Hverju á frambjóðandi eins og ég að svara ef hann leggur áherslu á góða samvinnu á stjórnlagaþingi og er fús að hlusta, taka rökum og skipta um skoðun?
Ég skora á kjósendur að kynna sér frambjóðendur og falla ekki í þá gryfju að reiða sig á spurningakeppnir.
by Þorkell Helgason | nóv 11, 2010 | Á eigin vefsíðu
Sjaldan er góð vísa of oft kveðin:
Kjörið í stjórnlagaþingskosningunum byggir á forgangsröðun kjósenda, nokkuð sem ekki kemur glögglega fram í opinberri kynningu. Hver kjósandi fer aðeins með eitt atkvæði, ekki 25 eins margir halda. Röðunin á kjörseðilinn skiptir því meginmáli. Sá frambjóðandi sem kjósandinn setur efstan á kjörseðilinn fær fyrstur tækifæri til að nýta sér atkvæðið. Fá hann of lítið fylgi til að eiga möguleika á kjöri færist atkvæðið til þess sem er næstur að vali kjósandans og svo koll af kolli. Ef sá sem er í efsta valínu flýgur á hinn bóginn inn á miklu fylgi færist ónýttur hluti atkvæðisins til næsta manns á seðli kjósandans. Þannig er atkvæði sem mér er greitt að fyrsta vali aldrei kastað á glæ, hvorki ef þú telur mig eiga kosningu vísa (hvað ég vona!) eða ef ég næ ekki kjöri. Í báðum tilvikum gagnast atkvæðið þeim öðrum sem þú færir á kjörseðilinn.
by Þorkell Helgason | nóv 6, 2010 | Á eigin vefsíðu
Á vefsíðunni kosning.is má finna flipann Kynning á frambjóðendum til stjórnlagaþings. Þar er hægt að tína til frambjóðendur og raða þeim á hjálparkjörseðil. Kjósendur geta raðað á þennan hjálparseðil hvenær sem tóm gefst til, hann er sjálfkrafa vistaður. Að lokum getur kjósandinn prentað seðilinn út og haft hann með sér á kjörstað. Dvölin í kjörklefanum þarf þá ekki að vera löng; einungis til að færa auðkennistölur af hjálparseðlinum yfir á hinn eiginlega kjörseðil. Þetta er þakkarvert framtak og hvetja verður kjósendur að nýta sér þetta mikilvæga hjálpartæki.
Á vefsíðunni kemur því miður ekki fram að röð frambjóðenda skiptir meginmáli. Margir muna tína eftirlætisframbjóðendur sína til í stafrófsröð. Þeir raðast þá í þeirri röð á hjálparseðilinn. Þá verður kjósandinn að fara inn í seðilgluggann og endurraða frambjóðendunum í þá forgangsröð sem hann telur rétta.
Því miður er enn mikil misskilningur í gangi um þá kosningaraðferð sem beitt er. Jafnvel lærðir álitsgjafar vaða reyk og villu í þessum efnum í fjölmiðlum. Málið er einfalt:
- Hver kjósandi hefur aðeins eitt atkvæði, ekki 25.
- Sá frambjóðandi sem hann raðar efst, að fyrsta vali, fær fyrst að nýta sér atkvæðið. Ef hann kemst inn, en ekki nema rétt svo, er atkvæðið fullnýtt. Hinir sem eru neðar á kjörseðlinum hafa þá ekkert gagn af atkvæðinu.
- Komist sá efsti inn á ríflegu fylgi færist tilsvarandi vannýttur hluti atkvæðisins til þess sem næst er raðað. Hann getur þá hugsanlega komist inn á þessu atkvæðisbroti.
- Ef sá sem efst er raðað nær á hinn bóginn ekki kjöri sakir lítils fylgis færist allt atkvæðið til þess sem er valinn að öðru vali.
- Þetta heldur svo áfram koll af kolli niður eftir kjörseðlinum. Sé kjósandinn svo óheppinn að enginn af þeim sem hann raðar á seðilinn nái kjöri fellur atkvæðið dautt niður.
- Þeir sem vilja að atkvæði sitt komi að lokum einhverjum góðum frambjóðanda að gagni ættu því að raða sem flestum. Ekki er gefið færi á að raða fleiri en 25, en sú takmörkun hefur ekkert með það að gera að 25 sitja stjórnlagaþingið.
- Á hinn bóginn er atkvæðið fullgilt hvort sem aðeins er raðað einum, og þá í efstu vallínu, eða 25 eða þar á milli.
Í stuttu máli eru því ráðleggingarnar mínar til kjósenda þessar:
- Undirbúið ykkur heima og veljið ykkur frambjóðendur af vefnum eða eftir prentuðum upplýsingum sem dreift verður í hús.
- Raðið eins mörgum frambjóðendum og þið frekast treystið ykkur til, en munið eftir því að skipa þeim í forgangsröð; hún skiptir meginmáli.
- Skundið síðan á kjörstað og gerið kosninguna glæsilegan sigur fyrir lýðræðið.