by Þorkell Helgason | nóv 27, 2011 | Á eigin vefsíðu
[Pistill þessi birtist í Fréttablaðinu 9. ágúst 2011]
Stjórnlagaráð hefur skilað þjóð og þingi heildartilllögum að nýrri stjórnarskrá. Nú þarf að hefjast upplýst og vönduð umræða um tillögurnar. Fjölmiðlar hafa þar ábyrgðarmiklu hlutverki að gegna. Úrtöluraddir mega ekki einar heyrast.
Haukur Arnþórsson, stjórnsýslufræðingur, hefur haft uppi hörð orð um fyrirkomulag um kosningar til Alþingis í tillögum Stjórnlagaráðs, m.a. í Fréttablaðinu. Hér verður þó málflutningur Hauks í fréttum á Stöð 2 hinn 6. ágúst undir fyrirsögninni „Persónukjör án kjördæma marklaust“ einkum gerður að umtalsefni.
Flokkar og fólkið
Möguleikar kjósenda til að velja sér þingmenn fóru síminnkandi alla síðustu öld. Kjósendur standa nú aðeins frammi fyrir pakkalausnum í formi fyrirskrifaðra lista. Í Stjórnlagaráði kom strax upp vilji til að leggja til persónukjör þar sem kjósendur réðu sem mestu um það hverjir veldust til þingsetu. Mörg okkar skynjuðum sterkan vilja meðal fólks í þessa veru, m.a. á Þjóðfundinum 2010, og velflestir fulltrúar í ráðinu höfðu persónukjör eitt meginmarkmiða sinna við framboð til stjórnlagþings.
Fullyrt er að með persónukjöri sé verið að grafa undan flokkunum. Ekki verður þó annað séð en að flokkar séu sprelllifandi í þeim grannlöndum okkar þar sem alfarið eru kosnir einstaklingar en ekki flokkar, en það er í Finnlandi og Írlandi. Flokkar njóta ekki vinsælda um þessar mundir. Gæti orsökin m.a. verið sú að fólki finnist það vanvirt með því að fá aðeins að kjósa fyrirskrifaða lista í heilu lagi en geti nær engu ráðið um hverjir veljast á þing?
Skipun þingmanna í samstæða hópa, flokka, er að flestra dómi gagnleg, jafnvel nauðsynleg. En þó tókst okkur í Stjórnlagaráði prýðilega að ná saman án þess að skipa okkur í fylkingar.
Óbærilegur stöðugleiki
Af fyrrgreindu sjónvarpsviðtali og blaðagreinum Hauks má ætla að það sé hættulegt að kjósendur geti valið sér þingmannsefni þvert á flokka. Fyrst er því til að svara að í tillögum Stjórnlagaráðs er þess ekki krafist að kjósendur hafi svo mikið valfrelsi. Alþingi er heimilað að takmarka val kjósenda við menn úr sama flokki.
En segjum svo að kosningalög leyfi val þvert á flokka og að kjósandi velji sér þrjá frambjóðendur, tvo úr flokki A en einn úr flokki B. Atkvæði hans skiptist þá í sama hlutfalli milli þessara tveggja flokka. Nú verður kjósandinn fyrir vonbrigðum með aðalflokk sinn, flokk A, og hefnir sín í næstu kosningum með því að hafa endaskipti á atkvæðinu, velur aðeins einn úr A-flokki en tvo úr B-flokki. Haukur segir þá illt í efni þar sem aðeins færist þriðjungur úr atkvæði kjósandans á milli flokka. Ef kjósandanum hefði ekki verið leyft að skipta atkvæðinu hefði hann í fyrri kosningunni kosið A-flokkinn alfarið og síðan orðið gramur og kosið B-flokkinn, aftur með heilu atkvæði. Þannig dragi persónukjör úr fylgissveiflum.
Rök finnast ekki, aðeins hugardæmi af þessu tagi. Það er auðvelt að búa til dæmi í öndverða átt svo og reiknidæmi sem sýna ýmist minni eða meiri sveiflur.
Er kosningaréttur kvenna ógn?
Kjósendum í þingkosningum stórfjölgaði árabilinu 1915-20 að mestu vegna þess að konur fengu kosningarrétt. Sérfræðihaukar þess tíma hefðu örugglega varað við og sagt það stórhættulegt. Með ríflega tvöföldun á tölu kjósenda væri viðbúið að drægi úr fylgissveiflum. Áður hefði húsbóndinn á heimilinu ýmist kosið A- eða B-flokk og þar með sveiflað fylgi flokkana tveggja til og frá. Nú gæti svo farið að eiginkonan væri ávallt annarrar skoðunar en hann og hringlið í vinnuhjúunum, sem fengju nú að kjósa í fyrsta sinn, bætti ekki úr skák. Stöðugleikinn yrði óbærilegur, aukinn kosningaréttur væri því hættulegur þingræðinu.
Er jafn kosningaréttur mannréttindabrot?
Haft er eftir Hauki í sjónvarpsviðtalinu að það sé mannréttindabrot að fella niður kjördæmin, sérstaklega ef um leið er viðhaft persónukjör. Vera má að spyrjandinn hafi klippt viðtalið sundur og saman eða misskilið orð Hauks, en það sem haft er eftir honum í beinum og óbeinum orðum verður vart á annan veg skilið en þann að það sé brot á rétti fólks að jafna kosningaréttinn hvort sem það er gert með því að gera landið að einu kjördæmi eða á annan veg.
Stjórnlagaráð krefst ekki afnáms kjördæma. Á hinn bóginn er það ótvíræð krafa Stjórnlagaráðs að „atkvæði kjósenda alls staðar á landinu veg[i] jafnt“ eins og segir í frumvarpi ráðsins. Kjósandi á ekki að fá helmingi meiri rétt við það eitt að bregða búi og flytja frá öðrum munna Hvalfjarðarganga til hins eins og nú er. Haukur virðist réttlæta slíka mismunun með því að laun á landsbyggðinni séu helmingi hærri en á höfuðborgarsvæðinu. Forsenduna um launamuninn verður að draga mjög í efa, en þó svo hún væri rétt eru rökin ótæk. Mannréttindi, eins og kosningaréttur, mega hvorki ráðast af launum né auði.
Þorkell Helgason, sat í stjórnlagaráði
by Þorkell Helgason | nóv 23, 2011 | Á eigin vefsíðu
[Birtist í Fréttablaðinu 23. nóv. 2011, en án myndarinnar.]
Skálholt var höfuðstaður í þjóðlífinu um aldir, ekki aðeins í andlegum efnum heldur einnig veraldlegum. Alkunna er hver urðu örlög staðarins, niðurníðsla af náttúrunnar- og mannavöldum. Fyrir tilstilli mætra manna hefur staðurinn verið endurvakinn. Skálholtskirkja reis fyrir hálfri öld, fögur og tilkomumikil þar sem hún gnæfir yfir umhverfið. Jafnframt hafa verið reist í Skálholti húsakynni sem gert hafa ýmsa menningarstarfsemi mögulega. En hús, jafnvel kirkjur, þarf að glæða lífi. Það hefur vissulega verið gert. Auk kirkjuhaldsins sjálfs hefur tónlistarstarf ekki síst varpað ljóma á staðinn enda býður Skálholtskirkja upp á einna bestan hljómburð hér á landi fyrir þá tónlist sem hæfir guðshúsi. Sumartónleikar í Skálholtskirkju hafa verið haldnir í nær fjóra áratugi og er hátíðin ein elsta og umfangsmesta tónlistarstarfsemi á landinu, smiðja nýrrar tónlistar en líka miðstöð í túlkun á tónlist fyrri alda. Menningarsetrið Skálholtsskóli hefur einnig í sívaxandi mæli haslað sér völl sem vettvangur andlegra starfsemi jafnframt því að láta til sín taka í þjóðmálaumræðunni.
Hvert stefnir nú? Kirkjan sem og margar aðrar stofnanir þjóðfélagsins þurfa að draga saman seglin eftir óáran af mannavöldum. Öllum starfsmönnum Skálholtsskóla hefur verið sagt upp. Framtíð Sumartónleikanna er í óvissu. En á sama tíma er brambolt í gangi til að reisa hús utan í kirkjunni sjálfri og það sagt vera til að endurreisa rúst Þorláksbúðar, sem lítið er þó vitað um. Undirritaður skrifaði um þessa ósvinnu grein í Morgunblaðið 25. ágúst s.l. undir heitinu Búngaló að rísa hornskakkt á Skálholtskirkju og vitnaði þar í hliðstæða „höfuðósmíð fyrir vestan“ sem kemur við sögu í Kristnihaldi undir jökli. Síðan hafa margir tjáð sig um fyrirbærið og gripið hefur verið til skyndifriðunar til að stöðva verknaðinn. Henni þarf að fylgja eftir og tryggja að menningarslys verði ekki á staðnum. Kirkjuráð þarf að sjá sig um hönd og stöðva framkvæmdir endanlega.
Sumir telja það lausn á deilunni um Þorláksbúð að færa bygginguna. Hvað með stofn- og rekstarkostnað? Sagt er að fé komi úr vösum svokallaðra áhugamanna um verkefnið en trúlegra er að reikningurinn verði sendur á kirkjuna og ríkissjóð. Að mörgu leiti var rekið smiðshögg á hina veraldlegu uppbyggingu í Skálholti í tíð Sigurðar vígslubiskups Sigurðarsonar heitins. Skólahúsið var stækkað, reistur sýningarskáli og aðkoma að staðnum stórbætt. Nú er ekki brýnast að festa meira fé í byggingum, allra síst tilgangslítið tildurhús, á sama tíma og sjálft lífið á staðnum, helgihald, menningarstarfsemi og tónlist, á í vök að verjast. Þeir sem ráða yfir Skálholti eiga að beina kröftum sínum að vörslu þess sem er og hefur sannað gildi sitt.
Í Hinu ljósa mani Halldórs Laxnes segir: „Þennan haustdag var alt kyrt í Skálholti, og einginn vissi að neitt hefði gerst, en byrjað að frjósa, og þar með dregið úr fnykri þeim af sorpi og svaði sem einkendi staðinn.“ Betur væri að allt væri kyrrt í Skálholti og enginn fnykur af fjárskorti og smekklausum framkvæmdum.
Þorkell Helgason, stærðfræðingur er áhugamaður um málefni Skálholts.
[Vona að höfundur myndarinnar, sem ég veit ekki hver er, afsaki að ég hef tekið hana traustataki.]
by Þorkell Helgason | sep 29, 2009 | Á eigin vefsíðu, Aðrar vefsíður eða blogg, Greinar
Grein fengin af Visir.is, skrifuð 29. sep. 2009
Joseph Stiglitz, nóbelsverðlaunahafi, hefur lagt til að verðtrygging lána miðist fremur við laun en neysluverð. Þannig tengist greiðslubyrðin beint við afkomu lángreiðenda. Hængurinn er sá að til lengdar litið hafa laun hækkað meira en verðlag og svo verður vonandi í framtíðinni. Í frétt á forsíðu Fréttablaðsins í gær er t.d. bent á að launavísitala hafi hækkað um 29% umfram vísitölu neysluverðs síðan 1991. Því er hæpið að lántakendum sé greiði gerður með tengingu höfuðstóls við laun.
En til er svipuð en betri lausn. Hún felst í ársgamalli lagasetningu um greiðslujöfnun á verðtryggðum fasteignaveðlánum. Lánin eru samkvæmt þessu fyrirkomulagi verðtryggð miðað við neysluverð en greiðslubyrðin aðlöguð breytingu á launum frá ársbyrjun 2008. Þannig er byrðin léttari nú en ella væri, og gott betur því einnig er tekið tillit til lækkandi atvinnustigs. Aftur á móti mun höfuðstóllinn ekki hækka meira en svarar til hækkunar neysluverðs þegar hagur þjóðarinnar fer að vænkast og kaupmáttur að vaxa á ný. Undarlegt er að bjargráðið sem felst í greiðslujöfnunarlögunum hefur lítt borist almenningi til eyrna og fáir nýtt sér möguleikann. Lækkun á greiðslubyrði er vissuleg keypt því verði að lánin lengjast. Dágóð von er samt til þess að þeir sem nýta sér greiðslujöfnun séu á endanum betur settir en með verðtryggingu að hætti Stiglitz. Engu að síður kann kúfurinn sem bætist við lánin að vera ástæða þess að lausnin er vannýtt.
Nú hefur kvisast út að félagsmálaráðherra hyggist dusta nýfallið ryk af greiðslujöfnunarlögunum og gera tillögur um endurbætur og útvíkkun á þeim í ljósi reynslunnar. M.a. mun hugað að viðlagaákvæði sem taki með samfélagslegum hætti á eftirhreytum greiðslujafnaðra lána verði þær óeðlilega miklar. Tillögur ráðherrans virðast því bæði sneiða hjá þeim galla sem felst í tengingu höfuðstóls við laun og jafnframt stemma stigu við löngum skuldahala ef efnahagsbati lætur á sér standa. Gagnrýni er samt þegar komin á kreik, t.d. í fyrrgreindri frétt blaðsins. Þjóðmálaumræða á Íslandi er einatt þannig að byrjað er að gagnrýna áður en ljóst er að hverju hún beinist. Hvernig væri að sjá tillögur ráðherrans áður en gripið er til vopna?
Höfundur sat á sínum tíma í vinnuhópi um greiðslujöfnun.
by Þorkell Helgason | sep 7, 2009 | Á eigin vefsíðu, Aðrar vefsíður eða blogg, Greinar
[Grein fengin af Visir.is, birtist líka í Fréttablaðinu 7. sep. 2009.]
Þorkell Helgason skrifar um kjör aldraðra
Margir kunna að halda af fyrirsögninni að greinarstúfur þessi fjalli um Icesave-málið. Svo er ekki – og þó. Alls kyns talsmenn aldraðra (eða „eldri borgara“ eins og það heitir á teprulegu máli) hafa undanfarið andmælt því að stjórnvöld hafa neyðst til að draga úr ríkisútgjöldum og afla tekna m.a. með því að auka skerðingu ellilífeyris vegna annarra tekna.
Framkvæmdastjórn Landssambands eldri borgara „mótmælir harðlega“; aðrir spara ekki stóru orðin eins og segja þetta koma frá „siðblind[ri] og svikul[i] ríkisstjórn“ eins og fyrrverandi talsmaður einna þessara samtaka orðaði það. Halda menn að þeir sem eru nú við stjórnvölin við að berja í bresti þjóðfélagsins hafi einhverja sérstaka ánægju af því að níðast á öldruðum? Menn skyldu gæta orða sinna. Undirritaður er kominn á þann aldur að vera orðinn eftirlaunamaður og innan skamms á ellilífeyrisaldri. Því hef ég stöðu til að geta sagt að andmæli af slíku tagi er ekki í mínu nafni.
Væntanlega hefur ekki farið fram hjá neinum að yfir okkur hafa dunið hamfarir af manna völdum en á undan var genginn tími sýndarveruleika, meints góðæris. Nú stöndum við frammi fyrir nöturlegum staðreyndum, þeim að ríkissjóður og þjóðarbúið allt er skuldum vafið og eru Icesave-skuldirnar alræmdu aðeins kornið sem fyllti mælinn. Það verður því að skera niður og skerða í hvívetna. Vandinn er eins og alltaf hvar á að bera niður; allir segja ekki hjá mér heldur hinum.
Aldraðir eru sundurleitur hópur. Þar eru vissulega margir sem eru lítt eða ekki aflögufærir og verður ekki betur séð en þeim sé hlíft eftir föngum í þeim aðgerðum þegar eru komnar fram. Síðan eru aðrir sem eru bjargálna og vel það, hafa etv. drjúgan lífeyri og jafnvel einhverjar atvinnutekjur að auki. Við sem þar erum getum vel tekið á okkur að axla hluta þeirra byrða sem fjárglæframenn og meðvirk eða sofandi stjórnvöld fyrri ára hafa lagt á herðar þjóðarinnar og verður ekki undan vikist. Við höfum amk. breiðari bök en þær barnafjölskyldur margar sem nú berjast í bökkum við að halda þakinu yfir höfði sér – og standa jafnframt undir ellilífeyrisgreiðslunum að drjúgum hluta. Ekki gera auðmennirnir það!
Að lokum aftur um Icesave-skuldirnar. Þær verða greiddar á árabilinu 2016-2023. Mörg okkar sem nú erum lífeyrisþegar verða þá orðin undanþegin greiðsluskyldu forsjónarinnar vegna. Væri þeim okkar sem erum enn aflögufær ekki nær að greiða okkar skerf meðan við erum þó enn ofanjarðar? – t.d. að þau okkar sem hafa 4 millj. kr. eða þaðan af meira í lífeyristekjur á ári (en þar eru mörkinn í skerðingarlögunum) heimti ekki elliframlag að auki frá þeim ungu sem standa undir þeim greiðslum.
Höfundur er eftirlaunamaður og bráðlega óvirkur ellilífeyrisþegi.