by Þorkell Helgason | sep 4, 2012 | Á eigin vefsíðu
Misvægi atkvæða eftir búsetu hefur verið landlægt á Íslandi frá upphafi kosninga til Alþingis. Mynd I sýnir hvernig þetta misvægi hefur verið, mælt með tvennum hætti.

Misvægið er þannig mælt að fundið er hlutfallið milli tölu kjósenda að baki hverju þingsæti í því kjördæmi þar sem sú tala er hæst og þess þar sem hún er lægst. Ef atkvæðavægi er jafnt er þetta hlutfall nálægt einum. Þ.e.a.s það lægi á lárétta ásnum. Rauði ferillinn sýnir misvægið eins og það var í raun miðað við kjördæmaskipanina á hverjum tíma. Hæst fór þannig mælt misvægi í vorkosningunum 1959 upp í nær 20; þ.e.a.s. það var um tvítugfaldur mismunur á atkvæðavæginu.
Rauði ferillinn hefur aldrei verið lægri en nú eftir kjördæmabreytinguna 1999. Á hinn bóginn er þetta ekki með öllu sanngjarn samanburður þar sem stóru kjördæmin nú jafna út atkvæðavægið með vissum hætti. Því er líka sýndur blár ferill þar sem búið er að steypa saman kjördæmum á hverjum tíma í þau landfræðilegu hólf sem núverandi kjördæmaskipan markar. Þá sést að misvægið er og hefur lengst af frá næstsíðustu aldamótum verið í kringum þrefallt, þar til það lækkaði í tvöfallt misvægi 1999 eins og fyrr segir. Í þessum samanburði er einungis tekið tillit til kjördæmissæta þar sem önnur sæti (konungskjörnir, landskjörnir, uppbótarmenn eða jöfnunarmenn) voru með ýmsum illsambærilegum hætti á þessu langa tímabili.
Ekki verður séð að kerfisbundin pólitísk stefna hafi legið að baki misvæginu. Þingsætum hefur bara verið skipt upp á milli kjördæma si svona, að mestu með beinum fyrirmælum í stjórnarskrá. Síðan hefur fólk flust á mölina og misvægið orðið óbærilegt. Þá hefur stjórnarskrárgjafinnn, Alþingi, af og til gripið inn í og leiðrétt misvægið, en aldrei til fulls. Og, sem fyrr segir, leiðréttingin hefur aldrei byggst á neinu meðvituðu kerfi. Þó grillir í það í stjórnarskrárbreytingunni frá 1999 en þar segir að misvægið megi þó aldrei vera meira en tvöfallt. (Útfærslan er samt sú að það hefur farið yfir tvo í kosningunum síðan breytingin var gerð.)
Nú vill stjórnlagaráð að tekið verði af skarið og sett skýrt ákvæði í stjórnarskrá um að misvægið verði að hverfa:
„Atkvæði kjósenda alls staðar á landinu vega jafnt.“ Um þetta atriði verður m.a. kosið 20. október n.k.
Gagnrýnisraddir á þessa tillögu stjórnlagaráðs hafa vissulega komið fram og er þá gjarnan vísað til annarra ríkja. Samanburður við senatið í Bandaríkjunum, sambandsráðið í Þýskalandi, Evrópuþingið, Sameinuðu þjóðirnar eða annað yfirþjóðlegt eða yfirríkjalegt þinghald finnst mér alls ekki eiga við. Til fulltrúadeildarinnar í Bandaríkjunum eða sambandsþingsins í Berlín hafa allir jafnan kosningarétt.
Í frægum dómi Hæstaréttar Bandaríkjanna er spurningunni í titli þessa pistils raunar svarað. Þáverandi forseti réttarins Earl Warren lét fleyg orð falla: „Legislators represent people, not trees or acres. Legislators are elected by voters, not farms or cities or economic interests.“
En lítum okkur nær. Hvernig er fyrirkomulagið á Norðurlöndum í kosningum til löggjafarþinga?
Í Svíþjóð, Finnlandi og á Færeyjum er skýrt kveðið á um jafnt vægi atkvæða. Færeyjum var til skamms tíma skipt upp í kjördæmi með miklu misvægi atkvæða en nú er landið eitt kjördæmi og þar með allir kjósendur með sama atkvæðavægi.
Danir hafa lengi átt flóknustu kosningalög Norðurlanda og þótt víðar væri leitað. Með nokkurri einföldun má segja að þrír þættir ráði þingmannatölu hvers kjördæmis. Þetta er íbúatala, tala kjósenda og flatarmál kjördæmisins mælt í ferkílómetrum. Þingsætum er skipt í hlutfalli við summu þessara talna, en þó er flatarmálið fyrst margfaldað með tölunni 20. Þar sem hver kjósandi er bæði íbúi og þegn á kjörskrá má segja að hver ferkílómetri lands hafi þar sama vægi og tíu kjósendur. Væri þessari fáránlegu reglu beitt á Íslandi væru „fjöll og firnindi“ með um 50-55 þingmenn fjalla og firninda en hinir, stór minnihluti, væru fulltrúar fólksins. Þetta er ekki alveg svona slæmt í Danmörku, einfaldlega vegna þess að þar eru hvorki „fjöll né firnindi“. Það sem „bugter sig i bakke, dal“ eins og segir í þjóðsöng Dana, hefur álíka marga fulltrúa á Folketinget og íbúarnir sjálfir.
Eitt er þó eftirbreytnivert í útfærslu Dana. Þeir nota íbúafjölda sem eitt viðmiðanna þriggja þegar þingsætum er útdeilt. Það væri athyglisvert að hafa það sem eina viðmiðið fremur en kjósendatöluna eins og stjórnlagaráð leggur til. Hver er munurinn á því að skipta þingsætum eftir íbúatölu í stað kjósendatölu? Hann er sá að þá fá börn óbeint fulltrúa á þingi, fulltrúa sem aðrir kjósendur velja að vísu fyrir þá. Barnmörg kjördæmi fá þá fleiri fulltrúa en hinn sem eru barnrýr. Þýskur vinur minn, tölfræðingur, vill ganga enn lengra og láta foreldra beinlínis fá kjörseðla fyrir hönd barna sinna!
Í Noregi er fyrirkomulagið svipað og það danska en þó einfaldara. Sætum á Stórþinginu, sem eru 169, er skipt á milli norsku kjördæmanna, þe.a.a.s. fylkjanna 19, í hlutfalli við summu af tölu kjósenda á kjörskrá og flatarmáli hvers fylkis margfölduðu með 1,8. Margfaldarinn er því mun lægri en sá danski en á móti kemur að Noregur er áttfalt stærri en Danmörk og þar sem íbúafjöldinn er álíka lætur nærri að landsvæði hafa sama vægi í báðum löndum.
Lítum nánar á norska dæmið.
Mynd II sýnir annars vegar hvernig sætum var í raun skipt við síðustu stórþingskosningar, árið 2009, og hins vegar hvernig þeim hefði mátt skipta jafnt eftir kjósendafjölda. Það eru alls 11 [áður var hér ritvillan 7] sæti sem hefði þurft að færa til, eða 6,5% allra stórþingssæta, sem er þó næsta lítið.

Eins og fyrr segir þarf á Íslandi að færa til 6 sæti til að ná jöfnuði milli kjördæma m.v. tölurnar frá 2009, eða 9,5% sætanna 63. Mynd III sýnir með sama hætti og sú númer II hvernig þessi tilfærsla yrði hér.

Segjum nú – til gamans – að Ísland væri eitt fylkja í Noregi. Það væri flatarmesta fylkið, helmingi stærra en það næsta, Finnmörk. En kjósendafjöldinn væri í meðallagi. Beitum nú formúlunni norsku til að reikna þessu Íslandsfylki sæti á Stórþinginu. Vitaskuld yrðu reglum þannig breytt að þingsætin íslensku kæmu til viðbótar þeim sem fyrir eru. Þá fengjum við 17 sæti af 169+17=186 eða nær tíund Stórþingsins. Nytum við ekki flatarmálsins ættum við ekki skilið nema 11 sæti. (Einhvers staðar hef ég skrifað að við fengjum 16 sæti en ekki 17; nú hef ég nákvæmari upplýsingar og leiðréttist þetta hér með.)
En hvernig kæmi norska formúlan út fyrir skiptingu sæta á Alþingi Íslendinga. Höfðborgarsvæðið, Reykjavík og Suðvesturland, fengju samtals 23 þingmenn en landsbyggðarkjördæmin 40! Svo má leika sér að því að finna þann margföldunarstuðul flatarmálsins sem gæfi svipað misvægi atkvæða og nú er í raun. Sá stuðull sem kemst næst því að kalla fram núverandi misvægi er lægri en sá norski eða 0,4. Þetta merkir samt að fjöllin og firnindin hér á landi hefðu ígildi 41 þúsumd kjósenda að baki sér.
Allur þessi talnaleikur ætti að sannfæra menn um það hve varhugavert og tækifærissinnað það getur orðið að víkja frá því sem meginreglu að atkvæði allra, hvar sem þeir búa og hver svo sem þjóðfélagsstaða þeirra er, skuli vera jöfn. Þar með er ég engan veginn að gera lítið úr því að það kunni að vera aðstöðumunur og að landsins gæðum sé misskipt á milli fólks. En fyrir það má ekki bæta með mismunun í mannréttindum.
by Þorkell Helgason | sep 3, 2012 | Á eigin vefsíðu
Þessari spurningu hefur verið kastað fram. Spurt er nánar hvað gerst hefði 2009 ef þá hefði verið jafnt vægi atkvæða. Það er alltaf varhugavert að nota úrslit úr liðnum kosningum til að spá um hvað gerst hefði ef kosningalög hefðu verið einhvern veginn öðru vísi. Kjósendur haga sér ávallt að nokkru með tilliti til þess fyrirkomulags sem gildir hverju sinni.
Engu að síður er hér sýndar töflur um skiptingu þingsæta ef sætum er skipt eins jafnt og unnt er milli kjördæma á grundvelli kosningaúrslitanna frá 2009.
Tafla I sýnir hvernig sætaskipanin hefði orðið 2009 ef sætum væri skipt á milli kjördæma í hlutfalli tölur kjósenda á kjörskrá 2009, þ.e.a.s. jafnt vægi óháð búsetu.

Tafla II sýnir tilfærslu á úthlutun sæta við þá breytingu á úthlutun sæta sem orðið hefði við jöfnun atkvæaðvægis, en að engu öðru breyttu í kosningalögum.

Nú liggur fyrir eitt að þingsæti mun færast frá Norðvesturkjördæmi til Suðvesturkjördæmis skv. gildandi lögum fyrir næstu kosningar vorið 2013. Við það eitt færast sæti út og suður eins og sjá má í töflu III.

Því má segja að hluti þeirrar breytingar sem yrði við jöfnun atkvæðavægis muni þegar koma að hluta fram 2013. Þetta má lesa út úr töflum II og III og samandregið í töflu IV.

Að lokum verður að endurtaka fyrirvara um svona talnaleik aftur í tímann.
by Þorkell Helgason | apr 30, 2012 | Á eigin vefsíðu
Nú er sagt að meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis hyggist leggja til að ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs fari fram í lok september og um leið verði spurt sérstaklega um tiltekin álitamál. Eins og ég hef þegar sagt í tveimur blaðagreinum og nokkrum pistlum á þessari vefsíðu minni er ég efins um þessa leið til að fá fram vilja þjóðarinnar og fremur bent á atkvæðagreiðslu á e.k. þjóðfundi.
En verði af umræddri þjóðaratkvæðagreiðslu er áríðandi að vandað sé til spurninganna. Þegar málið var síðast í umræðunni í marslok s.l. sendi ég þingnefndinni erindi sem hér fylgir sem pdf-skjal: UmÞjóðaratkvæðiÞHGerð28mars. Þar lagði ég til annað upplegg á spurningunum. Nefndarmeirihlutinn breytti spurningunum og liggja þær nú fyrir sembreytingartillaga á þingskjali 1098. Mér finnast þær enn loðnar og villandi og nefni ég sérstaklega þessar:
3. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?
4. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er?
Þriðja spurningin sker sig úr hvað það varðar að hún er sú eina sem svara verður með „nei“ sé kjósandinn sammála tillögum stjórnlagaráðs, en í þeim eru ekki sérstök ákvæði um þjóðkirkju utan að sagt er að kveða megi á um kirkjuskipanina í almennum lögum. Því er þó haldið óbreyttu að breyting á skipaninni kalli á samþykki í þjóðarinnar.
Fjórða spurningin er veikt orðuð og tekur ekki mið af tillögu stjórnlagaráðs. Í spurningunni er kveðið á um „heimild“ í stjórnarskrá til að setja megi í lög ákvæði um persónukjör „í meira mæli en nú er“. Það þarf enga stjórnarskrárheimild til þessa, sbr. t.d. stjórnarfrumvarp um víðtækt persónukjör sem legið hefur fyrir Alþingi, en dagað uppi – eins og margt annað. Tillaga stjórnlagaráðs gengur mun lengra og kveður á um „skyldu“ til að setja markvisst persónukjör í kosningalög.
Af þessum sökum tel ég að gera þurfi að lágmarki eftirfarandi breytingar á ofangreindum spurningum:
3. Vilt þú að staða þjóðkirkjunnar verði ákveðin í almennum lögum en ekki í stjórnarskrá?
4. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði mælt fyrir um persónukjör í kosningum til Alþingis?
by Þorkell Helgason | apr 25, 2012 | Á eigin vefsíðu
[Grein þessi er ítarlegri gerð pistils sem ber heitið „Framhald stjórnarskrármálsins II“]
Í fyrri pistli hef ég fjallað um hvernig þoka mætti stjórnarskrármálinu áfram með því að kalla saman þjóðfund til að tjá sig með afgerandi hætti um álitamálin.
Hér verður þráðurinn tekinn upp þar sem þessum þjóðfundi er lokið.
Úrvinnsla
Að fenginni niðurstöðu þjóðfundarins, t.d. í október, yrði Alþingi, og einkum stjórnsýslu- og eftirlitsnefnd þess, að bretta upp ermarnar og ganga frá frumvarpi að nýrri stjórnarskrá byggðu á tillögum stjórnlagaráðs en að teknu tilliti niðurstaðna nýja þjóðfundarins. Tímin er naumur, ekki síst í ljósi þess að á síðustu mánuðum fyrir þingkosningar vill hugur þingmanna snúast um margt annað en uppbyggilega málavinnu.
Í ljósi upphaflegra áforma um að stjórnlagaþing skyldi starfa í hrinum með samráði við Alþingi á milli, tel ég viturlegt að stjórnlagaráð vinni með þingnefndinni að lokafrágangi stjórnarskrárfrumvarpsins. Þetta er ekki sagt af vanvirðu við þingið, heldur af umhyggju fyrir málefninu. Það yrði að sjálfsögðu þingnefndin sem bæri lokaábyrgð á frumvarpinu og legði það fram fyrir þingheim allan, sem síðan fer einn með málið.
Staðfesting þjóðarinnar
Í frumvarpi stjórnlagaráðs er gert ráð fyrir því að framvegis verði stjórnarskrárbreytingar að hljóta staðfestingu þjóðarinnar. Sama hafa fyrri stjórnlaganefndir lagt til. Flestir, ef ekki allir, vilja að eins verði farið með stjórnarskrárumbætur nú, að þær hljóti bindandi staðfestingu þjóðarinnar.
Ákvæðin í gildandi stjórnarskrá (79. gr.) eru þannig að samþykki Alþingi „tillögu“ um breytingu á stjórnarskrá, eins og það er orðað, skuli þing rofið og „stofna til almennra kosninga“. Fyrsta mál nýs þings er að staðfesta „ályktunina óbreytta“ – nú eða hafna henni sé sá gállinn á þinginu. En nýja þingið má engu breyta.
Hugsunin á bak við þetta mun vera sú að þjóðin kjósi til nýs þings eftir því hvort henni líkar hin ráðgerða stjórnarskrárbreyting eða ekki. Vitaskuld snúast þingkosningar um flest annað en það. Aðeins einu sinni, a.m.k. á lýðveldistímanum, má með nokkrum sanni segja að þingkosningar hafi verið haldnar um stjórnarskrárbreytingu sérstaklega. Það var vorið 1959 þegar fyrir lá stjórnarskrárbreyting sem umbylti kjördæma- og kosningaskipaninni. Fyrir vorkosningarnar lá fyrir sá vilji þriggja af stærstu flokkunum fjórum að kosið yrði strax aftur – til að þeir gætu uppskorið ávinning af breyttri skipan! Svo var gert um haustið. Þetta veitti kjósendum tækifæri í að tjá sig um stjórnarskrárbreytinguna eina sér í fyrri þingkosningunum.
Hvernig?
En hvernig má láta þjóðina fá völdin nú? Fyrirmynd má sækja í lýðveldisstjórnarkrána 1944. Hún fór í þjóðaratkvæði, enda var svo fyrir mælt í fyrri stjórnarkrárbreytingu. Aðstæður eru því ekki eins. Engu að síður mætti nýta sömu hugsun og bæta við skilyrði í 114. gr. frumvarps stjórnlagaráðs. Viðbótin, sem hér er feitletruð, er sótt nær orðrétt í lýðveldisstjórnarkrána (sbr. þó síðar):
- Stjórnarskipunarlög þessi öðlast gildi þegar Alþingi hefur samþykkt þau í samræmi við ákvæði stjórnarskipunarlaga nr. 33 frá 17. júní 1944 með áorðnum breytingum enda hafi meiri hluti allra kosningabærra manna í landinu með leynilegri atkvæðagreiðslu samþykkt ályktun Alþingis þar að lútandi.
- Við gildistöku stjórnarskipunarlaga þessara falla úr gildi stjórnarskipunarlög nr. 33 frá 17. júní 1944 með áorðnum breytingum.
Það má skjóta því inn í að betur færi á því að kalla þetta „ákvæði um stundarsakir“ fremur en hafa það almenna stjórnarsskrárgrein, 114. gr. Í gildandi stjórnarskrá er hliðstæða ákvæðið í 81. gr., en í prentuðum útgáfum stjórnarskrárinnar er þeirri grein iðulega sleppt, enda hafði hún aðeins notagildi á árinu 1944.
Ofangreind hugmynd kom að mestu fram í dæmum stjórnlaganefndar um nýja stjórnarskrá sem Björg Thorarensen prófessor hefur rifjað upp í minnisblaði til þingnefndarinnar 26. mars s.l.
Hvenær?
Umrædd þjóðaratkvæðagreiðsla um lokatillögu að nýrri stjórnarskrá gæti farið fram strax eftir þingið hefur samþykkt það í fyrra sinnið, enda má engu breyta eftir það. Til þess að svo megi verða er í tillögu minni vísvitandi notað orðalagið „ályktun Alþingis þar að lútandi“ í stað þess að í lýðveldisstjórnarskránni er aðeins talað um „þau“, þ.e.a.s. „stjórnskipunarlögin“ enda gat það átt við þá í ljósi þess sem fyrr segir. Að mínu mati væri orðlagið sem hér er lagt til tryggara nú þar sem „ályktunin“ verður ekki að stjórnskipunarlögum fyrr en Alþingi hefur í seinna skiptið samþykkt hana. En þetta þyrftu stjórnskipunarfræðingar að grannskoða.
Æskilegast væri að atkvæðagreiðslan færi fram fyrir kosningarnar sem eiga að vera á undan seinni samþykkt þingsins, væntanlega vorið 2013. Þar með gætu sjálfar þingkosningarnar snúist um hin pólitísku málefni, án þess að stjórnarskrármálið þurfi að trufla þær. Felli þjóðin stjórnarskrána er það sjálfgert að þingkosningarnar geta farið óhindrað fram. Samþykki þjóðin nýja stjórnarskrá verður að ætla að nýtt þing myndi ekki taka upp á því að fella hana. Í báðum tilvikum ætti því stjórnarskráin og kosningar til Alþingis að geta verið næsta aðskilin mál. Á hinn bóginn kann að vera hæpið að upp næðist stemming fyrir aðskildri þjóðaratkvæðagreiðslu hvort sem hún væri á undan eða á eftir þingkosningunum. Þátttöku kynni að vera ábótavant auk þess sem kostnaður yrði verulegur af sérstakri kosningu. Ennfremur væri það æskilegt að nýtt þing hefði niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar undir höndum áður en það staðfesti stjórnarskrárbreytinguna en ekki á eftir, þannig leiðbeinti þjóðin þinginu, ekki öfugt.
Hvað vinnst?
Í fyrri pistli voru færð rök fyrir því að ekki eigi að blanda saman forsetakosningu og þjóðaratkvæðagreiðslu um álitamál. Vandkvæði þessa eru mun minni við þá þjóðaratkvæðagreiðslu sem hér um ræðir. Þannig gæti þjóðaratkvæðagreiðslan hæglega verið samhliða þingkosningunum vorið 2013. Við það vinnst margt:
- Trygging fyrir góðri þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslunni.
- Kjósendur geta valið flokka og frambjóðendur til þings óháð afstöðu til stjórnarskrárbreytingarinnar.
- Minni tilkostnaður þar sem tvennum kosningum er slegið saman.
Umræddur framgangsmáti kallar á að bæði þjóðin og nýtt þing staðfesti stjórnarskrárbreytinguna. Báðir fá því neitunarvald; þingið samkvæmt ákvæðum gildandi stjórnarskrár en þjóðin með nýmælinu í 114. gr. Jákvæðara er að segja að báðir fái tækifæri til að leggja blessun sína yfir stjórnarskrárbreytinguna.
Spyrja má hvað gerist ef þjóðin eða þingið hafnar stjórnarskránni nýju. Þá heldur sú gamla einfaldlega gildi sínu (sbr. 2. mgr. í umræddri 114. gr.) og málið er aftur komið á byrjunarreit – hvað vonandi yrði ekki.
Stjórnarskrármálið má ekki daga uppi einu sinni enn
Stjórnarskrá er í senn sáttmáli þjóðar við sjálfa sig en um leið erindisbréf hennar til stjórnvalda, þar með til Alþingis, um réttar lýðræðislegar leikreglur. Stjórnarskrá á því að vera sprottin frá þjóðinni.
Hér hefur verið reifað ferli þess að þjóðin eignist vandaða stjórnarskrá í sátt við sem flesta.
by Þorkell Helgason | apr 24, 2012 | Á eigin vefsíðu
[Grein þessi birtist í Fréttablaðinu 17. apríl 2012.]
Í fyrri pistli hef ég fjallað um hvernig þoka mætti stjórnarskrármálinu áfram með því að kalla saman þjóðfund til að tjá sig með afgerandi hætti um álitamálin.
Í fyrri pistli hef ég fjallað um hvernig þoka mætti stjórnarskrármálinu áfram með því að kalla saman þjóðfund til að tjá sig með afgerandi hætti um álitamálin.
Hér verður þráðurinn tekinn upp þar sem þessum þjóðfundi er lokið.
Úrvinnsla
Að fengnu áliti þjóðarinnar með einum eða öðrum hætti, verður Alþingi, og einkum stjórnsýslu- og eftirlitsnefnd þess, að bretta upp ermarnar og ganga frá frumvarpi að nýrri stjórnarskrá byggðu á tillögum stjórnlagaráðs en að teknu tilliti til þeirra valkosta sem þjóðin – eða staðgenglar hennar – hafa ótvírætt valið. Tímin er naumur, ekki síst í ljósi þess að á síðasta misseri fyrir þingkosningar vill hugur þingmanna snúast um margt annað en uppbyggilega málavinnu.
Í ljósi upphaflegra áforma um að stjórnlagaþing starfaði í hrinum með samráði við Alþingi á milli, tel ég viturlegt að stjórnlagaráð vinni með þingnefndinni að lokafrágangi stjórnarskrárfrumvarpsins. Þetta er ekki sagt af vanvirðu við þingið, heldur af umhyggju fyrir málefninu. Það yrði að sjálfsögðu þingnefndin sem bæri lokaábyrgð á frumvarpinu og legði það fram fyrir þingheim allan, sem síðan fer einn með málið.
Staðfesting þjóðarinnar
Í frumvarpi stjórnlagaráðs er gert ráð fyrir því að framvegis verði stjórnarskrárbreytingar að hljóta staðfestingu þjóðarinnar. Sama hafa fyrri stjórnlaganefndir lagt til. Flestir, ef ekki allir, vilja að eins verði farið með stjórnarskrárumbætur nú, að þær hljóti bindandi staðfestingu kjósenda.
Ákvæðin í gildandi stjórnarskrá eru þannig að fyrst samþykkir Alþingi tillögu um hina nýju stjórnarskrá. Þá skal þing rofið og efnt til kosninga. Fyrsta mál nýs þings er síðan að staðfesta hina fyrri samþykkt – nú eða hafna stjórnarskránni sé sá gállinn á þinginu.
En hvernig má láta þjóðina fá völdin nú? Fyrirmynd má sækja í lýðveldisstjórnarskrána 1944. Hún fór í þjóðaratkvæði, enda var svo fyrir mælt í fyrri stjórnarskrárbreytingu. Aðstæður eru því ekki eins. Engu að síður mætti nýta sömu hugsun og bæta við skilyrði í viðkomandi ákvæði í frumvarp stjórnlagaráðs. Viðbótin, sem hér er feitletruð, er sótt nær orðrétt í lýðveldisstjórnarskrána:
Stjórnarskipunarlög þessi öðlast gildi þegar Alþingi hefur samþykkt þau í samræmi við ákvæði stjórnarskipunarlaga nr. 33 frá 17. júní 1944 með áorðnum breytingum enda hafi meiri hluti allra kosningabærra manna í landinu með leynilegri atkvæðagreiðslu samþykkt ályktun Alþingis þar að lútandi.
Sú þjóðaratkvæðagreiðsla sem hér um ræðir gæti farið fram strax eftir að þingið hefur samþykkt það í fyrra sinnið, enda má engu breyta eftir það.
Þrátt fyrir efasemdir um að blanda megi saman kosningum tel ég hafa mætti slíka þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða þingkosningunum vorið 2013. Við það vinnst margt:
- Trygging fyrir góðri þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslunni sjálfri.
- Kjósendur geta valið flokka og frambjóðendur til þings óháð afstöðu til stjórnarskrárbreytingarinnar.
- Minni tilkostnaður þar sem tvennum kosningum er slegið saman.
Stjórnarskrármálið má ekki daga uppi einu sinni enn
Stjórnarskrá er í senn sáttmáli þjóðar við sjálfa sig en um leið erindisbréf hennar til stjórnvalda, þar með til Alþingis, um réttar lýðræðislegar leikreglur. Stjórnarskrá á því að vera sprottin frá þjóðinni.
Hér hefur verið reifað ferli þess að þjóðin eignist vandaða stjórnarskrá í sátt við sem flesta. Stiklað hefur verið á stóru en nánar má lesa um málið á vefsíðu höfundar; sjá thorkellhelgason.is.