About Þorkell Helgason

Stærðfræðingur, ráðgjafi, fv. prófessor, ráðuneytisstjóri og orkumálastjóri, frambjóðandi til stjórnlagaþings, fv. fulltrúi í stjórnlagaráði

Stórhátíð að hefjast í Skálholti

[Greinarstúfur þessi birtist í Morgunblaðinu 1. júlí 2014] 

Þorkell Helgason

Þorkell Helgason

Skálholt hefur um aldir verið partur af þjóðarsálinni. Svo er enn eins og sannast hefur á þeim mikla og maklega áhuga sem ópera Gunnars Þórðarsonar hefur vakið, en í henni er fjallað um ástir í meinum á sjálfu biskupssetrinu, ástir þeirra Ragnheiðar og Daða. Sagt hefur verið að Ragnheiður hafi leikið á klavíkord en fátt er þó vitað um tónlistariðkun í Skálholti á öldum áður. Hitt er víst að nú er hafin í fertugasta sinn ein elsta og umfangsmesta tónlistarhátíðin á landinu, Sumartónleikar í Skálholtskirkju, og í þetta sinn er hún ekki af lakara taginu.

Í tilefni af fertugsafmælinu ljá norrænir sjóðir, samtök og listamenn hátíðinni lið. M.a. verða Sumartónleikar vettvangur þriðju EAR-ly-keppninnar, norrænnar samkeppni ungra tónlistarhópa sem leika forna tónlist á upprunaleg hljóðfæri.

Þá er það sérstakt fagnaðarefni að margir þeir sem voru frumkvöðlar Sumartónleikanna koma nú fram. Meðal þeirra er Ann Wallström fiðluleikari sem kornung kom í Skálholt, sá og sigraði hjörtu áheyrenda. Síðan hefur hún orðið að einum helsta túlkanda barokktónlistar í Svíaríki. Ann mun leika til minningar um Helgu Ingólfsdóttur semballeikara, stofnanda Sumartónleikanna, bæði að kvöldi 2. júlí og síðdegis hinn 5. júlí.

Annar frumkvöðull er hollenski fiðluleikarinn Jaap Schröder, en enginn erlendur listamaður hefur lagt hátíðinni jafnmikið lið og hann. Svo eru það frumkvöðlarnir Bachsveitin í Skálholti og sönghópurinn góði, Hljómeyki.

Stundum stendur styr um Skálholt. Það sýnir að engum stendur á sama um staðinn, kirkjuna og söguna. Nú er tækifæri til að gleðjast í Skálholti, njóta góðrar tónlistar á fögrum stað á hásumri. Um allt þetta má fræðast nánar á vefsíðunni www.sumartonleikar.is.

Það verður tónaveisla í Skálholti allan júlímánuð og fram á verslunarmannahelgi. Sem fyrr er aðgangur ókeypis.

Höfundur er stærðfræðingur og áhugamaður um málefni Skálholts.

Kjörheftir kjósendur

[Birtist í Fréttablaðinu 7. maí 2014.]

Framundan eru kosningar til sveitarstjórna á Íslandi. Ímyndum okkur að kosningakerfið væri þannig að á kjörseðlinum stæðu einungis nöfn flokka en engir væru frambjóðendurnir. Að kosningum loknum væri það hlutverk flokkanna sjálfra að velja fulltrúa til að skipa þau sæti sem kæmu í hvers hlut.

Varla þætti okkur þetta lýðræðislegt fyrirkomulag? En þannig er kerfið í raun. Hjá þeim sem kjósa utan kjörfundar er „kjörseðillinn“ meira að segja autt blað. Kjósendur sem kjósa fyrir kjördag vita lengst af ekki einu sinni hvaða flokkar eru í framboði. En jafnvel þótt kosið sé á kjördegi stendur kjósandinn aðeins frammi fyrir vali milli lista. Hann sér að vísu hvernig listarnir eru mannaðir, en getur vart haft áhrif á það hverjir munu skipa sætin. Það hafa flokkarnir ákveðið fyrirfram.

Að vísu voru áhrif útstrikana talsvert aukin með breytingum á lögum um kosningar til Alþingis um aldamótaárið. Þessi breyting hefur leitt til þess að í fjögur skipti hefur frambjóðandi færst niður um sæti. En þessu er ekki að heilsa í sveitarstjórnarkosningum. Alþingi hefur ekki komið því í verk að gera hliðstæðar breytingar á lögum um kosningar til sveitarstjórna. Þar er vald kjósenda til breytinga á framboðslistum enn aðeins áhrifalaus sýndarmennska.

Stuðningur nær 80 prósenta
Allt bendir þó til að kjósendur séu mjög áfram um að fá nokkru um það ráðið hvaða persónur veljast sem fulltrúar þeirra. Í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu í október 2012 um tillögur Stjórnlagaráðs hlaut spurning um aukið persónukjör stuðning nær 80% kjósenda. En síðan hefur ekkert gerst.

Óvíða er jafn víðtækt persónukjör og í Bæjaralandi þar sem þessi greinarstúfur er ritaður. Framboðslistum er í kynningarskyni stillt upp í forgangsröð en kjósendur ráða því samt alfarið hverjir veljast á landsþing eða í sveitarstjórnir. Til þess hafa þeir mikið valfrelsi. Þeir geta valið sér frambjóðendur, og það þvert á lista. Um leið, eða í staðinn, geta þeir merkt við lista, jafnvel allt að þremur. Kjósendur hafa þó allir sama kosningarétt. Dreifi þeir atkvæðinu á marga frambjóðendur eða flokka þynnist það út í sama mæli.

Stjórnlagaráð lagði til ákvæði um persónukjör við kosningar til Alþingis, en þó ekki jafn galopið og hér í Suður-Þýskalandi. Engu að síður stóð ekki á fullyrðingum ýmissa stjórnmálafræðinga um að persónukjör að hugmynd ráðsins þekktist hvergi. Einn þeirra sagði að það að atkvæði gæti skipst á milli flokka væri brot á mannsréttindasáttmálum.

Aðrir fræðingar telja persónukjör stórhættulegt lýðræðinu. Ekki verður þó annað séð en það virki mæta vel hér um slóðir. Þarf að matreiða frambjóðendur ofan í íslenska kjósendur? Eru þeir vanhæfari en t.d. þýskir að velja sér fulltrúa af viti?

Þorkell Helgason sat í Stjórnlagaráði

Litháar gengu í ESB fyrir áratug, við erum enn í naflaskoðun

Í dag, 1. maí, eru liðinn áratugur frá inngöngu tíu Austur-Evrópuríkja í Evrópusambandið. Af því tilefni er leiðari í dagblaðinu VILNIUAUS DIENA, sem gefið er út í Vilnius, þar sem rifjaður er upp andróðrinum gegn inngöngu Litháen í ESB. Hér er úrdráttur (þýddur úr þýsku, ekki litháísku!):

“Evrópusambandið mun fyrirskipa Lítháum hvaða lögun gúrkum skulu hafa. Litháar munu ekki geta sett nein eigin lög, heldur mun Evrópuréttur einn gilda. Um hásumur munum við ekki geta dvalið við Eystrasaltsstrendur, af því að strendurnar verða einkavæddar og seldar útlendingum. Slíkar og þvílíkar voru þjóðsögurnar um ESB-aðild Litháens. Tíu árum síðar er hægt að hlæja yfir þessu eða líka gráta. Líháískt grænmeti er [nú] selt jafnrétthátt frönsku í verslunum víðsvegar um ESB-svæðið. Við ökum um á nýjum götum lögðum bundnu slitlagi sem kostaðar hafa verið úr ESB-sjóðum, sendum börn okkar í skóla sem hafa verið endurnýjaðir með Evrópustyrkjum og ferðumst þvert og endilangt um Evrópu. Vitaskuld eru vandamál. En við megum ekki gleyma hvernig lífi okkar væri háttað ef við hefðum haldið okkur utan landamerkja Sambandsins 1. maí 2004.”

Hljómar ekki margt kunnuglega í eyrum Íslendinga á árinu 2014? Okkar gafst kostur á því fyrir tæpum tuttugu árum að fylgja þremur Eftalöndum inn í ESB – og enn erum við í naflaskoðun.

Krafa Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu um umbætur á fyrirkomulagi kosninga

[Birtist í Fréttablaðinu 10. apríl 2014 í styttri gerð.]

Á þessu ári eru liðin 140 ár frá því að fyrst var kosið til Alþingis sem löggjafarþings. Jafnframt eru 110 ár síðan hlutfallskosningar voru innleiddar hér á landi. Engu atriði stjórnarskrár hefur jafn oft verið breytt og ákvæðum um kosningar til Alþingis og fá ef nokkur löggjöf hefur verið sömu breytingum undirorpin og kosningalög. Engu að síður er fyrirkomulag þingkosninga um margt úrelt. Kosningalögin hafa aldrei verið yfirfarin í heild sinni og aðlöguð aðstæðum, hvað þá samræmd sívaxandi kröfum um fullan jöfnuð atkvæða og persónuval svo að tvö þungvæg atriði séu nefnd.

Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) fylgdist með framkvæmd Alþingiskosninganna 2009 og 2013 og gaf út skýrslur með athugasemdum og aðfinnslum.[i] Í skýrslunni um fyrri kosningarnar eru 13 ábendingar um það sem betur megi fara. Þar sem á engum þeirra var tekið milli kosninganna er upptalningin endurtekin og aukin í umfjölluninni um seinni kosningarnar. Í skýrslunni 2013 eru dregin saman 15 tilmæli, þar af sex sett í sérstakan forgang.

Í einfaldaðri framsetningu eru tilmæli ÖSE 2013 þessi:[ii]

1. Jafna kosningarétt eftir búsetu.

2. Heimila alþjóðlegt eftirlit með kosningum.

3. Samræma og samhæfa allt starf við framkvæmd kosninga.

4. Refsa fyrir brot á lögum um fjármál stjórnmálaflokka.

5. Auka umfjöllun RÚV um kosningar og tryggja rétt framboða til kynningar.

6. Kærur um gildi kosninga fari fyrir dómstóla en Alþingi úrskurði ekki sjálft.

7. Framboð liggi fyrir áður en utankjörfundaratkvæðagreiðsla hefst.

8. Tryggja að Ríkisendurskoðun geti fylgst með útgjöldum framboða.

9. Loka smugum í löggjöf um framlög til stjórnmálaflokka.

10. Takmarka samþjöppun á fjölmiðlamarkaði.

11. Fjölmiðlanefnd verði falið að stuðla að óhlutdrægri umfjöllun um framboð.

12. Huga að ákvæðum um skoðanakannanir og birtingu þeirra.

13. Endurskoða alla framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslu.

14. Uppfræða kjósendur um vald þeirra til að breyta röð frambjóðenda.

15. Setja yfirvöldum tímamörk við afgreiðslu á kærum og kvörtunum.

Hér skal nokkrum meginatriðunum gerð nánari skil:

1. Jöfnun kosningaréttar. Verulegt ósamræmi er milli vægis atkvæða eftir búsetu. Sumir kjósendur hafa helmingi meira vægi en aðrir. ÖSE lagði á það ríka áherslu þegar í skýrslunni 2009 að ekki mætti lengur dragast að jafna kosningaréttinn. Í skýrslu ÖSE 2013 er ekki tekið jafn sterkt til orða, en það á sér þá skýringu að stofnunin telur að Alþingi sé að vinna að jöfnuninni. Í því sambandi vísa þeir til þess að sæti hafi verið fært frá Norðvesturkjördæmi til Suðvesturkjördæmis milli kosninga. Stofnunin virðist halda að þetta hafi verið gert með lagabreytingu, sem lýsi þá góðum vilja Alþingis.[iii] Þetta er misskilningur hjá ÖSE þar sem þessi færsla sætis gerðist sjálfvirkt á grundvelli kosningalaganna frá 2000. En ÖSE heldur sig samt við sinn keip og bendir á í skýrslu sinni 2013 að ójafn kosningaréttur stangist á við þá grundvallarsamþykkt samtakanna frá árinu 1990 og kennd er við Kaupmannahöfn.[iv] Jafnframt rifjar ÖSE upp, að Feneyjanefndin[v] svokallaða hafi fagnað því að í frumvarpi að nýrri stjórnarskrá, sem lá fyrir Alþingi veturinn 2012-13 og ættað var frá Stjórnlagaráði, hafi verið kveðið á um fulla jöfnun kosningaréttar.[vi] ÖSE harmar greinilega að þessari tillögu hafi verið hafnað.[vii]

3. Samræming á framkvæmd kosninga. ÖSE þykir glundroði ríkja í stjórn kosningamála þar sem við sögu koma innanríkisráðuneyti, landskjörstjórn, yfirkjörstjórnir og mýgrútur undirkjörstjórna. Boðvald er afar óskýrt. T.d. hefur landskjörstjórn ekkert yfir yfirkjörstjórnum að segja. Í skýrslu sinni 2009 segir ÖSE að veita eigi landskjörstjórn aukið umboð og fela henni stærra hlutverk.[viii] Undir þetta tók Stjórnlagaráð í frumvarpi sínu að nýrri stjórnarskrá.[ix]

6. Um gildi kosninga. Samkvæmt gildandi lögum er Alþingi dómari í eigin máli þar sem þingið úrskurðar sjálft um gildi þingkosninga. Eðlilega gerir ÖSE alvarlegar athugasemdir við þetta fyrirkomulag og vill að dómstólar hafi lokaorðið um gildi kosninga svo og um allar kosningakærur. Bendir ÖSE á ákvæði í svonefndu Moskvuskjali stofnunarinnar frá 1991 þessa efnis.[x] Stjórnlagaráð var sama sinnis og vildi færa úrskurðarvaldið frá Alþingi til landskjörstjórnar, en öllum úrskurðum hennar væri síðan hægt að skjóta til dómstóla.[xi]

7. Framboð liggi fyrir áður en kosning hefst. Utankjörfundaratkvæðagreiðsla hefst áður en framboðsfresti líkur. Kjörseðlar eru þá ekki tilbúnir. Þetta gerir kosningarathöfnina ómarkvissa og takmarkar mjög möguleika kjósenda til útstrikana svo eitthvað sé nefnt. Þetta ósamræmi þekkist ekki í löndunum í kringum okkur. Í skýrslunni 2009 segir ÖSE þetta ótækt en tjáir sig með hógværum hætti 2013 og segir fyrirkomulagið „óheppilegt“!

14. Um persónukjör. Í þing- og sveitarstjórnarkosningunum er skylt að bjóða fram lista. Kjósendur geta breytt röð frambjóðenda og strikað út nöfn á þeim listum sem þeir greiða atkvæði sitt. En áhrif slíkra breytinga hafa lengst af verið lítil sem engin. Á tímabilinu 1959 til 2000 má heita að það hafi verið borin von að kjósendur gætu haft nokkur áhrif. Á hinn bóginn voru áhrif breytinga aukin talsvert með kosningalögum árið 2000. Kjósendur hafa samt aldrei verið upplýstir að neinu gagni um þessa möguleika þrátt fyrir lagafyrirmæli þar að lútandi. Svo virðist sem stjórnvöld vilji hafa hljótt um þennan rétt kjósenda. ÖSE bendir á þessa grafarþögn í skýrslu sinni 2013 og mælist til þess að kjósendur verði betur upplýstir, m.a. í ríkissjónvarpinu. Stjórnlagaráð vildi ganga mun lengra og leyfa kjósendum alfarið að sjá um uppröðun á framboðslistum.[xii] En það er önnur og lengri saga.

Athyglisvert er Stjórnlagaráð og ÖSE eru sammála um margt, ef ekki flest, í þeim umbótum sem gera þarf á kosningakerfinu. Unnt er að verða við nær öllum tilmælum ÖSE með því einu að breyta kosningalögum. Stjórnarskrárbreytingar er aðeins þörf í einu tilviki. Sama gildir raunar um breytingar þær sem Stjórnlagaráð lagði til. Þær rúmast langflestar innan gildandi stjórnarskrár. En í ljósi slæmrar reynslu af vilja og verklagi Alþingis í þessum efnum vildi Stjórnlagaráð að meginatriði í fyrirkomulagi kosninga yrðu negld niður í stjórnarskrá en þau ekki látin vera háð duttlungum þingmeirihluta hverju sinni. Dæmin hræða í þeim efnum, nú síðast hvernig meirihluti þingsins í Ungverjalandi hagræðir kosningakerfinu fyrir kosningar þar í vor; og vitaskuld sér til hagsbóta.

Það er ekki seinna vænna að hrinda í framkvæmd þeim umbótum á kosningakerfinu sem ÖSE leggur til, nú þegar brátt eru liðin fimm ár frá því að stofnunin bar fram tilmæli sín. Stjórnvöld geta ekki virt tilmæli þessarar alþjóðastofnunar að vettugi. Hana má ekki afgreiða með því að ekki þurfi að hafa „miklar áhyggjur af því hvað hinum og þessum skammstöfunum finnst“ eins og okkar æðsti ráðamaður sagði sl. sumar, þó af öðru tilefni.[xiii]

Þorkell Helgason, hefur verið ráðgjafi um kosningamál í áratugi


[i] Um kosningarnar 2009 sjá http://www.osce.org/odihr/elections/iceland/38309. Um kosningarnar 2013 sjá http://www.osce.org/odihr/elections/100321 og á íslensku í http://www.osce.org/is/odihr/elections/103314.

[ii] Íslenska gerð skýrslunnar 2013, bls. 18-19.

[iii] Sjá síðustu mgr. á 3. bls. í íslensku gerðinni 2013: http://www.osce.org/is/odihr/elections/103314.

[iv] Kaupmannahafnarskjalið http://www.osce.org/odihr/elections/14304, sjá atriði (7.3).

[v] Álit Feneyjanefndarinnar: http://www.venice.coe.int/WebForms/documents/?pdf=CDL-AD(2013)010-e eða líka http://www.althingi.is/pdf/Feneyjanefnd_skyrsla_e.pdf.

[vi] Hér er átt við frumvarp það sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis lagði fram 16. nóv. 2012: http://www.althingi.is/altext/141/s/0510.html. Sjá 2. mgr. 39. gr. frumvarpsins. Samhljóða ákvæði er á sama stað í frumvarpsdrögum Stjórnlagaráðs: http://www.althingi.is/altext/140/s/0003.html.

[vii] Sjá niðurlag 1. mgr. á 5. bls. í íslensku gerðinni 2013: http://www.osce.org/is/odihr/elections/103314.

[viii] Sjá tilmæli neðst á 8. bls. í skýrslu ÖSE 2009: http://www.osce.org/odihr/elections/iceland/38309

[ix] Sjá 43. gr. í frumvarpsdrögum ráðsins sem er að finna í skjalinu http://www.althingi.is/altext/140/s/0003.html. Samhljóða ákvæði er í 43. gr. í frumvarpi meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar: http://www.althingi.is/altext/141/s/0510.html.

[x] Moskvuskjalið: http://www.osce.org/odihr/elections/14310 , sjá 18.4 gr.

[xi] Sjá aftur 9. neðanmgr.

[xii] Sjá 39. gr. hvort sem er í frumvarpsdrögum Stjórnlagaráðs eða frumvarpi meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis: http://www.althingi.is/altext/140/s/0003.html. Sami meiri hluti dró þó aðeins í land í þessum efnum; sjá 6. lið í breytingartillögu meiri hlutans: http://www.althingi.is/altext/141/s/1112.html.

[xiii] Sjá frétt RÚV: http://www.ruv.is/frett/ekki-ahyggjur-af-skammstofunum.

Skipum okkur á bekk með siðuðum samfélögum

[Höfundur hefur sent Alþingi eftirfarandi umsögn um tillögu til þingsályktunar um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu o.fl., þingskjal 635 — 340. mál, lögð fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013–2014.]

Umræðan um aðild Íslands að Evrópusambandinu byggir að mestu leyti á efnahagslegum rökum; á því hvort við hefðum þann ábata af inngöngu sem þyki réttlæta aðild. Þetta er vissulega mikilvægt, en að mati undirritaðs ekki meginmálið. Það eru hin siðferðilegu og menningarlegu rök sem eru mun mikilvægari.

Við Íslendingar erum þeirrar gæfu aðnjótandi að búa í þjóðfélagi sem grundvallast á lýðræði, réttarríki og samfélagslegri ábyrgð. Þetta er engan veginn sjálfgefið enda ekki nema að takmörkuðu leyti okkur sjálfum að þakka; mun frekar því að höfum verið menningarlega fóstruð í þeim heimshluta þar sem þessi gildi eru í hávegum höfð. Við höfum fyrst og fremst sótt okkur fyrirmyndir og forsjá til granna okkar á Norðurlöndum svo og í öðrum næstu Evrópuríkjum.

Evrópusambandið varð vissulega til utan um efnahagsumgjörð, en á bak við lá og liggur mun meira; þ.e. vilji þjóða bandalagsins að vernda og styrkja fyrrgreind samfélagsgildi í friði og með samvinnu. Evrópusambandið er þó engan veginn gallalaust frekar en önnur mannanna verk, en með virkri þátttöku aðildarríkjanna er sífellt verið leita leiða til að búa um betur.

Að mati undirritaðs er það hvorki kleift né æskilegt að við, þessi örsmáa þjóð, treysti á eigin mátt og megin. Miklu heldur getum við varið þau gildi sem við viljum vernda með því að tengjast böndum þeim sem eru sama sinnis. Þetta gerum við með þátttöku í samstarfi Evrópuríkja; með inngöngu í Evrópusambandið. Við eigum heima með grönnum okkar í Evrópu, síður þeim í vestri en engan veginn með risaríkjum enn lengra í burtu þar sem grunngildi okkar samfélags eru fótum troðin.

Samþykkt og framkvæmd á þeirri þingsályktunartillögu sem nú liggur fyrir Alþingi um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu getur leitt til einangrunar þjóðarinnar um langan aldur. Málinu væri ekki aðeins skotið á frest til umþóttunar heldur verið að skella aftur hurðum. Komist þjóðin að því síðar að rétt væri að taka aftur upp þráðinn er viðbúið að þá yrði tregða til að hlíða nýju kalli frá okkur. Skrefið sem stigið yrði með þingsályktuninni kynni því að binda hendur heillar kynslóðar, jafnvel fleiri; kynslóða sem vildu ekki vera utan gátta í samstarfi evrópskra vinaþjóða.

Af þessum sökum leyfi ég mér, sem þegn þessa lands, að mælast til þess við þingmenn að þeir felli umrædda þingsályktunartillögu.

“Isländische Sagen”

[Eftirfarandi grein birtist sem lesendabréf eftir mig í einu af útbreiddasta dagblaði Þýskalands, Süddeutsche Zeitung, hinn 3. mars 2014.

Tilefnið var frétt blaðsins og e.k. leiðaragrein um áform ríkisstjórnar Íslands um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu, ESB. Í umfjöllun blaðsins gat þess misskilnings að deilan á Íslandi nú snerist um það hvort halda skildi þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildina sjálfa að ESB eða ekki. Þetta þótti mér nauðsynlegt að leiðrétta; nú snerist deilan um það hvort hætta ætti viðræðum eða ekki og um leið hvort leita ætti álits þjóðarinnar á þeirri fyrirætlan. Ég bendi á kosningaloforð stjórnarflokkanna sem ekki var hægt að skilja á annan veg en þann að þeir hygðust spyrja þjóðina um nákvæmlega þetta.

Þá læt ég ekki hjá líða í greininni að drepa á þær rangfærslur sem hafðar eru uppi um ESB af andstæðingum sambandsins, þ.m.t. forseta Íslands. Hann sagði eða gaf a.m.k. sterklega í skyn í þingsetningarræðu í fyrra að ráðamenn í ESB vildu ekkert með okkur hafa, án þess þó að nefna nein nöfn. Þess vegna vitna ég í tvær ræður þýskra forseta sem hafa sagt Ísland velkomið í ESB í borðræðum yfir sjálfum forseta Íslands. Þá tek ég sem annað dæmi hin fáranlegu ummæli einnar ráðandi þingkonu um „hungursneyð“ innan ESB-ríkja.

Suðurþýska dagblaðið birtir bréf mitt aðeins nokkrum dögum eftir að ég sendi það inn, en blað sem þetta birtir að jafnaði ekki nema lítið brot af innsendum lesendabréfum. (Kannski hjálpaði að ég titlaði mig doktor, titli sem ég flíka annars nær aldrei!) Hér er greinin eins og hún birtist í blaðinu, lítillega stytt frá hinu innsenda bréfi mínu. Titill lesendabréfsins er ekki eftir mig heldur er hann blaðsins.]

 

Die isländische Regierung will die Kandidatur Islands zur Europäischen Union zurückziehen (siehe „Aus Angst vor der EU“ und „Auf Eis gelegt“ in der SZ am 24. Februar 2014). Sowohl vor den Wahlen im vergangenen Jahr als auch in der Regierungserklärung hatten beide Regierungsparteien versprochen, eine Volksabstimmung über den weiteren Verlauf der Beitrittsverhandlungen durchzuführen. Die Debatte in Island, auch jetzt im Parlament, dreht sich um diese versprochene Abstimmung über die nächsten Schritte; nicht um den Beitritt per se.

Laut Meinungsumfragen will die Mehrheit des Volkes, dass die Verhandlungen zu Ende geführt werden und danach über ein Beitrittsabkommen abgestimmt wird. Eine noch größere Mehrheit (75%) möchte, dass die Volksabstimmung über die Weiterführung der Verhandlungen jetzt durchgeführt wird. Diese Umfrageergebnisse machen der voreingenommenen Regierung Angst. Darum bricht sie ihr Versprechen gegenüber den Wählern.

Die EU-Gegner in Island füttern die Inselbevölkerung mit Unwahrheiten. Eine leitende Abgeordnete der Regierungsparteien sagte z.B. vor einigen Tagen in einer Fernsehdebatte, es gäbe Hungersnot in der EU. Der Staatspräsident, Ólafur Ragnar Grímsson, der seit Jahren gegen die EU polemisiert, sagte bei der Eröffnung des neuen Parlaments im vergangenem Jahr, die EU sei an einer Mitgliedschaft Islands nicht interessiert. Dies hätte er aus Gesprächen mit vielen leitenden europäischen Staatsmännern erkannt. Namen konnte er jedoch nicht nennen.

Bundespräsident Gauck in einer Ansprache beim offiziellen Besuch des isländischen Präsidenten im vergangenen Sommer: „Wir würden uns sehr freuen, Island als Teil der Europäischen Union begrüßen zu dürfen.“ Bundespräsident Rau hatte sich zehn Jahre früher aus gleichem Anlass ähnlich geäußert, so wie auch mehrere europäische Staats- und Regierungsoberhäupter.

Skemmdarverk á Skálholti

[Birtist í Morgunblaðinu 19. febrúar 2014.]

Kirkjuráð, sem virðist hafa náð öllum völdum innan þjóðkirkjunnar, hefur ákveðið að leigja veitinga- og gistiþjónustu í Skálholti undir hótelrekstur. Áformum um að slá líka vígslubiskup af virðist þó hafa verið frestað.
Hvað gengur mönnum til? Sagt er að rétta þurfi fjárhag staðarins við. Núverandi vígslubiskup er þegar búinn að því. Hann tók að vísu við allmiklum skuldum en þær verða seint greiddar af staðnum einum. Vissulega hefur fjárhagur þjóðkirkjunnar versnað eftir hrun og taka þarf á því máli. Í þeim efnum er margt sem grípa má til sem veldur ekki þjóðarskaða eins og niðurrif í Skálholti.
Benda má að enn tíðkast það að prestar hirði arð af kirkjujörðum. Ekki þeir sem mestan hafa starfann og ættu e.t.v. launauppbót skilda. Nei, það eru einkum prestar í fámennum prestaköllum sem hafa ómældan arð af laxveiðileyfum, æðarvarpi eða leigutekjum svo að dæmi séu tekin. Þetta er arfleifð frá 19. öld, nokkuð sem löngu er búið að leggja af hjá embættismönnum ríkisins, en kirkjan er hér fórnarlamb harðrar hagsmunagæslu. Þá er engin goðgá að sameina minnstu prestaköllin. Nú er það svo að „sálusorgunarmisvægi‘“ er 1:20 þar sem tala sóknarbarna hvers prests er á bilinu frá 300 til 6000. Margir telja nauðsynlegt að jafna atkvæðisrétt til þingkosninga eftir búsetu en þar er þó misvægið aðeins 1:2. Leigutekjur af Skálholti yrðu vart meiri en það sem sparast gæti við samruna tveggja prestakalla.
Skálholt er ekki bara einhver kirkjustaður. Skálholt var og er miðstöð mennta, menningar og sögu og ekki aðeins fyrir þjóðkirkjufólk heldur þjóðina alla. Ríkisvaldið hefur sýnt það í verki með því að færa þjóðkirkjunni Skálholtsstað og kosta byggingu skólans að verulegu leyti og rekstur hans um hríð. Ráðherra sagði við afhendingu staðarins að þar ætti að starfrækja það sem „sæmdi staðnum“. Og enn eru í gildi lög um Skálholtsskóla. Hefur kirkjan lagalegan rétt til að leigja staðinn, þjóðargjöfina, einkaaðilum? Alla vega ekki siðferðilegan.
Sumir kunna að segja að varla skaði það kirkju- og menningarstarf á Skálholtsstað að þar sé rekin hótelstarfsemi. Það fer allt eftir því hvernig og hvar á staðnum. Vissulega gæti það orðið staðnum upplyfting að meira líf verði í næsta nágrenni, jafnvel hótel. En ekki á hlaðinu við kirkjuna. Skólinn og kirkjan heyra saman og gera hið andlega starf mögulegt. Vart myndi söfnuður leigja burt safnaðarheimili sitt undir fjarskylda starfsemi. Skálholtsskóli er safnaðarheimili við þjóðarkirkju.
Eitt af því sem vel hefur heppnast og haldið nafni Skálholts á lofti eru Sumartónleikar í Skálholtskirkju sem munu fagna fertugasta sumri sínu í ár með glæsilegri dagskrá, og það þrátt fyrir að þjóðkirkjan – að undirlagi kirkjuráðs – sé steinhætt að styrkja starfsemina. Í þetta sinn hefur fengist fé úr norrænum sjóðum til að hafa veglegt norrænt ívaf, enda eru Sumartónleikarnir elsta starfandi barokkhátíð á Norðurlöndum. En að loknu komandi sumri er allt eins víst að hátíðinni verði beint eða óbeint úthýst, hvort sem er af kirkjuráði eða hótelhaldara.
Hvað með virðingu fyrir þeim sem hafa lagt sig fram um heill Skálholts: Sigurbjörn Einarsson biskup, Hörð Bjarnason húsameistara, Bjarna Benediktsson þáverandi kirkjumálaráðherra, Þórarin Þórarinsson lýðháskólafrömuð, Heimi Steinsson fyrsta rektor Skálholtsskóla, Harald Hope prest í Noregi auk fjölda annarra gefenda á Norðurlöndum; eða þá tónlistarmenn sem hafa tekið ástfóstri við Skálholt og kirkjuna með sínum fagra hljómburði? Nefna má Róbert Abraham Ottósson sem stóð fyrir tónmennt í Skálholti í áratugi, Helgu Ingólfsdóttur semballeikara sem stofnaði Sumartónleikana og varði starfsævi sinni í þeirra þágu eða Manúelu Wiesler flautuleikara sem fyllti kirkjuna töfratónum sumar eftir sumar. Allt þetta fólk er látið en einum núlifandi skal bætt í þessa upptalningu: Jaap Schröder heimsfrægum fiðluleikara sem hefur í tvo áratugi leikið og stjórnað á Sumartónleikunum og síðan gefið staðnum umfangsmikið og verðmætt nótnabókasafn sitt.
Hver ber ábyrgð á því skemmdarverki sem nú vofir yfir Skálholti? Er ekki biskup Íslands forseti kirkjuráðs? Er hún sammála? Varla. Er biskup undir ægivaldi sjálfskipaðra æðstupresta? Hverjir eru þessir vandræðamenn? Nýta þeir sér að biskup er nú kona sem vill öllum vel? Hvernig væri þá að kvenprestar, sem brátt komast í meirihluta, styðji stöllu sína og standi gegn karlrembunum?
Það er þungbært að tala um skemmdarverk, en í ljósi þess sem ég hef orðið áskynja er það því miður lýsing á því sem er að gerast í Skálholti. Og þó hef ég í þessari grein ekki fjallað um annað hneyksli, yfirbyggingu yfir svokallaða Þorláksbúð sem verður tafarlaust að fjarlægja.
Skálholt á sinn stað í hjarta þjóðarinnar, rétt eins og Þingvellir. Það má aldrei líðast að fámenn klíka innan kirkjunnar stofni framtíð þessa helgistaðar í voða.
Höfundur er velunnari Skálholts.

Hrindum atlögunni að Skálholti !

[Birtist í Morgunblaðinu 19. nóvember 2013]

Þorkell Helgason:

Uppbygging

Skálholt var í raun höfuðstaður landsins um aldir. Síðan hallaði undan fæti og um miðja síðustu öld var þar orðið lítt meira en stekkur. En þá spratt upp hreyfing um endurreisn staðarins en fyrir henni stóð einn mesti kirkjuhöfðingi seinustu aldar, sr. Sigurbjörn Einarsson biskup. Allt gekk undravel. Vinir staðarins nær og fjær, ekki síst annars staðar á Norðurlöndunum, gáfu fé og önnur verðmæti sem dugðu til að reisa þá göfugu höfuðkirkju sem þar stendur, verk Harðar Bjarnasonar húsameistara og hans manna, skreytt ómetanlegum listaverkum þeirra Nínu Tryggvadóttur og Gerðar Helgadóttur. Við vígsluna fyrir fimmtíu árum færði þáverandi kirkjumálaráðherra, Bjarni Benediktsson, þjóðkirkjunni jörðina Skálholt að gjöf og með vilyrði um viðvarandi heimanmund.

Sumarið 1975 hófst það menningarstarf í Skálholti sem alþjóð þekkir, Sumartónleikar í Skálholtskirkju. Helga Ingólfsdóttir, sem þá var nýkomin frá námi í semballeik, fyrst Íslendinga, og um leið brautryðjandi í túlkun barokktónlistar, hreifst af Skálholti og skynjaði hvílíkt undur hljómburður í Skálholtskirkju er fyrir þá tónlist sem hana langaði að koma á framfæri. Fjölmargir komu til liðs, svo sem Manúela Wiesler sem töfraði alla með flautuleik sínum. Margir heimsfrægir tónlistarmenn urðu þátttakendur, jafnvel þótt þeir eins og aðrir fengju litla sem enga umbun fyrir. Brautryðjandi í endurvakningu barokktónlistar, Hollendingurinn Jaap Schröder, hefur tekið ástfóstri við Skálholt og komið á hverju sumri í tvo áratugi. Ekki nóg með það heldur hefur hann gefið geysiverðmætt nótna- og bókasafn sitt til staðarins.

En Sumartónleikarnir voru og eru ekki aðeins smiðja barokktónlistar, og þar með tónlistar Jóhanns Sebastíans Bachs, heldur markaði Helga strax í upphafi þá stefnu að Sumartónleikarnir ættu að vera miðstöð nýrrar tónlistar. Tónskáld voru fengin til að semja, ekki einhverja tónlist heldur þá sem hæfði staðnum og helgi kirkjunnar. Tónskáldin hlýddu þessu kalli, bæði þau sem þekkt voru en ekki síður ungskáldin sem náðu mörg að hasla sér völl í gegnum Sumartónleikana. Tónverkin, stór og smá, sem frumflutt hafa verið á Sumartónleikum í Skálholtskirkju skipta hundruðum. Sum þeirra hafa orðið að þjóðargersemum, eins og Óttusöngur að vori eftir Jón Nordal við texta Matthíasar Johannessen; verk sem var endurflutt á kristnitökuhátíðinni á Þingvöllum aldamótaárið síðasta.

Sumartónleikar í Skálholtskirkju undir listrænni stjórn Sigurðar Halldórssonar sellóleikara stefna nú á fertugasta sumarið í starfsemi sinni. Þessi alþjóðlega tónlistarhátíð er elsta starfandi barokktónlistarhátíð á Norðurlöndum. Af þeim sökum er ráðgerð mikil norræn hátíð á komandi sumri, á fertugsafmæli hátíðarinnar.

Niðurrif

En nú stefnir í að öll þessi uppbygging og starf í Skálholti verði lagt í rúst og það strax á komandi ári. Kirkjuráð, sem virðist búið að taka öll völd innan Þjóðkirkjunnar, ætlar að leigja allan staðinn út undir ferðamennsku. Þetta kom fram á kirkjuþingi því sem haldið er þessa dagana. Hvorki vígslubiskupinn í Skálholti né aðrir heimamenn hafa verið spurðir álits á þessari ákvörðun æðsta ráðsins. Þeir sem vilja koma til starfa á staðnum mega þá þóknanlegast borga hótelprísa fyrir allan beina og það ekki af lægra taginu, því að þetta á að verða mikill bisness sem skili fúlgum fjár. Sumartónleikarnir munu þá leggjast af. Kirkjuráð hefur smám saman verið að skera niður fjárframlag til Sumartónleikanna og var ekkert beint framlag á seinasta sumri. En nú á að úthýsa þeim alveg.

Vígslubiskupa á að leggja niður í núverandi mynd. Þetta kemur fram í frumvarpi til nýrra þjóðkirkjulaga sem liggur fyrir kirkjuþingi sem situr þegar þetta er ritað. Greinargerð með frumvarpinu tekur af allan vafa um þessa ætlan. En ekki aðeins það. Heldur stendur nú til að gera sjálfan biskup Íslands að „undirkontórista“, ekki í kirkjumálaráðuneytinu eins og segir í Kristnihaldi Kiljans, heldur hjá kirkjuráði eða kirkjuþingi. Þetta jaðrar við að biskupi sé steypt af stóli. Alþingi Íslendinga verður að hafna þessu ákvæði frumvarpsins.

Rekstur Skálholtsstaðar mun hafa verið í ólestri og skuldir höfðu safnast upp. En núverandi vígslubiskup, sr. Kristján Valur Ingólfsson, hefur náð að snúa þeirri þróun við. Það þarf því ekki að braska með Skálholt til að bæta fjárhag staðarins. Hver hefur gefið þessu Kirkjuráði heimild til að setja Skálholt undir Mammon? Samræmist það skilmálum gjafar ríkisins? Stjórnvöld verða að svara því. Er þá ótalin sú vanvirða sem öllum þeim er sýnd sem hafa lagt líf sitt og sál til endurreisnar Skálholts.

Mala domestica maiora sunt lacrimis varð Brynjólfi Skálholtsbiskup að orði um harmasögu sína og sinna. Nú dugar ekki harmagrátur heldur verður að skera upp herör gegn atlögunni að Skálholti, einum þeirra höfuðstaða sem geyma okkar þjóðarsál að fornu og nýju. Það á enginn að geta ráðskast með Skálholt með þessum hætti, ekki frekar en Þingvelli. Skálholt er þjóðareign – eins og Þingvellir.

Höfundur er ekkill eftir Helgu Ingólfsdóttur

Grafarþögn um Þorláksbúð

 [Þessi grein, sem birtist í Morgunblaðinu 9. nóvember 2013, eru eftir  Eið Svanberg Guðnason, Hörð H. Bjarnason, Jón Hákon Magnússon, Vilhjálm Bjarnason og Þorkel Helgason.]

Eins og kunnugt er hefur bygging verið reist ofan á svokallaðri Þorláksbúð, skáhallt á hina formfögru Skálholtskirkju. Þessi yfirbygging er ranglega sögð tilgátuhús, en Þorláksbúð hefur engin söguleg tengsl við Þorlák biskup helga. Þetta er skemmd á allri ásýnd Skálholtsstaðar og vanvirða við þá sem stóðu að gerð þeirrar kirkju, sem átti hálfrar aldar vígsluafmæli á liðnu sumri. Fram hefur komið í umræðunni að kofinn við kirkjuvegginn er byggður á ósannindum og rangfærslum. Þjóðkirkjan íslenska má ekki una því. Þögn hefur ríkt um málið að undanförnu. Mörgum spurningum er enn ósvarað.

Við bygginguna ofan á Þorláksbúð hafa lög og reglugerðir ítrekað verið brotin.

1. Hvers vegna leyfði Minjastofnun Íslands að grafarró væri raskað í kirkjugarðinum í Skálholti? Tilgátuhúsið er byggt ofan á grafir frá fyrri tímum. Forstöðumaður Minjastofnunar Íslands hefur aldrei svarað hvers vegna hún leyfði þessa fordæmalausu framkvæmd.

2. Hvers vegna leyfði Minjastofnun Íslands að byggt væri ofan á friðlýstar fornminjar við vegg dómkirkjunnar í Skálholti og þeim raskað? Forstöðumaður Minjastofnunar Íslands hefur aldrei svarað því.

3. Byggingarleyfi Bláskógabyggðar fyrir torfkofanum sem nú er risinn var gefið út þegar framkvæmdum var nánast lokið. Hvernig stóð á því?

4. Fjárveitingar komu til verksins úr ríkissjóði. Samtals 9,4 milljónir á árunum 2008 til 2011. Aldrei hefur verið gerð grein fyrir því hvernig þeim fjármunum úr vösum almennings var ráðstafað. Bað Alþingi aldrei um endurskoðaða ársreikninga? Hversvegna hefur Ríkisendurskoðun ekki gengið eftir svörum um það hvernig þessum fjármunum var varið?

5. Hefur kirkjuráð gert grein fyrir því hvernig fjármunum kirkjunnar sem runnu til byggingar Þorláksbúðar var varið? Það voru 3 milljónir króna á árunum 2008 til 2011. Hefur kirkjuráð óskað eftir uppgjöri eða endurskoðuðum ársreikningum fyrir árin 2011 og 2012?

6. Hve mikið fé hefur runnið samtals til Þorláksbúðarfélagsins frá Alþingi og frá Kirkjuráði fyrir og eftir 2012?

7. Í bréfi Ríkisendurskoðunar til forseta Alþingis 28. júní 2012 kom fram að Þorláksbúðarfélag ætti von á reikningum „upp á nokkrar milljónir“ vegna þegar unninna verka. Hefur Ríkisendurskoðun fylgt því máli eftir?

8. Hefur sá sem byggði húsið fengið greitt fyrir sína vinnu og efnisframlag?

9. Í skýrslu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis (141. löggjafarþing, 2013) segir orðrétt: „Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hvetur Ríkisendurskoðun til að ljúka því verki að upplýsa um hvernig skattfé sem runnið hefur til þessa verkefnis hefur verið varið. Nefndin telur það ekki varpa ljósi á ráðstöfun fjárins að nokkrar milljónir króna séu útistandandi og að óvissa ríki um fjárhagsstöðu félagsins eins og fram kom í bréfi Ríkisendurskoðunar, dags. 28. júní 2012. Telur nefndin að í því efni skipti engu þó að byggingin verði ekki afhent Skálholtsstað fyrr en skuldir hennar hafa verið gerðar upp. Nefndin hvetur Ríkisendurskoðun til að ráðast í þetta verkefni hið fyrsta.“ Hvað hefur Ríkisendurskoðun gert í þessu máli? Hefur Ríkisendurskoðun sinnt þessum tilmælum Alþingis? Af hverju þessi þögn?

Ríkisendurskoðun, Minjastofnun Íslands og kirkjuráð þurfa að rjúfa þögnina sem ríkt hefur um þetta mál áður en það verður enn óþægilegra fyrir biskup Íslands og íslensku þjóðkirkjuna. Þjóðin á rétt á því að vita hvernig fé úr opinberum sjóðum er ráðstafað. Yfir því á ekki að vera neinn leyndarhjúpur.

Ekki er nóg að svör fáist við þessum spurningum, heldur verður að bæta fyrir þessi staðarspjöll með því að finna hinu meinta tilgátuhúsi annan stað.

Höfundar eru áhugamenn um velferð Skálholtsstaðar. 

Lýsing á úthlutun þingsæta

[Vefsíðuhöfundur tók eftirfarandi saman fyrir landskjörstjórn eins og lesa má á síðu hennar: http://landskjor.is/kosningamal/kosningakerfi/nr/114]

Um úthlutun þingsæta gilda ákvæði XVI. kafla laga um kosningar til Alþingis, nánar tiltekið greinar 106 til og með 110.
Samkvæmt ákvæðum þessara laga fer úthlutun hinna 63 sæta á Alþingi fram í tveimur meginskrefum. Fyrst er kjördæmissætum úthlutað, en þau eru 54 að tölu. Kjördæmissætunum er alfarið úthlutað á grundvelli fylgis lista í hverju kjördæmi. Landsfylgið kemur ekki við sögu. Það gildir líka einu hvort viðkomandi flokkur hafi boðið fram í öllum kjördæmum eða ekki.
Síðan er jöfn­unarsætum úthlutað, en þau eru 9 talsins. Eins og nafn þeirra bendir til er tilgangur þeirra sá að „hver stjórnmálsamtök fái þingmannatölu í sem fyllstu samræmi við heildaratkvæðatölu sína“ eins og segir í 31. gr. gildandi stjórnarskrár. Það er ekki þar með sagt að fullur jöfnuður náist. Til þess kunna jöfnunarsætinsætin níu að reynast of fá.

Við úthlutun jöfnunarsæta koma þau og aðeins þau stjórnmálasamtök eða flokkar til álita sem hafa hlotið a.m.k. 5% fylgi samanlagt á landinu öllu. Þessi þröskuldur er tilskilinn skv. fyrrgreindu stjórnarskrárákvæði.

Úthlutun jöfnunarsætanna gerist þannig að þeim er samtímis skipt á milli stjórnmálasamtakanna og um leið ráðstafað til lista þeirra í ein­stökum kjördæmum.
Þegar sætum hefur þannig verið ráðstafað til lista á eftir að finna hvaða frambjóðendur hvers lista hljóta sætin. Þar ræður mestu uppstillt röð þeirra á listunum, en hún getur þó raskast ef nægilega margir kjósendur nýta sér rétt sinn í kjörklefanum til að breyta. Hér verður ekki vikið frekar að reglum þar að lútandi.
Í eftirfarandi lýsingu á sérstöku pdf.skjali er vísað til úrslita úr þingkosningunum 2009 til skýringar.