Vilt þú tillögur stjórnlagaráðs sem grundvöll að stjórnarskrá?

[Birtist í Fréttablaðinu 11. október 2012.]

Í pistlum undanfarnar vikur hafa verið reifaðar þær fimm spurningar sem lagðar verða fyrir þjóðina 20. október n.k. og fjalla um einstök lykilatriði í nýrri stjórnarskrá. Eftir situr fyrsta, og um leið aðalspurningin, um það hvort tillögur stjórnlagaráðs skuli lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.

Spurningin er í heild þannig: „Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?“

Spurningin er nokkuð opin, væntanlega vísvitandi. Fyrir liggur að þingnefnd sú sem fjallar um málið er að láta hóp lögfræðinga yfirfara tillögur stjórnlagaráðs. Ekki til að breyta þeim efnislega, heldur til að lagfæra hugsanlega fræðilega hnökra. Jafnframt verður að ætla að þingnefndin muni bregðast við svörum þjóðarinnar við sundurgreindu spurningunum fimm. Komi ótvírætt í ljós að þjóðin vilji hafa einhver af þeim atriðum sem um er spurt á annan veg en stjórnlagaráð leggur til, hlýtur þingnefndin að breyta frumvarpinu eins og það kom frá ráðinu til samræmis.

Grundvallarspurningin er því hvort leggja skuli tillögur stjórnlagaráðs fyrir þingið sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá eftir lagatæknilegar lagfæringar og breytingar í samræmi við úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar.

Þjóðaratkvæðagreiðslan er einungis ráðgefandi fyrir þá nefnd þingsins sem mun að lokum leggja frumvarpið fyrir þingið. Síðan tekur við umræða og afgreiðsla á þinginu sjálfu. Þingið gæti átt til að breyta frumvarpinu enn frekar – en vonandi aðeins til bóta! Þjóðin er því ekki að taka afstöðu til endanlegrar gerðar stjórnarskrár á þessu stigi. Vonandi gefst henni tækifæri til þess á lokastigi. Þjóðaratkvæðagreiðslan 20. október er engu að síður afar mikilvægur áfangi að því marki að fá lýðveldinu endurbætta og heilstæða stjórnarskrá.

Rök fyrir JÁ við spurningunni

Þjóðin hefur búið við bráðabirgðastjórnarskrá allan lýðveldistímann. Nú er tækifæri til að setja okkur tryggan, íslenskan samfélagssáttmála. Það er allsendis óvíst hvort annað tækifæri gefst næstu áratugina.

Í stjórnarskrárfrumvarpi stjórnlagaráðs eru m.a. eftirfarandi nýmæli:

  • Ákvæði um mannréttindi efld.
  • Náttúruvernd gert hærra undir höfði en áður.
  • Auðlindir skilgreindar sem þjóðareign og kveðið á um afnotagreiðslur.
  • Jafn atkvæðisréttur allra og persónukjör.
  • Staða Alþingis styrkt andspænis framkvæmdarvaldinu.
  • Ítarleg ný ákvæði um beint lýðræði.
  • Stjórnarskráin vernduð með skipun eftirlitsnefndar, Lögréttu.
  • Ákvæði um forseta Íslands gerð skýr og honum falið aðhaldshlutverk.
  • Þingræðið treyst, m.a. með því að Alþingi kjósi forsætisráðherra.
  • Ákvæði til að tryggja óháð val á dómurum.
  • Sveitarfélögunum lyft á stall í sérstökum kafla.
  • Tryggt að ekki verði af inngöngu í Evrópusambandið nema þjóðin ákveði það sjálf.
  • Þjóðin staðfesti framvegis stjórnarskrárbreytingar.

Rök fyrir NEI við spurningunni

Úrtöluraddir heyrast:

  • „Ekki núna heldur seinna“ segja sumir. Svo hefur verið talað í nær sjötíu ár. Tilraunir hafa verið gerðar til semja nýja stjórnarskrá – en án árangurs. Einmitt nú gefst kjósendum kostur á að tjá hug sinn og stuðla að gagngerum umbótum á stjórnarskránni.
  • „Það er verið að bylta stjórnarskránni“ er sagt. Þetta eru ýkjur. Það eru tiltölulega fá atriði sem breytast umtalsvert, en lykilatriði að vísu. En einmitt um flest þeirra verður spurt í þjóðaratkvæðagreiðslunni.
  •  „Gamla stjórnarskráin olli ekki kreppunni“ er líka sagt. Hún var e.t.v. ekki bein orsök en með því herta aðhaldi að valdinu sem lagt er til í stjórnarskrárfrumvarpinu er það gert ólíklegra að þvílík ósköp af mannavöldum hendi okkur aftur.
  •  Heyrist hefur að það hafi ekki verið „rétta“ fólkið sem sat í stjórnlagaráði. Hverjir völdust til verksins má ekki skipta máli heldur innihaldið í því sem lagt er til. Kjósendur dæmi af verkunum, ekki höfundunum. Aukin heldur kom fjöldi annarra en stjórnlagaráðsmanna að málinu, svo sem stjórnlaganefnd, sérfræðingar stjórnlagaráðs og fyrri stjórnarskrárnefndir, en ekki síst þúsundmannafundur þjóðarinnar haustið 2010.
  • „Frumvarp stjórnlagaráðs er gallað“ segja einstaka fræðingar, en nefna þó sjaldnast bitastæð dæmi. Vitaskuld getur gott lengi batnað. Verið er að yfirfara lögfræðina í frumvarpinu og þjóðin mun kveða upp úr um nokkur álitamál í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Síðan geta þingmenn, velviljaðir málinu, bætt um betur þegar frumvarpið hefur verið lagt fram. Fullyrða má að aldrei hafi jafn vel verið staðið að endurbótum á stjórnarskránni og nú.

Ályktun

Valið stendur aðeins um tvennt: Stjórnarskrá sem byggð er á frumvarpi stjórnlagaráðs eða núgildandi bráðabirgðastjórnarskrá frá 1944. Vilji kjósendur koma í veg fyrir að málinu verði drepið á dreif og að stjórnarskrárumbætur verði að engu eiga þeir að flykkjast á kjörstað og gjalda stjórnarskrárfrumvarpinu jáyrði sitt.

Verði þátttaka 20. október góð og afstaða kjósenda afgerandi hlýtur þingið að taka mark á niðurstöðunum og greiða götu nýrrar stjórnarskrár sem getur tekið gildi 17. júní 2013.

Höfundur þessa pistils bendir á að nú gefst einstætt tækifæri til að stuðla að bættum stjórnarháttum og mælir því eindregið með jáyrði við grundvallarspurningunni um stjórnarskrárfrumvarpið.

Samanburður á stjórnarskrárgerðum

Þessi pistill birtist upphaflega á veffangi mínu 9. nóvember 2011. Nú hefur sú meginskrá sem vitnað er til verið lagfærð lítillega og gerð aðgengilegri. Hér er um eftirfarandi pdf-skrá að ræða:

Samanburður stjskrhugmynda 23 sept 2012

Hinn 20. október fer fram ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um frumvarp stjórnlagaráðs að endurskoðari stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Svonefnd stjórnlaganefnd starfaði til undirbúnings starfinu í stjórnlagaráði og lagði fram tvö dæmi um hugsanleg gerð stjórnarskrárinnar. Að auki er núgildandi stjórnarskrá, lýðveldisstjórnarskráin. Þannig liggja fyrir fjórar útgáfur að stjórnskipunarlögum:

  • RFrumvarp stjórnlagaráðs.
  • S: Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, 1944 nr. 33 17. júní.
  • A: Hugmynd stjórnlaganefndar, dæmi A.
  • B: Hugmynd stjórnlaganefndar, dæmi B.

Gagnlegt er að geta borið þessar fjóra gerðir saman grein fyrir grein. Í meðfylgjandi pdf-skjali er það gert. Samanburðurinn er ávallt við  frumvarp stjórnlagaráðs sem grunnskrá.

Ávallt eru álitamál þegar lagatextar eru bornir saman; hvaða greinar, málsgreinar eða málsliðir heyra saman. Um dæmi stjórnlaganefndar er að mestu farið eftir fyrirmælum stjórnlaganefndar. Um frumvarp stjórnlagaráðs er höfð hliðsjón af skýringum ráðsins sjálfs um einstakar greinar með frumvarpinu, sem er þó ekki algilt.  Í öllum tilvikum hefur því skráasmiður þurft að treysta á eigið brjóstvit.

Lesendur þessar skráa eru því beðnir um að láta skráasmiðinn vita ef þeir hnjóta um eitthvað sem betur mætti fara og verður það þá óðara lagfært. Vinsamlega sendið póst um hvað eina sem má betur fara á netfangið thorkellhelga@simnet.is.


Vega tillögur stjórnlagaráðs að hagkvæmni í útgerð?

[Birtist í Fréttablaðinu 14. júní 2012]

Að mati flestra hefur ekki fundist betra fyrirkomulag við fiskveiðistjórnun en aflamarkskerfi þar sem aflaheimild hvers skips er á hreinu en ríkið skiptir sér að öðru leyti sem minnst af veiðunum svo sem því hvort heimildirnar skipti um hendur eða ekki. Frjálst framsal aflaheimilda er lykilatriði í því að ná sem mestri hagkvæmni í sjávarútveginum. En einn hængur er á þessu fyrirkomulagi sem hefði átt að taka á strax í upphafi. Það er hin upphaflega útdeiling á kvótunum og að auðlindarentan skuli ekki nema að óverulegu leyti skila sér til eigenda auðlindarinnar, sem að mati flestra er þjóðin öll. Þetta er það atriði sem er meginorsök úlfúðar um fiskveiðistjórnunina.

Ganga þarf beint til verks

Í stað þess að taka beint á þessum vanda hefur regluverkið um veiðarnar orðið æ flóknara og er uppfullt af sérákvæðum, takmörkunum og hindrunum. Nú eru uppi á borðinu stjórnarfrumvörp sem virðast vera af þessu tagi. Það getur ekki verið leiðin til að sætta þjóðina að auðlindaarðurinn hverfi í óhagkvæmum útgerðarháttum.
Undirritaður hefur tekið þátt í vinnu og umræðu um þessi mál allt frá upphafi kvótakerfisins 1983 og hefur verið í hópi þeirra sem hafa um áratugaskeið mælt
með markaðsleið til lausnar úr þessari úlfakreppu. Leiðin felst í því að útgerðin taki kvótana á leigu á því verði sem hún er fús til að greiða; við því markaðsverði sem fengist með uppboðum, ekki einhverju verði sem stjórnmálamenn ákvarða. En sérhver breyting verður að hafa sanngjarna aðlögun sem best felst í því að núgildandi réttur fyrnist smám saman. Það undarlega er að ætlaðir talsmenn frjálsra viðskipta og markaðslausna eru helstu andstæðingar þessarar hugmyndar, með undantekningum þó. Pétur H. Blöndal alþm. hefur nú sem og fyrr lagt fram frv. í þessa veru.

Hvað vill stjórnlagaráð?
Stjórnlagaráð tók á þessum útdeilingar- og arðsvanda, eins og því bar að gera. Ráðið fjallar um nýtingu takmarkaðra auðlinda í þjóðareigu í 34. gr. frv. síns. Þar segir að fyrir hagnýtinguna eigi að greiða „fullt gjald“, sem er orðalag sótt í ákvæði núgildandi stjórnarskrár um eignarnám. Jafnframt er tilskilið að nýtingarrétturinn skuli veittur á „jafnræðisgrundvelli“. Fyrirkomulag uppboða með fyrningaraðlögun fellur vel að þessum ákvæðum. Aðlögun er að vísu ekki beinlínis tilgreind í tillögugreininni en liggur í hlutarins eðli. Sé hún ekki strax viðhöfð í löggjöf til fyllingar stjórnarskrárákvæðinu, sem væri hið skynsamlega, er viðbúið að dómstólar myndu kveða upp úr um hana. Sé byggt á fyrningu þarf í þessu skyni að ákveða fyrningarhlutfall sem er t.d. 2,5% í frv. Péturs H. Blöndals. Það merkir að með aðlöguninni fá núverandi kvótahafar að halda um helmingi
af núvirði auðlindaarðsins um alla framtíð. Í útfærslu sem við Jón Steinsson unnum fyrir sáttanefndina svokölluðu var hlutfallið jafngildi 5% sem svarar til þess að um þrír fjórðuhlutar arðsins renni til þjóðarinnar. Að auki ber að hafa í huga að ýmsar leiðir geta rúmast innan ráðgerðs stjórnarskrárákvæðis aðrar en uppboðs- og fyrningarleiðin.

Stjórnlagaráð leggur ekki á ráðin um fiskveiðistjórnun

Tilefni þessara skrifa eru orð hins virta pistlahöfundar Þorsteins Pálssonar laugardaginn 9. júní hér í blaðinu þar sem hann segir „[A]fleiðingin [af nýju stjórnarskránni] er þá sú að útilokað verður um alla framtíð að reka sjávarútveg á Íslandi með hagkvæmasta hætti.“ Þessari sterku fullyrðingu verður að andmæla. Tillögur stjórnlagaráðs fjalla einvörðungu um útdeilinguna og skiptingu arðsins. Þær segja ekkert um fyrirkomulag fiskveiðistjórnunar að öðru leyti. Það hefur margoft komið fram hjá hagfræðingum að markaðsákvarðað veiðigjald ásamt vissri opnun fyrir nýliða með fyrningarákvæðinu myndi fremur en ekki auka heildararðsemi greinarinnar þegar til lengdar er litið. Þá býður fyrirkomulagið ekki þeirri hættu heim, sem pólitískt ákvarðað veiðigjald gerir, að veiðar verði ekki stundaðar í fullum mæli. Löggjöf um skipulag fiskveiða sem leitt getur til óskilvirkrar útgerðar verður ekki réttlætt með tillögum stjórnlagaráðs. Slíkt væri engan veginn á ábyrgð ráðsins. Tillögur stjórnlagaráðs vega ekki að hagkvæmni í útgerð, heldur þvert á móti.

Hvernig á að spyrja um stjórnarskrá?

Nú er sagt að meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis hyggist leggja til að ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs fari fram í lok september og um leið verði spurt sérstaklega um tiltekin álitamál. Eins og ég hef þegar sagt í tveimur blaðagreinum og nokkrum pistlum á þessari vefsíðu minni er ég efins um þessa leið til að fá fram vilja þjóðarinnar og fremur bent á atkvæðagreiðslu á e.k. þjóðfundi.

En verði af umræddri þjóðaratkvæðagreiðslu er áríðandi að vandað sé til spurninganna. Þegar málið var síðast í umræðunni í marslok s.l. sendi ég þingnefndinni erindi sem hér fylgir sem pdf-skjal:  UmÞjóðaratkvæðiÞHGerð28mars. Þar lagði ég til annað upplegg á spurningunum. Nefndarmeirihlutinn breytti spurningunum og liggja þær nú fyrir sembreytingartillaga á þingskjali 1098. Mér finnast þær enn loðnar og villandi og nefni ég sérstaklega þessar:

3.  Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?

4.  Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er?

Þriðja spurningin sker sig úr hvað það varðar að hún er sú eina sem svara verður með „nei“ sé kjósandinn sammála tillögum stjórnlagaráðs, en í þeim eru ekki sérstök ákvæði um þjóðkirkju utan að sagt er að kveða megi á um kirkjuskipanina í almennum lögum. Því er þó haldið óbreyttu að breyting á skipaninni kalli á samþykki í þjóðarinnar.

Fjórða spurningin er veikt orðuð og tekur ekki mið af tillögu stjórnlagaráðs. Í spurningunni er kveðið á um „heimild“ í stjórnarskrá til að setja megi í lög ákvæði um persónukjör „í meira mæli en nú er“. Það þarf enga stjórnarskrárheimild til þessa, sbr. t.d. stjórnarfrumvarp um víðtækt persónukjör sem legið hefur fyrir Alþingi, en dagað uppi – eins og margt annað. Tillaga stjórnlagaráðs gengur mun lengra og kveður á um „skyldu“ til að setja markvisst persónukjör í kosningalög.

Af þessum sökum tel ég að gera þurfi að lágmarki eftirfarandi breytingar á ofangreindum spurningum:

3.    Vilt þú að staða þjóðkirkjunnar verði ákveðin í almennum lögum en ekki í stjórnarskrá?

4.    Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði mælt fyrir um persónukjör í kosningum til Alþingis? 

Þjóðin sjái um lokahnykkinn

[Grein þessi er ítarlegri gerð pistils sem ber heitið „Framhald stjórnarskrármálsins II“]

Í fyrri pistli hef ég fjallað um hvernig þoka mætti stjórnarskrármálinu áfram með því að kalla saman þjóðfund til að tjá sig með afgerandi hætti um álitamálin.

Hér verður þráðurinn tekinn upp þar sem þessum þjóðfundi er lokið.

Úrvinnsla

Að fenginni niðurstöðu þjóðfundarins, t.d. í október, yrði Alþingi, og einkum stjórnsýslu- og eftirlitsnefnd þess, að bretta upp ermarnar og ganga frá frumvarpi að nýrri stjórnarskrá byggðu á tillögum stjórnlagaráðs en að teknu tilliti niðurstaðna nýja þjóðfundarins. Tímin er naumur, ekki síst í ljósi þess að á síðustu mánuðum fyrir þingkosningar vill hugur þingmanna snúast um margt annað en uppbyggilega málavinnu.

Í ljósi upphaflegra áforma um að stjórnlagaþing skyldi starfa í hrinum með samráði við Alþingi á milli, tel ég viturlegt að stjórnlagaráð vinni með þingnefndinni að lokafrágangi stjórnarskrárfrumvarpsins. Þetta er ekki sagt af vanvirðu við þingið, heldur af umhyggju fyrir málefninu. Það yrði að sjálfsögðu þingnefndin sem bæri lokaábyrgð á frumvarpinu og legði það fram fyrir þingheim allan, sem síðan fer einn með málið.

Staðfesting þjóðarinnar

Í frumvarpi stjórnlagaráðs er gert ráð fyrir því að framvegis verði stjórnarskrárbreytingar að hljóta staðfestingu þjóðarinnar. Sama hafa fyrri stjórnlaganefndir lagt til. Flestir, ef ekki allir, vilja að eins verði farið með stjórnarskrárumbætur nú, að þær hljóti bindandi staðfestingu þjóðarinnar.

Ákvæðin í gildandi stjórnarskrá (79. gr.) eru þannig að samþykki Alþingi „tillögu“ um breytingu á stjórnarskrá, eins og það er orðað, skuli þing rofið og „stofna til almennra kosninga“. Fyrsta mál nýs þings er að staðfesta „ályktunina óbreytta“ – nú eða hafna henni sé sá gállinn á þinginu. En nýja þingið má engu breyta.

Hugsunin á bak við þetta mun vera sú að þjóðin kjósi til nýs þings eftir því hvort henni líkar hin ráðgerða stjórnarskrárbreyting eða ekki. Vitaskuld snúast þingkosningar um flest annað en það. Aðeins einu sinni, a.m.k. á lýðveldistímanum, má með nokkrum sanni segja að þingkosningar hafi verið haldnar um stjórnarskrárbreytingu sérstaklega. Það var vorið 1959 þegar fyrir lá stjórnarskrárbreyting sem umbylti kjördæma- og kosningaskipaninni. Fyrir vorkosningarnar lá fyrir sá vilji þriggja af stærstu flokkunum fjórum að kosið yrði strax aftur – til að þeir gætu uppskorið ávinning af breyttri skipan! Svo var gert um haustið. Þetta veitti kjósendum tækifæri í að tjá sig um stjórnarskrárbreytinguna eina sér í fyrri þingkosningunum.

Hvernig?

En hvernig má láta þjóðina fá völdin nú? Fyrirmynd má sækja í lýðveldisstjórnarkrána 1944. Hún fór í þjóðaratkvæði, enda var svo fyrir mælt í fyrri stjórnarkrárbreytingu. Aðstæður eru því ekki eins. Engu að síður mætti nýta sömu hugsun og bæta við skilyrði í 114. gr. frumvarps stjórnlagaráðs. Viðbótin, sem hér er feitletruð, er sótt nær orðrétt í lýðveldisstjórnarkrána (sbr. þó síðar):

  • Stjórnarskipunarlög þessi öðlast gildi þegar Alþingi hefur samþykkt þau í samræmi við ákvæði stjórnarskipunarlaga nr. 33 frá 17. júní 1944 með áorðnum breytingum enda hafi meiri hluti allra kosningabærra manna í landinu með leynilegri atkvæðagreiðslu samþykkt ályktun Alþingis þar að lútandi.
  • Við gildistöku stjórnarskipunarlaga þessara falla úr gildi stjórnarskipunarlög nr. 33 frá 17. júní 1944 með áorðnum breytingum.

Það má skjóta því inn í að betur færi á því að kalla þetta „ákvæði um stundarsakir“ fremur en hafa það almenna stjórnarsskrárgrein, 114. gr. Í gildandi stjórnarskrá er hliðstæða ákvæðið í 81. gr., en í prentuðum útgáfum stjórnarskrárinnar er þeirri grein iðulega sleppt, enda hafði hún aðeins notagildi á árinu 1944.

Ofangreind hugmynd kom að mestu fram í dæmum stjórnlaganefndar um nýja stjórnarskrá sem Björg Thorarensen prófessor hefur rifjað upp í minnisblaði til þingnefndarinnar 26. mars s.l.

Hvenær?

Umrædd þjóðaratkvæðagreiðsla um lokatillögu að nýrri stjórnarskrá gæti farið fram strax eftir þingið hefur samþykkt það í fyrra sinnið, enda má engu breyta eftir það. Til þess að svo megi verða er í tillögu minni vísvitandi notað orðalagið „ályktun Alþingis þar að lútandi“ í stað þess að í lýðveldisstjórnarskránni er aðeins talað um „þau“, þ.e.a.s. „stjórnskipunarlögin“ enda gat það átt við þá í ljósi þess sem fyrr segir. Að mínu mati væri orðlagið sem hér er lagt til tryggara nú þar sem „ályktunin“ verður ekki að stjórnskipunarlögum fyrr en Alþingi hefur í seinna skiptið samþykkt hana. En þetta þyrftu stjórnskipunarfræðingar að grannskoða.

Æskilegast væri að atkvæðagreiðslan færi fram fyrir kosningarnar sem eiga að vera á undan seinni samþykkt þingsins, væntanlega vorið 2013. Þar með gætu sjálfar þingkosningarnar snúist um hin pólitísku málefni, án þess að stjórnarskrármálið þurfi að trufla þær. Felli þjóðin stjórnarskrána er það sjálfgert að þingkosningarnar geta farið óhindrað fram. Samþykki þjóðin nýja stjórnarskrá verður að ætla að nýtt þing myndi ekki taka upp á því að fella hana. Í báðum tilvikum ætti því stjórnarskráin og kosningar til Alþingis að geta verið næsta aðskilin mál. Á hinn bóginn kann að vera hæpið að upp næðist stemming fyrir aðskildri þjóðaratkvæðagreiðslu hvort sem hún væri á undan eða á eftir þingkosningunum. Þátttöku kynni að vera ábótavant auk þess sem kostnaður yrði verulegur af sérstakri kosningu. Ennfremur væri það æskilegt að nýtt þing hefði niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar undir höndum áður en það staðfesti stjórnarskrárbreytinguna en ekki á eftir, þannig leiðbeinti þjóðin þinginu, ekki öfugt.

Hvað vinnst?

Í fyrri pistli voru færð rök fyrir því að ekki eigi að blanda saman forsetakosningu og þjóðaratkvæðagreiðslu um álitamál. Vandkvæði þessa eru mun minni við þá þjóðaratkvæðagreiðslu sem hér um ræðir. Þannig gæti þjóðaratkvæðagreiðslan hæglega verið samhliða þingkosningunum vorið 2013. Við það vinnst margt:

  1. Trygging fyrir góðri þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslunni.
  2. Kjósendur geta valið flokka og frambjóðendur til þings óháð afstöðu til stjórnarskrárbreytingarinnar.
  3. Minni tilkostnaður þar sem tvennum kosningum er slegið saman.

Umræddur framgangsmáti kallar á að bæði þjóðin og nýtt þing staðfesti stjórnarskrárbreytinguna. Báðir fá því neitunarvald; þingið samkvæmt ákvæðum gildandi stjórnarskrár en þjóðin með nýmælinu í 114. gr. Jákvæðara er að segja að báðir fái tækifæri til að leggja blessun sína yfir stjórnarskrárbreytinguna.

Spyrja má hvað gerist ef þjóðin eða þingið hafnar stjórnarskránni nýju. Þá heldur sú gamla einfaldlega gildi sínu (sbr. 2. mgr. í umræddri 114. gr.) og málið er aftur komið á byrjunarreit – hvað vonandi yrði ekki.

Stjórnarskrármálið má ekki daga uppi einu sinni enn

Stjórnarskrá er í senn sáttmáli þjóðar við sjálfa sig en um leið erindisbréf hennar til stjórnvalda, þar með til Alþingis, um réttar lýðræðislegar leikreglur. Stjórnarskrá á því að vera sprottin frá þjóðinni.

Hér hefur verið reifað ferli þess að þjóðin eignist vandaða stjórnarskrá í sátt við sem flesta.